Blik 1963/Saga séra Brynjólfs Jónssonar, IV.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga séra Brynjólfs Jónssonar
prests að Ofanleiti
(Fjórði hluti)


Skrá yfir fundi bindindisfélags Vestmannaeyja
og og helztu gjörðir á þeim

1864.
27. nóv. Félagið stofnað af 17 mönnum. Samin skyldi reglugerð.
4. des. Reglugerðin lögð fram og samþykkt. 14 félagsmenn bætast við í hópinn.

1865.
11. júni. 8 félagsmenn orðnir uppvísir að því að neyta áfengis. Þeim gefinn kostur á bót og betrun, áður en til brottrekstrar kæmi. Prestur hvatti menn alvarlega til að gæta sóma síns og rækja heit sín við félagsskapinn.

1866.
7. jan. Forseti flutti félagsmönnum ávarp og hvatti þá til að sýna heiðarleik og festu gagnvart lögum og reglum félagsins. Hann skoraði á þá, sem brotið höfðu móti félaginu, að segja til, hvort þeir æsktu að vera lengur í því eða víkja. Alls sögðu 5 menn sig úr félaginu á þessum fundi. En 12 menn gengu jafnframt inn í félagið á fundinum. Samþykkt var, að félagið héldi 4 fundi á ári hverju.
2. apríl. Forseti flutti ávarp og hvatti félagsmenn til trúmennsku við reglur félagsins. Þá las hann upp grein úr Nýjum félagsritum um skaðsemi ofdrykkjunnar eftir Hjaltalín landlækni. Einum manni vísað úr félaginu sökum óreglu. Annar fékk frest að eigin ósk.
10. sept. Forseti hvatti félagsmenn með nokkrum orðum til þess sameiginlega að styðja að eflingu félagsins og gera sitt bezta til að glæða góðan félagsanda. Þrír menn gengu í félagið.

1867.
6. jan. Forseti fullyrti, að nokkrir félagsmenn hefðu orðið uppvísir að neyzlu áfengra drykkja. Hvatti hann menn til staðfestu og trúmennsku. Þá las hann upp Hugvekju um skaðsemi áfengra drykkja eftir Jón Thorseinsson landlækni.
14. apríl. Forseti bar fram áskorun til sýslumanns, að ,,hann gjörði það, sem í hans valdi stæði með að hindra staupasölu í búðum.“ Félagsmenn tóku vel undir þá áskorun. Sýslumaður gjörði góðan róm að því.
29. sept. Forseti flutti ávarp og hvatti félagsmenn til að efla sem beztan félagsanda. Þá las forseti upp nefndarálit, sem borizt hafði frá Húnvetningum og var mjög í anda og í samræmi við störf og stefnu Bindindisfélags Vestmannaeyja. Þrír menn sögðu sig úr félaginu sökum drykkjuskapar.

1868.
5. jan. Forseti hvatti menn til trúmennsku og staðfestu um leið og hann skýrði frá starfsemi félagsins á umliðnu ári. Fjórir nýir félagsmenn bættust við á fundinum.
19. apríl. Forseti flutti ávarp til eflingar bindindisanda með félagsmönnum. Tveir unglingspiltar gengu í félagið.
27. sept. Forseti flutti hvatningarorð og ræddi síðan um áfengiskaup Íslendinga samkv. Landhagskýrslum.

1869.
10. jan. Forseti flutti félagsmönnum ávarp og hvatti þá til staðfestu. Tveir ungir menn gengu í félagið.
18. apríl. Forseti flutti áminningarræðu til félagsmanna. Einn félagsmaður hafði neytt áfengis. Nafn hans var ekki nefnt. Forseti hafði áminnt hann einslega. Þetta var Jón Guðmundsson, nágranni prests í Brekkuhúsi. Hann æskti þess að fá að vera áfram í félaginu.
26. sept. Forseti flutti áminningarræðu og hvatti félagsmenn til að efla félagið sem allra mest og bezt. Alls gengu 7 menn í félagið.

