Blik 1969/Hetjan fótalausa og eiginkonan, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit Bliks 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Hetjan fótalausa og eiginkonan


Svipþyrping sækir þing
í sinnis hljóðri borg“.
G.Th.
I.

Haustsvalann lagði inn um opinn gluggann á fátæklegu vistarverunni í Sjólyst, litla og lágreista timburhúsinu utan við lækinn, niður við Strandgötuna. Þarna bjuggu sárfátæk hjón, Jón fótalausi og konan hans „hún Guðrún hans Jóns fótalausa“, eins og almenningur orðaði það, en Jón gekk á hnjánum, því að hann hafði misst báða fæturna fyrir um það bil 30 árum, þegar hér er komið tíð og tíma. Að því slysi kem ég seinna í þessari frásögn minni.

Jón S. Sigurðsson.

Þessi hjón voru kunnir þegnar í litla þorpinu á Nesi í Norðfirði á mínum bernsku- og unglingsárum, hann kunnur sjómaður, sem gerði sjálfur út litla, færeyska árabátinn sinn hvert sumar og réri ýmist við annan mann eða þriðja.
Guðrún kona hans var líka til umræðu í þorpinu, talin beisk og velkt eiginkona, mótgangssöm og mædd. Þetta vissi ég að var satt, þótt ég skildi ekki þá ástæðurnar fyrir því né gerði mér þær í hugarlund, þegar Guðrún reyndist mér bezt og ég var sem grár köttur á heimili þeirra hjóna. Nú skil ég hana mun betur, því að ég veit nú og skil, að móðurhjartað, sem barðist þar í brjósti, var hlaðið sorg og söknuði, sem fáir vissu um, því að „hún Guðrún hans Jóns fótalausa“ bar ekki sorg sína og söknuð á stræti. Fjarri fór því. Fáir Norðfirðingar vissu þá og munu nokkru sinni hafa vitað, hvað þessi kona hafði þolað og liðið, er hún flutti til Norðfjarðar norðan frá Seyðisfirði laust eftir aldamótin. Ég vissi það heldur ekki fyrr en löngu síðar, er ég tók að kynna mér ævi þessara hjóna, sem jafnan voru talin í hópi minnstu náunganna okkar í litla þorpinu.
Eins og grár köttur, sagði ég. Já, barnaskóli þorpsins var þá til húsa í næsta húsi utan við Sjólyst, í lágreistu viðbyggingunni framan við íbúðar- og verzlunarhús Gísla kaupmanns Hjálmarssonar. Aðeins stakkstæði kaupmannsins skildi þessi tvö hús að, Sjólystina og vistarverur barnaskólans, þar sem lífið logaði margan daginn í ryskingum og rekistefnum sökum misheppnaðra kennslukrafta. En það er önnur saga og verður ekki birt í Bliki að sinni.
Æskuheimilið mitt var að Hóli, sem er og var handan við lækinn og fjær sjónum en Sjólystin. Allt var þetta býsna gott nágrenni og hæg tökin hjá mér að heimsækja öðru hvoru hjónin í Sjólyst, Jón og Guðrúnu.
Á vetrum var lítið um að vera í litla þorpinu. Þá drógu fátæklingarnir fram lífið á trosfiski og bútung, grjónalús og mjólkurlögg, kaffidropa og sykurögn. Allt var svo lítið og lágkúrulegt hjá öllum þorranum, en því stærra hjá kaupmönnunum og prestinum, en þeir voru valdamenn þorpsins í einu og öllu, bæði í efnalegum og andlegum skilningi. Allir lutu því valdi, þar til uppreisnin átti sér stað á sögulega fundinum í Gamla goodtemplarahúsinu. Það er líka önnur saga. Ég veitti því eftirtekt, að Jón fótalausi sat oft við að lesa kvæði Gríms Thomsens og kunni æðimörg þeirra og hafði yndi af að þylja þau í tómstundum vetrarins. Hann mun hafa miklazt af því með sjálfum sér, þegar fram liðu tímar, að hann var á tvítugsaldrinum vinnumaður hjónanna á Bessastöðum, Gríms skálds og frú Jakobínu.

