Blik 1971/Bréf til vinar míns og frænda, 3. kafli, skortur á vinnuhagræðingu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1971



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


3. kafli


Skortur á vinnuhagræðingu


Þegar vélbátaútvegurinn hófst hér í Vestmannaeyjum (1906-1907), bjuggu hér í kauptúninu, sem þá var, um 650 manns. Mikill hluti þessa fólks var alinn hér upp, afkomendur bænda hér, sem þá jafnframt voru útgerðarmenn flestir, og svo afkomendur þurrabúðarfólks.
Fátækt og ömurleiki á ýmsa lund hafði legið hér í landi um langt skeið. Feður, afar og áar þessa fólks höfðu búið hér við áþján, kúgun og misrétti og í sárustu fátækt, flestir undir alvaldsstjórn dönsku einokunarkaupmannanna, lið fram af lið og kynslóð eftir kynslóð. Þarf ég ekki að fara fleiri orðum um það. Flestir skynibornir og eilítið lesnir landsmenn þekkja sögu einokunarverzlunarinnar og áhrif hennar á frelsi og efnahag landsmanna, ekki sízt þar sem hún naut sín svo fullkomlega sem í Eyjum, þar sem einangrunin var meiri en á flestum öðrum útkjálkum landsins. Hugsunarháttur kynslóðanna, starfshættir og daglegt líf hafa mótast af undirokun þessari og fjárhagslegri áþján.
Þó nokkurt fólk hafði jafnan flutzt hingað til Eyja sum árin og setzt hér að, þó að það ætti engra annarra kosta völ en tómthúsmannalíf, - þ.e. fiskveiðar, fuglaveiðar og önnur þjónustustörf í þágu bændanna, sem höfðu sameiginlegan rétt á öllu landi á Heimaey og alveldi í öðrum flokki, þegar einokunarveldinu sleppti. - Byggingarbréfin fyrir jörðunum lögðu það vald í hendur þeirra.
Flest aðkomufólkið var blásnautt og sumt nauðleitandi. Vonin um agnarlítið betri afkomu rak það sumt til Eyja, - já, ef til vill miklu fleiri en menn almennt gerðu sér í hugarlund.
Svo hófst vélbátaútvegurinn með nýjum tækjum og auknum tökum til sjálfsbjargar og bjargálna. Þá kom það berlegar í ljós en nokkru sinni fyrr, hve þetta aðflutta fólk bjó yfir miklum dugnaði og starfsorku, miklum kjarki og manndómi á ýmsa lund. Vankunnáttan á flestum sviðum stóð því mest fyrir þrifum, þegar mest reyndi á og nýi tíminn tók að gera auknar kröfur, - miklar kröfur - aldahvörfin í útgerðar- og atvinnumálunum.
Vélbátarnir með auknum og fullkomnari veiðarfærum, línu og netum, juku framleiðslumagn Eyjabúa margfaldlega. Tökin til sjálfsbjargar og bjargálna margfölduðust að sama skapi.
Fólk úr byggðum Suðurlandsins flykktist til Eyja og búsetti sig þar. Oft voru það ættingjar og vinir úr heimasveit, sem fluttu að áeggjan frænda og vina í Eyjum. Flestir komu til Eyja úr hreppum Rangárvalla- og Skaftafellssýslu hinni vestari. Fólksfjöldinn tvöfaldaðist á 3-4 fyrstu árum vélbátaútvegsins í Eyjum. Árið 1904 bjuggu í Eyjum 607 manns, en 1.350 manns 1910.
Yfirleitt reyndist þetta fólk bæði gott fólk og duglegt. En blásnautt og umkomulítið var það eins og ég drap á. Eyjabúar greiddu götu þess eftir mætti og veittu því húsaskjól, enda sáu þeir sér hag í búsetu þess í kauptúninu, því að alltaf skorti vinnuafl við hinn hraðvaxandi vélbátaútveg.