1870.
9. jan. Forseti flutti fundarmönnum skýrslu um starf félagsins umliðið ár. Tvo félagsmenn vissi forseti brotlega. Hafði áminnt þá einslega og þeir heitið honum tryggðum og málefninu. Ekki nefndi hann nöfn mannanna á fundinum. Á þessum fundi gekk Þorseinn læknir Jónsson í félagið.
18. apríl. Enginn virtist hafa rofið heit sín við hugsjón félagsins.
2. okt. Alls gengu 17 menn í félagið á þessum fundi, þar af 8 nýfermdir drengir.

1871.
8. jan. Alls höfðu 21 gengið í félagið á umliðnu ári og aðeins tveir sagt sig úr því.
16. apríl. Forseti flutti ávarp sitt sem að venju. Síðan las hann grein um verkanir drykkjuskapar á heilbrigði sálar og líkama eftir August Thotham yfirlækni. Einum Landmanni var vikið úr félaginu.
24. sept. Forseti las upp á þessum fundi grein eftir Dr. Hjalalín um verkun áfengra drykkja á mannlegt líf og heilsu. Greinin birtist í Heilbrigðistíðindum. Hann bað síðan fundarmenn að kosta kapps um að beita áhrifum sínum, hvar sem þeir mættu því við koma, til eflingar bindindi og hnekkis drykkjuskap og afleiðingum hans. Þorsteinn læknir hafði sagt sig úr félaginu. Þrír gengu í félagið.

1872.
Jan. Forseti flutti skýrslu um starfsemina á umliðnu ári.
14. apríl. Forseti ræddi hin almennu bágindi manna í Eyjum á þessum tímum sökum langvarandi aflabrests og sýndi jafnframt fram á, hversu mikla nauðsyn bæri til, að Eyjabúar eyddu ekki hinum litlu efnum sínum í kaup á áfengum drykkjum.
29. sept. Forseti las upp grein eftir Jón Hjaltalín landlækni um skaðleg efni, sem finnast í áfengum drykkjum. Að lestri loknum hvatti forseti félagsmenn til þess að láta viðvörunarorð landlæknis sér að kenningu verða.
Nú hefur sú breyting orðið á í Eyjum, að sýslumaðurinn Bjarni E. Magnússon, varaforseti Bindindisfélagsins, er fluttur burt úr sýslufélaginu og danskur maður fengið veitingu fyrir sýslumannembættinu, M.M. Aagaard að nafni. Hann sótti þegar um uppöku í Bindindisfélagið, þegar hann hafði setzt að í Eyjum.

1873.
5. jan. Á þessum fundi sögðu 5 menn sig úr félagsskapnum. Allir höfðu þeir brotið félagsreglurnar og neytt áfengis. Forseti tjáði fundarmönnum, hversu félagsskapurinn í heild hefði misst mikils, er sýslumaðurinn Bjarni E. Magnússon hefði flutzt úr byggðarlaginu, og óskaði þess, að félagsmenn gætu fallizt á að kjósa tvo menn forseta til aðstoðar og styrktar í stað sýslumanns. Var á það fallizt. Kosningu hlutu Þorsteinn Jónsson, bóndi og hreppstjóri í Nýjabæ, síðar alþingismaður, og Gísli Stefánson, síðar kaupmaður og sýslunefndarmaður, eins og fyrr segir.
20. apríl. Forseti flutti hvatningarorð til fundarmanna, en fundurinn var fjölmennur, þar sem hér var jafnframt um almennan sveitarfund að ræða.
12. okt. Forseti las upp skýrslu, sem Tryggvi Gunnarsson hafði tekið saman og birt um bindindisfélög víðsvegar um landið, sérstaklega á Norðurlandi. Jafnframt hvatti forseti félagsmenn til að vera ekki eftirbáta annarra Íslendinga um að efla og glæða þann rétta félagsanda, svo að áfengisneyzlan í sveitarfélaginu mætti stöðugt fara minnkandi. Þá las forseti upp ,,lög um hegningu fyrir drykkjuskap og vínveitingar, er á væru komin í ýmsum útlöndum,“ eins og þar er orðað í fundargerðarbókinni. Spunnust um lög þessi nokkrar umræður. Þar kom fram sú spurning, hvort ekki væri rétt að setja reglur innan Bindindisfélagsins um sektir í félagssjóð fyrir brot á lögum þess. Leitaði forseti atkvæða á fundinum um þetta atriði. Aðeins helmingur fundarmanna greiddi þessari hugmynd atkvæði sitt. Féll hún þar með niður.