- - -

Fyrir réttri öld bjuggu fátæk hjón að Gestshúsum vestast á Álftanesi í Bessastaðasókn. Þau hétu Sigurður Arason og Gróa Oddsdóttir. Þau eignuðust að minnsta kosti 9 börn, þrjár stúlkur og sex pilta. Hinn 22. september 1856 fæddi Gróa húsfreyja að Gestshúsum bónda sínum tvíbura, tvo pattaralega sveina. Þeir voru ausnir vatni, eins og það heitir og lög gera ráð fyrir, og skírðir Jón Sigurður og Oddur Ari.
Sveinar þessir uxu úr grasi eins og hin systkinin í Gestshúsum og urðu eflings ungmenni, sem lærðu fyrst og fremst að vinna, dálítið að lesa, ekkert að skrifa og ekkert að reikna, enda eðlilegt, þar sem enginn barnaskóli var í hreppnum. Hvorki voru efni né aðstaða til að kosta börnin í Gestshúsum til heimanáms t. d. hjá prófastinum í Görðum, séra Árna Helgasyni, eins og sumir heldri menn í hreppnum gátu gert og gerðu, - enda lézt prófasturinn árið áður en tvíburarnir fermdust.
Lífsbaráttan var hörð hjá hjónunum í Gestshúsum með allan barnahópinn sinn, og á stundum var sultarvofan ekki fjarri bæjardyrunum. En hraust voru þessi börn og harðgerð.
Tvíburarnir Jón og Oddur voru ekki gamlir, er í ljós kom, að þeir létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna.
Árið 1867 er fjölskyldan í Gestshúsum 11 manna fjölskylda. Eru þá tvíburarnir 11 ára og þrjár systurnar eldri. Að vorinu veiðir faðirinn með drengjunum sínum hrognkelsi til matar og á sumrin stunda þeir fiskveiðar úr vörinni norðan við bæ inn. Svo heyja þeir túnskækilinn, sem gefur af sér rúmlega kýrfóður. Flesta vetur uppvaxtarskeiðs þeirra réri faðirinn á teinæringi suður í Garði á Reykjanesi.
Eftir ferminguna var hugsað til að koma tvíburunum í vinnumennsku til bænda þarna á Álftanesinu til þess að létta undir framfærslu hins fjölmenna heimilis.
Tvíburarnir voru 12 ára, er hinn hálærði, fyrrverandi hirðmaður danska konungsins, Doktor og Legationsráð og Riddari af Dannebrog Grímur Þorgrímsson Thomsen settist að á Bessastöðum og gerðist þar bóndi. Vissulega gat það verið keppikefli kröftugra og framsækinna ungmenna í Bessastaðasókn að gerast vinnuhjú hjá hinum grísku- og latínulærða bónda og alþingismanni, sem líka var skáld, svo að orð fór af.
Eldri strákarnir í Gestshúsum, tvíburarnir, kunnu kvæðið, sem ort var til skáldsins og birt var í Nýjum félagsritum fyrir svo sem 20 árum þá. Það hafði Gróa móðir þeirra kennt þeim. Hún var gáfuð og fróðleiksfús kona, sem las og lærði kvæði og sögur, eftir því sem þá voru tök með fátækri alþýðu, og kenndi síðan börnum sínum hvorttveggja. Þessarar fróðleiksmiðlunar nutu börnin hennar æ síðan. Hún hafði sjálf yndi af því á löngum skammdegiskvöldum að miðla börnum sínum af þeim þjóðlega fróðleik, sem hún hafði sjálf aflað sér. Allt þetta þjóðlega efni túlkaði hún þeim og skýrði af alúð og kostgæfni, eins og t.d. vísuna þessa til Gríms skálds og nágranna:

Mundu þá, Grímur, meyna jökulbúna
og meður fjallatindinn dýrðarháa,
sem hjúpar sig hökli þokugráum.

Einnig hafði Gróa húsfreyja lært nokkur þeirra kvæða, sem þá höfðu birzt almenningi eftir Grím Thomsen, t.d. í Nýjum félagsritum, og kennt þau síðan börnum sínum.
Sjómannavísurnar hans Gríms, sem birtust í Nýjum félagsritum 1844, voru kunnar um Suðurnesin og Inn-nesin og sungnar með sjómönnum þar og fjölskyldum þeirra. Sjórinn og allt hans átti ítök í hug og hjarta fólksins þar og ekki síður hjá hjónunum í Gestshúsum en annars staðar. Börnin þar höfðu yndi af kvæðunum, eftir að Gróa móðir þeirra hafði skýrt þau fyrir þeim og gert þeim kvæðin hugljúf á þann hátt.

Grímur kvað um sjóinn:

En hvort þú æðir fram í ógnarveldi
eða þú bærist ekki kyrr og rór,
ertu þó ætíð eins, enn mikilfelldi,
almáttugs drottins spegill, blái sjór,
sem sjálfur ert svo djúpur og svo stór,
en umgjörðin þín grams- og keisaraveldi.

Og svo var það skýring móðurinnar á síðari hluta haustvísunnar hans Gríms:

Í brjósti mannsins haustar einnig að,
upp af hrelldu hjarta gleðin flýgur,
en vetrarmjöll í daggardropa stað
á dökkan lokk og mjúkan fagurt hnígur.
og æskublómin öll af kinnum deyja.

