Blik 1971/Gamlar minningar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Stökkva á: flakk, leita

Efnisyfirlit 1971INGIBJÖRG ÓLAFSDÓTTIR, BÓLSTAÐARHLÍÐ:


Gamlar minningar


Við, sem sáum dagsins ljós rétt fyrir síðustu aldamót, eru nú sem óðast að týna tölunni og hverfa af sjónarsviðinu. Við erum laufin, sem fjúkum af meiði lífsins, því að hausta tekur og á daginn líður. Innan skamms heyrir líf okkar fortíðinni til. En allir hafa verið ungir einu sinni og einhvern tíma, - við eldra fólkið á okkar tímum rétt eins og æskulýðurinn nú á dögum.
Á bernskuárum mínum, þegar ég var e.t.v. að kvarta við gamla fólkið á bænum yfir einhverjum smámunum, var það víst til að segja: „Ja, þú hefðir átt að lifa, telpa mín, þegar við vorum ung.“
Nú endurtekur sagan sig. Þegar æskufólk velmegunaráranna er að kvarta yfir lítilræði við mig, er ég vön að segja sem svo: „Ja hérna, þið hefðuð átt að alast upp, þegar ég var ung.“ - Síðan ég komst til vits og ára, hefur mér þótt forvitnilegt, - já, að sumu leyti jafnvel skemmtilegt, - að fá að fljóta með straumi tímans fram eftir 20. öldinni og allt til þessa dags.
Þegar við, sem fæddumst um og eftir síðustu aldamót, vorum ung, reis frelsisbarátta þjóðarinnar hvað hæst, og eldur hugsjóna logaði glatt í hugum æskulýðsins. Við fengum líka að lifa það að sjá vonir okkar rætast og þjóðina brjótast úr viðjum erlendrar kúgunar. Sú hamingja hlotnaðist okkur einnig að sjá Íslendinga brjótast úr viðjum sárustu fátæktar til mannsæmandi lífskjara og lífsþæginda nútímans. Hver vill svo segja, að eldra fólkið hafi ekki lifað og starfað, lifað vonglöð æskuár og athafnasöm manndómsár og megi svo vel við una að leiðarlokum?
Búið er að rita og ræða svo mikið um kynslóðaskiptin á Íslandi, að ég fjalla ekki um það efni frekar. Það væri að bera í bakkafullan lækinn.
Þegar árin færast yfir, er það einhvern veginn svo, að hversdagslegir atburðir löngu liðinna ára verða okkur hugstæðir og lifandi, og við tökum til að rifja þá upp, - jafnvel skrifa þá niður. Við vitum samt með sjálfum okkur, að þetta er tæplega í frásögu færandi, hvað þá heldur meira.
Ég átti lengi heima í lágum bæ með torfþekjur, sem grænkuðu á hverju vori um svipað leyti og lambablómið blómstraði á melhólmum skammt frá bænum. Húsaþökin voru græn allt sumarið og fram á haustið, en á vetrum voru þau hvít og fannbarin, þegar snjóaði. - Bærinn stóð við fjöll, sem teygðu sig stall af stalli alla leið upp að jöklinum. Raunar er ekki hægt að lýsa sveitinni og umhverfi hennar betur en listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, gerir í hinu frábæra kvæði sínu Gunnarshólma: ,,Skein yfir landi sól á sumarvegi og silfurbláan Eyjafjallatind, gullrauðum loga glæsti seint á degi...“
Bærinn við fjöllin átti sér merka sögu, eins og svo margir aðrir bæir á landinu hafa átt og eiga. En tíminn fyrnir yfir svo margt, sem hvergi er skráð.
