Blik 1967/Gullkorn

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit Bliks 1967Gullkorn


Lesari góður. Gerðu það fyrir mig að lesa oft og með athygli ljóð sóknarprestsins okkar, séra Þ.L.J., hérna í ritinu. Hann segir okkur þar heila ævisögu í nokkrum ljóðlínum. Og hún er þess verð að hugleiða hana. Ævi okkar flestra má líkja við annasama vertíð. Elliárunum við vertíðarlokin. Uppgjörið stendur fyrir dyrum. Vertíðin sú hin sama kemur aldrei aftur. Æviskeiðið endurtekur sig heldur ekki.
Ömurlegt er oft til þess að hugsa, hversu margir karlar og konur mega játa með sjálfum sér og harma það, að ævifleyið hefur steytt á steini, brotnað í „flök“, sem lífsaldan hefur síðan skolað upp á ströndina. „Sat hún undir súð sæbyrðings í flúð“. Já, þarna kúrum við svo stundum undir brotinni súð okkar eigin lífsferju, vonsvikin, sár og hörmum mótuð og meitluð. Og hvers vegna hefur þetta farið svona allt saman?
„Strax í æsku ör í orðum, hamslaus svör“. Þegar ég les þessar ljóðlínur, kemur mér í hug unglingur, stúlka eða piltur, vel af guði gerður að mörgu leyti, en þver og hamslaus gagnvart t.d. vilja foreldra sinna, metur þá lítils og fer sínu fram, hvað sem þeir segja, sem þó búa yfir lífsreynslunni, lífsvitinu. Oft hefi ég veitt því athygli, hversu slíkum unglingum hættir við að misstíga sig fljótlega á lífsleiðinni og breyta þannig glæsilegum framtíðarvonum í vonleysi og ömurleik.
„Gamall þulur“, sá sem býr yfir lífsreynslunni, „þekkti hætturnar, sagði ekki sigling færa“. Samt var siglt, lagt á djúpið. Því vilja margir unglingar ekki hlusta, þegar ráð reynslunnar eru gefin. Því fer sem fer oft og tíðum.
„Á hafi velkti vá, til vonleysis brá“. „Tók að syrta“ í álinn. „Ævilangt sá er í vanda, sem aldrei sér til neinna landa“ vonar og velgengni, gæfu og gengis, en veður í villu og svíma í þrjózku og sjálfsbirgingshætti, eins og oft hendir okkur mannskepnurnar á vissu þroskaskeiði. Mætti sem flestum okkar takast að sigla lífsfleyinu fram hjá hættunum þeim.
Við hugleiðingar þessar rifjast það upp fyrir mér, hversu mér hefur ávallt fundizt það gæfumerki unglinga að hlusta á og meta vilja og ráð foreldra sinna og fara að þeirra ráðum. Þar er viljinn og vitið helgað því mesta og bezta, sem bærist í sál hvers og eins. Gæfusamlegt er það ekki að vanmeta það.
„Ljómar ljósið blítt í lífið hennar nýtt ... til Bjartalands, sem brosir handan við brotsjóinn og feigðargrandann“. Bjarma slær af ljósi eilífðarinnar á myrkt sálarlíf. Guðsgneistinn glæðist. Skíman glæðir vonina. Skilningurinn vaknar og farin leið stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónunum. Hefði hún þegar á æskuskeiðinu sinnt vörðunum við veginn, hefði allt farið betur. Nú var það um seinan.
Já, gerðu það fyrir mig, kæri ungi lesari minn, hugleiddu kvæði prestsins. Þar er spaklegur boðskapur fluttur.

Þ.Þ.V.

(Ljóðið sem um er fjallað er Að vertíðarlokum sem birtist í sama tbl. Bliks)