Svo mikið aflaðist á fyrstu vélbátana og svo hagstæð var útkoman á rekstrinum, að hagnaðurinn hrökk til að greiða andvirði margra bátanna eftir fyrsta eða annað útgerðarárið. - Ég tel mig ekki hafa leyfi til að nefna hér nöfn útgerðarmanna eða formanna, sem sögðu mér í trúnaði þessa staðreynd.
Þessi gróðavon af vélbátaútgerðinni olli því, að helzt allir heimilisfeður í Eyjum vildu eignast hlut í vélbát þar, sæju þeir nokkur tök á því. Þannig fjölgaði hér vélbátunum fyrstu árin eftir 1907 svo að með ólíkindum var. Árið 1907 eða á öðru ári vélbátaútvegsins hér, voru vélbátar Eyjamanna 22 og eigendurnir 119. Að 22 árum liðnum (1929) voru vélbátar Eyjamanna 97 talsins. Og eigendurnir skiptu hundruðum, að ég bezt veit.
Fyrstu árin var það algengt, að 5-6 menn ættu saman einn vélbát. Stundum voru eigendurnir 8 og jafnvel 10. Oftast átti formaðurinn mestan hlut í bátnum.
Réri sá, sem hlut átti í bátnum, ekki sjálfur á honum eða ynni við hann t.d. að beitingu línunnar, varð hann oftast að leggja til mann á bátinn. Margir útgerðarformennirnir eða bátshlutaeigendurnir gerðu sjálfir að aflahlut sínum af bátnum.


Þessi mynd er gerð eftir uppdrætti af athafnasvæðinu norðan Strandstígsins eða Strandvegarins, eins og hann heitir nú, og sýnir afstöðu krónna þar á tímabilinu 1910-1940 eða þar til krærnar voru rifnar.
Lengst til vinstri er frystihús Ísfélags Vestmannaeyja, sem byggt var á Nýjabæjarklöpp árið 1908. Til hægri við það (austan við það) er uppsátur, sem notað var á sumrum a.m.k. jöfnum höndum og Hrófin í vikinu milli bryggjanna (1 og 2).
Nr. 1 er Edinborgarbryggjan, bryggja Gísla J. Johnsen.
Nr. 2 er Bæjarbryggjan, sem byggð var á Stokkhellu á árunum 1907 og svo 1911.
Nr. 3 er Höjdalspakkhúsið svo kallaða, sem síðar var kallað „Svarta húsið“. (Sjá mynd af því í Bliki 1969, bls. 151).
Nr. 4 er „Herjólfspakkhús“. Það var byggt 1912 og kennt við Kaupfélagið Herjólf, sem lét byggja það. Síðar hlaut þetta hús nafnið Geirseyri. (Sjá um það í Bliki 1969). Húsið var rifið fyrir tveim árum og er nú Einar Sigurðsson að láta móta stórt hús á lóðinni, þegar þetta er skrifað.
Nr. 5 er Strandgata (Strandvegur).
Nr. 6 (talan neðst til hægri). Örin bendir á gamla, mjóa Formannasundið, nú hin myndarlega Formannabraut.
Nr. 7 er Króarsundið vestra.
Nr. 8 Króarsundið eystra.
Nr. 9 Austurbúðarbryggjan.
Bezt er að skoða myndina með stækkunargleri. Á sex stöðum sést orðið krær. Þarna er líka nafnið á Kuðungi, Skel, Jakobshúsi (Görn), Garðstöðum, Björgvin o.fl.

Aðkomusjómenn og aðra aðkomumenn, sem unnu við útgerðina, lét útgerðarmaðurinn æði oft búa heima hjá sér, sem væru þeir fastir heimilismenn, meðan á vertíð stóð.
