Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Formannavísur og hásetaraðir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Formannavísur og hásetaraðir.


Í verstöðvunum tíðkaðist það áður fyrri, að kveðnar voru vísur um formenn fyrir skipum þeim, sem gengu til fiskveiða um vertíðir, og um háseta á skipunum. Voru vísnaflokkar þessir nefndir formannavísur og hásetaraðir. Þetta tíðkaðist einnig í Vestmannaeyjum. Elztu formannavísur, sem nú eru kunnar þaðan, eru frá vertíðinni 1765. Höfundur þeirra var Magnús Magnússon frá Úlfsstöðum í Landeyjum, og mun hann hafa stundað sjóróðra í Vestmannaeyjum um þessar mundir. Í ljóðabréfi frá árinu 1762 kemst hann svo að orði:

Eg verð að fara í Eyjar út,
ekki heima lifað get,
einhver selur soltnum grút,
af sjófanginu flest ég ét.

Að öðru er mér ókunnugt um æfiferil hans.
Þá eru til formannavísur frá vertíðunum 1821 og 1827. Hinar fyrri eru eftir Jón Jónsson skálda, sem drukknaði í Álunum árið 1843, en hinar síðari eftir Sigurð Breiðfjörð. Dvaldi hann í Vestmannaeyjum árin 1824—1828 og bjó í Breiðfjarðarhúsi. Var hann beykir við Garðsverzlun þessi ár, en mun einnig hafa stundað sjóróðra um vertíðar, eins og þessi vísa úr formannavísum hans bendir til:

Einn Guðmundur út á sund
Eyjólfs kundur dregur,
mér hann blundinn morgunstund
meinar undarlegur.

Frá vertíðinni 1840 voru einnig til formannsvísur eftir Pál Jónsson skálda, en þær munu nú vera glataðar, nema upphafið (Lbs. 1200, 8vo). Um Vestmannaeyjaformenn eru ennfremur til formannavísur eftir Jón skálda frá vertíðinni 1841, og er þetta fyrsta vísan:

Ljóð af minni og munni fá
mars ef kynni um húna
þriðja sinni Eyjum á
ætla ég að spinna núna.

Yngstar formannavísur í Vestmannaeyjum munu vera frá því nálægt 1890, og eru þær eftir Jón bónda Ólafsson á Grjótá og Sámsstöðum í Fljótshlíð, og verða þær prentaðar hér. Um sömu mundir orti Þorkell Ólafsson vinnumaður á Ofanleiti hjá séra Stefáni vísur um háseta á áttæringnum Haffrú. Þó kveðskapur þessi hafi ekki skáldlegt gildi, er sumt vel kveðið, og eru vísur þessar að öðru leyti fyrir margra hluta sakir merkilegar og fróðlegar. Fara hér á eftir hinar elztu og yngstu.

Formannavísur
Magnúsar Magnússonar vertíðina 1765.


I. Kafli.
Um tíæringana.


Upp telja alla vil ég
Eyjaformenn, sem fleyjum
stjórna með stilling hreinni
standi því fylgir vandi.
Kveðið þó lítt sé lipurt
ljóðasafn, vinir góðir,
sízt skal þó lýði lasta
lóni — með boðnu — Sónar.


Bjarni Magnússon.
Fínn er formaður Bjarni
fyrstnefndur geymir lista
Magnússon minnst sem dignar
mær Ránar hæst þó bærist.
Kvakar í kirkju líka
klerka þjónn sóma merkur
flæðar fálka ótrauður
fljúgandi reynir drjúgum.


Ormur Jónsson.
Æðandi áls á búðir
Ormur lítt hræðist storma
kappaval hefur heppinn
horskur veiðandi þorska
siðprúður sæmda maður
súða hjört löngum knúði
vel gætinn álku ála
ýrabör löngum stýrir.


Guðmundur Pálsson.
Guðmundur sels á svæði
setur þess verður getið
flæðar dýr öngla auðugt,
arfi Páls næsta djarfur,
fiskinn við glímir gæzku
góðlyndur hann þó fyndist
siglu vel frægur fugli
fýrugur jafnan stýrir.


Guðmundur Eyjólfsson.
Guðmundur líka leiðir
liðugt vel þekkti smiður
Fortunu á fiska lónið
fjáður af hagleiks dáðum
flytur á flæðarbrautum
frú á Týs rasta búa
áseta allvel kætir
einatt með fróðleiksgreinum.


Hallvarður Markússon.
Hallvarður frægð ei fellir
frómleiks iðkandi sóma
hauk lætur hrannar kreika
Hræsvelgi þrátt nálægist.
Gildur á geddu veldi
gleypi járns dauðum steypir,
dvelur oft dröfn á hvala
drótt meður fram á nóttu.


Jón Jónsson.
Jón einn góðfrægur greinist
glaðlyndur hér formaður
Kirkjubæ oft frá arkar
eyðir stáls hvals á breiður
lætur um lýsu brautir
lýði knörr meður skríða
slingur nóg fisk að fanga
frækinn hóflega sækir.


