Blik 1965/Sigríðar-strandið og bjargför Jóns Vigfússonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



ÁRNI ÚR EYJUM:


Sigríðar-strandið
og bjargför Jóns Vigfússonar


Árni Guðmundsson, (Árni úr Eyjum).

Einn af þeim atburðum, sem mér hefur orðið sérlega minnisstæður frá bernsku- og æskuárum mínum í Eyjum, er strand v/b Sigríðar og bjargganga Jóns Vigfússonar.
Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi var það svo í Eyjum á þeim tíma, að unglingar lifðu og hrærðust í náinni snertingu við athafnalífið. Flestir jafnaldrar mínir þekktu hvern einasta bát í höfn. Já, meira að segja var það metnaðarmál að þekkja þá langt að — og komu þá mörg einkenni til greina: lag bátsins og stærð, gerð stýrishúss og annarrar yfirbyggingar, siglutré og reiði, sigluhúnar, vélarhljóð o.fl. T.d. kom það varla fyrir, að okkur skeikaði að þekkja bát fyrir Eiðinu, og af Skanzinum þekktum við hverja fleytu, sem kom fyrir Klettsnef. Af Bæjarbryggjunni þekktum við næstum hvern bát, sem inn kom, séð austan yfir hafnargarð, og sást þó varla annað af þeim en siglur og reiði, kannski stýrishús. — Væru tveir bátar nauðalíkir að einu eða öðru leyti, var þó oftast eitthvað frábrugðið. Vélarhljóðið var mikill liður í þessu kerfi, enda vissum við, hvaða vélartegund var í hverjum bát — Alfa, Dan, Scandía, Tuxham, Wickman o.s.frv.
Auk þessa vissum við um formenn á hverjum bát og þekktum þá alla. Allt þótti þetta sjálfsagt og enginn þótti maður með mönnum, sem ekki var sæmilega viss í þessum sökum.
Sem sagt: við þekktum hvern bát „persónulega“, ef svo mætti segja, og kæmi eitthvað fyrir einhvern þeirra, eitthvert slys eða háski, kom upp í hugann mynd bátsins og mannanna á honum — því að þetta voru allt vinir okkar, bátur og menn.
Að öllu þessu leyti má e.t.v. segja, að Sigríðar-strandið sé hliðstætt öðrum sjóslysum, hvað bátinn snerti — hann var okkur jafnkunnur og aðrir bátar og ekkert fremur.
En hitt atriðið, sem einkum gerir atburð þennan minnisstæðan, er björgun mannanna og með hverjum hætti hún varð. Um þann atburð sveipaðist hetjuljómi, sem hlaut að grópast djúpt í vitund ungra drengja. Og sannarlega var það ekki að ófyrirsynju, því að þarna var unnið reglulegt hetjuverk, sérstætt, ógleymanlegt — mér liggur við að segja: óskiljanlegt.
Við skulum bregða okkur í huganum aftur til ársins 1928. Mánudaginn 13. febrúar voru flestir Eyjabátar á sjó. Framan af degi var veður dágott, en er á daginn leið, gerði vonzkuveður með mikilli fannkomu og dimmviðri. Undir kvöldið mátti segja, að komið væri fárviðri. Voru bátarnir að tínast inn fram eftir kvöldinu, en mörgum gekk illa að ná landi, bæði vegna veðurhæðar og — ekki síður — dimmviðris. Veitti björgunarskipið „Þór“ nokkrum þeirra aðstoð.
Seint um kvöldið höfðu allir bátarnir náð landi nema einn. Var það v.b. Sigríður Ve. 240, 12 lesta bátur, með 30 ha. Alfavél. Báturinn var byggður í Hafnarfirði og keyptur til Eyja 1921. Formaður var Eiður Jónsson, ungur maður, harðduglegur og sótti sjóinn af kappi.
Tekið var að óttast um bátinn, en litlar ráðstafanir hægt að gera vegna myrkurs og blindhríðar, en þó mun Þór hafa leitað, eftir því sem föng voru.
Leið svo af nóttin í algerri óvissu um afdrif báts og áhafnar.




V/b SIGRÍÐUR, VE 240.

Fyrsta vélbát sinn keypti Vigfús útgerðarmaður Jónsson í Holti árið 1907 og kallaði Sigríði.
Mynd af þeim báti gefur að líta á Byggðarsafni Vestmannaeyja, og málaði Engilbert Gíslason, málarameistari þá mynd, en synir Vigfúsar, Guðmundur, Jón og Guðlaugur, gáfu Byggðarsafninu.