Þannig reyndi oft mjög á húsmæður slíkra útgerðarheimila. Þær urðu að annast matreiðslu, þjónustubrögð og aðra hirðingu á fólki og húsi hins mannmarga heimilis þeirra hjóna. Þá var það líka algengur siður, að matast var í eldhúsunum. Sá heimilisháttur leiddi það af sér, að útgerðarmaður, sem byggði sér nýtt hús, hafði í því stórt eldhús með þeirri hugsun, að margt fólk þyrfti þar að matast. Þannig stendur á hinum rúmmiklu eða stóru eldhúsum í sumum eldri húsum hér í bæ.
Allt of lítið hefur verið skráð um þetta mikilvæga og markverða starf húsmæðra hér á þessu tímaskeiði, er þær voru á þennan hátt ekki veigalítill aðili að giftusamlegum atvinnurekstri eiginmanna sinna. Margar hverjar urðu að vinna nótt með degi, þegar mikið aflaðist og unnið var langan vinnudag bæði á sjó og landi. Þetta mikilvæga þjóðnytjastarf inntu margar, já, mjög margar húsmæður hér í byggð af hendi með frábærum dugnaði og myndarskap.
Og svo, þegar óveðrin skullu á og eiginmaðurinn, formaðurinn á bátnum, átti um lífið eða dauðann að tefla með 3-4 hásetum sínum, skyldi þá hafa reynt á sálarþrek nokkurrar mannveru meir en húsmóðurinnar, eiginkonunnar, sem var það ljóst, að bátsskelin, hin veikbyggða „ferjufjöl“ flaut í „drottins nafni“. Á það eitt urðu sjómannakonurnar að treysta. Já, hefur nokkuð nokkru sinni verið skráð um hetjulund og manndómsverk þessara eiginkvenna og húsmæðra, - og mæðra, sem önnuðust hóp barna samhliða öllum atvinnuönnum dagsins? Hvergi hefi ég lesið um dáð þeirra og dyggðir. Ekki væri heldur sú atorka og þær drýgðu dáðir óveglegt efni í sannsögulega íslenzka skáldsögu.
Árin líða og þróunin heldur áfram. Enda þótt útgerðin vaxi svo að segja ár frá ári í Vestmannaeyjum fyrir frábæran dugnað fólksins og framtakshug, á sér ekki stað nein teljandi framför í hagræðingu og tækni í landi við hagnýtingu hins mikla afla eða fiskframleiðslu, sem sífellt fór vaxandi ár frá ári með stærri vélbátum og sífellt meiri veiðarfæranotkun.
Þennan skort í landi, þessa kyrrstöðu á allri vinnuhagræðingu þar, varð að bæta upp með aukinni vinnu, síauknum þrældómi og striti aðgerðarmanna og annars landvinnufólks. Unnið var nótt með degi, þegar mikið aflaðist. Var þá ekki hirt um svefn eða hvíld fyrr en aðgerð var lokið hvert sinn. Því meiri afli, því minni svefn hjá mörgum aðgerðarmanninum.
Ég segi hér frá minni eigin sannreynd þessu máli mínu til skýringar. Ég á dagbókarblöð frá þessum árum.
Eftir að ég hafði slitið Unglingaskóla Vestmannaeyja í marzmánaðarlok 1929, réðst ég verkstjóri hjá einum af hinum stærri útgerðarmönnum hér í bæ. Ég hafði unnið hjá honum sumarið áður, og nú hafði hann sem sé ráðið mig verkstjóra hjá sér við annan bátinn sinn, en hann varð að hafa tvær aðgerðarstöðvar sökum húsnæðisskorts, og þá tvo verkstjóra sökum fjarlægðar milli stöðva.
Þessi útgerðarmaður var afburða duglegur og kjarkmikill atvinnurekandi og formaður, sem gerði út tvo stóra báta. Sjálfur var hann jafnframt formaður á öðrum þeirra.
Afli var mikill, og við lögðum að okkur, eins og þrekið frekast leyfði.
Ég taldi mig hafa dugmikið vinnulið, að mestu leyti karlmenn.
Við vorum ráðnir á fast mánaðarkaup, klippt og skorið, án tillits til þess, hversu langur daglegur vinnutími var eða reyndist (sbr. reglugerð hér framar).