Jón Þorsteinsson.
Jón Þorsteins sagður sonur
sannnefndur einn formanna
lóðs kennist líka þessi
ljær dönskum hönd með æru.
Frómur sá lætur sveima
sundajó ufsa um grundir
hann löngum gjörir ginna
grunnung úr síldar brunni.


Jón Nathanaelsson.
Nathanaels er nýtur
niðji Jón sá hinn þriðji
einn hér á Eyjum stjórnar
alþekktur finnst til valinn,
bör álma blossa hlýra
bræði sá aldrei hræðist
friðríkur sæ val súða
synda lætur hlé strindar.


Erlendur Ólafsson.
Erlend ég einn fæ greindan
Ólafsson þeim í skóla
stjórnari stilltur gjarnan
strindar þrátt sézt á linda
sunda gamm sá vel reyndur
sendir af Óðins kvendi,
leiðir svo fremda fjáður
fisk heim á hlunna diski.


Ögmundur Pálsson.
Ögmundur í það standið
orðinn er settur forðum
borða sá brims á jörðu
blakk lætur tíðum flakka
slingur með stjórnar strenginn
stafn setur bring á drafnar
leiðir fisk karfa úr kvíum
kvíðalaust sezt á víði.


Pétur Snorrason.
Pétur um lýsu lautir
latur sízt jafnan ratar
rostunga ræfurs hestinn
renna, hlés elda spennir,
lætur með lýða sveitum
leiðist ei fisk að veiða
spakur á sperlings mauki
spora land hefrings þorir.


Hallur Hróbjartsson.
Tólfæring út á elfu
allvel Hróbjartsson Hallur
keyrir á kembings mýri
kári þá veltir báru
forðast ei fisk að myrða
flyðrum sízt vægðar biður
trönu flóðs tólf með fjöðrum
Týr bauga fullvel stýrir.


II. Kafli.
Um bátana.


Jón Snorrason.
Arfi Snorra enn sézt Jón
oft með sjávar hanzka
strítt kann þorra um steinbíts frón
stýra bátnum danska.


Magnús Þorsteinsson.
Magnús þarfi Þorsteins arfi
þorskinn veiðir fleytir djarfi
flæðar skarfi um flyðru leiðir.


Einar Jónsson.
Einar með sinn ára svan
unnar sézt á víðum grunn
greina frá því greitt ég man
grunnungs særir kaldan munn.


Bjarni Jónsson.
Bjarni sézt með sinnið hresst
sá hræðist ei veður hvesst
dregur flest þá sjó á sézt
sinn fær lest nær öldu hest.


Sigurður Guðmundsson.
Sigur dregur sæg á lagar flugu
súða kúði á búðum flúða lúðist.
Reglu fugl með ragli siglu höglar
um reita leita beitu neyta feitrar.
Á græði blíðum grið ef þjóðum eyðir
gírugs rýr ei fira hlýr óhýri
er ólurinn ára mar vel stýrir
þá ála skála stála nál við rjálar.


Jón Jónsson.
Á jónum láa ég fekk séð
Jón frá Háagarði
fyrða knáa flytja réð
fiskinn slá ei sparði.


Jón Þorláksson.
Þorláks knörr Jón arfi ör
ýtir þrátt á hafið blátt
hönd hans snör úr fiski fjör
færir brátt með kaskan mátt.


Auðunn Þorsteinsson.
Auðunn flæða víllaust val
til veiða leiðir
heppinn, knappur, horska þorska
hirðir, myrðir í kyrrð á byrðing.


III. kafli.
Lukkuósk til allra áðurtaldra formanna.
Uppteiknaðra einn sé stjórnar yfirherra
guð, sem situr himni hærra
og horfir jafnvel á það smærra.
Leiði hann þessa um lönd og sjóinn lukkulega
öllu hrindi böli og baga
blessan hljóti heims um daga.
Þeir svo fái þegar af leggja þetta standið
yfir fluttir sorgar sundið
sælu hafnir gleðinnar fundið.
Því friðarins landi formenn á með fögnuð mestum
óska ég lendi og uni að vistum
allir samt fyrir Jesúm Kristum.
Eftir Lbs. 163 8vo bls. 373 og áfr.).


Formannavísur
eftir Jón Ólafsson á Grjótá í Fljótshlíð.