Og svo var það vísan hans Æru-Tobba.

Börnin í Gestshúsum spreyttu sig á því í þessum kvæðaskóla móður sinnar að finna ráðninguna við þessum ljóðlínum þar:

Enginn þekkir þetta vað,
þó munu allir ríða það.

Þetta var eini skólinn, sem börnin í Gestshúsum á Álftanesinu nutu í uppvextinum, og hann var fjölskrúðugur nokkuð, því að kvæði fleiri skálda voru þar krufin til mergjar, og svo kjarnakaflar Íslendingasagnanna. Víst hafði Bessastaðaskólinn þarna í grenndinni áhrif út fyrir skólaheimilið, og svo vaknaði sérstakur metnaður með fólkinu gagnvart kvæðum Gríms Thomsens, er hinn tigni sveitungi var nú setztur að á höfuðbólinu sjálfu.
Hinu fátæka fólki og lítilsiglda í moldarkofunum á Álftanesi fannst mikið til þess koma, þegar svo mikils metinn Íslendingur og lærður, auðugur andans höfðingi með alla hina mörgu og háu titla vildi svo litlu una og smáu lúta sem nábýli við það.
Í fyllingu tímans réðst svo Jón S. Sigurðsson, ungmennið frá Gestshúsum, vinnumaður að Bessastöðum til skáldsins Gríms Thomsens. Þráðu marki var náð. Þá hafði andans höfðinginn og húsbóndinn þar sængað hjá „ungfrúnni“ og „yngismeynni“ frá Hólmum í Reyðarfirði 2-3 ár eða síðan í júlímánuði 1870, að séra Hallgrímur Jónsson, sóknarprestur á Hólmum, gaf þau saman í heilagt hjónaband, hann fimmtugan og hana, jómfrúna, hálffertuga. Dásamleg húsmóðir var hún, hlý, umhyggjusöm og nærfærin uppburðarlitlu ungmenni úr fátæklegum húsmannskofa, hún frú Karólína Jakobína Jónsdóttir prests Þorsteinssonar í Reykjahlíð.
Af húsbóndanum hafði vinnufólkið hins vegar lítið að segja. Frekar var hann þungur og þumbaralegur við það, afskiptalítill og fjarrænn.
Stundum sást skáldið jafna mön mörum sínum úti á túni á Bessastöðum í sólskini og sunnan blæ, þar sem hann lifði einn með þeim í skáldadraumum sínum og minnum frá þeim stundum, er hann þjónaði Goðmundi kóngi á Glæsivöllum í dýrð og djásni. Þannig hugleiddu vinnustrákarnir allt um hann og hugarheim hans, þegar hann fór þar um þögull og hugsandi, án þess að yrða á þá einu orði, en kjassaði hundinn sinn, sem flaðraði upp um hann. Síðar orti skáldið þetta: „... ann guð þér bæði hunds og hests, hafirðu yndi af þeim.“
Alla þessa orðlausu framkomu skáldsins við strákana og afskiptaleysi bætti frúin upp með heillandi glaðværð og vakandi umhyggjusemi, svo að unun var að vera í þjónustu hennar og vinna henni.
Árin liðu. -
Mikið orð fór um Álftanes eins og víðar á Suðurlandi af góðri afkomu fólks á Austfjörðum, eftir að Mandalsleiðangurinn norski hóf síldveiðar þar í fjörðunum (1868). Síðan færðust síldveiðar Norðmanna þar í aukana ár frá ári með netum og nótum. Sögurnar um þá, veiðibrellur þeirra og tækni voru líkastar ævintýrum. Þeir voru sagðir umkringja síldartorfurnar, er þær streymdu inn í firðina, með geysistórum, smáriðnum vörpum eða nótum, sem sagðar voru allt að 150 faðma langar og nær 20 faðma djúpar. Hvílík feikn og undur!
Og gróði Norðmanna af síldveiðum þessum var sagður ofboðslegur, svo að hann átti að nema milljónum króna sum árin. - Nokkrir molar af borðum stórgróðamannanna voru sagðir hrjóta til hins örsnauða fólks, sem vann hjá þeim t.d. við að salta síldina í þar til gerðar tunnur.
Sum íslenzku blöðin endurvörpuðu nokkru af því, sem Norðmenn létu norsku blöðin hafa eftir sér um Ísland og Íslendinga, þegar þeir komu heim til Noregs eftir gróðavænlega síldarvertíð á austfirzku fjörðunum. Ein slík norsk blaðafregn varð Jóni S. Sigurðssyni minnisstæð, enda var hún mikið rædd manna á milli eftir að hún birtist í íslenzka blaðinu. Fregnin var þess efnis, að Ísland væri næst Írlandi „hið verst leikna og kvaldasta land i Evrópu.“
