Friðrik Svipmundsson
Friðrik Svipmundsson frá Löndum var fæddur að Loftsölum í Mýrdal 15. apríl 1871 og lést 3. júlí 1935. Hann kom til Vestmannaeyja 1893 og reri með Gísla Lárussyni á Friði. Um aldamótin 1900 gerðist hann formaður og var fljótt aflasæll. Hann var með vertíðarskipið Ísafold lengst af, þar til hann vélvæddist.
Árið 1906 kaupir hann Friðþjóf og var formaður á honum til 1912. Þá keypti hann Örn og var á honum til 1920. Eftir það var hann formaður á Friðþjófi, Atlantis og Hjálpara til 1930. Friðrik var með eindæmum veðurglöggur og las vel í veðrið. Kom það oft fyrir að hann fór út í vonskuveðri og það batnaði, eða að hann kom snemma inn og veðrið versnaði.
Friðrik var mörg sumur formaður á Seyðisfirði og var jafnan aflahæstur þar.
Friðrik var aflakóngur þrisvar sinnum, árin 1907, 1909 og 1911.
Friðrik Svipmundsson skipstjóri og útvegsbóndi frá Loftsölum giftist Elínu Þorsteinsdóttir húsmóður sem var ættuð frá Dyrhólum í Mýrdal, sömu sveit og Friðrik. Börn þeirra í aldursröð voru: Matthildur, lengst af húsmóðir í Kanada, Ásmundur, skipstjóri, Sigríður var þriðja í röðinni, næst yngst var Þóra og yngstur var Þorsteinn, þau dóu bæði ung. Að auki ólu þau Friðrik og Elín upp Árna bróðurson hans og Guðrúnu Jóhannesdóttur.
Myndir
Heimildir
- Jón Sigurðsson. Aflakóngar Vestmannaeyja 1906-1929. Sjómannadagsblaðið 1961. 10. árg.
- Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.
- Gagnasafn Morgunblaðsins. Sigríður Friðriksdóttir, minningargrein 11.júlí 1995.