Sigurjón Vídalín Guðmundsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurjón Vídalín Guðmundsson.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson sjómaður, verkamaður, verkstjóri á Laugalandi fæddist 27. september 1911 á Moldnúpi u. Eyjafjöllum og lést 20. janúar 1999.
Móðir hans var Þóranna Eyjólfsdóttir vinnukona, ráðskona, síðar í dvöl hjá Guðlaugu og Sigurjóni á Laugalandi, f. 7. september 1881 á Raufarfelli u. Eyjafjöllum, d. 7. nóvember 1953 í Eyjum.
Faðir Sigurjóns var Guðmundur Eyjólfsson verkamaður, sjómaður í Miðbæ, f. 7. október 1886 í Björnskoti u. Eyjafjöllum, drukknaði við Eiðið 16. desember 1924.

Þóranna eignaðist ekki fleiri börn, en börn Guðmundar og Áslaugar Eyjólfsdóttur og hálfsystkini Sigurjóns Vídalín voru:
1. Björn Guðmundsson kaupmaður, útgerðarmaður, f. 24. júní 1915 á Hjalla, d. 24. júní 1992.
2. Rakel Guðmundsdóttir húsfreyja, síðast í Reykjavík, f. 12. nóvember 1916 á Hjalla, d. 14. október 1966.
3. Þórarinn Guðmundsson skrifstofumaður í Reykjavík, f. 7. ágúst 1918 á Fögrubrekku, d. 7. mars 1957.
4. Tryggvi Guðmundsson kaupmaður í Eyjum og Hafnarfirði, bjó síðast í Kópavogi, f. 1. október 1920 í Miðbæ, d. 1. júní 2004.
5. Ástvaldur Ragnar Guðmundsson, f. 18. apríl 1922 í Miðbæ, hrapaði til bana úr Klifinu 19. maí 1936.
Uppeldisbróðir Sigurjóns Vídalíns og tvímenningur var
6. Einar Sigurþór Jónsson frá Moldnúpi, formaður í Eyjum og bóndi á Moldnúpi, f. 26. apríl 1902, d. 31. október 1969.

Sigurjón Vídalín var með móður sinni á Moldnúpi í æsku, en hún var þar ráðskona hjá Jóni bróður sínum, sem var ekkill.
Sigurjón leitaði á vertíð til Eyja um 1930 og reri þar átta úthöld, en dvaldi í sveitinni á sumrum. Lengst var hann með Guðjóni Þorkelssyni frá Sandprýði, formanni í London.
Þau Guðlaug giftu sig 1938 og fluttust til Eyja á árinu, eignuðust fimm börn. Þau bjuggu í fyrstu á Seljalandi, en festu kaup á Laugalandi við Vestmannabraut 1945 og bjuggu þar ásamt Þórönnu móður Sigurjóns og börnum sínum.
Meðal þeirra báta, sem Sigurjón réri á var Lítillátur, sem síðar hlaut nafnið Lagarfoss. Þar var hann með með Einari Jónssyni frá Moldnúpi, uppeldisbróður sínum. Þá reri hann á Ver, Sjöfn, Þorgeiri goða og Skúla fógeta.
Einnig vann hann við beitningar. Á sumrum var hann við síldveiðar.
Hann var um skeið ráðsmaður í Dölum, leysti af í veikindum, og einnig var hann frístundabóndi.
Sigurjón lét af sjómennsku um 1960 og vann eftir það verkamannavinnu, var fiskimatsmaður, verkstjóri og vann við veiðarfæri.
Í Gosinu vann hann við húsamíðar og sjómennsku á Eyrarbakka.
Sigurjón Vídalín tók gildan þátt í verkalýðsmálum og var formaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja árin 1955-58 og síðan aftur frá 1962-64. Hann lést 1999 og Guðlaug 2010.

I. Kona Sigurjóns Vídalín, (6. nóvember 1938), var Guðlaug Sigurgeirsdóttir húsfreyja, f. 1. mars 1918, d. 3. september 2010.
Börn þeirra:
1. Þóra Sigurjónsdóttir húsfreyja, fiskvinnslukona, starfsmaður leikskóla eftir að hún fluttist til Reykjavíkur, f. 26. apríl 1939 á Seljalandi. Maður hennar Birgir Eyþórsson.
2. Sigurgeir Línberg Sigurjónsson kaupmaður, verkstjóri, f. 15. mars 1941 á Höfðabrekku, d. 28. september 1993. Kona hans Margrét Halla Bergsteinsdóttir.
3. Guðmundur Sigurjónsson vélstjóri, síðar verkstjóri hjá sveitarfélginu Árborg í Árnessýslu, f. 27. september 1946 á Laugalandi. Kona hans Svanhildur Guðlaugsdóttir.
4. Unnur Jóna Sigurjónsdóttir húsfreyja í Eyjum, afgreiðslukona í Apótekinu f. 9. október 1951 á Laugalandi. Maður hennar Benno Jiri Juza.
5. Sigurlína Sigurjónsdóttir húsfreyja, skólaritari, f. 15. maí 1959 á Laugalandi. Maður hennar Magnús Sigurnýjas Magnússon.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.