ctr

Krær og króasund, sem merkt er með tölunni 8 á uppdrættinum.
(Ingólfur Guðjónsson frá Oddsstöðum tók myndina).

Og ekkert var hér frábrugðið því er annars staðar átti sér stað um kaupgreiðslur og vinnutíma. Unnið var, meðan verkefnið var aðkallandi og stætt var fyrir þreytu fyrir dagkaupið eitt, 12 krónur.
Laugardagurinn í dymbilvikunni rann upp kyrrlátur og fagur. Við höfðum hvílzt vel daginn áður, föstudaginn langa. En nú áttum við líka von á miklum tveggja nátta afla úr netunum. Strax um morguninn hófum við þegar undirbúning að aðgerðinni. Við fylltum t.d. stór fiskþvottakör af sjó til þess að þvo fiskinn úr. Þennan sjó drógum við í fötum upp um gólfið á aðgerðarkrónni á morgunflóðinu. Gat var á gólfinu, og var það ætlað til þessa verks. En aðgerðarkróin stóð á steyptum stólpum æðispöl norðan við Strandstíginn, þar sem flæddi undir króargólfið við flæði. - Engin vatns- eða sjóveita var þá til í Eyjum, svo að flytja varð sjó til þvottar á fiskinn í stömpum á handvögnum, þar sem sjórinn varð ekki dreginn upp um króargólfið, eins og við gerðum, af því króin var þarna staðsett.
Frá Strandstígnum norður að aðgerðarkrónni lá timburpallur, svokallað króarsund, með beitingarkróm eða aðgerðarkróm til beggja handa.
Klukkan tvö um daginn, laugardaginn fyrir páska, kom báturinn „okkar“ að með 4.000 af fiski, 4.000 þorska. Þá hófst aðgerðin.
Hásetarnir tóku þegar að losa bátinn, er þeir höfðu bundið hann við bryggjuna, sem var Gamla bæjarbryggjan, af því að króin okkar var spölkorn vestan við hana.
Tveir hásetar stóðu í lestinni með fiskstingi, sem þeir stungu í hausinn á fiskinum, vógu hann upp og köstuðu honum upp á þilfarið. Þar stóðu aðrir tveir hásetar með fiskstingi og köstuðu fiskinum upp á bryggjuna. Þar tóku svo „mínir menn“ við og köstuðu fiskinum upp á vörubifreið, sem ók honum upp á Strandstíg (þangað, sem pallurinn lá norður frá honum). Pallurinn bar ekki bifreið, svo að losa varð af henni við Strandstíginn og aka síðan fiskinum á handvagni norður sundið norður í aðgerðarkróna. Þar var hurð hennar lögð á rönd innan við dyragættina og fiskinum kastað yfir hana inn í stíu þar við dyrnar.
Liðið var fast að miðnætti, þegar 2-3 menn höfðu lokið við að aka fiskinum upp í aðgerðarkróna.
Aðgerðina hófum við um leið og fyrstu fiskarnir komu í króna: Síðan unnum við að aðgerðinni það sem eftir var dagsins, allt kvöldið og alla páskanóttina. Nægilegt var vinnuaflið til þess að öll aðgerðin gengi nokkurn veginn jöfnum höndum, hausingin, slítingin, flatningin og söltunin.
Einn af flatningsmönnunum var þingeyskur rithöfundur, sem verið hafði vertíðarmaður hjá þessum útgerðarmanni árum saman. Hann var þrælduglegur og þannig skapi farinn, að hann lífgaði upp mannskapinn með hnyttinyrðum og gamansögum, sérstaklega þegar hann fann, að þyngjast tók undir í starfinu, menn teknir að þreytast og dofna á sál og líkama. Fáar af þessum gamansögum man ég orðið, enda kjarnalitlar, en gerðu þó gagnið sitt, þegar svona stóð á. Hér kemur ein um Strandamanninn aðsjála, ef svo mætti kalla hana.
