Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Skútan, sem fór heila veltu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


EINAR H. EIRÍKSSON


Skútan, sem fór heila veltu


Um aldamótin síðustu stóð skútuöldin sem hæst. Voru þá mjög stundaðar hákarlaveiðar á vorin úti fyrir Vestfjörðum, og Vestfirðingar áttu margir skútur. Mest var útgerðin í tíð Ásgeirsverzlunar á Ísafirði, en auk hennar áttu ýmis önnur fyrirtæki skip, sem gerð voru út til veiða. Meðal þeirra var Niels Gram á Þingeyri við Dýrafjörð, en við hann var Gramsverslun kennd.
Meðal þeirra skipa, sem Gram gerði út, var skútan „Capella“, svon. kútterskonnorta, og var hún gerð út til hákarlaveiða. Í þeirri veiðiför, sem hér greinir frá, var skipstjóri á Capellu Helgi Andrésson frá Flateyri við Önundarfjörð. Helgi var einn af kunnustu skipstjórum á Vestfjörðum á sinni tíð, dugandi sjómaður og vel látinn af þeim, sem með honum voru á sjó. Faðir minn, sem um eitt skeið var háseti á skútu hjá Helga Andréssyni, hefur oft í minni áheyrn minnzt á hann og rifjað þá upp sitt hvað, sem gerðist á þeim tímum. M.a. hefur hann nokkrum sinnum minnzt á þann atburð, sem hér segir frá. Var hann að vísu ekki með Helga þá, en góður vinur hans, sem nú er nýlega látinn, Kristján Egilsson á Flateyri, var háseti á „Capellu“ í þessari sögulegu sjóferð, og eitt sinn, er þeir hittust, sagði Kristján frá þessum einstæða atburði að mér áheyrandi. Fer hún hér á eftir, sumpart skráð eftir minni, en sumpart stuðzt við frásögn Kristjáns, skráða af Sigurði Bjarnasyni, alþm., frá Vigur.

Skömmu fyrir mánaðamót apríl—maí 1897 lagði „Capella“ út frá Þingeyri til hákarlaveiða. Skipstjóri var Helgi Andrésson, en aðrir skipverjar 7 talsins.
Veður var gott, er lagt var af stað, kyrrt og bjart, og var haldið suður með Vestfjörðunum.
Hákarlinn var heldur tregur, og 30. apríl var aflinn orðinn um 30—40 tunnur af hákarlalifur. Skútan var þá stödd í Látraröst, og voru þá undin upp segl og haldið norður á bóginn.
Þegar líður að kvöldi, gerir mikla fannkomu. Snjóflyksurnar eru stórar, og hleðst snjórinn nú á skipið. Alla nóttina fennir, en lognið helzt enn. Um miðnættið kemur Kristján Egilsson á vakt. Var það „hundavaktin“ svonefnda. Aflinn er enginn, utan ein spraka. Líður nú vaktin í aflaleysi og kyrrð. Klukkan hálfátta næsta morgun kemur Kristján enn á þilfar, og er þá komið nokkurt skýjafar og allsnarpar vindhviður af austri. Um kl. 8 er komið stórviðri með hörkufrosti og þreifandi byl. Er þá haft uppi og siglt með litlum seglum, aðeins stórsegli og fokku fram eftir morgni. Veðrið er nú orðið jafnara, en ekkert hefur samt lægt.
Undir hádegi skellur brotsjór á skipið. Meiddist skipstjóri þá nokkuð á fæti, og einn háseta viðbeinsbrotnaði. Lagðist hann fyrir, enda alveg óvinnufær. Þótti nú sýnt, að gagnslaust mundi að reyna að ná landi. Var því lagzt til drifs og látið drífa allan þann dag. Voru jafnan tveir af áhöfninni uppi í einu.
Ekki slotaði veðrinu, þegar á daginn leið, og bættist nú náttmyrkur ofan á hríðina. Þeir, sem voru á þiljum, hagræddu bárufleygum og grútarpokum utan á skipinu til að lækka öldurnar og verja skipið áföllum. Taldist þeim svo til, að þeir væru nú aftur komnir suður í Látráröst, um 40 enskar mílur undan landi.