Það var fólkið í landinu, þjóðin sjálf, sem lagði steinana í grunninn undir þjóðarsögunni. Meðan gullaldarbókmenntirnar voru skrifaðar, var hagur þjóðarinnar góður, miðað við það, er síðar varð. Þjóðin hefur átt marga afbragðsmenn, sem komnir voru af sterkum stofnum. Þessir menn gerðust vökumenn þjóðarinnr. Einn þessara ágætu manna var brautryðjandinn og eldhuginn Tómas Sæmundsson, einn ötulasti útgefandi Fjölnis. Foreldrar hans voru Sæmundur Ögmundsson og kona hans Guðrún Jónsdóttir. Ögmundur var vel ættaður og átti fjölmennan frændgarð. Hann fæddist að Stafafelli í Lóni 1732, varð prestur að Hálsi í Hamarsfirði 1858 og lézt árið 1805. Hann var einn af 8 bræðrum, sonum þeirra hjóna séra Högna Sigurðssonar og konu hans Guðríðar Pálsdóttur, er lærðu til prests og urðu starfandi sóknarprestar. Þess vegna er séra Högni kallaður prestafaðir í munnlegri sögu. Séra Högni var prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð á árunum 1750-1763, eða í 13 ár. Sat þó staðinn til æviloka 1770.
Móðir Sæmundar Ögmundssonar hreppstjóra og kona séra Ögmundar var Salvör Sigurðardóttir frá Ásgarði í Grímsnesi. Hún var einnig komin af ágætum ættum og var hin merkasta kona. Kona Sæmundar hreppstjóra var Guðrún Jónsdóttir frá Hallgeirsey í Landeyjum, d. 1843.
Sæmundur Ögmundsson var 7 ára (f. 1776), þegar Skaftáreldarnir brutust fram (1783). Þá hófst eitthvert svartasta og ömurlegasta tímabil í sögu þjóðarinnar. Fólkið hrundi niður af hungri og harðæri. Athvarf hinna snauðu var vergangurinn með öllu böli sínu og ólýsanlegum þjáningum.
Varla þarf að efa, að æskuár Sæmundar hafa verið erfið á ýmsa lund, meðan þjóðin svalt heilu hungri.
Þegar hann hóf búskap á Gularási í Landeyjum árið 1798, var hann 22 ára gamall. Þá átti hann eina kú, tvo hesta og sex ær, að því er talið er. Árið eftir kvæntist hann Guðrúnu Jónsdóttur frá Hallgeirsey. Hún var svo fátæk að sagt er, að hún hafi borið aleigu sína í böggli undir hendinni, þegar hún fluttist að Gularási. Afkoma heimilisins var öðrum þræði byggð á sjónum, sjósókn, og var slæm eða sæmileg, eftir því sem aflaðist hverju sinni.

ctr


Foreldrar Ingibjargar Ólafsdóttur í Bólstaðarhlíð, Ólafur Ólafsson, fyrrum bóndi í Eyvindarholti, og kona hans Sigríður Ólafsdóttir frá Múlakoti í Fljótshlíð.
Börnin frá vinstri:
Kristján Ólafsson, síðar bóndi á Seljalandi undir Eyjafjöllum, og Guðríður Þóroddsdóttir, síðar kunn húsfreyja í Víðidal í Vestmannaeyjum. Var hún af fyrra hjónabandi Sigríðar húsfreyju.

Árin um og eftir 1800 voru hafísár, og ekki hvað sízt árið 1802. Talið er, að þá hafi túnið í Gularási verið illa farið af kalskemmdum. Af þeim sökum fór Sæmundur að leita fyrir sér um betra jarðnæði. Þetta vor flutti hann ásamt sveitunga sínum að Húsadal á Þórsmörk og byggði þar nýbýli. — Ekki reyndist búsetan þar hagstæð, og bjó Sæmundur þar aðeins eitt ár. Bæjarrústir hans sjást ennþá greinilega í Húsadal.
Árið 1803 flyzt Sæmundur aftur í Landeyjar og bjó þar lengi síðan á ýmsum stöðum. Hann fluttist að Eyvindarholti árið 1819, og þar bjó hann síðan til dauðadags. Hann andaðist þar 25. jan. 1837. Síðari hluta ævi sinnar var Sæmundur talinn einn af auðugustu mönnum landsins, og varð hann þjóðkunnur maður fyrir margra hluta sakir.
Hann byggði bæ sinn í þeim stíl, er þá tíðkaðist á Suðurlandi um og eftir 1830. Þá þótti þetta hinn þekkilegasti bær.