Jafnframt þessum blaðaskrifum, sem vöktu umtal, gengu miklar sögur um Suðurnes og Innnes af aflamagni á Austfjarðamiðum og af aflasæld Austfirðinga, eftir að þeir byrjuðu að veiða fisk á línu.
Allar þessar veiðifréttir að austan og vissan um batnandi afkomu fólks þar frá ári til árs urðu þess valdandi, að fólk af Suðurlandi tók að flykkjast til Austfjarða hvert sumar í atvinnuleit. Margt af því sunnlenzka fólki kom ekki aftur suður til gömlu heimkynnanna heldur ílentist á Austfjörðum, settist þar að og staðfesti þar ráð sitt.
Mest orð fór fyrst í stað af uppgangi Seyðfirðinga og Mjófirðinga, þar sem Normennirnir veiddu mesta síldina og höfðu mestar framkvæmdir á prjónunum samfara síldveiðunum. Þar þutu timburhúsin upp við strendurnar byggð úr norskum viði, og bólverk og bryggjur breyttu svip fjöru og strandar innan fjarða. Róðrarbátum í fjörðum þessum fjölgaði ört og útgerð þeirra óx ár frá ári. Allar þessar fregnir og frásagnir heilluðu unga menn og framsækna.
Þegar Jón S. Sigurðsson frá Gestshúsum stóð á tvítugu (1876), vinnumaður hjá skáldinu á Bessastöðum, afréð hann að leita sér atvinnu á Austfjörðum. Innst inni með honum leyndist sú hugsun, sú þrá, að gerast athafnamaður austur þar, - stunda þar sjó, reka útgerð, græða, eflast að álnum. Aldrei hafði hann ætlað sér að stunda landbúnaðinn, heldur sjóinn eins og faðir hans og forfeður.
Það atvikaðist þannig, að Jón S. Sigurðsson réðst vinnumaður austur á Vopnafjörð til verzlunarstjórans þar, Péturs Guðjohnsen. Það gat verið góð byrjun örsnauðum vinnupilti, meðan hann var að kynnast staðháttum og aðstöðu allri til að standa á eigin fótum með atvinnurekstur sinn.
Eftir að hafa verið eitt ár í vinnumennsku hjá verzlunarstjóranum, stundað sjó í þjónustu hans, heyjað handa skepnum og hirt kýr og kindur, stofnaði Jón S. Sigurðsson til eigin útgerðar, varð „sjálfra sín“, eins og það var kallað. Jón æskti þess að hagnast mest sjálfur á dugnaði sínum, vinnuþreki og framtaki. Þess vegna gekk hann úr vinnumennskunni hjá verzlunarstjóranum 1877 og fluttist út í Leiðarhöfn við Kolbeinstanga yzt í Vopnafirði. Þar efndi hann til útgerðar og stundaði sjóinn ötullega vorið og sumarið fram á haust og aflaði vel. Hann óx að álnum, eins og hann hafði einsett sér, og vildi meira. Þá var næst að flytja til Seyðisfjarðar og setjast þar að í mammonslandinu mikla, þar sem sjósóknin og síldveiðin fór enn vaxandi og verzlun óx frá ári til árs, bæði innan héraðs og við nærliggjandi fjarðabyggðir og Fljótsdalshéraðið.
Frá Seyðisfirði bárust um byggðir til sjávar og sveita orð og fréttir af Imslöndum, Rekdöhlum, Bövingum, Nielsenum og Rasmusenum og hvað þeir nú hétu allir þessir útlendu athafnamenn, sem settu svipinn á allt athafnalífið á þessum uppgangs- og gjörbreytingatímum vaxandi veiðitækni og framleiðslu.
Fólkið bar takmarkalausa virðingu fyrir öllum þessum útlendu mannanöfnum, því að af þeim lagði auraþef og athafnailm. Og angan af steik og annarri annarlegri matseld barst iðulega á Fjarðaröldu að vitum fátæklinganna íslenzku, þegar þeir áttu leið fram hjá bæjardyrum eða eldhúsglugga þessarra erlendu athafna- og stórgróðamanna. En sá sæti ilmur var næsta óþekkt fyrirbrigði í þessum fjarðabyggðum þar eystra, áður en útlendu athafnamennirnir settust þar að.
Vorið 1880 barst sú frétt til Vopnafjarðar, að séra Jón Bjarnason, umræddur og kunnur klerkur í Nýja-Íslandi í Ameríku, væri í þann veginn að flytja til Seyðisfjarðar og gerast sóknarprestur þeirra Seyðfirðinga. Ekki dró sú fregn úr virðingu fólks í sjávar- og sveitabyggðum Austurlands fyrir Seyðfirðingunum og athafnalífinu þar. Og svo var kona prestsins hún frú Lára Mikaelína Pétursdóttir Guðjohnsen, söngkennarans fræga og höfundar íslenzku sálmasöngs- og messubókarinnar. Frúin var líka systir Péturs, hins kunna verzlunarstjóra í Vopnafirði. Ekki spilltu þannig prestshjónin glæsibragnum yfir þessu öllu saman. - Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla, segir skáldið og sálrýnandinn.