Strandamaður þessi fékk kvalir tönn, er verst gegndi á vertíð í Eyjum. Hann fór til Kolka læknis, sem dró tönnina úr manninum með því að deyfa hann fyrst, auðvitað. Strandamaðurinn gizkaði á, að læknisaðgerð þessi hefði tekið svo sem 10 mínútur. Fyrir verkið þurfti hann að greiða lækninum 4 krónur. Það þótti Strandamanni fáheyrt okur. ,,Hugsa sér,“ sagði hann, ,,ég greiddi lækninum sem svarar þriðjung dagsverks fyrir 10 mínútna starf.“ Svo leið fram á vertíðina, fram undir lokin. Þá fékk Strandamaður illt í aðra tönn. -„Nú, ekki í sömu tönnina! Mikið var. Þakka mátti hann Kolka lækni.“ Þessu skaut einhver inn í frásögn rithöfundarins. Þá var hlegið og líf færðist í handtök og starf. ,,Nei, alls ekki sömu tönnina,“ lagði rithöfundurinn áherzlu á. Svo hélt hann áfram sögu sinni. - „Ekki tímdi Strandamaðurinn að greiða lækninum aðrar 4 krónur fyrir tanntöku, svo að hann fékk einn af félögum sínum til þess að draga úr sér tönnina með þráðarspotta. Félaginn batt um tönnina, togaði og togaði og sleit og sleit. Strandamaður æpti af sársauka og bar sig aumlega. Loks náðist tönnin. Tanntaka þessi tók réttan hálftíma. „Þú greiðir mér nú fyrir þetta strit svo sem 30 aura,“ sagði tanntökumaðurinn, sem var æringi og vissi og skildi meir, en Strandamanninn grunaði. „Ég verð víst að gera þa,“ sagði hann, ,,og þú ert vel að þeim kominn, því að þetta eru sömu laun og ég fæ hér fyrir kvart tíma vinnu.“ (Tímakaup var þá kr. 1,20). - Kolka var læknir í Eyjum á þessum árum.
Nú leið nokkur stund með skrafi og skeggræðum. Þá tók önnur sagan við hjá flatningsmanninum þingeyzka: Prestur nokkur hafði flutt þungyrta ræðu um synd og sekt og eilífa fordæmingu. ,,En ég tek það fram,“ sagði sögumaður, „að þetta atvik gerist aldrei í Þingeyjarsýslum. Þar er fólkið ekki syndugt eða sektum hlaðið! Og prestarnir þá heldur ekki svo ákaflega gjarnir á að brigzla sóknarbörnum sínum um syndsamlegt líferni.“ - Þá var hlegið og spaugað um þingeyzka siðfágun. Svo hélt sögumaður áfram: „Þegar prestur steig út fyrir kirkjuþröskuldinn, stóð þar aldraður bóndi, fátækur og óskaði að ræða eilítið við prestinn. Já, þetta var fátækur barnamaður, sem unnið hafði baki brotnu frá fyrstu tíð og ætíð reynzt í hvívetna hinn heiðarlegasti siðgæðismaður. Hann sagði við prestinn, um leið og hann varp öndinni: „Það er ömurlegt hlutskipti, að vinna baki brotnu langa ævi, skila þjóðfélaginu nýtum og heiðvirðum börnum, lifa við fátækt og basl og hafa aldrei eyri af öðrum í daglegu lífi, og fara svo til helvítis að æviverki loknu. Það eru vissulega þunnar trakteringar, prestur góður.“ ,,Taktu ekki þessi orð mín of alvarlega, bóndi góður. Forsjónin sér stundum að sér,“ svaraði prestur.