Guðrún kona Sæmundar var vinsæl og vel metin sæmdarkona. Líf hennar var á margan hátt fjölbreytt og viðburðaríkt. Hjónin áttu miklu barnaláni að fagna. Börn þeirra voru, talin eftir aldursröð: Jórunn, sem var elzt þeirra systkina. Hún giftist Árna bónda Jónssyni á Klasbarða. Tómas var næstur. Kvæntur var hann Sigríði Þórðardóttur frá Garði í Aðaldal. Hann var prófastur á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Þriðja barn þeirra var Sigurður, kvæntur Steinunni Ísleifsdóttur frá Seljalandi, síðar bónda í Eyvindarholti. Yngst þeirra systkini var Ingibjörg, kona Sigurðar Ísleifssonar, bónda á Barkarstöðum í Fljótshlíð.
Sighvatur Árnason brá búi og fluttist til Reykjavíkur með fjölskyldu sína 1901. - Seinni kona hans var Anna, dóttir séra Þorvarðar Jónssonar í Holti.
Áður en frú Anna fluttist suður, gaf hún móður minni skál, sem verið hafði í eigu þessa heimilis frá upphafi vega. Hún stakk í stúf við alla aðra muni, sem til voru á heimilinu. Svo falleg var hún og sérstæð.
Þessa skál gaf Tómas Sæmundsson Guðrúnu móður sinni, þegar hann kom heim að Eyvindarholti úr annarri hvorri utanför sinni. En gamla fólkið, sem hafði haft náin kynni af heimilinu, fullyrti, að Tómas hefði unnað móður sinni, og með þeim hefði ávallt verið náið samband og mikið ástríki.
Skálin var úr postulíni og hafði verið talinn mikill kjörgripur, ef hún hefði ekki haft brotalöm. Á botni hennar var gat á stærð við krónupening. Annars var hún tvöföld að gerð. Það sást svo vel á ávölum og þykkum börmum hennar. Þar sem hún var brotin, kom í ljós, að stétt hennar, fótur og öll skálin var tvöföld. Að lögun minnti hún á gömlu kaleikana, sem nú eru í Þjóðminjasafninu, nema hvað hún var mikið víðari en þeir eru. Hún hafði millistétt á fætinum eins og þeir. Ytra borð skálarinnar var í undurfögrum smaragðgrænum lit, en að innan var litur hennar eins og perlumóða eða fagurlit skelplata. Á innra borðið var hún skýjuð með dúnléttum litum, ljósbláum og rósrauðum sitt á hvað. Litirnir voru svo mjúkir og mildir út við jaðrana, að þeir dóu út og runnu þannig saman við grunnlit hennar. Mér er enn í minni, hversu mjög ég dáðist að mildum, fögrum litum hennar, og ekki síður því, hve listilega þeir voru samansettir.
Sigurður Sæmundsson hóf búskap í Eyvindarholti. Fyrstu árin bjó hann þar í sambýli við föður sinn, hafði hluta af jörðinni. En eftir andlát hans (1837) tók hann við allri jörðinni og bjó þar góðu búi. En því miður naut hans ekki lengi við. Hann lézt á bezta aldri árið 1841, tveim mánuðum síðar en séra Tómas bróðir hans á Breiðabólstað.
Frú Guðrún Jónsdóttir lifði báða sonu sína og andaðist í hárri elli hjá tengdadóttur sinni. — Skömmu fyrir andlát sitt gaf hún henni postulínsskálina.
Tveim árum eftir lát manns síns, Sigurðar Sæmundssonar, giftist Steinunn aftur. Seinni maður hennar var Sighvatur Árnason, síðar þingmaður Rangæinga um langt árabil. Þau hjón bjuggu síðan í Eyvindarholti í 40 ár við mikla sæmd og rausn. Heimilið var annálað fyrirmyndar heimili. Þar lézt frú Steinunn árið 1883. Eftir það var postulínsskálin í eigu þessa heimilis öll árin, sem síðan voru liðin. Líklega hefur það verið sökum þess, hversu gölluð hún var, að hún var ekki álitinn kjörgripur lengur. (Sighvatur Árnason kvæntist Önnu Þorvarðardóttur 26. apríl 1885).