Fólk flykkist til Seyðisfjarðar og settist þar að.
Einn af hinum mörgu innflytjendum til Seyðisfjarðar á þessum glæsitímum var Jón S. Sigurðsson frá Gestshúsum. Þá efldust draumar hans um athafnir og álnir, auð og ávexti hans. Lengi sumars 1880 bar Jón blaðið af Norðlingi í vasanum, þar sem þessi klausa stóð skýrum stöfum: „Síldveiðin er sá afli, sem fram yfir annan sjávarútveg hefur þá aðalkosti, að hann er fljótteknastur og hættuminnstur, arðmestur og kostnaðarminnstur. Nú eru Norðmenn, sem búnir eru að halda til og stunda síldveiðar hér eystra í 12 ár, einkum á Seyðisfirði, búnir að leiða menn úr skugga um, hvað þessi veiði er fljóttekin og arðsöm. Þeir eru einnig búnir að kenna þeim veiðiaðferðina, svo að þeir ættu ekki lengur að horfa á þá aðgerðarlausir aura upp tugum, já, hundruðum þúsunda af krónum í flæðarmálinu hjá húsum þeirra og hafast ekki annað að en það, sem Norðmenn af náð sinni gefa þeim í landshlut og griðkonum þeirra í kaup fyrir að hjálpa til að salta síldina.“
Og útlendingarnir aðkomnu „lærðu íslenzku“ furðu fljótt og töluðu hana innan tíðar alveg „ville vekk“. Á því máli bentu þeir hinum fáfróðu mönnum t.d. á ýmsar markverðar staðreyndir um síldina: „Hann er skrítinn, síldurinn, hann stendur som prjónur, naar hann döyr“. Mörg fleiri málblóm bárust um byggðir og bæi þar í fjörðunum á þessum uppgangs- og gullauðgitímum fyrir atbeina erlendra „síldarspekúlanta“.
Þessi brýning Akureyrarblaðsins settist að í sinni Jóns S. Sigurðssonar. Nú var hann afráðinn að demba sér inn í athafnalífið, auðgast að álnum og eflast að völdum, dugmikill og framsækinn eins og hann var, mannvænlegur og metorðagjarn, en menntunarsnauður ungur maður tæplega 24 ára.
Margt fer öðruvísi en ætlað er og enginn veit örlög sín fyrir. Þegar Jón S. Sigurðsson frá Gestshúsum flutti til Seyðisfjarðar, steig hann örlagasporið mikla og afdrifaríka. Afleiðingar þess fylgdu honum síðan alla ævi, vörpuðu skugga á líf hans og alla tilveru.
Fyrst í stað réðst Jón til hjónanna Jónasar Þorvarðar Stefánssonar og Margrétar Stefánsdóttur, sem ráku dálitla útgerð frá Fjarðaröldu í Seyðisfirði. Sunnlenzkir sjómenn réru á báti þeirra.
Sumarið 1880 leið í sæld og syndum eins og gengur hjá mannanna börnum, enda þótt Gunna litla frá Bakkagerði væri ekki enn komin í spilið. Hún kom þar síðar eða í fyllingu tímans. Hún dvaldist enn hjá fósturforeldrum sínum norður á Sævarenda í Loðmundarfirði og fermdist einmitt þetta vor.
En nógar voru þær samt, sem sóttust eftir vinfengi við hinn glæsilega mann og dugnaðar sjómann, Sunnlendinginn frá Gestshúsum í Bessastaðasókn. Ekki meira um það hér. Sannleikurinn um það má gleymast og hverfa með horfnum tíðum og tímum.
En dansleikir voru þá ekki ótíðir á Fjarðaröldunni á síldveiðitímanum, er Norðmennirnir þöndu „nikkurnar“ sínar, og margir ungir menn og miðaldra, innlendir sem erlendir, dömluðu þar á ný og gömul „mið“.
Á einum þessum dansleik lét prestsfrúin nýja sjá sig með annarri mektarfrú í sókninni. Þá var séra Jón Bjarnason nýlega fluttur á Fjarðarölduna, þar sem hann bjó, meðan hann var prestur Seyðfirðinga, og síðar norður á Vestdalseyrinni.
Útlendu „síldarspekúlantarnir“ voru í sjöunda himni að fá svo tigna gesti á dansleiki sína. Eftir að maddama Lára hafði verið þar, sagðist einum svo frá: „Maddamurinn, sá var nú fínn, allur saman úr silki“. Þannig töluðu þeir íslenzkuna. Þessi frásögn lifði áratugum saman á Austfjörðum og barst þaðan upp um sveitir og héruð.

