Bogi Finnbogason

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Bogi Finnbogason.

Bogi Þ. Finnbogason fæddist á Eskifirði 4. júlí 1920 og lést 13. júlí 1995. Foreldrar hans voru María Þorleifsdóttir og Finnbogi Erlendsson.

Bogi byrjaði 13 ára á bát föður síns, Svaninum, og varð skipstjóri á honum 18 ára gamall. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949. Bogi starfaði sem skipstjóri í Vestmannaeyjum til 1974. Þá sótti hann námskeið sjávarútvegsráðuneytisins í gæðamati fisks og gegndi starfi fiskmatsmanns þar til fiskmat var lagt niður.

Þann 29. desember 1956 kvæntist Bogi Dagnýju Þorsteinsdóttur, dóttur Þorsteins Jónssonar og Elínborgar Gísladóttur í Laufási. Fyrstu sautján árin bjuggu þau að Laufási og festist þá Laufásarnafnið við Boga og ætíð síðan var hann kallaður Bogi í Laufási. Bogi og Dagný eignuðust tvö börn, Guðnýju Bogadóttur hjúkrunarfræðing og Erlend Bogason sem meðal annars hefur getið sér gott orð sem kafari.

Eftir gos fluttust Bogi og Dagný aftur til Vestmannaeyja og keyptu sér þá hús að Höfðavegi 17 og bjuggu þar síðan. Bogi lést árið 1995, 75 ára gamall.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Boga:

Bogi við strauminn stinnur
stoðin er Þorgeirs Goða.
Finnbogasonurinn svinni
sorglaust á græði dorgar.
Breiðum á rostung reiða
ryður sér þétt á miðin.
Nýr er við stjóra-stýri
stála-bör hér um ála.

Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.
  • Minningargrein í Morgunblaðinu, 22. júlí 1995.