1874.
11. jan. Forseti las upp bindindisgrein úr norska ritinu Menneskevennen. Hafði hann þýtt þá grein sjálfur. Í félagið gekk Jón Jónsson, bóndi á Vilborgarstöðum, síðar hreppstjóri í Eyjum.
19. apríl. Forseti flutti ávarp og kom víða við. Hann ræddi um almenn bágindi manna. Hversu þau mættu hvetja menn sérstaklega til að eyða ekki fjármunum sínum til kaupa á áfengum drykkjum. Bágindin stöfuðu af tvennu, sagði forseti, lélegum aflabrögðum og „þungri verzlun,“ eins og hann orðaði það. Þá sagði forseti, að hin nýja stjórnarskrá ætti að vera mönnum hvöt til að „slíta af sér ófrelsisbönd ofdrykkjunnar.“
27. sept. Rædd voru ýmis málefni varðandi félagið og stefnu þess. Skyldu þær umræður miða að því að glæða félagsandann og efla bindindishvötina. Las forseti upp kafla úr grein úr blaðinu Norðanfara, þar sem hvatt er til, að Íslendingar stofni „almennt bindindisfélag.“

1875.
10. jan. Forseti las upp grein um ofdrykkju, sem prenuð var í „Kristilegum smáritum“. Grunur lék á um mörg brot gegn félagslögunum. Var þeim seku gefinn frestur til næsta fundar félagsins til að bæta ráð sitt og auka trúmennskuna, svo að þeir fengju að vera áfram í félaginu.
2. maí. Til þess að hreinsa til í félagsskapnum, voru fundarmenn spurðir með nafnakalli, hvort þeir æsktu þess að vera áfram félagsmenn. Þá sprakk blaðran og 7 menn sögðu sig úr félagsskapnum, þó ekki allir brotlegir við félagslögin. Tveir gengu í félagið. Annar var Sigurður Sveinsson í Nýborg.
3. okt. Forseti lét í ljós óánægju með félagsandann, þar sem jafnvel félagsmenn, sem enginn grunur léki á um ótrúmennsku við félagið, segðu sig úr því. Hvatti hann félagsmenn til staðfestu og stöðuglyndis.

1876.
9. jan. Félagsmaður játar margfalt brot sitt gegn félagsskapnum og barmar sér. Bað hann þess á fundinum, að hann mætti samt sem áður vera í félaginu um stund til þess að vera aðnjótandi þess styrks, er félagið veitti honum þrátt fyrir allt „til þess að stríða gegn drykkjufýsn sinni.“ Félagsfundur samþykkti vilja hans.
7. maí. Fundur fámennur sökum slæms veðurs. Forseti skýrði frá því, að stjórnarvöldin hefðu hækkað að mun toll á áfengum drykkjum, sem til landsins væru fluttir, og væri það út af fyrir sig hvatning öllum Íslendingum til að forðast áfenga drykki. Fleiri hvatningarorð lét forseti falla á fundinum.
8. okt. Nú fyrst er um það rætt, hvort félagsmenn skyldu framvegis greiða eitthvað árgjald til félagsins. Var sú hugmynd efst á baugi að afráða sektir fyrir brot gegn félaginu og nota þær ásamt árgjaldinu til að verðlauna trúmennsku og staðfestu við reglur félagsins og anda. Ekkert var afráðið um þessar hugmyndir.

