Haraldur Magnússon (Miðhúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Haraldur Magnússon.

Haraldur Magnússon frá Dyrhólum í Mýrdal, sjómaður, vélstjóri, útgerðarmaður fæddist 4. september 1912 á Dyrhólum og lést 30. október 1974.
Foreldrar hans voru Magnús Björnsson bóndi, f. 10. apríl 1871 á Loftsölum í Mýrdal, d. 29. desember 1927 á Dyrhólum þar, og kona hans Sigríður Sigurðardóttir frá Eystri-Sólheimum í Mýrdal, húsfreyja, f. þar 28. október 1876, d. 24. mars 1951 í Eyjum.

Börn Sigríðar og Magnúsar í Eyjum:
1. Ragnhildur Jónía Magnúsdóttir húsfreyja á Hjalteyri, f. 19. október 1903, d. 7. ágúst 1992.
2. Sigurbjörg Magnúsdóttir húsfreyja í Oddhól, f. 30. ágúst 1905, d. 25. júní 1996.
3. Ingibjörg Magnúsdóttir húsfreyja í Stóra-Gerði, f. 17. desember 1909, d. 5. nóvember 1978.
4. Haraldur Magnússon bústjóri, sjómaður, vélstjóri, útgerðarmaður, f. 4. september 1912, d. 30. október 1974.

Bræður Magnúsar Björnssonar á Dyrhólum voru
1. Sigbjörn Björnsson á Ekru.
2. Bjarni Björnsson í Túni.

Haraldur var með foreldrum sínum í æsku. Faðir hans lést 1927 og varð Haraldur snemma að taka til hendinni, var bústjóri hjá móður sinni, uns þau fluttust til Eyja 1931.
Hann var með móður sinni og systkinum á Miðhúsum 1934, með móður sinni þar 1940, með henni í Oddhól 1945, á Heimagötu 25 1949.
Sigríður móðir hans dó 1951. Haraldur bjó á Kirkjubæjarbraut 16 1966, á Vallargötu 4 1972.
Haraldur var sjómaður, vélstjóri. Hann keypti nýsmíðaðan bát 1970, nefndi hann Rósu með einkennisstafina VE 294, gerði hann út frá Eyjum, en 1973 fluttist hann til Hvammstanga og stundaði útgerð og sjómennsku í félagi við Friðrik Jón mann Magnúsínu systurdóttur sinnar, og hét þá báturinn Rósa HU 294.
Þeir stunduðu rækjuveiði á Húnaflóa 30. október 1974, er Haraldur lenti í spilinu og lést.
Systur hans erfðu bátinn og seldu Friðriki Jóni, sem gerði hann út til 1977, er hann seldi hann til Bolungarvíkur.
Haraldur var ókvæntur og barnlaus.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1972.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslensk skip. Jón Björnsson. Iðunn 1990.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 31. október 1974.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.