Blik 1974/Júlíushaabverzlunin í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1974


Júlíushaabverzlunin í Vestmannaeyjum


Söguleg drög
Árið 1845 fékk danskur maður sér mælda út verzlunarlóð í Vestmannaeyjum. Hann hét J.J.F. Birck og hafði afráðið að stofna til verzlunarreksturs í verstöðinni. Verzlunarlóðina kaus hann sér á svonefndum Tanga, - hraunhæð nokkurri, sem teygðist fram í voginn innanverðan (þá) spöl innan við Nausthamar og Stokkhellu. Á Tanga þessum og suður af honum voru á þessum tíma fiskigarðar útvegsbænda og hjallar. Stærð lóðarinnar var 2100 ferfaðmar.
J.J.F Birck, kaupmaður, byggði verzlunar- og íbúðarhús á lóðinni á árunum 1846-1849. Við upphaf þessara framkvæmda (1846) réð hann til sín verzlunarstjóra, sem stjórnaði verzlun hans til dánardægurs 1861. Verzlunarstjórinn var danskur maður kvæntur íslenzkri konu. Hann hét Carl Möller og kona hans Ingibjörg Þorvarðardóttir.
Ekki hafði kaupmaðurinn J.J.F. Birck rekið verzlun sína á Tanganum, Tangabúðina, eins og hún var títt kölluð, nema 2-3 ár, þegar hann réð sjálfum sér bana með sérkennilegum hætti.
Árið 1852 keypti Niels Nikolai Bryde, einokunarkaupmaður í Danska-Garði í Eyjum, Júlíushaabverzlunina af umráðamönnum dánarbús J.J.F. Bircks kaupmanns.
Þá hafði N.N. Bryde rekið einokunarverzlun sína í Eyjum í 8 ár og vildi ógjarnan hafa ofmikla samkeppni við að stríða í verzlunarrekstri sínum. Nú voru það gildandi ákvæði danska valdsins, að enginn kaupmaður mætti eiga og reka nema eina verzlun á sama verzlunarstað þrátt fyrir lögin um frjálsan verzlunarrekstur til handa öllum þegnum Danakonungs (Lög 1. jan. 1788). Hvað vakti þá fyrir einokunarkaupmanninum, er hann keypti Júlíushaabverzlunina, sem var þinglýst honum 13. júní 1853? (Sjá Sögu Vestmannaeyja eftir S.M.J.)
Í ljós kom, að einokunarkaupmaðurinn rak verzlunina áfram með því að láta heita svo gagnvart sýslumanninum í Eyjum, að verzlunarstjóri hans ætti og ræki verzlunina á eigin spýtur.
Carl Möller var verzlunarstjóri Júlíushaabverzlunarinnar næstu 8 árin, eftir að N.N. Bryde eignaðist hana. Hann var heilsulítill maður árum saman, var berklaveikur, og andaðist 7. júlí 1861. Hafði hann þá verið verzlunarstjóri Júlíushaabverzlunar í 15 ár.
Við fráfall Carls Möllers gerðist Sigurður Gísli Gunnar Bjarnasen verzlunarstjóri á Tanganum. Hann var þá 25 ára og hafði verið verzlunarþjónn eða búðarmaður verzlunarinnar s.l. 9 ár, en hann var fóstursonur verzlunarstjórahjónanna C. Möllers og konu hans.
Kona Gísla G. Bjarnasen var Dorthe María Andersdóttir skipstjóra Asmundsen í Eystri-Stakkagerði og k.h. Ásdísar Jónsdóttur úr Berufirði eystra.
Gísli G. Bjarnasen var verzlunarstjóri Júlíushaabverzlunar næstu 8 árin. En árið 1869 gerðist Jón Salómonsen, borgari frá Kúvíkum á Ströndum, verzlunarstjóri og var það aðeins í eitt ár.
Árið 1870 réðst Gísli Engilbertsson frá Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum verzlunarstjóri Júlíushaabverzlunar. Hann hafði þá verið verzlunarþjónn einokunarverzlunarinnar gömlu í Danska-Garði um árabil. Hann var síðan verzlunarstjóri til 1893, en það ár var verzlunin lögð niður.
Árið 1879 lézt einokunarkaupmaðurinn í Eyjum N.N. Bryde og sonur hans tók við verzlunarrekstrinum í Danska-Garði - Garðsverzlun.
Að því kom, að Aagaard sýslumaður tók að kryfja til mergjar blekkingar Bryde-anna um eignarréttinn á Júlíushaabverzluninni, þar sem þeir höfðu ráðið öllu verðlagi s.l. 35 ár eins og í sinni eigin verzlun, Garðsverzluninni.
Endalyktir urðu þær, að J.P.T. Bryde, sem erft hafði Garðsverzlun við fráfall föður síns 1879 - og þá jafnframt Júlíushaabverzlunina, varð að afsala sér hinni síðarnefndu. Hann afsalaði syni sínum verzluninni með þinglýsingu á afsali 21. júní 1889. Verzlunin var síðan lögð niður 4 árum síðar, eins og ég tók fram.
Viðskipti eða viðskiptavelta Júlíushaabverzlunarinnar mun flest ár hennar hafa numið um það bil 1/4 af allri viðskiptaveltu í verstöðinni. Júlíushaabverzlunin hafði oftast eitt vöruflutningaskip í förum milli landa, en oftast voru þau fjögur alls hjá öllum verzlununum í Eyjum fyrir utan saltskip, timburskip og koladalla.