1877.
14. jan. Forseti flutti ræðu, skýrði árangur félagsstarfsins og fyrirbrigði þess á umliðnu ári og gat þess, að félagið hefði nú starfað í 12 ár og komið því til leiðar, að drykkjuskapur í Vestmannaeyjum væri nú ekki lengur almennur, þó að enn væru þar „ekki allfáir drykkjumenn.“ Betur mætti, ef duga skyldi, og hvatti hann félagsmenn til aukinna starfa fyrir málefnið, skoraði á þá, „að leita sér sæmdar og ánægju í því að stuðla að útrýmingu hneyksla og skaðsemi ofdrykkjunnar,“ eins og hann orðaði það.
29. apríl. Forseti las upp verðlaunaritgerð eftir Alexander Bjarnason. Út frá grein þessari reifaði forseti þá hugmynd, að samin yrði bænaskrá til Alþingis um lög, er „ákvæðu hegningu fyrir drykkjuskap.“ Á þessa hugmynd gátu menn fallizt á fundinum,
30. sept. Forseti flutti hvatningarorð til fundarmanna. Þá var gerð fyrirspurn til Þorsteins alþingismanns Jónssonar, hvers vegna alþingi hefði ekki sinnt bænarskrá Bindindisfélagsins um lög, sem ákvæðu „sektir eða refsingu fyrir ýmislega óreglu, er leiddi af ofdrykkju.“ Alþingismaðurinn skýrði svo frá, að alþingi hefði ekki séð sér fært að setja lög þess efnis, svo að líkindi væru til, að þau næðu tilgangi sínum.

1878.
13. jan. Forseti flutti áminningarorð. Eftir þau gengu 6 ungir menn í Bindindisfélagið. Þá spurðist forseti fyrir um það, hvort menn vildu heyra þýdda grein, sem birt var í Norðurfara og hét „Kona drykkjumannsins“. Því játuðu fundarmenn almennt. Var hún síðan lesin upp og þótti lærdómsrík.
5. maí. Forseti las upp bindindisgrein er hann hafði þýtt úr ritinu Menneskevennen.
29. sept. Forseti flutti ræðu. Aðalefni hennar var þjónustan við tvo herra: Bakkus og bindindishugsjónina.

1879.
2. febrúar. Forseti las upp bindindismálagrein úr riti þeirra Breiðfirðinga, Gesti Vestfirðingi.
11. maí. Forseti bar upp fyrir félagsmönnum tvö frumvörp til alþingis, er hann hafði samið. Fjallaði annað um aukinn vínfangatoll og hitt um veitingu áfengra drykkja og skyldur embættismanna varðandi útrýmingu ofdrykkju. Samþykkt var að senda frumvörpin til Bindindisfélags Norðlendinga, ef það kynni að álíta tilhlýðilegt að senda því-um-lík frumvörp til alþingis.
28. sept. Þegar forseti hafði flutt hvatningarorð til félagsmanna, skýrði hann þeim frá ýmsum bindindisfélögum, sem stofnuð höfðu verið víða um land á seinni árum og hvatti félagsmenn til að vera fyrirmynd annarra bindindismanna í því að glæða og efla sannan félagsanda. Forseti hvatti feður til að láta syni sína ganga í Bindindisfélagið. Loks las forseti upp tvær greinar á fundinum. Önnur þeirra var ritgerð í Skuld um bindindi og þjóðbindindi. Hin ritgerðin birtist í Hinum íslenzku kirkjutíðindum um „Bindindishreyfingar á Englandi“. Á þessum fundi gengu 9 menn í félagið, þar af 7 nýfermdir unglingar.

1880.
25. jan. Forseti skoraði á þá félagsmenn, sem ekki treystu sér til að rækja skyldur sínar við félagið, að segja sig úr því. Það gerði enginn, 4 gengu í það á fundi þessum.
6. maí. Forseti las upp grein úr hinu danska blaði Nationaltidende (marz 1880) „um hinar margvíslegu ófarir af völdum ofdrykkju“.
3. okt. Forseti var þungorður í garð þeirra félagsmanna, sem væru í Bindindisfélaginu að yfirskini, neyttu áfengis iðulega þrátt fyrir heit og drengskaparloforð um hið gagnstæða. Því næst spurðist hann fyrir um það á fundinum, hvort nokkur vildi segja skilið við félagið, af því að hann treysti sér ekki til að vera í því á heiðarlegan hátt. Enginn gaf sig fram. Einn maður gekk í félagið.

