Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1954/„Um fjórðu næturvöku“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


SÉRA JÓHANN S. HLÍÐAR:


Um fjórðu næturvöku


Matt. 14: 22—33.

Báturinn lá undir áföllum, því að vindurinn var á móti. En um fjórðu næturvöku kom Jesús til þeirra gangandi á vatninu. Og er lærisveinarnir sáu hann, héldu þeir, að það væri vofa.
Þannig opinberar Drottinn sig oft fyrir oss mönnum, er stormarnir æða á móti oss, þegar myrkrið er svart, um fjórðu næturvöku. Hann birtist frammi fyrir oss í myrkrinu, í neyðinni, yfir ölduföldunum. En er hann veruleiki? Er hann ekki aðeins vofa, eitthvað sem vér ímyndum oss, er vér erum óttaslegnir, bergmál af orðræðum annarra, afturganga hefðbundins barnaskapar, hugsmíð vorrar eigin hræðslu og getuleysis?
Lærisveinarnir efuðust. Og Pétur hrópaði: „Herra, ef það ert þú, þá bjóð þú mér að koma til þín á vatninu“. Efinn hrópaði sem ávallt eftir því einu að verða sannfærður.
„Jesús sagði: Kom þú! Og Pétur steig út úr bátnum og gekk á vatninu“.
Það er ótrúlegt, ómögulegt. Það hlýtur að vera villa, þjóðsaga. Því að maður gengur ekki á vatni! Og þó eru til óteljandi menn, sem reyna þetta. Frá þessari ógreinilegu veru, sem birtist í myrkrinu, kom orð í neyðinni, boðskapur, kall: Kom! Eitt orð fann leið að hjarta voru — og vér gengum. Það var eitthvað í þessu orði, sem verkaði þannig, að vér fundum, að þetta var veruleiki. Vér gengum. Og það tókst! Um fjórðu næturvöku reyndum vér þetta, sem var hápunktur lífsins: Það hélt! Þessi ólýsanlega, gleðilega reynsla, að það var hægt að ganga á vatninu, beint í gegnum löðrið og yfir bylgjurnar allt umhverfis oss. Ætli Pétri hafi ekki oft seinna verið hugsað til þessarar nætur, er hann gekk á vatninu? Á sama hátt og vér með ósegjanlegri gleði — og ef til vill með djúpum trega — hugsum til þeirra stunda, þegar trúin hélt oss uppi þvert í gengum allt.
Með árunum verðum vér svo auðveldlega sljó í guðrækni vorri og leið á vorum daglega andlega skrínukosti, að vér missum getuna til þeirrar trúar, sem áræðir eitthvað, til þeirrar trúar, sem gengur á vatninu. Vér sitjum heldur kyrr í bátnum, í skipi kirkjunnar, en að stíga yfir borðstokkinn og hætta á að ganga í trausti til orða Drottins.
Pétur kom auga á hinar háu öldur. Og þá tók hann að sökkva.
Kannastu við þetta? Er maður hefur gengið nokkrar dagleiðir með augun fest á Jesú, með þá sætu tilfinningu, að við erum borin uppi, þá tekur maður með skelfingu eftir afleiðingum þess að hlýðnast kalli hans. „Kom!“ Afleiðingar, sem velta á móti oss sem bylgjur, hærri en maður sjálfur og ógna með að skola burtu makræði líðandi dags. Bylgjurnar hylja hann sýnum eitt andartak og þá tekur maður að sökkva — og þá hverfur mynd hans lengra burt, og svo sekkur maður í djúpið. Það tókst ekki! Það er ekki hægt að lifa svona, það er ekki hægt að lifa á orði hans, að ganga á vatni!
„Jafnskjótt rétti Jesú út hönd sína og tók í hann“. Og leiddi Pétur til bátsins.
Jesú segir ekki aðeins: „Kom“, hann kemur líka sjálfur. Hann lætur ekki þann, sem hann hefur boðið að koma, farast í bylgjunum. Hann lyftir honum upp og leiðir hann í örugga höfn.
Að vera kristinn er ekki að hafa fasta jörð undir fótum sér eða skýla sér bak við háan borðstokk. Það að ganga á vatni, er hið dásamlega. Það tilheyrir lífi hinnar fjórðu næturvöku að ganga á vatni, vitandi, að maður megnar það ekki í eigin krafti, heldur aðeins er vér erum studd af hönd Drottins og beinum án afláts sjónum vorum til hans burt frá öllum háum, æðandi brotsjóum.

Sjómannadagsblað Vestmannaeyja