KFUM & K

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Séra Friðrik og aðrir stofnendur KFUM í Eyjum

Þann 30. nóvember 1924 var Kristilegt félag ungra manna (KFUM) stofnað í Landakirkju. Sr. Friðrik Friðriksson prestur og frumkvöðull stofnaði félagið ásamt 62 drengjum í eldri deild eins og það er kallað, og 66 drengjum í yngri deild. Fyrstur til að gegna embætti formanns hins nýstofnaða félags var sr. Sigurjón Árnason sem var prestur í Landakirkju á árunum 1924 – 1944. Aðrir í stjórn voru Páll V. G. Kolka læknir, Steinn Sigurðsson klæðskeri, Þorbjörn Guðjónsson bóndi á Kirkjubæ og Bjarni Jónsson verslunarmaður á Svalbarða.

Aðalverkefni félagsins, fyrir utan hefðbundna fundi á sunnudagskvöldum, voru í fyrstu að halda biblíufyrirlesta heima hjá einhverjum af stjórnarmönnunum einu sinni í viku, sem og að sjá um sunnudagaskóla í Landakirkju á sunnudagsmorgnum.

Þann 14. mars 1926 var Kristilegt félag ungra kvenna (KFUK) í Vestmannaeyjum stofnað af sr. Sigurjóni. Fór stofnunin fram í Landakirkju líkt og þegar KFUM var stofnað og komu 95 konur að stofnuninni. Í stjórn félagsins voru kostnar Þórunn Eyjólfsdóttir eiginkona sr. Sigurjóns, Eyrún Helgadóttir kona Helga Guðmundssonar formanns frá Dalbæ, Guðbjörg Jónsdóttir, Þorgerður Jónsdóttir og Kristín Friðriksdóttir kona Steins klæðskera, en hún varð fyrsta forstöðukona félagsins.

KFUK stóð einnig fyrir biblíulestrum og þá aðallega í Jóhannshúsi við Vesturveg og í Skjaldbreið sem stóð við Urðarveg, en hefur nú farið undir hraun. Einnig tók félagið virkan þátt í að halda utan um starf sunnudagaskóla í Landakirkju ásamt KFUM.

Fljótlega sáu félögin þörfina á því að eignast sitt eigið samkomuhús sem myndi rúma öflugt starf félaganna. KFUM fór fyrst af stað haustið 1925 að afla peninga en KFUK kom inn í söfnunina fljótlega eftir stofnun félagsins. Snemma sumars 1926 hófust menn og konur handa og 9. janúar 1927 var KFUM & K húsið að Vestmannabraut 5 vígt. Starfsemi hússins var mikil árin sem fylgdu á eftir og var húsið griðarstaður fyrir fjölmarga, hvort sem þeir höfðu atvinnu af sjó eða landi. Félagið hélt sína vikulegu fundi í húsinu, ásamt því að halda utan um biblíulestra og sunnudagaskólann, líkt og áður.

Árið 1968 fékk húsið svo nýjan blæ, þar sem það hafði verið stækkað til suðurs. Nýbyggingin hafði að geyma sjómannastofu á neðri hæð og íbúð á þeirri efri sem hefur verið í útleigu síðan. Sjómannastofan var hér á árum áður einn af helstu samkomustöðum sjómanna og fiskverkfólks hér í bæ, en þar gat það hitt aðra, fengið sér kaffi og rætt málin.

Æskulýðsfélag Landakirkju og KFUM&K í Vestmannaeyjum nýtir húsið undir starfssemi sína einu sinni til tvisvar í viku. Um er að ræða ,,opið hús,“ en þá geta krakkarnir komið saman og átt saman góða stund í góðra vina hópi, farið í borðtennis og fótboltaspil, farið í léttan tölvuleik eða einfaldlega sest niður og rætt saman um það sem er efst í huga þeirra hverju sinni.


Heimildir

  • Gísli Stefánsson. Grein um sögu KFUM & K í Vestmannaeyjum.