Hallbera Benediktsdóttir (Háagarði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hallbera Benediktsdóttir húsfreyja, síðar húskona í Háagarði fæddist 1779 á Kirkjulæk í Fljótshlíð og lést 14. maí 1858 á Ljótarstöðum í A-Landeyjum.
Faðir Hallberu var Benedikt bóndi á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð, f. 1746, d. 6. febrúar 1806, Eyjólfsson bónda í Stóru-Mörk u. Eyjafjöllum, f. 1693, d. 1769, Jónssonar, og konu Eyjólfs, Helgu húsfreyju, f. 1720, d. 4. febrúar 1804, Eyjólfsdóttur.
Móðir Hallberu og kona Benedikts á Arngeirsstöðum var Ingveldur húsfreyja, f. 1744, d. 11. júlí 1817, Þorkelsdóttir bónda á Grjótá í Fljótshlíð, f. 1714, d. 3. september 1783, Höskuldssonar, og konu hans, Gunnhildar húsfreyju, f. 1715, d. 20. janúar 1799, Hafliðadóttur.

Hallbera var með foreldrum sínum á Arngeirsstöðum 1801. Hún giftist Einari 1808.
Þau bjuggu á Kanastöðum í A-Landeyjum 1810-1812, í Efri-Vatnahjáleigu þar 1812-1815, á Búðarhóli þar 1815-1818 og í Álftarhóli 1818-1819. Þá lést Einar.
Hallbera var með börn í æsku, bjó áfram á jörðinni til 1823.
Hún fluttist til Eyja með Önnu dóttur sína 1823, var vinnukona að Ofanleiti í lok ársins með Önnu dóttur sína hjá sér, sama 1824 og þar var einnig Níels Abrahamsson vinnumaður. 1825 voru þau þar á prestlausu búi, en Guðfinna Guðmundsdóttir ljósmóðir og Jón Gíslason voru þar þá í búskap.
Þau Níels giftust 1827, bjuggu í Níelshjalli 1828 og 1829, (e.t.v. síðar Hallberuhús), og hjá þeim var Eyjólfur Einarsson barn hennar 11 og 12 ára.
Þau fluttust á Álftanes, sennilega 1830, þar sem Níels stundaði sjómennsku, bjuggu í Hliði 1835 með Eyjólf Einarsson hjá sér. Þar bjó hún einnig 1840, en Níels lést á því ári. Í lok ársins var hún á Skógtjörn hjá Eyjólfi.
1845 var hún í heimili hjá Eyjólfi syni sínum og Jóhönnu Jóhannesdóttur konu hans.
Hún fluttist að Miðhúsum 1848 og var þar vinnukona, 1855 var hún 82 ára húskona í Háagarði og vann fyrir sér með handafla sínum.
Hallbera fluttist úr Eyjum 1857 og lést 1858 á Ljótarstöðum í A-Landeyjum.

Hallbera var tvígift.
I. Fyrri maður hennar, (9. júní 1808), var Einar Einarsson bóndi, síðast á Álftárhóli í A-Landeyjum, f. 17. maí 1786, d. 6. febrúar 1819.
Börn þeirra hér:
1, Benedikt Einarsson sjómaður í Götu, f. 15. október 1809, d. 19. júní 1850.
2. Einar Einarsson tómthúsmaður í Kastala, f. 25. september 1812, d. 18. nóvember 1842.
3. Anna Einarsdóttir húsfreyja á Skógtjörn á Álftanesi, f. 12. mars 1814, d. 21. júlí 1845.
4. Eyjólfur Einarsson sjómaður, bóndi í Gesthúsakoti á Álftanesi, f. 6. júní 1817, d. 30. maí 1888.

II. Síðari maður Hallberu, (1827 í Eyjum), var Níels Abrahamsson frá Eyvindarstöðum á Álftanesi, sjómaður í Hliði þar 1835, f. 5. október 1787, d. 17. mars 1840.
Þau voru barnlaus.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.