Víkur þá sögunni um borð í Sigríði.
Síðari hluta mánudagsins hélt hún heimleiðis af miðunum og tókst að berja upp undir Eyjar í stórsjó, ofsaroki og fannkomu. Vissu bátverjar ógjörla, hvar þeir voru staddir, en grilltu þó land, sem þeir töldu vera vesturströnd Heimaeyjar. Var þetta rétt ályktað, því að þeir voru út af Blákróksurð undir Ofanleitishamri. Sáu þeir togara rétt hjá sér og eygðu nokkur ljós, enda var algengt að erlendir togarar leituðu vars undir Hamrinum í austanveðrum. Töldu þeir félagar á Sigríði öruggt að halda sig í nánd við togarann, þótt illa eða ekki sæist til lands. Þarna var talsvert var fyrir veðurofsanum, en brimsúgur allmikill.
Þóttust þeir félagar hólpnir að hafa komizt þarna í var, en illt þótti þeim að sjá fram á útilegu a.m.k. næturlangt — og þóttust hafa fengið nóg af slíku í bili, bæði fyrir sjálfa sig og þá ekki síður vegna ástvinanna, er heima biðu milli vonar og ótta.
En þá er að segja frá því, að tveim dögum áður, laugardaginn 11. febrúar, höfðu þeir lent í einhverju mesta fárviðri og fannkomu, sem menn mundu. Hafði þeim nauðuglega tekizt að berja upp undir Eiðið, en ekkert viðlit verið að ná höfn vegna veðurofsa. Þeir höfðu legið úti um nóttina ásamt átján bátum öðrum, og ekki náð landi fyrr en á sunnudag.
Fólki í landi hafði verið ókunnugt um afdrif þessara nítján báta, því að ekkert sást til þeirra með neinni vissu vegna dimmviðris, myrkurs og sædrifs.
Man ég eftir því, að við álpuðumst inn á Eiði þetta laugardagskvöld, nokkrir drengir, 14—15 ára, til að svipast eftir bátum. Voru nokkrir fullorðnir menn á Eiðinu sömu erinda. Enginn bátur sást, en öðru hverju brá fyrir einu og einu ljósi, svo að sýnilega lágu einhverjir undir Eiðinu, en alger óvissa um, hverjir það væru. Gátu þetta allt eins verið önnur skip, en eigi að síður þóttust menn þess vissir, að þarna væri eitthvað af þessum nítján bátum, sem vantaði. Vitað var, að björgunarskipið Þór hélt sjó með einn bát í togi og var sá með bilaða vél.
Það var ekkert nýtt í útgerðarsögu Vestmannaeyinga, að bátur og bátur lægi undir næturlangt, jafnvel nokkrit bátar í senn, og óvíst væri, hvernig þeim reiddi af. Biðu því sjómannskonur og aðrir ástvinir þeirra marga óveðursnóttina í ofvæni og kvíða að frétta um afdrif þeirra. — En aldrei í þeirri sögu gerðist neitt líkt þessu, þegar undan er skilin útilegan mikla í febrúar 1869, þegar 12 áraskip lágu úti austan undir Bjarnarey, með hátt á annað hundrað manns innanborðs, og náðu sum ekki landi fyrr en eftir tvo sólarhringa. Í þeirri útilegu fórst eitt skipanna með þrettán manna áhöfn, en auk þeirra dóu þrír menn af kulda og vosbúð.
Eftir að vélbátarnir komu til sögunnar, fyrst með afllitlar vélar, kom það oft fyrir, að bátar drógu ekki austur fyrir Eyjar í hvassviðrum, en þessi útilega, 11. febrúar 1928 var sem sagt sú langmesta í sögu vélbátaflotans — og raunar sú síðasta, er nokkuð kvað að.
Þeir félagar á Sigríði litu nú fram til annarrar útilegunætur, þegar í fyrsta róðri eftir nefnda útilegu. En sannarlega varð hún með öðrum hætti en sú fyrri, og öll önnur, en þeir gerðu ráð fyrir, þar sem þeir voru komnir í var undir Hamrinum, og fyrr var frá horfið sögu.
Höfðu fjórir af fimm manna áhöfn farið niður í hásetaklefa, en einn var uppi við stýrið. Þegar þeir félagar voru nýkomnir niður, strandaði báturinn á skeri og þustu þeir þá þegar upp. Losnaði báturinn strax af skerinu og barst inn fyrir það og upp að Hamrinum, sem gnæfði þarna kolsvartur og þverhníptur uppi yfir þeim.

