Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Útilega vb. Kristbjargar VE. 112

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


EYJÓLFUR GÍSLASON:


Útilega vb. Kristbjargar VE-112


„Hinn 6. marz 1913 hvessti af austri með mikilli snjókomu. Allir vélbátarnir náðu þó höfn nema Kristbjörg V.E. 112. Formaður með hana var Magnús Magnússon á Felli. Hann treysti sér ekki til að taka land. Andæfði hann alla nóttina hér vestur af Eyjum. Þótti mikið afrek að skila áhöfn og bát heilu og höldnu daginn eftir, því veðrið var með afbrigðum vont, en Kristbjörg aðeins 8 tonn að stærð og útbúnaður að flestu lélegur.“
Þannig minnist Þorsteinn Jónsson í Laufási útilegu Kristbjargar í hinni merku bók sinni Aldahvörf í Eyjum.
Í þessum róðri Kristbjargar var fjögurra manna áhöfn, og eru þrír þeirra á lífi og enn að störfum. Eru það þeir Ágúst Guðmundsson frá Ásnesi. Brynjólfur Brynjólfsson frá Litlalandi og Bjarni Sveinsson frá Hvanneyri, sem var vélstjóri á bátnum. Allir eru þeir velkynntir sómamenn, sem unnið hafa þessu byggðarlagi af trú og dyggð, fulla hálfa öld, til sjós og lands og er óþarfi að kynna þá frekar.
Hinn fjórði, formaðurinn, Magnús Magnússon frá Felli, er látinn fyrir allmörgum árum.
Til að gefa yngri sjómönnum og öðrum lesendum Sjómannadagsblaðsins svolitla innsýn í þá aðbúð og þau kjör, sem sjómenn áttu við að búa á fyrstu árum vélbátanna hér í Eyjum, átti ég nýlega tal við þá Ágúst, Bjarna og Brynjólf og bað þá segja mér gerr frá hinni eftirminnilegu sjóferð, því það er með hana, sem margar sjóferðir héðan úr Eyjum, að þær ættu að geymast, en ekki að gleymast, þótt sú verði oftar raunin á.
V/b Kristbjörg var byggð úr eik í Frederikssund í Danmörku og var 8,56 tonn að stærð, súðbyrt. Hún gekk fyrst vetrarvertíðina 1907. Hún var eins og bátar þá gerðust, þægindasnauð. Ekkert stýrishús var, heldur gat fyrir þann sem stýrði, og var hann því óvarinn fyrir sjó og vindi. Formenn höfðu því oft rauð og saltbólgin augu og vota grön, er þeir komu að landi úr vondum sjóferðum. Oft var reynt að skýla formanninum fyrir ágjöf og hríð, svo hann nyti betur augnanna við gæzlu stefnu og sjóa. Það var kallað að „bera af“ og var gert þannig, að maður sat aftast á mótorhúsinu sem mest til kuls og reyndi með því að skýla formanninum við stórágjöf og hríð. Geta má nærri, hvernig líðan þessara manna hefur verið á slíkum nóttum, sem hér verður sagt frá, sitjandi í ágjöf og byl, spyrna sem fastast í rekkverkið, sem var í stað öldustokks, og halda sér af öllu afli í vélarhússhandfangið.
Ekkert línuspil var í Kristbjörgu og varð því að draga línuna á handafli. Var það erfitt verk og fór ekki eingöngu eftir kröftum heldur meira eftir lagni manna og þoli.
Fremst í lestinni var afþiljað rúm, sem náði þvert yfir bátinn og var kallað Línurúm. Það var notað til geymslu á ýmsu er bát og veiðarfærum tilheyrði og var hægt að komast aftur í Línurúmið úr Lúkarnum gegnum draglúgu (skolhurð). Út við súð stjórnborðsmegin í Línurúminu var pallur og upp af honum var tekið gat í dekkið, sem kallað var Línugat. Þar í stóð sá er dró línuna og einnig sá sem afgoggaði (á sumum bátum voru tvö göt, en voru þá minni). Í Lúkarnum voru tveir bekkir, en engin koja og „kabyssa“ var engin.
Hinn 6. marz árið 1913, var hægviðri. SSV gola, en þykkt loft. Kl. 3 eftir hádegi fór v/b Kristbjörg í róður og byrjaði að leggja línuna, ca. 70—80 strengi (10—12 bjóði, suður af Klökkum, þ. e. austur af Suðurey. Línan var lögð ca. Sv og náði suður fyrir Súlnaskersklakk.
Er þeir höfðu lokið við að leggja línuna, sem mun hafa tekið um 1 1/2 klst., því lagt var á höndum, var loftsútlit orðið mjög ískyggilegt og ljótt. Var því hafður hraðinn á að hita kaffisopann við mótorlampann og drukkið í flýti og því næst byrjað að draga línuna. Er hálfnað var að draga var kominn austan stormur og bylhraglandi, sem byrgði alla landsýn. Drættinum var haldið áfram þar til línan slitnaði og voru þá ódregin um 3 bjóð. Var þá liðið langt á kvöld eða komið nær miðnætti.
Nú var gengið sem bezt frá öllu eftir því sem ástæður leyfðu. Allt lauslegt, sem á þilfari var og út gat tekið látið niður í lest, sem þá var siður, svo sem línubjóð og belgir með ávöfðum færunum og allar lúgur skálkaðar. Því næst var haldið undan sjó og veðri á hægri ferð og leitað lands.
Fyrsta landkenning var Suðurey og var farið mjög nærri, vestur með henni að sunnan. Er komið var vestur fyrir eyna var stefnan sett á Smáeyjar. Aðeins sást glampa eða rofa fyrir Stórhöfðavitanum, en er þeir höfðu farið skammt norður í flóann brast á iðulaus snjóhríð, svo ekki sá út fyrir borðstokkinn og herti veðrið svo kalla mátti ofveður, sem stóð fram eftir nóttinni. Þegar svo var komið var ekki annað til bragðs að taka en halda bátnum upp í veðurofsann með svo hæfilegri ferð að hann verði sig sem bezt áföllum.