1881.
23. jan. Forseti fór nokkrum orðum um þann árangur, sem álykta mætti, að starf Bindindisfélagsins hefði haft í för með sér. Þó kvaðst hann alls ekki vera ánægður með félagsskapinn. Þar skorti samheldni og fullkomna trúmennsku gagnvart heitum og stefnu. Hann hvatti félagsmenn til að „láta ekki letjast í eflingu bindindis.“ Þar næst las forseti upp bindindisritgerð úr blaðinu Norðlingi. Sú grein var talin þýdd og endursögð úr blaðinu Dymmalætting.
Undir fundarlokin skoraði forseti á þá menn, sem ekki hefðu hreina samvizku gagnvart reglum félagsins að segja sig úr því, ef þeir fyndu sig ekki menn til að vera í félagsskapnum nema að yfirskini. Þá gáfu 6 menn sig fram og sögðu sig úr félaginu. Var þar með Guðmundur bóndi Þórarinsson á Vesturhúsum, sem alltaf hafði sýnt félaginu trúmennsku og var talinn einn af beztu félögum þess, en tók nú upp hanzkann fyrir þá seku. Líklega fundizt framkoma prests helzt til harkaleg gagnvart „hinum bersyndugu“.
8. maí. Forseti flutti fundarmönnum hvatningarorð við vertíðarlok.

1882.
29. jan. Forseti las upp tvær bindindisritgerðir þýddar úr ensku. Önnur var kafli úr sögu bindindisfélaganna í Ameríku eftir Baird.
Á þessum fundi sagði Sigurður Sveinsson í Nýborg sig úr félaginu ásamt 5 öðrum Eyjabúum. Í félagið gengu tveir ungir menn, sem áttu eftir að verða kunnir Eyjaþegnar, þeir Kristján Ingimundarson í Klöpp og Magnús Guðmundsson í Hlíðarási.
14. maí. Forseti las upp á fundinum grein, er hann hafði þýtt úr erlendu riti.
8. okt. Forseti flutti hvatningarorð. Einn félagsmaður taldi sig óhæfan til að vera í félaginu sökum drykkjuskaparástríðu og sagði sig úr því.

1883.
4. febrúar. Alls höfðu 9 menn sagt sig úr félaginu á umliðnu ári, en 4 gengið í það. Áskorun forseta, að þeir félagsmenn, sem ekki þættust geta verið í félaginu á heiðarlegan hátt, segðu sig úr því, var tekið með almennri þögn. Einnig áskorun hans um að ganga í félagið.
14. maí. Forseti las upp skýrslu, sem prentuð var í Fróða, um drykkjuskap í Danmörku. Einnig grein eftir mmmmmmm mmmmmmm (svo) prentaða í Þjóðvinafélagsalmanakinu 1883. Forseti lagði síðan út af þessum greinum, eins og alltaf, þegar hann las upp á fundum, og hvatti fundarmenn til bindindis og trúmennsku við heit sín og skyldur. Að lokum bauð hann fundarmönnum að gerast áskrifendur að Bindindisbók séra Magnúsar Jónsonar á Skorrastað, skólabróður síns frá fyrstu starfsárum Lærða skólans í Reykjavík. Aðeins þrír menn óskuðu að eignast bókina. Það voru þeir forustumennirnir Þorsteinn Jónsson og Gísli Stefánson, og svo Árni hreppstjóri Einarsson.
14. okt. Forseti flutti ræðu og skýrði fyrir fundarmönnum áætlun um tekjur af vínfanga tolli, sem gert var ráð fyrir á næsta fjárhagstímabili. Fundurinn var fjölsóttur bæði af félagsmönnum og utanfélagsmönnum. Þó óskaði enginn þeirra að ganga í félagið.