Á þessum tímum var verkmenning Íslendinga ekki á háu stigi. Nú á dögum hefði verið auðvelt að gera við brotalöm hennar svo vel, að hún hefði komið til með að vera sem ný af nálinni, orðið jafnfalleg og áður. En á þeim tímum fóru margir góðir gripir forgörðum, án þess að hirt væri um þá eins og vera bar.
Bærinn, sem Sæmundur Ögmundsson byggði með svo miklum myndarbrag og snyrtimennsku, var rifinn niður. Hann var endurbyggður að tímans hætti árið 1904. Voru þá allir munir og hlutir fjarlægðir úr honum, meðan á byggingarvinnunni stóð, þar á meðal postulínsskálin, sem var mjög brothætt, og hefði því átt að fá góða og örugga geymslu. En hún varð fyrir óhappi og brotnaði. Hún glataðist eins og svo margt annað, sem fagurt er og ekki verður endurheimt aftur. En hún átti sína sögu eins og svo margir aðrir dýrmætir munir, allt frá því Tómas Sæmundsson keypti hana í einhverri postulínsverksmiðju langt úti í löndum og færði hana ástkærri móður sinni að gjöf eftir langa fjarveru erlendis frá æskuheimili sínu, ástvinum og fósturjörð.
Að undanförnu hefi ég verið að rifja upp fyrir mér það litla, sem ég man eftir frá sumrinu 1903. Þá dvaldist dr. Helgi Péturss og fylgdarmaður hans, Ögmundur Sigurðsson, á heimili foreldra minna. Fátt hefur rekið á fjörur mínar síðan grein mín birtist í Bliki 1969. En því litla, sem ég hefi haft sagnir af síðan, hefi ég haldið til haga.
Aðalstarf mitt þetta sumar var að annast ýmsa snúninga heima við og líta eftir yngri systkinum mínum. Ég sé dr. Helga fyrir mér, eins og hann var þá. Raunar sá ég hann aftur mörgum árum síðar, þar sem hann gekk um götur Reykjavíkurborgar. En hvað ég kannaðist vel við fasið og göngulagið, þar sem hann gekk, léttur í hreyfingum, tábeinn og bar höfuðið hátt, eins og hann sæi inn í heima, sem huldir eru sjónum flestra dauðlegra manna.
Hann virtist ekki gefa gaum að þeim, sem um göturnar gengu. Þannig var framkoma hans, þegar hann var heima. Þá var eins og hugur hans væri langt í burtu. Mér virtist hann ekki taka eftir okkur systkinunum, þó að hann gengi daglega framhjá okkur, þar sem við lékum okkur í námunda við bæinn. Út af þessu brá þó öðru hverju. — Venjulega tók hann sér hvíld frá störfum rétt fyrir kvöldmatinn. Þá hafði hann að venju að ganga umhverfis bæinn, um stéttina og bæjarhólinn. Sólin var þá hnigin til vesturs og jökullinn endurvarpaði hinum tæra sólarljóma hennar yfir allt umhverfið. Lágur kliðurinn frá Ljósá (leiðr.) barst heim að bænum, og andvarinn bar með sér töðuanganinn og ilminn af nýslegnu grasinu, sem féll í skára við hvert ljáfar sláttumannanna, sem unnu þarna skammt frá.
Eitt af góðskáldum okkar kvað: „Seg mér, hvað auga þitt indælla leit, en íslenzka vorið í fallegri sveit.“
Dr. Helgi talaði um það við foreldra mína, að rannsóknarsvið sitt við jökulinn væri eitt hið stórbrotnasta og athyglisverðasta, sem hann hefði unnið við á ferðum sínum um landið. Útsýnið væri heillandi og ógleymanlegt, svo að hann ætti erfitt með að hverfa þaðan. - Vitað er, að í góðu skyggni sér þaðan vítt og breitt til allra átta. - Hæsti tindur jökulsins er 1666 metra hár.
