Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Umsögn Jóns Í. Sigurðssonar hafnsögumanns um svifskip

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
UMSÖGN JÓNS Í. SIGURÐSSONAR HAFNSÖGUMANNS UM SVIFSKIP


Eitt af nýrri farartækjum eru hin svokölluðu svifskip, sem hafa verið að ryðja sér braut á síðastliðnum átta árum á sviði samgöngumála. Þau hafa nú þegar sannað, að þau eiga fyllilega tilverurétt og að notagildið er í samræmi við kröfur tímans.
Það er eins með nýjungar á sviði farartækja og aðra nýbreytni, þær hafa oft átt erfitt uppdráttar. Hefur þar oft á tíðum mestu um ráðið vantrú á hinu nýja, vanmat á notagildi þess, kvíði vegna starfsgrundvallar, ótti vegna öryggis og efasemdir um rekstrargrundvöll.
Svifskipin eru búin fullkomnum siglingatækjum, þau geta farið með miklum hraða, sem alltaf er þó hægt að stilla í hóf, og þau geta hagað ferð sinni eftir veðurskilyrðum, þau hafa mikið flotþol og góða sjóhæfni og stöðugleika.
Svifskip eru til af mörgum stærðum, en að sjálfsögðu eru stærri skipin notadrýgst og þau, sem okkur mundi bezt henta við þær aðstæður, sem hér eru. Í ráði er, að hingað komi í sumar svifskip til reynslu og verði hér í um 10 daga. Þetta er skip af millistærð, sem mun aðeins flytja farþega, en ekki bifreiðir, enda þótt burðarmagn sé fyrir hendi til slíks.
Með reynslutilraun þessari á að sannprófa, hvort okkur verður að notum þessi nyjung í flutningatækni, hvort svifskip geta bætt úr samgönguþörfum okkar við fastalandið.
Benda má á, að jafnframt flutningastörfum eru svifskipin, að fenginni reynslu annarra, sterkur hlekkur í keðju slysavarna, sem mundi og koma okkur að miklu gagni.
Það er von mín, að tilraun með svifskip megi verða okkur til góðs og að með henni sé stefnt í rétta átt með úrbætur í samgöngumálum Eyjaskeggja.

Jón Í. Sigurðsson, hafnsögumaður