1884.
20. jan. Forseti flutti langa ræðu og tók til meðferðar ýmsan fróðleik úr Landhagskýrslum þjóðarinnar, gerði samanburð á fjárhæðum þeim, sem Íslendingar notuðu til vínfangakaupa og svo matvörukaupa árið 1877. Prestur komst að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar hefðu varið miklu meira fé fyrir vínföng á undanförnum 7 árum en næmi þeim fjárupphæðum, sem þeim hefði verið gefið erlendis frá á undanförnum sultar- og neyðartímum (árin 1880-1883). Forseti notaði síðan þessar staðreyndir í kjarna að hvatningarorðum til félagsmanna að rækja bindindi sitt og nota fjármuni sína og sinna en kasta þeim ekki á glæ fyrir vínföng.
18. maí. Forseti las upp ræðu eftir ameríska prestinn séra Talmage. Hann hafði þýtt hana úr norska ritinu Menneskevennen.
Síðast las svo forseti stutta ritgerð eftir sama höfund, sem hann hafði líka þýtt. Hún heitir á máli hans „Testament drykkjumanns“. (Arfleiðsluskrá drykkjumanns).
Þetta var síðasti fundurinn, sem séra Brynjólfur Jónsson sat í Bindindisfélagi Vestmannaeyja og jafnframt síðasti fundur félagsins. Séra Brynjólfur veiktisi þetta sumar og andaðist um haustið 19. nóvember.

Rétt þykir mér að birta þessa þýddu grein orðrétta hér, eins og hún hefur borizt mér í handriti prestsins, vegna sérstöðu hennar. Ef til vill á hún enn erindi til Vestmannaeyinga. Enn mun hún þar hitta fyrir svo íhugult fólk og hyggið, víðsýnt og frjálslynt, að hún fari ekki fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum lesanda sínum. Hún er líka síðasta orðið, sem hinn mæti prestur og bindindisfrömuður Vestmannaeyinga flutti þeim og okkur hefur lánazt að ná milli handa í handriti. Séra Brynjólfur hefur sjálfur sérmerkt nokkur áherzluorð í greininni. Þau prentum við með breyttu letri.

Testament drykkjumanns.
Þar eð ég er orðinn magnvana á líkamanum og ég óttast fyrir, að andi minn bráðum muni sljóvgast, með því að ég hefi gengið á vegi óhófsseminnar og ég ekki ætla mér að hverfa af honum, ákveð ég og ákvarða hér með minn síðasta vilja.
Þar eð skapari minn hefur gjört mig hæfan til skynsamlegrar nautnar og skapað mig til að efla sína dýrð og gjöra öðrum gott, þá þekki ég, hver ábyrgð á mér hvílir. En löngunin til að fullnægja mínum holdsgirndum og sífelld óbeit á því að standa á móti freistingunum er svo rík hjá mér, að ég með öllu gef mig á vald óhófsseminni og þeim löstum, sem henni eru samfara. Því er testament mitt þannig lútandi:
Fjármuni mína ákvarða ég til eyðslu þannig, að þeir innan skamms lendi í höndum þeirra manna, sem birgja sig upp af áfengum drykkjum. Mitt góða mannorð, sem stendur á veikum fæti, gef ég eyðileggingunni á vald. Minni góðu konu, sem svo lengi og vel hefur fylgt mér í lífinu, eftirlæt ég örbirgð, smán og hugarangur.
Börnum mínum eftirlæt ég svo sem arf mitt eigið dœmi og hina skammarlegu hegðun föður þeirra. Loksins læt ég sjúkdóm, synd og bráðan dauða gjöra útaf við líkama minn, og yfir minni ódauðlegu sál læt ég guð ráða, hvers miskunnsemi ég hefi misbrúkað og hvers lögmál ég hefi fyrirlitið, enda þótt hann með sínu orði hafi sagt, að enginn drykkjumaður skuli erfa guðsríki.“