Þá sem fley á flóð draga
finna mega upptalda,
lífs á vegi velmetna
Vestmannaeyja skipstjóra.
Þorsteinn Jónsson þingmaður
þiljuljónið framsetur
hafs um frónið hugaður,
höppum þjónar alvanur.
Þó á bjáti báru þing
brim úr máta um hafrenning
njótar kátir nils um bing
nefna bátinn Mýrdæling.
Hannes gætinn Gideón
gana lætur sels um frón,
heppnin mæta hans er þjón,
höppin bæta, en forðast tjón.
Með Áróru Eiríkur
álmaþórinn hugaður,
ráar far ei rás letur
um reyðar flár er skriðdrjúgur.
Haffrú þá af hlunn setur
hug af þjáist fjörugur,
sjóa stjái er sívanur
Sjólyst frá hann Guðmundur.
Dyggð ei brestur hraustan hal
hann þá sést á nausta val,
heyri ég flestra fyrða tal,
formann bezta votta skal.
Enok sunda ágætt ljón,
Ingimundar burinn Jón
um keilu skunda lætur lón
lýra grund þó herði són.
Lukkumiðið Lárus fann
leiðir Frið um kembings rann
seggir sniðugt segja hann,
sæmda iðinn hreppstjórann.
Ólafs hagnað auka má,
ára-vagni stýrir sá,
hrausta bragna hefur þá
höpp, sem magna Farsæl á.
Um þær tíðir Ólafur
út um víði framdregur,
grand ei kvíðir glaðlyndur,
góz á Blíðu heim flytur.
Ingimundur ára-dýr
út um grundir reyðar knýr,
greiðist mundum gróði nýr
gæfa að þundi ferða snýr.
Sínum stýrir sæ-hesti
Sigurður í Brekkhúsi
fram um mýrar flatlendi
föng órýr þar aflaði.
Geddu-lónið glaður um
gamli Jón í Presthúsum
mastra ljónið lækkar um
lýsu-frón með þorskinum.
Arfi hans, sem heitir Jón,
heppni er manns um karfa frón,
hlýtur vansa sízt við són
sævar skans þó báru ljón.
Sæmundur um síldar-rann
sínu liði stjórna kann,
halinn styður hamingjan
höfrungs iðum þrautvanan.
Eggert borða birni úr vör
beita þorði stórt með fjör
oft dró forða upp á knör
yggur korða lundspakur.
Út frá nausti Bjarnar bur
Bogi hraustur formaður
gnoð á flaustur framsetur
fiska haustar lífdagur.
Jósep borða jagar kið
jöfur korða gott með lið
áls um storðir unir við
auka forða, hraustmennið.
Öllu tjóni að afstýra
eins má Jón á Gjábakka
kringum frónið farsæla
fer með þjóna hlutmarga.


Hásetaröð
eftir Þorkel Ólafsson á Ofanleiti.


Fremstan Sæmund fyrðar líta
frí við allan knur
öðlast mun sá orku nýta
Ingimundar bur.
Halldór fylgir hýru mengi
í þó hafi daprazt sjón,
óska ég hreppi æru gengi
ufsa fram um lón.
Ársæll fylgir ötull mengi
ufsa fram um hlað
er á knör með ærugengi
Önundar frá stað.
Siggi orku sýnir nýta
síldar fram um æ
en í vor sér ætlar flýta
út í Þykkvabæ.
Guðjón þorskinn gjörir fanga
þó geysi Ránar hver
og svo mæðu eftir langa
upp að Dölum fer.
Litli Thomsen lið vill sýna
á landi og sjó með kurt,
ég er það ei upp að tína,
þó ýmsir kalli hann furt.
Einar sýnir orku rama
aldrei glaðværð brá,
af því mun hann öðlast frama,
Akurey er frá.
Andóf Pálmi ötull stundar,
þó ei sé gáfna þrot,
en í vor hann ætlar skunda
út í Rimakot.
Frá Ofanleiti orku-ringur
er á þóttu glað
baular þetta böguglingur
brögnum lyndir það.
Gamli Magnús gjörir róa
geðspekt með sér ól
en nær fer af ufsa flóa
upp að Búðarhól.
Bjarni Þorsteins burinn glaður
býr sig út á sæ,
til allra verka er óstaður
er frá Gvendarbæ.
Miðskipa á mastra dýri
mætur Vigfússon
gáfnaslingur grérinn hýri
girnist fiskavon.
Þarna fram um þöngla mýri
þá Jón Guðmundsson
í austurrúmi á öldu dýri
afla girnist von.
Kimningi minn kær og glaður
kemur Sjólyst frá
til allra verka orku-hraður
eins á land og sjá.
Formaður á fyrri tíðum
frægur Guðmunds bur
hreppir lof af höldum fríðum
heitir Sæmundur.
Vigfús Skeving væna þáði
vizku af herrans náð
sinnar iðju sá vel gáði
svalt um haf og láð.
Ég vil ekki Jóni gleyma
þá jór á æginn fer
banda stinnur Baldur seima
brögnum yndi lér.
Guðjón þorskinn fjöri firti
þó faxi Ránar mey
ýmsum fremur ég hann virti
þá út á gengur fley.
Þorbjörn minn ber þrekið góða
þorska fram um beð,
fyrðum réð sitt fylgi bjóða
frægð og prýði með.
Ekki má ég eftir skilja
öldung fullorðinn
ekki mun sitt aflið dylja, br>
þó aldan velti stinn.
Hraustur stýrir hrannar dýri
horskur Ögmunds bur
handar mjalla hlynur skýri,
heitir Sigurður.
Flapur þetta falli niður
forláts ýta bið
alla þá, sem auðnan styður
öðlizt herrans frið.

(Eftir handriti Guðm. Finnssonar, Pétursey, í eigu Ottós Hannessonar, Urðaveg 17. Skrifað 1891).