- -

Slys og sorgir breyta viðhorfum og lífsblæ. Ljósið daprast, - slokknar. Hugsjón hverfur. Hugardeyfð drottnar. Von breytist í vonleysi og vizka dvín. -
Nú leið á haustið 1880 og örlaganóttin mikla nálgaðist.
Seinustu mánudagsnóttina í nóvember ýttu 4 sunnlenzkir sjómenn úr vör inni á Seyðisfjarðaröldu, Fjarðaröldu í Seyðisfirði. Fiskiróður var ráðinn út undir Skálanesbjarg, sem er sunnan vert við Seyðisfjarðarmynnið æðispöl norður af Dalatanga. Þar hafði aflazt vel að undanförnu. Bátverjar voru þessir: Jóhann Ringsted, Þorsteinn Sigurðsson, Jón Valdimarsson og söguhetja mín, Jón S. Sigurðsson, frá Gestshúsum.
Óneitanlega var veðurútlitið viðsjárvert, enda þótt það yrði ekki ráðið að fullu sökum myrkurs. Báturinn var stór, íslenzkt fjögramannafar og veiðarfærið lína, fjögur bjóð, 24 strengir alls.
Sunnlendingarnir sóttu útróðurinn einhuga og kappsamlega.
Þegar þeir náðu fyrirhuguðu miði, var skollinn á norðaustan stormur með hríðarfjúki. Samt lögðu þeir alla línuna. - Svo leið fram á seinni hluta næturinnar. Framan af var veður frostlaust, en í birtingu tók að kólna í veðri og frysta. Þegar á daginn leið, gizkuðu þeir á, að frostið væri við 10 stig. Þeir náðu með herkjubrögðum og harðfengi aðeins hálfri línunni. Þá urðu þeir að skera á hana sökum veðurs og hefja róður til lands. Eiginlegrar lendingar var fyrst að leita á Skálanesi, yzta bæ við sunnan verðan Seyðisfjörðinn. Sökum brims var óhugsandi að lenda annars staðar þar út með firðinum sunnan verðum.

1969 b 51.jpg

Þessi mynd sýnir glöggum lesanda þá staði helzt, sem um getur í grein þessari og koma við sögu slysfaranna. Þeir urðu frá að hverfa við berghrygginn Röð (hann ber milli Grundar og Dalatanga). Yfir hann komust þeir ekki. (Stefán V. Þorsteinsson gerði myndina eftir landabréfi - Þ.Þ.V.)