Það vill svo til, að rithöfundurinn góðkunni, Jón Trausti, hefur lýst útsýni af jöklinum. Hann gekk á Eyjafjallajökul árið 1908. Tímaritið Fanney birti ferðasögu hans 1909. Aðeins lítið sýnishorn af henni er á þessa leið: „Láglendið undir Eyjafjöllum lá eins og landabréf fyrir fótum okkar. Árnar kvísluðust milli grænna hólma og grárra sanda og breiddu úr sér við árósa og börðust svo loks við brimgarðinn. Framundan söndunum lágu Vestmannaeyjar eins og dálítill herskipafloti. Höfnin á Heimaey skein eins og gullnisti í klettaumgjörðinni. Austur með öllu sáum við flata, brimkögraða sandströndina, þar sem Dyrhólaey gerði enda á þeirri sýn. Hún gengur fram í sjóinn austur við Mýrdalinn. Gat er í gegnum bergið á fremsta odda hennar, og blasti það við okkur ofan af jöklinum. Við sáum yfir allan Mýrdalinn og jökulbreiðuna norður af honum, þar sem Kötlugjá sefur undir jökulfargi sínu. Í Mýrdalnum standa háar, brattar eyjar upp úr sandinum, sem eitt sinn hafa staðið upp úr sjó eins og Vestmannaeyjar nú. Ein af þeim eyjum er Hjörleifshöfði. Lengra austur hvarf allt í sorta. Annars hefðum við séð hina hvítu mön Vatnajökuls. Vestur af var sjónin líka óskýr vegna skýja. Þar var næst okkur tindurinn á Heklu og hraunbreiðurnar kring um hana. — Einnig Þríhyrningur. Yfir Rangárvalla- og Árnessýslu sáum við allar í einu, allt vestur að Reykjanesi.“
Venjulega kom dr. Helgi heim frá rannsóknarferðum sínum við jökulinn síðari hluta dagsins. Hann tók með sér öðruhvoru sýnishorn. Það voru bergtegundir af ýmsum litum og gerðum. Steinarnir voru af ýmsum gerðum og stærðum. Sumir voru hnefastórir, sumir eins og kindarvölur eða minni og svo margir þar á milli. Hann sat löngum í stofunni og horfði gegnum smásjána á steinana, sem hann hafði raðað á borðið fyrir framan sig.
Þá kom það fyrir annað veifið, að fólkið á bænum langaði til að fræðast um þetta rannsóknarefni, sem honum var svo hugleikið. — Þegar þannig stóð á, leitaði það fræðslu hjá Ögmundi fylgdarmanni hans. Hann greiddi fúslega úr öllu því, er við kom daglegum athugunum doktorsins og fræddi fólkið um þau sýnishorn, sem vísindamanninum þótti athyglisverð. Þeim gengi hann frá á sérstakan hátt, sagði fylgdarmaðurinn. Eftir það lentu þau í öðru hvoru vatnsþétta koffortinu, sem hann hafði hjá sér í stofunni. — Næsta vetur rannsakaði hann þau með mikilli nákvæmni, og í það verk lagði hann mikla elju, þolinmæði og nákvæmni.

ctr


Hér birtir Blik mynd af einum nafnkunnasta bóndabæ á sínum tíma á Íslandi. Þetta er ,,gamli bærinn“ í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum. Hér bjuggu foreldrar séra Tómasar Sæmundssonar, og hér naut hann þess uppeldis, sem olli mestu um það, að hann varð einn af kunnustu sonum íslenzku þjóðarinnar á sinni tíð og í sögu hennar. Hann gerði garðinn frægan, stendur þar.
Mestur hluti bæjarins mun hafa verið byggður um 1830. Það gerðu foreldrar séra Tómasar Sæmundssonar, Sæmundur bóndi Ögmundsson og k.h. Guðrún húsfreyja Jónsdóttir frá Hallgeirsey í Landeyjum.
Húsin eru þessi, talin frá vinstri: 1. Skreiðarhjallur. Stafninn myndar rétt horn við bæjarröðina. - 2. Smiðja. - 3. Skemma. - 4. Stofa, viðhafnarstofan, máluð ljósblá. Inn af henni var gestaherbergið. Í viðhafnarstofunni bjó dr. Helgi Péturss, meðan hann dvaldist í Eyvindarholti og Ingibjörg Ólafsdóttir skrifar um í grein sinni. - 5. Bæjardyr og hversdagsstofa til hægri við þær. Hún var ómáluð. - 6. Búr. - 7. og 8. Tvær hlöður. - 9. Fjósið á bænum. - 10. Folaldakofi. - 11. Kofi til að ala í annað húsdýraungviði.
