Blik 1974/Spaug

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974


SPAUG


Hjón voru að undirrita lánaskjöl í Sparisjóði Vestmannaeyja. Frúin hafði samþykkt lántöku eiginmannsins. Eitt eintak skjalanna fengu hjónin. Það var afrit af tryggingarbréfi. „Gerið svo vel, hjón, þetta eigið þið. Þetta er afrit af tryggingarbréfinu, sem þið voruð að skrifa undir,“ sagði sparisjóðsstjórinn. Svo bætti hann við kíminn: „Það er tilvalið, að þið gluggið í þetta skjal, þegar þið eruð komin uppí í kvöld.“
Eiginmaðurinn brosti breitt og tók undir það. Frúin setti á sig svip eins og hún vildi segja: „Flest viljið þið skipta ykkur af, - líka því, hvað við höfumst að í rekkjunni á kvöldin.“ Sparisjóðsstjórinn varð klumsa og sló út í aðra sálma.


Hallbjörn og Gróa hétu fátæk tómthúshjón í Eyjum. Þau áttu 11 börn og frú Gróa gekk með 12 barnið.
Vinafólk þeirra hjóna voru miðaldrahjón á Búastöðum. Þau áttu ekkert barn, þrátt fyrir 15 ára hjónaband. Búastaðahjónin höfðu fært það í tal við vinafólk sitt, tómthúshjónin, að þau gæfu þeim barnið, sem frú Gróa gekk með, og yrði það kjörbarn þeirra Búastaðahjónanna.
Svo fæddi tómthúsfrúin barnið. Nokkru síðar ámálgaði bóndinn á Búastöðum það við Hallbjörn tómthúsmann, hvort ekki væri rétt, að þau bóndahjónin sæktu barnið, eins og rætt hafði verið um. Þá sagði Hallbjörn tómthúsmaður: „Við Gróa mín höfum rætt þetta mál í einlægni. Við viljum ekki gefa barnið. Hins vegar gæti það komið til mála, að þú fengir hana Gróu mína lánaða.“


Aldraður tvíefldur Eyjaskeggi hitti á förnum vegi gamlan kunningja sinn, sem flutzt hafði úr Eyjum fyrir mörgum árum.
„Hvar dvelur þú nú kunningi?“ spyr Eyjaskeggi.
„Ég er vistmaður á elliheimili,“ sagði kunninginn, og hann nefndi það.
„Eru margir vistmenn þar?“ spyr Eyjaskeggi.
„Já, mörg hundruð,“ svaraði kunningi.
„Hvað heldurðu að yngsti vistmaðurinn sé gamall?“ spyr Eyjaskeggi.
„Já, það veit ég fyrir víst. Það er hann Gestur gullpeyi, sem er aðeins 48 ára,“ fullyrðir kunningi.
„Nú, hvernig stendur á því, að svo ungur maður er vistmaður á elliheimili?“ „Það er nú saga að segja frá því,“ segir kunninginn. „Fyrst fékk Gestur slæmsku í tönn og svo kvalir innvortis. Þá tóku læknarnir úr honum allt draslið.“
Eyjaskeggi: „Jæja, svo að þeir tóku úr honum allt draslið! Er svo að skilja, að maður geti lifað á elliheimili þessu innyflalaus?“
„Nei, ónei, þeir settu nú mest af draslinu í hann aftur,“ sagði kunninginn, „en síðan hefur hann líka verið spítalamatur.“


Tengdasonur frúarinnar hét Guðjón. Hún hafði ekkert dálæti á honum og nefndi hann alltaf Jón í daglegu tali.
Presturinn við frúna: „Heitir ekki tengdasonur þinn Guðjón? Ég heyri þig alltaf nefna hann Jón.“ - Frúin með snúð: „Víst heitir hann Guðjón, en ég hef það ekki til siðs að leggja nafn guðs míns við hégóma.“