Í bátnum var 10 hestafla skandiavél, sem hafði þann ókost að sprengja glóðarhöfuðið (gashausinnl ef hún var látin hafa fullt álag. En alla þessa löngu og erfiðu sjóferð gætti vélstjórinn þess vel með sinni alkunnu snilli og trúmennsku í störfum, að slíkt kæmi ekki fyrir, og gekk vélin hindrunarlaust allan tímann.
Hásetarnir höfðu það til starfa að standa við sjódæluna svo ekki safnaðist sjór fyrir í bátnum og bera það mest af formanninum sem stóð allan tímann í stýrisgatinu og hélt um stýrissveifina ýmist með annarri hendi eða báðum eftir því sem á þurfti að taka.
Ekki var nokkur ljóstýra á bátnum nema á einum prímuslampa, er látið var loga á allan tímann í vélarhúsinu. Er þeir höfðu andæft þarna nokkuð lengi upp í sjó og vind, skeði það undarlega að allt datt í dúnalogn augnabliksstund og komið var í svo til sléttan sjó. Telja þeir félagar, að þá hafi þeir farið fast með Þjófanefi á Álsey. Brynjólfur telur að fossað hafi niður á bátinn, en ekkert sást fyrir hríðarkófinu. Kallaði þá formaður um leið og hann lagði stýrið hart í borð og lét bátinn slá, að láta ankerið falla. Bröltu þá Brynjólfur og Ágúst fram á þar sem ankerið var bundið við rekkverkið, skáru af því böndin og létu falla.
Við ankerið var áföst lögboðin keðja, 3 liðir (45 faðmar), sem geymd var í Línurúminu. Var endi hennar festur með járnkeng, sem rekinn var í kjalsvínið. Í þilfarinu bakborðsmegin yfir Línurúminu var gat, sem keðjan átti að renna í.
Um kvöldið er þeir hættu að draga og gerðu sjóklárt gáfu þeir sér ekki tíma til að bjóða síðasta bjóðið, sem dregið var, heldur létu línuhauginn liggja á pallinum. (Að bjóða var það kallað, að setja línuhauginn (bjóðið) í trébjóð, sem notuð voru og línan var beitt í þar til lagnarrennan kom til sögunnar og farið var að nota stampa). Línuhaugurinn hafði kastazt til og er keðjan átti að renna út gekk það ekki sem bezt. Er að var gætt hverju það sætti kom í ljós að línan var flækt í keðjunni. Urðu þeir nú að paufast við að reyta og skera línuna úr keðjunni þarna niðri í kolamyrkri og við slæmar aðstæður. Eftir mikið strit og amstur hafðist að ná mestu af keðjunni upp, en ekki gátu þeir sett fast um pallstyttuna, því á meðan á þessu stóð voru þeir komnir út í sama veðurhaminn og fyrr.
Aldrei virtist þeim ankerið falla í botn, utan örstutta stund seinna um nóttina og gerði þá það að verkum að brjóta út úr keðjugatinu á þilfarinu. En kengurinn í kjalsvíninu hélt.
Þegar líða tók á nóttina, fór að draga úr mesta veðurofsanum, en snjókoman hélzt. Um það leyti fór togari skammt frá þeim, sem hélt því sem næst beint upp í sjó og vind. Reyndu þeir að setja vel á sig stefnu hans því þeir ályktuðu að hann væri að leita í var við Eyjar.
Fóru þeir nú að hugsa til heimferðar. Varð þá fyrst að ná inn ankerinu og fóru þeir 3 fram á bátinn, þó þar væri illverandi fyrir sjógangi, til að draga inn keðjuna. En þess var enginn kostur og urðu þeir því að losa sig við hana, en það reyndist þeim þrautin þyngri, því járnsög eða meitil höfðu þeir ekki. Þá varð þeim félögum það til ráða að nota til þess línuanker. (Þá voru notuð hér lítil anker á hvorn enda línunnar, sem þóttu halda betur en steinar. Þau voru smíðuð hér. Var ankerleggurinn um alin að lengd. Gátu þeir komið fluginu í kenginn og rifið hann burtu eftir mikið bras og erfiði.
Er þeir voru lausir við keðjuna, var farið að leita lands. Eftir tveggja klst. ferð birti upp, var þá orðið bjart af degi. Sáu þeir þá samtímis Álsey og Smáeyjar, en frá því heimferðin hófst og þar til komið var upp undir Smáeyjar, liðu 4 klst. Þeir munu hafa verið komnir SV af Einidrang, er heimferðin hófst.
Magnús formaður fór aldrei frá stýrinu fyrr en komið var austur fyrir Smáeyjar og mátti þá heita komið logn og bjart veður. Magnús bað þá Brynjólf að stýra fyrir sig meðan hann færi niður í vélarhús, reyndi að orna sér og vinda mestu bleytuna úr fötuin sínum enda mun ekki hafa veitt af þar sem hann var sjóhattslaus allan tímann. Brynjólfi fannst hann settur í mikinn vanda þó að Bjarni væri honum nálægur, því margir togarar, er leitað höfðu vars í ofviðrinu lágu fyrir Eiðinu og allt vestur undir Smáeyjar. Fara varð því með gætni þar austur. Er komið var austur að Lat tók Magnús aftur við stýrinu.
Nokkru fyrir hádegi kom svo Kristbjörg inn í höfnina, og þóttu þeir úr helju heimtir.