ctr
Handbolti í sjóklæðum


þegar á kvöldið leið, versnaði veður að mun, og varð nú erfitt að athafna sig á þilfari. Um kl. 10 um kvöldið voru þeir á vakt, Kristján Egilsson og Brynjólfur Magnússon, háseti. Kristján var frammi á bóg að eiga við bárufleyg, og heyrir hann þá óglöggt, að Brynjólfur kallar til hans. Heyrist honum hann vara hann við sjó, sem skipið sé að fá á sig. Kristján var hálfboginn, en reis þó þegar upp og sá, að skipið lá alveg flat fyrir. Finnur hann, að stórsjór er að ríða undir. Brynjólfur hefur náð tökum utan um frammastrið og heldur sér þar af öllu afli. Kristjáni tókst á svipstundu að komast aftur að mastrinu og grípur nú einnig utan um það á móti Brynjólfi. Skiptir nú engum togum, að sjórinn skellur yfir. Kemur hann á flatt skipið. Kristján sagði svo frá, að hann slitnaði frá mastrinu, og fann flatt, er skipinu hvolfdi. Sá hann óglöggt, að það kom yfir hann. Skolar honum nú fyrir borð til hlés, framan við forvantinn. Ekkert högg fékk hann. Veit hann glögglega, hvað gerzt hefur, skipinu hefur hvolft — þeir eru í grængolandi sjónum. Hugsaði Kristján, að nú mundi þeirra endadægur komið, allra félaganna.
Um leið og Kristján slitnaði og skolast út, fann hann kaðalspotta, sem lafði út af skipinu. Greip hann af öllu afli í spottann og byrjaði þegar að handstyrkja sig upp eflir þessum kaðli. Mátti það heita einskær og örlagarík tilviljun, að hann skyldi ná í þennan spotta, ella hefði hann ekki orðið til frásagnar. Eftir nokkur rösk handtök, svo sem afl framast leyfði, er hann kominn upp að borðstokknum á ný og tekst með miklum erfiðismunum að velta sér inn á þilfarið yfir öldustokkinn. — En bakborðsmegin á skipinu!
Skipið er aftur á réttum kili. Hvað hafði eiginlega gerzt? Kristján fann það glögglega, að honum skolaði út til hlés, stjórnborðsmegin, en hann sér jafnglöggt, að hann hefur komizt upp í skipið aftur bakborðsmegin. Þetta gerðist allt með svo skjótri svipan, að örðugt er að gera sér grein fyrir því.
Það, sem gerzt hefur, er það, að skipið hefur farið heila veltu í sjónum. Afl stormsins og straumiðunnar í Látraröst hefur leikið skipið á þennan hátt.
Kristján stóð nú einn á þilfari. Brynjólfur, félagi hans, er horfinn. Þar er ömurlegt um að litast. Bæði möstrin eru þverkubbuð í sundur, eftir standa aðeins stuttir stubbar. Skipsbáturinn er horfinn, öll „skansklæðningin“ er brotin, eftir standa aðeins styttur og öldustokkur. Afturlestin hefur opnazt og nokkur sjór hefur komizt í hana.
Það fyrsta, sem gera þarf, er að dæla skipið. Komu nú hásetar, sem verið höfðu niðri, á þilfar, og er þegar farið að undirbúa austurinn.
Í lúkarnum var allt á tjá og tundri. Þeir, sem niðri voru, þóttust sannfærðir um, að skipið hefði farið heila veltu. Kolin í kjallaranum sprengdu upp gólfið, eldur úr kabyssunni hraut um allt, og pottar og pönnur var hvað innan um annað. Skipstjóri hafði legið fyrir, en hann hentist fram úr kojunni og rakst á kabyssuna. Meiddist hann nokkuð á höfði við það, en engir aðrir meiddust.
Þegar lokið var undirbúningi, var farið að dæla af kappi, enda allmikill sjór kominn í skipið. Stormurinn geisaði með sama ofsa og áður, en nokkuð hafði dregið úr sjóunum.
Hríðin og frostið gerðu mjög erfitt um störf á þilfari. Fötin frusu utan á þeim, og urðu þeir að skiptast á um að fara niður til að orna sér, því að eldur lifði í kabyssunni. Tekizt hafði að byrgja afturlestina, sem brotnaði, og gekk þá greiðlega að ausa.
Skútuna bar nú óðum til hafs undan norðaustan storminum. Undir þessum kringumstæðum var ekkert að gera annað en bíða og sjá, hverju fram yndi. En með morgninum rofaði til og var þá tekið til við lagfæringar á skipinu.
Utan á skipinu hékk eitthvað af því, sem brotnað hafði, er það fékk áfallið, og var það fast við stög og vanta. Bugspjótið var óskemmt, og gaffall og bóma voru nú notuð sem möstur. Á þessi bráðabirgðamöstur var nú tjaldað fokkunni, sem hangið hafði við skipið, en í lestinni voru klýfir og gaffalsegl, sem kom nú í góðar þarfir. Á sunnudagsmorgni, 2. maí, um kl. átta, er farið að sigla í átt til lands, en landsýn var engin.
Er á daginn leið, batnaði veðrið. Frost var þó allmikið og hvassviðri. Síðar um daginn sást til lands, og reyndist það vera Snæfellsjökull. Var enn siglt alla næstu nótt og komið að landi við Ólafsvík um kl. 4 á þriðjudagsmorgni. Voru þá um þrír sólarhringar liðnir frá áfallinu mikla.
Í Ólafsvík fengu skipsmenn hinar beztu viðtökur, og voru þar haldin sjópróf. Gerði það Lárus H. Bjarnason, sýslumaður.
„Capella“ var síðan dregin heim til Þingeyrar. Gréru meiðsli skipstjóra og hásetans, sem hafði viðbeinsbrotnað, nokkuð fljótt, og varð ekki að neinu verulegu meini. Aðrir skipsmenn höfðu marizt og meiðzt lítilsháttar, en þau sár gréru fljótt.


ctr
Skrúðganga á Sjómannadaginn 1952


Atburður sá, sem hér hefur nokkuð verið sagt frá, gerðist árið 1897. Lenti „Capella“ í 1. maí-garðinum svonefnda. Í þessu veðri fórust 5 þilskip með allri áhöfn, samtals 53 mönnum, og auk þess strönduðu 3 önnur skip öll frá Ísafirði, og tvö skip norðlenzk.