Veðrið fór vaxandi og sjór að sama skapi. Þeir börðu gegn veðrinu allan síðari hluta dagsins fram í rökkur, en lítið miðaði sökum veðurofsa og brims. Réðu þeir þá af að leita lendingar í svonefndum Vogum, sem eru milli Skálanessbjargs og Dalatanga.
Að vísu var engin vör í Vogunum heldur urð, og var lending þar því sama sem að hleypa til skipbrots. Allt var í tvísýnu um það, hvort lendingin tækist svo giftusamlega, að þeir héldu allir lífi.
Lendingin í Vogunum tókst vissulega betur en þeir höfðu vænzt, þótt bátnum hvolfdi. Lentu þá þrír mannanna í sjóinn, Jóhann, Þorsteinn og Jón Sigurðsson. Jóni og Jóhanni skolaði strax upp í stórgrýtið, en Þorsteinn hékk við bátinn flæktur í línunni. Það varð honum til lífs að öllum líkindum. Von bráðar náðu þeir Þorsteini og drógu hann á þurrt. Síðan tókst þeim að rétta bátinn við og bjarga honum undan sjó. Tvö stór göt höfðu þó brotnað á hann þarna í urðinni. Stýrið af bátnum fundu þeir, siglutréð með seglinu og tvær árar. Önnur var brotin. Þanstöng seglsins fundu þeir ekki.
Þegar hér var komið hrakningi þessum, er skollinn á blindbylur með svipuðu frosti og verið hafði.
Nú var úr vöndu að ráða. Þeir þremenningarnir, sem lent höfðu í sjónum, voru auðvitað holdvotir. Allir urðu þeir sammála um að freista þess að komast upp úr Vogunum og til bæja sunnan þeirra, Dalakálkabæjanna, þ.e. Grundar eða Minni-Dala, sem voru jarðir í byggð sunnan Dalatanga, yztu bæir norðan Mjóafjarðar. Grund er enn í byggð, — bústaður vitavarðarins á Dalatanga. Minni-Dalir í eyði.
Ofan Voganna eru brattar skriður og illfært gil, svo að greiðfært var þar ekki, sízt sjóblautum og sárþreyttum mönnum. Harðfenni reyndist líka vera í Skriðunum og glerhálka. Eftir megni reyndu þeir að pjakka sér spor í harðfennið og svellgljána. Til þess höfðu þeir vasahníf og svo bút af bátsdraginu, sem handbært var og þeir tóku með sér.
Ekki höfðu þeir langt komizt, er Þorsteinn missti fótanna og rann 30-40 metra niður á hengibrún, rann til hraps fram af klettum. Var þá ekki annað sýnna en til aldurtila drægi fyrir honum. En fremst á klettabrún nam hann staðar við steinnibbu, er frosin var föst i gljána. Þeir lögðu nú saman ráð um það, hvernig bjarga mætti Þorsteini, þó að tök til þess sýndust lítil.
Tveir mannanna pjökkuðu spor í gljána niður að Þorsteini og selfærðu sig smám saman niður að bjargbrúninni. Loks lagðist annar flatur á svellið og lét hinn halda í fætur sér, með því að hann hafði góða viðspyrnu. Þannig var Þorsteini bjargað.
Þorsteinn hafði meiðzt mikið og var nær ófær til gangs. Þeir urðu því að skilja hann eftir, og varð Jóhann eftir hjá honum.
Nafnarnir, Jónarnir, héldu nú áfram að fika sig suður og fram Skriðurnar, freista þess að ná suður til bæja. Áfram héldu þeir það sem eftir var aðfaranótt þriðjudagsins og fram að hádegi þann dag, en þá gáfust þeir upp. Höfðu þeir þá urið upp vasahnífinn, dragbútinn, neglur og góma, en ógerlegt var að komast lengd sína nema pjakka sér spor í harðfennið og svellbólstrana. Þeir komust því ekki lengra og urðu að snúa við og láta fyrirberast hjá félögum sínum.
Löngu seinna kom í ljós, að þeir áttu aðeins eftir 32 metra til þess að ná brún hraunhryggs, sem þarna er á milli Voganna og Dalakálksbæjanna, er þeir létu undan síga og snéru aftur til félaga sinna.
Félaga sína, Jóhann og Þorstein, fundu þeir brátt, þar sem þeir skildu við þá og settust að hjá þeim. Veðurofsinn hélzt og frostið áætluðu þeir milli 12 og 18 stig. Aldrei festi svo snjó á hjallanum eða í grennd við hjallann, sem þeir höfðust við á, að þeir gætu grafið sig í fönn.
Svo tók hungrið að sverfa að þeim. Síðan sótti svefninn á, sérstaklega þá Jón Valdimarsson og Þorstein. Þeir gengu svo að segja látlaust fram og aftur, „gengu um gólf“ til þess að halda á sér hita og verjast ásókn svefnsins. Þorsteinn þoldi gönguna illa sökum meiðslanna, sem hann hafði hlotið. Þess vegna sótti kuldinn mest á hann.
Allstór steinn var þar í hallanum. Hann veitti nokkurt skjól. Undir honum hlúðu þeir að Þorsteini eftir föngum með því að skiptast á að sitja áveðurs við hann. Sulturinn svarf sárast að þeim á þriðjudaginn og miðvikudaginn. Enginn þeirra mælti þó æðruorð, enda þótt vonlítið væri um björgun næstu dægur.
Jón Sigurðsson, sem hér gefur efnið í frásögnina, gat þess löngu síðar, að hann hefði kviðið því mest, að lifa félaga sína alla, svo bar af hreysti hans umfram hinna.