Bakvið þessi hús voru: (leiðr.), Mjólkurhúsið og Eldhúsið. Eldhúsið var rúmgott með tveim hlóðum, og fór matseldin fram á þeim stærri, en pottbrauð voru seydd eða bökuð á minni hlóðunum.
Í þessum bæ bjó Sighvatur bóndi og alþingismaður Árnason alls 58 ár, - fyrst 40 ár með fyrri konu sinni, Steinunni Ísleifsdóttur, og síðan 16 ár með seinni konu sinni, Önnu Þorvarðardóttur. Tvö ár var hann á milli kvenna. Foreldrar Ingibjargar Ólafsdóttur, Bólstaðarhlíð í Eyjum, fluttu að Eyvindarholti árið 1901 og endurbyggðu þennan 70 ára gamla bæ árið 1904. Málverk eftir Eyjólf J. Eyfells.
(Heimildir: I.Ó. og Ísl. æviskrár).

Þegar Sighvatur Árnason brá búi, keyptu foreldrar mínir af honum ýmis húsgögn, m.a. sófa, borð og stóla. Sófinn var klæddur brúnu flosi. Hann stóð í suðvesturhorni stofunnar. Fyrir framan hann stóð stórt, rauðmálað borð. Það var dálítið sérkennilegt. Á því voru vængir á hjörum, og féllu þeir niður með borðfótunum. Vængirnir voru spenntir upp með þar til gerðum tréklömpum, ef svo bar við, að nauðsynlegt væri að stækka það. - Umhverfis borðið voru svo stólarnir.
Í suðausturhorni stofunnar var brún dragkista eða kommóða, sem móðir mín átti. - Þetta voru þeir fáu innanstokksmunir, sem voru í stofunni á þessum árum.
Venjulega sat dr. Helgi á sófanum, en Ögmundur á stóli andspænis honum. Segja má með sanni, að rauða borðið í stofunni hafi verið vinnuborð hins merka vísindamanns, meðan hann dvaldist heima. - Svo voru þarna koffortin tvö klædd kópaskinni. Þau stóðu milli sófans og kommóðunnar. Þegar ég sá þau, minntu þau mig einhvern veginn á farfuglana, sem komu og fóru.
Ég hefi stundum hugsað um það, hve flest börn aldamótaáranna höfðu mikla minnimáttarkennd, og var ég engin undantekning, hvað þetta snerti. Öðrum þræði hefur orsökin sennilega verið sú, hve fáa gesti eða börn á sínum aldri þau umgengust. - Þá þótti það ekki viðeigandi, að börn ávörpuðu aðkomufólkið að fyrra bragði. Það var talin ósvinna. Þetta gerði börnin feimin og hlédræg. Við bjuggum við meiri aga og lærðum að hlýða þeim, sem eldri voru. Annað þekktist ekki svona yfirleitt, þó að út af gæti brugðið hér og þar.
Aðeins einu sinni, svo mér sé kunnugt, blönduðu báðir gestirnir geði við heimilisfólkið. Það var þegar þeir hjálpuðu til við heyskapinn heima við og ég gat um það í grein minni í Bliki 1969.
Við í „hinni yngstu deild“ vorum á þessum árum feimin, einkum við meiri háttar gesti, - ég tala nú ekki um, væru þeir frá Reykjavík, - líklega svona viðlíka og nútímabörn gagnvart mönnum, sem nýkomnir væru frá tunglinu eða einhverjum öðrum hnöttum himingeimsins.