Eftir nokkra þögn, hélt rithöfundurinn áfram sögum sínum:
„Húsvíkingur hafði gefið kaupmanni á kjaftinn þar norður frá og verið sektaður um 10 krónur eða sitja inni ella 14 daga. Húsvíkingurinn lagði 20 krónur á borðið fyrir framan sýslumanninn. ,,Nei, þér eigið aðeins að greiða 10 krónur,“ sagði sýslumaðurinn. „Já, veit ég vel,“ sagði Húsvíkingurinn, en hinar 10 krónurnar eru fyrirframgreiðsla; því að á morgun býst ég við að rétta kaupmanninum annan vel útilátinn kinnhest.“ „Þetta gerðist á fyrstu árum Kaupfélags Þingeyinga,“ bætti þingeyzki rithöfundurinn við svo sem eins og til nánari skýringar á atburðinum. En sá viðbætir virtist vekja litla eftirtekt starfsmannanna, því að fæstir þeirra vissu deili á þingeyskri verzlunarsögu.
Þannig lét þessi þingeyzki rithöfundur og flatningsmaður dæluna ganga öllum til nokkurrar ánægju og hressingar, meðan þreytan og svefninn sótti ekki allt of mikið á hug og hjarta hins starfandi lýðs. Og sögur hans entust fram eftir allri nóttu. En þá sótti þreytan svo á, að gamansögur og hnyttinyrði heyrðust naumast. Þá voru það helzt kvennafarssögur og tvíræðar setningar, sem náðu eyrum okkar aðgerðarkarlanna. - Adam er löngum samur við sig! -
Þegar leið á páskanóttina var vinnuliðið tekið að þreytast. Þögn var ríkjandi og þumbaralegt var andrúmsloftið. Eitthvað var í aðsigi, fannst mér.
Klukkan á slaginu 8 á páskadagsmorguninn var öllum hnífum fyrirvaralaust stungið niður í flatningsborðið. Vinnu var lokið, hlífðarklæðum kastað af sér og skundað heim í fússi, fannst mér, til að snæða, sofa og hvílast. Þá var eftir að rista 700 þorska á kviðinn og slíta slógið úr þeim.
Hvað var nú til ráðs að taka? Ekki gat fiskurinn legið með slóginu ef til vill dægrum saman án þess að skemmast. - Ég stóð einn uppi. Og ég fann til ábyrgðar gagnvart starfi mínu og húsbónda mínum, útgerðarmanninum, sem var á sjó, þó að páskadagur væri. Til hans náði ég því ekki.
Ég tók það ráð að rista sjálfur og einn þessa 700 þorska á kviðinn og slíta úr þeim slógið. Því verki hafði ég lokið um það bil klukkan 12 á hádegi. Þá var ekkert útvarp og flestir prestar landsins munu þá hafa átt það eftir þennan blessaðan páskadag að stíga í stólinn og prédika m.a.: ,,Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.“
Á 2. páskadag náði ég saman aðgerðarmönnunum til þess að fletja þennan fisk, sem eftir var hjá okkur á páskadagsmorguninn og salta hann. Enda hófst þá aðgerð að nýju þegar um kvöldið.
Þegar svo upp var gert við vertíðarlokin, var ekki minnst á aukagreiðslu fyrir störf á stórhátíð. Allt slíkt þótti þá sjálfsagt að inna af hendi ókeypis, þegar hagsmunir atvinnurekandans voru í veði. Sá siður var þá algildur og alls staðar ríkjandi við aðgerð og beitingu í verstöðinni, að ég bezt vissi.
Frændi minn góður. Gerðu þér grein fyrir því, að sama fiskinum var lyft upp í 10. sinni, er hann var lagður í staflann til söltunar, eftir að báturinn var bundinn við bryggjuna.
Ekki kemur það mér í hug að leggja útgerðarmanninum eða atvinnurekandanum til lasts þennan skort á hagræðingu við aðgerð og verkun fisksins. - Nei, það væri rangt. Með atorku og frábærum dugnaði hafði hann brotizt fram til að auka útgerð sína, kaupa stærri báta með sterkari vélum, kaupa og nota meiri veiðarfæri, allt til þess gert að auka framleiðslumagnið og þar með tekjur sínar og hagnaðarvon. Hvort sem það svo hefur vakað fyrir honum eða ekki, þá hlaut aukið aflamagn, aukin framleiðsla, að auka útflutning þjóðarinnar og þá um leið leiða af sér aukinn þjóðarhag.