Á föstudagsmorgun um fimmleytið tók að draga úr veðurofsanum. Sló þá einnig mjög á brimið, en frostið hélzt áfram óbreytt. Vindstaðan var nú af norðaustri, svo að leiði var inn Seyðisfjörðinn, ef bátur þeirra reyndist nothæfur. Þeir klöngruðust því ofan að bátnum til þess að skoða hann.
Báturinn hafði ekki haggazt, - var eins og þeir höfðu gengið frá honum. Í rauninni var hann ósjófær sökum gats eða gata, sem brotnað höfðu á botn hans. Þó vildu þeir reyna að bjarga lífinu á honum, með því að þeir voru sammála um, að betra væri að drukkna en kveljast eins og undanfarna daga og verða svo ef til vill úti þarna í Skriðunum. Þeir tróðu í götin á bátnum og ýttu síðan á flot í herrans nafni. En brimólgan við stórgrýtið í fjörunni fyllti bátinn, svo að þeir komust ekki á flot í fyrstu atrennu. Þeir biðu svo þess, að sjórinn rynni úr bátnum, enda fjarandi. Brimið lægði óðum og veður fór bráðlygnandi. Önnur tilraun þeirra að ýta bátnum á flot tókst vel. Settu þeir svo upp segl í skyndi og notuðu brotnu árina fyrir þanstöng en stýrðu með heilu árinni, því að þeir komu ekki stýrinu fyrir sökum þess, að stýrisjárnin höfðu bognað.
Báturinn hriplak, þótt troðið væri tuskum í götin eða rifrildum úr fötum þeirra. Hann hálffyllti brátt, fljótlega þóftufullur, en ferðin hélt honum uppi og hratt skreið undan vindinum inn fjörðinn. Þannig sigldu þeir inn á Hánefsstaðaeyrar, en það er um 5 mílna leið. Þar lentu þeir klukkan 8 um kvöldið, bröltu í land úr bátnum, en hirtu ekki um hann frekar. Þeir gerðu síðan vart við sig í húsi einu þar á Eyrunum. Fólkið þar varð undrandi að sjá þá, því að þeir höfðu verið taldir af. Þarna fengu þeir mjólk og ögn af brauði til þess að seðja sárasta hungrið.
Einnig fengu þeir lánaðan bát og tvo menn til þess að flytja sig inn á Fjarðaröldu, þar sem þeir áttu heima. Klukkan 11 um kvöldið náðu þeir loks heim. Þá voru knappir 5 sólarhringar liðnir frá því að þeir lögðu af stað í róðurinn.
Síðan kom að eftirköstunum með aflimun og örkumlun.
Allir reyndust þeir fjórmenningarnir meira og minna kalnir, skaðskemmdir af kulda. Allir voru þeir sendir suður á Eskifjörð til héraðslæknisins þar, Fritz V. Zeuten, hins danska ágætismanns og snillings, með því að hvorki var læknir né sjúkrahús á Seyðisfirði þá.
Læknirinn varð að taka báða fæturna fyrir ofan ökla af Jóni Sigurðssyni. Tveir hinna misstu annan fótinn hvor, en sá fjórði slapp við þau örkuml. Ekki voru mennirnir svæfðir, meðan læknirinn innti þessar aðgerðir af hendi.
Síðan lágu þessir Sunnlendingar lengi í sárum, sem þó gréru um síðir.
Við janúarlokin 1881 eða rúmum tveim mánuðum eftir að slys þetta átti sér stað, flutti blaðið Norðlingur á Akureyri þessa fregn: ,,Sorglegar slysfarir hafa orðið á Austfjörðum. Fjórir Sunnlendingar réru á Seyðisfirði til fiskjar og hrakti þá upp undir Skálanessbjarg. Þar voru þeir tepptir undir Bjarginu í 5 sólarhringa; komust þó þaðan lífs, svo voru þeir kalnir, að búið er taka báða fætur af einum, en annan af tveimur. Þann fjórða sakaði eigi, því að hann hafði stígvél bæði víð og held og passaði alltaf að vera stígvélafullur af sjó.“ (Norðlingur, 29. jan. 1881).
Gervilimagerð var ekki þekkt þá hér á landi og stutt á veg komin erlendis. Fyrir það liðu þeir allir meira og minna, þessir lömuðu menn og örkumla. Félagar Jóns Sigurðssonar, sem misst höfðu „aðeins“ annan fótinn, gátu þó hökt fram á hækjum,eins og Ringsted, en honum sjálfum voru allar slíkar bjargir bannaðar, fannst honum. Hann bar það ekki við að nota hækjur, gjörsamlega fótavana eins og hann var.
Til skamms tíma voru þeir Austfirðingar lífs með þjóðinni, sem mundu Jón S. Sigurðsson á Seyðisfirði, eftir að hann gréri líkamlegra sára sinna eftir slysið mikla. En andlegu sárin gréru aldrei með þessum manni, - já, urðu því sárari sem fram leið hjá hinum harðgerða dugnaðarmanni, sem alltaf hafði alið með sér hinar björtustu framtíðarvonir, framsækinn og ötull, eins og hann var af guði gerður með ólgandi athafnaþrá.
Fyrstu tvö árin eftir slysið og græðslu sáranna, dvaldist Jón S. Sigurðsson á heimili Ringsteds, fyrrverandi formanns síns í svaðilförinni miklu. Ringsted fór um á hækjum sínum. Hann var giftur maður og búandi og fékk brátt atvinnusnapir við sitt hæfi.

II. hluti