Þegar gestirnir fóru að sæta heyið þarna rétt hjá okkur, var ekki að sökum að spyrja. Við urðum allt í einu óvenjulega hljóðlát og létum lítið yfir okkur. En Adam var ekki lengi í Paradís, eins og kunnugt er. - Áður en varði fórum við að leika eftir störfum fullorðna fólksins og urðum svo upptekin af því, að við gleymdum okkur. Við tókum okkur til að koma upp drílum, múgum og sátum af miklu kappi og áhuga. Allt einu tek ég eftir því, að dr. Helgi stendur þarna rétt hjá okkur og virðir okkur fyrir sér með glettnissvip. Svo ávarpar hann mig með svofelldum orðum: „Vandaðu betur móðurmálið, telpa.“ - Síðan gekk hann að næsta múga og hélt áfram að sæta heyið. Þetta voru einu orðin, sem hann talaði við mig, meðan hann dvaldist heima. Þegar kom að því þennan dag að hugsa um miðaftanskaffið, fór móðir mín heim að annast um það. Þegar því var lokið, kom hún út á túnið og bauð gestunum í bæinn. En doktorinn afþakkaði það, en gat þess um leið, að honum þætti ágæt tilbreyting í því að bregða út af venjunni og drekka kaffið úti á hólnum með fólkin. Þá fór ég heim með móður minni til þess að sækja gestabollana eftir beiðni hennar. - „Í þetta sinn ætla ég að vera eins og einn af ykkur og drekka kaffið úr sömu bollum og heimilisfólkið gerir,“ sagði gesturinn ákveðinn. Að vörmu spori kom móðir mín með ilmandi kaffi á könnunni og skenkti gestunum í bollana. Ekki varð annað séð, en að þeir kynnu því vel. Í kaffihléinu töluðu þeir um daginn og veginn við föður minn og piltana.
Eftir þennan dag andaði sérstakri hlýju í garð þessara ágætu gesta frá öllum á heimilinu.
Þannig háttaði til, að frá bæjarstéttinni lá gangstígur niður að traðarveggnum, en beggja megin við gangstíginn voru gulrófu- og kartöflubeð. Á þessum tímum og lengi eftir það var alsiða í sveitum landsins að hafa matjurtagarða beint fram af stéttinni, en á þessu hefur orðið mikil breyting, eins og kunnugt er. Það var líf og fjör í tröðunum dagana, sem gæðingarnir voru reknir heim. Þá hlupu þeir til og frá um stæðið, þegar þeir voru komnir þarna í sjálfheldu.
Á sunnudögum fór venjulega eitthvað af heimilisfólkinu að heiman. Í þá daga þurfti fólkið ekki að hafa áhyggjur af bílunum sínum, né heldur sprungnum hjólbörðum eða öðru, sem aflaga gat farið. Þá voru það gæðingarnir, sem ennþá gegndu hlutverki bifreiðarinnar. Þegar drengirnir hlupu fram og aftur um traðirnar með kjálkabeizli eða reiðtygi, skyldi það varla bregðast, að dr. Helgi kæmi niður gangstíginn og staðnæmdist á traðarveggnum. Hann var þá glaðlegri en venjulega og virtist fylgjast vel með öllu, er þar gerðist. Það var einkum þá, sem hann talaði við eldri bræður mína um leið og hann athugaði góðhestana. Að stundarkorni liðnu fór hann svo aftur heim gangstíginn og sneri sér síðan að verkefnum sínum.
Ég heyrði getið um það, að hann hefði ávallt sýnt drengjunum alúð og haft meira saman við þá að sælda en aðra á heimilinu að foreldrum okkar undanskildum. Sennilega hefur doktorinn verið barngóður maður að eðlisfari. Ekki veit ég með vissu, hvað lengi gestirnir dvöldust heima, en ætla má, að það hafi verið fáeinar vikur.
