Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Guðni Finnbogason, Norðurgarði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðni Finnbogason


NORÐURGARÐI


Fæddur 10. október 1909. Dáinn 2. júlí 1962.


Aldrei finnum við mennirnir eins til vanmáttar okkar eins og þegar veikindi og dauði berja að dyrum, þá finnum við bezt hvað mannlegur máttur nær skammt. Þrátt fyrir vaxandi þekkingu mannsandans á sviði læknavísindanna á mörgum þeiin meinum, sein harðast hafa þjáð mannfólkið á liðnum árum. Í átökunum við dauðann er aðeins eitt afl til, sem Iinað getur þjáningarnar og gert manninn styrkan, og það er óbifanleg trú á almáttugan Guð, og son hans, sem sagði: Ég lifi og þér munuð lifa.
Þessa trú hafði vinur minn, Guðni, það þekkti ég frá fyrstu bernsku.
Guðni var einn af þeim fáu Ofanbyggjurum, sein sat á sínum föðurgarði, en þar var hann fæddur, og þar átti hann heima allar sinn aldur.
Nú er svo komið, að flest af samferðafólkinu, sem náð hafði fullum þroska á æskuárum mínum og margt af jafnöldrum, er horfið á braut og lifir nú hjá okkur aðeins í minningunum.
Enn hefur einn af mínum ágætu félögum og vinum frá æskuárum, Guðni Finnbogason, kvatt þennan heim. Mitt í annríki dagsins var hann kallaður frá starfi. Hann var vinnuglaður og hress í anda, þegar honum fyrir nokkrum árum barst ómurinn frá kalli dauðans, en hann hafði kennt lasleika um árabil. Guðni ólst upp með sínum mætu foreldrum, Margréti Jónsdóttur og Finnboga Björnssyni, en Margrét var síðari kona Finnboga. Þau eignuðust tvo syni, Rósinkrans, sem andaðist á bezta aldri og Guðna. Eftir að foreldrar hans hættu búskap tók Guðni við búsforráðum og hj á honum dvöldu foreldrar hans til dánardægurs.
Finnbogi andaðist 16. apríl 1943 og Margrét 6. marz 1950.
Árið 1929 giftist Guðni eftirlifandi konu sinni, Ágústu Sigurjónsdóttur, ættaðri af Austurlandi. Þau eignuðust 3 börn: Ólaf, Helga og Ástu, allt mannvænlegt og gott fólk.
Guðni stundaði alla algenga vinnu ásamt sjómennsku alla sína tíð, en sjómennsku varð hann að láta af, sökum heilsu sinnar.
Hann var vélstjóri um margra ára skeið með Finnboga Finnbogasyni, hálfbróður sínum, á mb. Veigu; eina vertíð var hann formaður með þann bát og farnaðist vel.
Síðustu árin vann Guðni við smíðar hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og líkaði það mjög vel.
Saga Guðna er hvorki löng né viðburðarík á ytra borðinu, en hún einkenndist af góðri farsæld og hamingjuláni, fræ þeirrar farsældar lifðu í honum sjálfum. Hann var í eðli sínu fremur dulur, en hjartahlýr og tryggur sem tröll. Prúðmenni til orðs og æðis, og hinn bezti drengur, sem hann sýndi bezt, þegar foreldrar hans þurftu mest á aðstoð að halda í veikindum og ellihrumleik síðustu árin, sem þau lifðu, en þau önduðust bæði í Norðurgarði, og var það til fyrirmyndar, hvað hann reyndist þeim vel ásamt sinni ágætu konu, sem Margrét sagði mér, að væri þeim eins og bezta dóttir.
Það kom því ekki á óvart, þó Guðni reyndist góður heimilisfaðir, umhyggjusamur og nærgætinn við konu sína og börn, og kaus hvergi annars staðar að vera en heima þegar störf hans leyfðu.
Heimilislíf þeirra hjóna og sambúð var því eins góð og bezt varð á kosið, þar ríkti gagnkvæmt traust og tillitssemi á bæði borð. Guðni sagði eitt sinn við þann, sem þetta ritar, að betri Iífsförunaut hefði hann ekki getað kosið sér en þann, sem honum var gefinn.
Eg lýk svo þessum fátæklegu orðum mínum með innilegri þökk og ósk um, að á landi lifenda fáir þú, góði vinur, að njóta þinna góðu eiginleika og óska á öllu því, sem er fagurt og gott. Guð blessi minningu þína og bænheyri orð skáldsins:
„Með trú og auðmýkt bæn fram ber, ég bið að Drottinn veiti þér það eitt, sem honum þykir bezt og þína velferð eflir mest.“

Þín sál þá barnsins finnur frið, sem föðurbrjóstið hvílir við.
Friðfinnur Finnsson.