Saga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Saga:     JarðsagaTyrkjarániðSurtseyjargosiðHeimaeyjargosiðLandnámÚtgerðVerslunHerfylkingin
Austurbærinn. Hér sést vel það svæði sem að mestu er komið undir hrauni.


Elstu heimildir um Vestmannaeyjar eru í Landnámu, þar sem segir frá Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum. Þegar hann kom til landsins dvaldist hann einn vetur á Ingólfshöfða, og hélt svo suður með landinu í vesturátt í leit að öndvegissúlum sínum. Þá fann hann bæ Hjörleifs, fóstbróður síns, og var hann þar nýlátinn. Úti af Hjörleifshöfða sá hann báta með hinum írsku þrælum Hjörleifs, en bátarnir stefndu að eyjaklasa suður af Landeyjum. Eyjarnar voru þá nefndar eftir þrælunum, en Írar voru kallaðir Vestmenn á þessum tíma. Ingólfur elti þrælana uppi og drap þá, og eru mörg örnefni á eyjunum gefin eftir þrælunum, til dæmis er Helgafell nefnt eftir Helga sem var veginn þar, og Dufþekja í Heimakletti er nefnd eftir Dufþaki, sem sagður er hafa stokkið þar niður til þess að komast hjá því að falla fyrir sverði Ingólfs.

Landnám

Sjá aðalgrein:Landnám

Fyrsti landnámsmaður Eyjanna er sagður vera Herjólfur Bárðarson, en hann bjó í Herjólfsdal. Hann átti dótturina Vilborgu, sem eftir grjóthrun, sem lagði bæ Herjólfs í eyði, fluttist á Vilborgarstaði hjá Vilpu. Sögunni samkvæmt varaði hrafn Vilborgu við skriðunni og bjargaði þannig lífi hennar.

Föst búseta í Vestmannaeyjum hófst seint á landnámsöld, um 920, en eins og segir í Sturlubók (Landnáma eftir handriti Sturlu Þórðarsonar) „var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engin“ fyrir þann tíma. Fram á miðja 12. öld voru eyjarnar í eign bænda. Á árunum 1130-1148 keypti Magnús Einarsson, biskup í Skálholti, nær allar eyjarnar til Skálholtsstaðar.

Eign konungs

Rétt eftir 1400 komust Vestmannaeyjar í einkaeign Noregskonungs og síðar Danakonungs þegar Noregur fór undir Danmörku. Í skýrslu Hannesar Pálmasonar hirðstjóra frá árinu 1425 segir meðal annars: „Við Ísland liggur eyja nokkur nefnd Vestmannaey. Hún lýtur með sérlegum rétti beint undir Noregskonung, svo að hann er þar algjörlega alráður.“ Eyjarnar voru sérstakt lén og ríktu þar jafnvel önnur lög en á Íslandi. Vestmannaeyjar voru í konungseign út allar miðaldir til ársins 1874 og voru þær alla tíð stærsta tekjulind krúnunnar.

Tyrkjaránið heggur skarð í íbúafjöldann

Árið 1627 silgdi til Vestmannaeyja floti sjóræningja frá Alsír. Drápu þeir 36 manns og námu 242 á brott með sér. Tyrkjaránið er án efa mesta illvirki í íslensku bæjarfélagi, fyrr og síðar og hafði það, eins og gefur að skilja, langvarandi áhrif á eyjaskeggja.

Kröpp kjör

Eins og annarsstaðar á Íslandi bjó fólk í Eyjum við kröpp kjör. Drepsóttir, fákunnátta og verslunaránauð þjakaði fólkið. Barnadauði var mjög algengur af völdum ginklofa og þegar ástandið var verst, dóu öll börn stuttu eftir fæðingu. Fyrsta manntalið, frá árinu 1703, ber þess ljóslega vitni að lífsbaráttan hefur verið ærið hörð. Þá voru Vestmannaeyingar 318 talsins og fjölskyldurnar 56. Móðuharðindin, sem komu í kjölfar eldgoss í Lakagígum árið 1783, leiddu af sér aflaleysi og féllu bæði menn og dýr úr hor. Íbúar voru því einungis 173 um 1800. Síðar fjölgaði aftur og árið 1901 voru íbúar orðnir 607.

Eyjamenn eignast sína báta

Um miðja 19. öld tóku Eyjabúar að eignast eigin fiskibáta og færðist þar með útgerðin meira í þeirra hendur. Við þetta komst á efnahagslegt sjálfstæði í Vestmannaeyjum og íbúar stóðu á allan hátt betur á eigin fótum.

Frá tíma Herjólfs Bárðarsonar hefur byggð verið samfellt á eyjunni. Íbúafjöldinn hefur tekið þrjár stórar dýfur í gegnum aldirnar. Fyrst var um helmingsfækkun að ræða þegar um þrjú hundruð manns voru numin á brott í Tyrkjaráninu árið 1627. Öðru sinni var vegið að Eyjaskeggjum í ungbarnadauðanum á 18. öld. Svo var það á 20. öldinni í Heimaeyjargosinu árið 1973 þegar á meira en 6 mánaða skeiði bjuggu eingöngu um 200 manns á Heimaey, en þegar gosið hófst voru þeir um 5.100. Nú er bæjabúar um 4.100 manns.

Vélvæðing og samskipti

Skip undan Faxaskeri.

Sjá aðalgrein:Vélbátaútgerð

Vélvæðingin náði að teygja arma sína til Vestmannaeyja eins og víðast hvar annars staðar — í upphafi 20. aldar hófst vélbátavæðing í bænum, og tíð sjóslys sem og öryggiskröfur sjómanna leiddu til þess, að keyptur var fyrsti gúmmíbjörgunarbáturinn á Íslandi. Vélar og björgunarbátar voru þó ekki lausnir allra vandamála, eins og mönnum varð mjög ljóst árið 1950 þegar vélbáturinn Helgi sökk eftir að hafa strandað á Faxaskeri.

Samskipti milli manna stórjukust í kjölfar þess að fyrsta einkarekna símafyrirtækið var stofnað í Vestmannaeyjum.