Jón Vigfússon.

Um leið og bátinn bar upp að berginu, stökk einn af bátverjum, Jón Vigfússon vélstjóri, upp á syllu neðst í því og tókst að ná þar fótfestu. En í sömu andrá sogaðist báturinn aftur frá með félaga hans innanborðs. Má nærri geta, hvernig Jóni, tvítugum pilti, hefur liðið þarna á stallinum, að horfa á bátinn dragast burt í hafrótinu með félaga hans. En það ótrúlega gerðist, að stórt ólag, sem nú reið yfir, bar bátinn með sér upp að Hamrinum. Tókst þá öllum félögum Jóns að stökkva í sömu andrá upp á sylluna til hans, en báturinn sogaðist samstundis út aftur. Lenti hann nú enn á skerinu og brotnaði í tvennt. Mátti með sanni segja, að þarna væri skammt milli lífs og dauða, því að önnur tækifæri en þessi tvö gáfust ekki til björgunar af bátnum. Þetta gerðist um kl. hálfellefu um kvöldið.
Tóku nú þeir félagarnir að athuga sinn gang. Ekki varð annað sagt, en að giftusamlega hefði til tekizt um björgun þeirra úr sjávarháskanum, að allir skyldu komast á þurrt land, að mestu ómeiddir — formaðurinn meiddist á hendi. — En hvernig voru þeir nú staddir. Þeir voru á hamrastalli neðst í þrítugu bjargi, sem virtist með öllu ókleift, blautir, kaldir og hraktir. Fyrir það fyrsta var sýnilegt, að þarna yrðu þeir að hafast við næturlangt, hvað sem við tæki að morgni, svo að ekki var útlitið glæsilegt.
Brátt tókst þeim að fika sig upp á syllu, litlu ofar í berginu, þar sem sjór gat ekki náð til þeirra. Ekki var þó um neitt skjól að ræða, og leið þeim því illa þarna utan í berginu.
Lengi var nóttin að líða sjóhröktum mönnum á þessum ömurlega stað, en loks kom sú langþráða stund, að næturmyrkrið varð að víkja fyrir vaxandi dagskímu. Þegar sæmilega bjart var orðið, tóku kaldir og stirðir vökumenn að svipast um. Úti fyrir æddi brimið og braut á boðum og skerjum, svo að lítil von virtist til björgunar þá leiðina. Og uppi yfir var gneipur hamraveggurinn, með snjóklepra á hverjum stalli og kafasnjór uppi á brún. Mjög litlar líkur voru til að þeir sæust úr landi, því að torvelt myndi að leita tæpt með brúnum vegna fannkyngis. Enda mestar líkur til, að þeirra yrði helzt leitað á rúmsjó. Þegar á allt var litið, var því harla lítil von til þess, að þeir fyndust fyrr en seint og síðar meir. Voru það sannarlega óglæsilegar horfur, og ekkert sýnna en þeirra biði þjáningar og dauði, þar sem þeir voru komnir.
Var því sízt að undra, þótt þeir félagar renndu augum upp eftir hamrinum þarna í morgunsárið, og svipuðust eftir hugsanlegri undankomuleið í þá áttina. Og e.t.v. hefur það fyrst og fremst verið fyrir það, að þeir voru allir óvanir bjargmenn — að þeim skyldi detta í hug sá möguleiki, að þarna mætti komast upp.
En hvað um það. Þetta virtist eina ráðið til björgunar, ef takast mætti. — Kemur nú formaðurinn að máli við Jón Vigfússon og spyr, hvort hann telji nokkrar líkur til að bjargið sé kleift — og hvort hann treysti sér til að freista uppgöngu. Jón kvaðst þess þegar albúinn að reyna og hófst þegar handa.
Biðu félagar Jóns í ofvæni, meðan hann fikaði sig ofar og ofar í bjargið, sem þarna er nálægt 60 metra hátt. Er skemmst frá því að segja, að för Jóns upp hamarinn gekk með ólíkindum vel. Ýmsar frásagnir eru til um atburð þennan, en í raun og veru engin, sem ýtarlega segir frá þessari einstæðu bjarggöngu. Kemur þar til tvennt. Í fyrsta lagi hafa félagar Jóns átt erfitt með að fylgjast nákvæmlega með för hans — og litu jafnvel oft undan — og í öðru lagi hefur Jón sjálfur verið næsta þögull um atburð þennan. Bæði er Jón manna lausastur við allt yfirlæti, og svo er ekki óeðlilegt, þótt honum sé lítið um það gefið að flíka tilfinningum sínum og hugarástandi meðan á þessari þrekraun stóð.