Þ.Þ.V.


ctr


Verzlunarhús Júlíushaabverzlunar, byggð á árunum 1846-1849.
Húsið á miðri myndinni með glugga gegn austri er verzlunar- og íbúðarhúsið.
Sölubúðin var í miðju húsinu. Vestan við hana var íbúð verzlunarstjórans með gluggum gegn vestri. Í austurenda, austan við sölubúðina, lá stigi upp á loftið, sem allt var undir súð. Þarna voru útidyr og stiginn rétt innan við þœr.
Uppi á loftinu geymdi verzlunin ýmsar vörur t.d. ómalað korn o.fl. matvörur, sem þá voru bornar á bakinu upp stigann.
Norðan við verzlunarhúsið stóð salthúsið og sneri norður-suður með dyr á austurhlið.
Til hægri við það sér á stafn kolahússins. Þar geymdi verzlunin kol sín. Lengst til hægri blasir við okkur stafninn á brœðsluhúsinu. Þar var þorsklifrin brœdd í stórum potti og lýsi framleitt til útflutnings.
Mynd þessi mun nú vera um 90 ára gömul.


Áður en lendur þessar voru mœldar (1845) Júlíushaabverzlun til afnota, voru þarna fiskigarðar á víð og dreif. Þar hertu útvegsbœndur og tómthúsmenn í Eyjum fisk sinn til útflutnings. - Þá stóðu þarna á þessum slóðum þó nokkrar verbúðir, líklega helzt eign „landmanna“, bænda og búaliða þeirra úr suðursveitum Rangárvalla- og Skaftafellssýslu hinni vestari. Þá er vitað, að tveir hjallar kunnra Eyjamanna stóðu þarna. Þeir voru geymsluhús harðmetis og fleiri matvæla og svo ýmissa annarra hluta, sem ekki urðu geymdir í íbúðum.
Við vinstri jaðar myndarinnar stendur t.d. hjallur „Sigga Fúsa“ (Sigurðar Vigfússonar) á Fögruvöllum, tómthúsmanns og kunns sjómanns og frœðaþuls í verstöðinni. Til hægri við hjall „Sigga Fúsa“ sést „Mandalshjallurinn“, þar sem Jón Ingimundarson frá Gjábakka, útgerðarmaður og hákarlaformaður, geymdi fiskmeti sitt og hertan hákarl og yfirleitt föggur sínar til sjós og lands. Hann bjó í Mandal við Njarðarstíg.
Austan við verzlunarhúsið sést langur hraunjaðar. Hann hét Bratti. Inn með honum skerst vik í ströndina. Það hét í daglegu máli „Anesarvik“, sem var afbökun af orðinu Andersarvik. Anders skipstjóri Asmundsen bjargaði þarna barni frá drukknun nokkru áður en hann drukknaði sjálfur (1851) á skútu sinni, en hann var norskur skútuskipstjóri og bjó í Eystra-Stakkagerði, kvœntur frú Ásdísi Jónsdóttur. (Sjá Blik 1965, bls. 188).
Í íbúðarhúsi Júlíushaabverzlunar fœddist listmálarinn okkar Eyjamanna Engilbert Gíslason verzlunarstjóra Engilbertssonar, 12. okt. 1877.1973 b 83.jpg
Þessa mynd birti Blik í fyrra. Þá tókst svo illa til, að skýring við hana var skökk. Svona á hún að vera. - Frá hœgri: Engilbert Gíslason, málarameistari, hinn kunni listmálari okkar Eyjamanna; Árni Sigurðsson frá Nýborg, sonur Sigurðar bónda og smiðs Sveinssonar. - Sitjandi: Þórarinn Gíslason, verzlunarmaður frá Lundi í Eyjum.