Hvernig var svo fundarsókn hjá presti í Bindindisfélagi Vestmannaeyja, þar sem aldrei voru neinar skemmtanir um hönd hafðar eða neitt annað, sem sérstakt aðdráttarafl hafði að fundum utan sjálft málefnið?
Mjög oft hefur prestur tekið það fram, að fundarsókn sé góð, allflestir félagsmenn mættir og nokkur hópur utanfélagsmanna, sem alltaf voru velkomnir á fundina, hvort sem þeir vildu ganga í félagið eða ekki. Þannig urðu félagsfundirnir tvíþættir útbreiðslufundir bindindishugsjónarinnar. Stundum kom það fyrir, að annir félagsmanna hindruðu góða fundarsókn, t.d. góður fiskþurrkur eða aðrar annir við framleiðslustörfin. Fundir voru þó oftast haldnir á sunnudögum og auglýstir við messugjörð, og fundartíma hagað þannig, að félagsmenn fóru fyrst heim frá messu, létu aðra, sem ekki hlýddu messu í það sinn, vita um fundinn og komu svo á hann 1—2 tímum eftir að messu lauk. Þess er hvergi getið, hvar fundirnir voru haldnir. Auðvitað hafa þeir alltaf verið haldnir í Landakirkju, — þótti svo sjálfsagt, að þess þurfti ekki að geta, enda tæpast í annað hús að venda.
Á fyrsta fundi eftir hver áramót las forseti upp nafnaskrá félagsmanna, gat þess, hverjir hefðu sagt sig úr félagsskapnum eða hrökklazt þaðan sökum óreglu, og svo hverjir við hefðu bætzt á umliðnu ári.
Alltaf flutti forseti hvatningarorð á hverjum fundi til félagsmanna um að standa stöðugir í starfinu, vera trúir málefninu og efla bindindi í sveitarfélaginu af fremstu getu.
Félagsmenn kusu sér forseta þriðja hvert ár samkv. reglugerð félagsins, og var séra Brynjólfur alltaf endurkosinn. Með honum hlutu ávallt kosningu Þorsteinn hreppstjóri Jónson og Gísli verzlunarmaður Stefánsson, eftir að Bjarni sýslumaður fluttist burt úr Eyjum.
Það er eftirtektarvert atriði, að enginn fundur er haldinn í Bindindisfélagi Vestmannaeyja eftir að séra Brynjólfur leggst banaleguna og deyr. Þannig sannaðist það berlega, að hann var í einu og öllu stoð og stytta félagsins, máttarstoðin og aflið, sem hélt því við lýði þau 20 ár, sem það starfaði til ómetanlegra efnahagsmuna öllum Eyjabúum. Þó verður ennþá síður komið mati á alla þá blessun og lífshamingju, sem þetta starf prestsins leiddi inn á heimili fjölda þeirra manna, sem bjuggu í Eyjum eða ólust þar upp á þessu tímabili.
Séra Brynjólfur Jónsson leit á bindindisstarf sitt öðrum þræði sem þátt fátækrastjórnarinnar til aðstoðar fátæklingum og nauðleita fólki í Eyjum sökum ónógra tekna, aðþrengjandi verzlunarhátta og andlegs volæðis. Einnig var bindindisstarfið í huga prests þáttur kirkjunnar í líknarstarfi sóknarbörnunum til almennrar velferðar og sáluhjálpar.
Þetta starf prests og áhrif þess til gæfu og velfarnaðar vakti mikla athygli hjá stjórnarvöldunum. Pétur Pétursson biskup fór miklum viðurkenningarorðum um þetta fórnarstarf séra Brynjólfs í bréfi til Bjarna E. Magnússonar sýslum. haustið 1870. Þá hafði Bindindisfélagið starfað í 6 ár. Þá óskaði biskup nánari fræðslu um þetta starf prestsins og skrifaði honum í því skyni. Séra Brynjólfur tjáir biskupi, að þátttaka manna í þessu starfi hafi ekki komið af sjálfu sér. Andstaðan var hörð í fyrstu bæði frá áfengisneytendunum sjálfum og ekki síður áfengiskaupmönnunum og verzlunarþjónum þeirra.
Félagsstarfið mætti bæði mótspyrnu og tortryggni hjá þeim, sem utan við það stóðu. Varð prestur fyrir aðkasti iðulega og hnjóðsyrðum. Að 6 árum liðnum var félagsstarfið allt orðið auðveldara með því að hugsjón þess hafði fest rætur í hugum manna og öðlazt skilning og viðurkenningu almennings, ekki sízt þeirra mörgu heimila, sem nutu blessunar af þessu forustustarfi prestsins.

V. hluti

Til baka