En í landi varð að una við gömlu hagræðinguna, notast við gömlu aðgerðarhúsin frá áraskipaöldinni, er fiskurinn var dreginn „úr Sandi“ á krókum, fiskdráttarkrókum svokölluðum, upp að aðgerðarkrónum,eða ekið þangað á handvögnum, eftir að þeir komu til sögunnar, - um aldamótin. Allt fjármagn útgerðarmannsins var notað til báta- og veiðarfærakaupanna.
Þegar svo umsalta þurfti saltfiskinn, endursalta hann, var honum ekið á handvögnum úr aðgerðarkrónni suður timburpallinn, króarsundið, og svo austur Strandstíginn, eins og gatan hét þá (Strandvegur nú) og svo upp (suður) Formannasundið (þar sem síðar var lögð Formannabrautin, breið og malbikuð) og upp (suður) í Kuðung, sem var rúmgóð fiskkró eða timburskúr fyrir vestan Formannasundið og stóð á nokkrum hluta þeirrar lóðar, þar sem Óskasteinn (Formannabraut 4) stendur nú. Formannasundið var þá, að mig minnir, um þriggja metra breið gata, malborin og erfið umferðar með pollum og pyttum og með steinbrúnum og skólprásum beggja vegna.
Uppi í Kuðungi umsöltuðum við allan aflann af bátnum, sem mun hafa numið 800 smálestum yfir vertíðina, frá áramótum til vertíðarloka, 11. maí. Tveir og þrír menn hjálpuðust að við hvern handvagn, sem naumlega gátu mætzt í Formannasundinu sökum þrengsla þess.
Um vorið eða sumarið var allur aflinn síðan fluttur úr Kuðung og honum ekið til þvottar á handvögnum og svo frá þvottastað á stakkstæði til þurrkunar.
Þá þykist ég hafa veitt þér nokkra hugmynd um þann tilfinnanlega skort á allri vinnuhagræðingu, er hér var ríkjandi um tugi ára, eftir að vélbátaútvegurinn færðist verulega í aukana og framleiðsla sjávarafurða óx og margfaldaðist hér allri þjóðinni til ómetanlegs hagnaðar.
Þessi skortur á atvinnuhagræðingu við verkun aflans kom tilfinnanlegast niður á útgerðarmönnunum sjálfum einmitt á þessu ári og næstu árum, þegar heimskreppan mikla tók að gera vart við sig og skall síðar yfir í algleymingi. Þá töpuðu þeir framleiðendur mest, sem öfluðu mest og þurftu af þeim ástæðum að kaupa mestan vinnukraft við framleiðslustörfin, sérstaklega við verkun aflans í landi. Þar skipti skorturinn á allri hagræðingu mestu máli. Hann átti að vinnast upp með auknu vinnuafli, sem var óeðlilega ódýrt þá, en afurðaverðið féll stórkostlega í verði á erlendum markaði ár frá ári.
Á þessum árum hélt ég einskonar heimilisdagbók um öll mín viðskipti þá, tekjur og gjöld. Hún tjáir mér ýmislegt, sem ég væri annars búinn að gleyma með öllu. Þegar ég gerði upp við útgerðarmanninn eftir 40 daga strit, frá 1. apríl til 11. maí (lokadag), greiddi hann mér réttar 500 krónur fyrir tímann eða kr. 12,50 á dag til uppjafnaðar allan tímann. Það var ekkert minna kaup en almennt gerðist hér þá, kr. 12,00 á dag, og 50 aura hefi ég þá haft á dag fyrir verkstjórnina. Verkalýðssamtökin voru þá lítils megnug hér í byggð, og réðu því atvinnurekendur sjálfir að mestu leyti öllum kaupgreiðslum.

Til baka