Ögmundur Sigurðsson var ekki hneigður fyrir að fara snemma að sofa á kvöldin. - Þannig háttaði til með húsakynni, að „Austurhúsið“ eða piltaherbergið, var við hliðina á svefnherbergi Ögmundar. Þar sváfu piltarnir. Þegar þeir komu heim á kvöldin og höfðu lokið dagsverki sínu, var það segin saga, að hann kom inn til þeirra til þess að stytta sér stundir og spjalla við þá stundarkorn, áður en þeir fóru í háttinn. - Meðal annars beindust viðræður þeirra að ýmsu því er við kom daglegum störfum og venjum vísindamannsins. Piltarnir gátu þess, að þeir hefðu séð hann árla morguns fyrir utan tjald sitt við líkamsæfingar einn góðviðrisdaginn. Var það venja hans? spurðu þeir. ,,Já, það er rétt,“ sagði Ögmundur, „það gerir hann daglega. Doktorinn var ágætur íþróttamaður á yngri árum sínum. Nú stundar hann jarðfræði og jöklarannsóknir, en gefur sér þó tíma til að halda sér í þjálfun með hollum líkamsæfingum.“ - Öllum á bænum var kunnugt um starfsafrek hans. Það eitt að ganga alla leið upp að Jöklinum var þrekraun út af fyrir sig. Þegar svo þangað var komið, hóf hann hinar nákvæmu rannsóknir sínar. Hann tók þar venjulega lítið svæði fyrir í einu, en rannsakaði það vandlega. Ef hann uppgötvaði þar nýstárlegar bergtegundir, hafði hann sýnishorn af þeim heim með sér til frekari athugunar. Þannig tók hann fyrir hvert svæðið af öðru og kortlagði þau eða merkti jafnóðum og hann hafði lokið við athuganir sínar að sögn leisögumanns hans.
Dr. Helgi Péturss var mjög hlédrægur í framkomu, eins og áður hefur verið drepið á. Hann kom ekki við á neinum nágrannabæjunum svo að vitað væri og við höfðum spurnir af. Ekki var kunnugt um, að hann talaði við gesti, sem höfðu viðkomu heima þetta sumar. Ég heyrði þess getið síðar, að bóndi úr næsta nágrenni, sem var staddur heima, hefði talað um að doka við, sem hann og gerði, og fá þannig tækifæri til að virða vísindamanninn nánar fyrir sér. Bóndi hafði aðeins séð til ferða hans úr fjarlægð á venjulegum leiðangrum hans um fjöllin í nálægðinni. Þetta var síðari hluta sunnudags. - En vísindamaðurinn gerði sér ekki dagamun eða hélt hvíldardag heilagan, heldur sat hann við vinnuborð sitt eins og aðra daga vikunnar, - síðari hluta dagsins.
Bóndinn kunni ekki við að ónáða hann frá störfum sínum, þar sem erindið var heldur ekki annað og meira. - Þegar honum tók að leiðast biðin eftir heppilegu tækifæri til frekari kynna af hinum þjóðkunna menntamanni, fór hann heim til sín við svo búið og hafði ekki erindi sem erfiði.
Dr. Helgi Péturss var rúmlega þrítugur að aldri, er hann vann að rannsóknum sínum við Eyjafjallajökul. (F. 1872, d. 1949). Þetta var einn af fyrstu rannsóknarleiðangrum hans, en hann fór víða um landið og átti að lokum langan starfsferil um margra ára skeið eftir þetta. Hann hóf rannsóknir sínar á íslenzkum bergtegundum árið 1899. Þá hófust fyrir alvöru hin merku vísindastörf hans, er síðar leiddu til markverðra uppgötvana um aldur og uppruna mikils hluta íslenzkra bergtegunda. Bæði á unglings- og fullorðinsárum mínum las ég greinar hans, sem birtust á víð og dreif í blöðum og tímaritum á þeim árum. Þær vöktu aðdáun mína vegna þess, hve frábærlega vel þær voru skrifaðar. - Þegar hann svo samdi Nýalsbækur sínar, eignaðist ég fyrst ritin jafnóðum og þau voru gefin út og las þau af mikilli gaumgæfni. Hann óttaðist Helstefnuna, er hann nefndi svo, og einnig ýmiskonar önnur vandamál mannkynsins í framtíðinni. Hann var einn af víðsýnustu hugsuðum samtíðar sinnar á margskonar sviðum og horfði skyggnum augum fram í tímann. - Dr. Helgi Péturss hefur því ávallt skipað veglegan sess meðal merkustu manna þjóðarinnar. Sem jarðfræðingur er hann heimskunnur og viðurkenndur vísindamaður.

I.Ó.