Þó segir frá því í einni frásögu af þessu, að eitt sinn hafi Jón misst fótanna ofarlega í bjarginu og hangið á fingurgómunum einum, meðan hann fann sér fótfestu á ný. En hvað sem því líður, þá tókst Jóni að brjótast upp bjargið, blautt og kleprað af snjó, sjálfur blautur og dofinn eftir kalda og ömurlega nótt. Og eftir því sem næst verður komizt, kleif hann bjargið á svo sem tíu mínútum.
Síðan kafaði Jón snjóinn austur í bæ og gerði þegar aðvart um, hvernig komið var, og hvar félaga hans væri að finna. Var tafarlaust gerður út björgunarleiðangur og voru í hópnum vanir sigmenn. Var sigið niður til skipbrotsmannanna og þeir síðan dregnir upp bjargið, hver af öðrum. Gekk björgunin ákjósanlega og þeir félagar náðu sér allir furðufljótt eftir hrakningana.
Jón Vigfússon, sem afrek þetta vann, er fæddur í Vestmannaeyjum 22. júlí 1907, sonur hjónanna Guðleifar Guðmundsdóttur og Vigfúsar Jónssonar, útgerðarmanns og formanns í Holti. Jón er í föðurætt kominn af gamalli ætt Eyjamanna. Var langa-langaafi hans Bergur Brynjólfsson bóndi í Stakkagerði, fæddur 1759. — Frá afa Jóns og alnafna, Jóni Vigfússyni bónda í Túni, eru fjölmargir afkomendur í Eyjum, og eru meðal þeirra margir kunnir bjargmenn og fuglaveiðimenn.
Jón er grannvaxinn, léttur og lipur og leynir trúlega á meiri kröftum en útlit hans gefur til kynna. Hann er hægur í dagfari, svo að ókunnugum virðist hann fáskiptinn, en því veldur aðeins yfirlætisleysi hans og prúðmennska, því að við nánari kynni reynist hann skapléttur og gamansamur, svo sem ættingjar hans margir.
Að sjálfsögðu vakti bjargganga Jóns Vigfússonar mikla athygli um land allt og jafnvel erlendis. Hlaut hann að launum heiðursverðlaun úr hetjusjóði Carnegies. En meiri öllum veraldlegum verðlaunum hefur Jóni verið vissan um að hafa með hetjudáð sinni, bjargað mörgum dýrmætum mannslífum.
Það skýrir nokkuð, hvílíkt afrek Jón Vigfússon vann við nefndar aðstæður, að litlu síðar reyndu vanir bjargmenn að klífa bjargið á sama stað, en urðu frá að hverfa. Sú tilraun var þó auðvitað gerð við beztu aðstæður.
Oft hef ég virt fyrir mér þennan bjargvegg, bæði ofan frá og af sjó, uppi undir urðinni fyrir neðan — og alltaf hefur mér virzt það jafnofvaxið mannlegum skilningi, að kaldur og hrakinn sjómaður, sem auk þess var óvanur bjarggöngum, skuli hafa komizt þarna upp.
Og þegar aðrar aðstæður eru auk þess hafðar í huga, verður afrek þetta með algjörum ólíkindum.
Það er alltaf eitthvað ósennilegt við stærstu afrek mannsins af þeirri einföldu ástæðu, að þau standa svo langt ofar venjulegum mannlegum mætti.
Hitt skil ég aftur á móti vel, að vönum fjallamönnum mistókst að feta í spor hins unga, kalda og hrakta sjómanns. Hans för var farin á allt öðrum forsendum. Undir árangri hennar var ekki einasta komið hans eigið líf — heldur og félaga hans fjögurra, er biðu milli vonar og ótta á þröngri hamrasyllu, og settu allt sitt traust, alla sína von um líf — á hann, að honum tækist giftusamlega þrekraunin mikla.
Tilraun fjallamannanna til að klífa bjargið var nokkurs konar rannsóknarför, gerð til fróðleiks og skemmtunar. Þar var ekki um líf eða dauða margra manna að tefla, eins og þegar Jón Vigfússon kleif Ofanleitishamar — það gerði gæfumuninn.