Blik 1962/Kennaratal 1885-1904

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1962


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


KENNARATAL
frá 1885-1904


Séra Jón Jónasson Thorstensen,
kennari við barnaskólann
í Vestmannaeyjum
1885-1886
(F. 30. apríl 1858, d. 11. nóv. 1923)

Séra Jón Jónasson Thorstensen.
Séra Jón Thorstensen var sonur Jónasar sýslumanns í S.-Múlasýslu Jónssonar landlæknis, Þorsteinssonar. Kona Jónasar sýslumanns og móðir séra Jóns var Þórdís Pálsdóttir Melsteds, amtmanns í Stykkishólmi.

Séra Jón Thorstensen skrifaðist inn í lærða skólann í Reykjavík 1873. Lauk stúdentsprófi 1881 og embættisprófi í guðfræði þrem árum síðar. Séra Jón gerðist barnaskólakennari í Vestmannaeyjum haustið 1885 og var þar aðeins eitt ár. Árið eftir (1886) vígðist hann prestur til Þingvalla, og var þar samfleytt prestur í meir en 36 ár. Hann fékk lausn frá embætti vorið 1923 og fluttist þá til Reykjavíkur. Þar lézt hann um haustið sama ár.
Séra Jón var talinn vandaður maður, grandvar og sómakær.
Kona séra Jóns Thorstensen var Guðbjörg Hermannsdóttir sýslumanns Jónssonar (Johnsson) á Velli í Rangárvallasýslu.
Elín dóttir þeirra hjóna giftist Helga Bergs forstjóra í Reykjavík. Sonur þeirra er Helgi Bergs, verkfræðingur.

Árni Filippusson,
barnakennari í Vestmannaeyjum
1886-1893
(F 17. marz 1856, d 6. jan. 1932)

Árni Filippusson.
Árni Filippusson var fæddur að Háfshóli í Holtum. Foreldrar hans voru bændahjónin Filippus Bjarnason og Guðrún Árnadóttir, hreppstjóra og dan. á Stóra-Hofi á Rangárvöllum Jónssonar í Sauðholti. Afi Árna var Bjarni sterki, hinn víðkunni ferjumaður við Sandhólaferju í Ásahreppi. Stundum kallaður Glímu-Bjarni.

Árni ólst upp hjá foreldrum sínum og dvaldist þar til tvítugsaldurs Á þeim árum stundaði hann um tíma nám að Kirkjubæ vestri á Rangárvöllum hjá séra Ísleifi sóknarpresti Gíslasyni. Eftir það réðist Árni til Hermanns sýslumanns Johnsson (Jónssonar) á Velli í Hvolhreppi. Þar var hann sýsluskrifari m.m. í 8 ár og varð maður reyndari og lærðari eftir þau ár, enda var hann bókhneigður og stundaði sjálfsnám svo sem hann hafði tök á.
Til Vestmannaeyja fluttist Árni Filippusson árið 1885. Hafði hann þá ráðizt verzlunarmaður hjá J.P.T. Bryde.
Fyrsta árið var hann til húsa í Nýborg hjá Sigurði Sveinssyni, en síðan leigði hann sér herbergi í Hlíðarhúsi hjá þeim hjónum Gísla kaupmanni Stefánssyni og Soffíu Andersdóttur. Árni réðist kennari við barnaskóla Vestmannaeyja haustið 1886 og var þar kennari í 7 ár eða til skólaársloka 1893. Öll þau sumur stundaði hann verzlunarstörf við Brydeverzlun í Garðinum. Var hann þar oftast „utanbúðarmaður“ og vó viðskiptavinunum salt, kol og aðra þungavöru.
Aldrei var Árni nefndur skólastjóri þau ár, sem hann starfaði við barnaskólann, því að sóknarpresturinn var það raunverulega með fulltingi skólanefndar, en hann vann sér brátt það traust í starfinu, að „yfirvöldin“ létu hann um starfið að mestu eftirlitslaust og fannst því öllu vel borgið í höndum hans. Vissa er fyrir því og sannanir, að Árni rak hér unglingaskóla á eigin reikning 2—3 ár, meðan hann var kennari við barnaskólann. Nemendur munu að vísu hafa verið fáir. Einnig kenndi hann heima hjá sér eða á heimilum smábörnum frá 7—11 ára, svo sem börnum M.M. Aagaards sýslumanns. Flestir nemendur Árna í barnaskólanum voru hinsvegar 12—14 ára. Venjan var að láta börnin ganga í barnaskólann 1—2 síðustu árin fyrir fermingu.
Árin 1893—1900 dvaldist Árni í Hafnarfirði og Reykjavík við verzlunarstörf og var um tíma (1897—1899) verzlunarstjóri við Fischersverzlun í Hafnarfirði.
Áður en Árni fluttist héðan 1893 hafði Jón Magnússon, sýslumaður, (síðar forsætisráðherra) fengið hann í lið með sér til þess að stofna sparisjóð í Vestmannaeyjum.
Aldamótaárið fluttist Árni Filippusson aftur til Vestmannaeyja. Síðan dvaldist hann í Eyjum til dauðadags. Þar gegndi hann mörgum mikilvægum störfum fyrir samborgarana og naut þar óskoraðs trausts bæjarbúa. Þeim orðum vil ég finna stað.

Filippus Bjarnason, faðir Árna í Ásgarði. Filippus var fæddur 15. marz 1822. Hann þótti hreystimaður hinn mesti og sterkur með afbrigðum og fékk því viðurnefnið hinn sterki.
Fyrri kona hans og móðir Árna var Guðrún Árnadóttir bónda að Stóra-Hofi Jónssonar. Hún var fædd 26. okt. 1833. Filippus kvæntist henni 1853 og missti hana eftir 13 ára samlíf 1866. Hún lézt af barnsförum.
Árið 1874 kvæntist Filippus Bjarnason öðru sinni og þá Salvöru Þórðardóttur frá Meðalholtshjáleigu.
Filippus lézt árið 1900. Tveim árum síðar fluttist Salvör ekkja hans til Vestmannaeyja í hornið hjá Árna stjúpsyni sínum og k.h. Gíslínu í Ásgarði. Þar lézt Salvör 1. nóv. 1911. (Heimild Á.Á.).
ctr

Salvör Þórðardóttir, síðari kona
Filippusar Bjarnasonar. Með henni eru
á myndinni tvö börn þeirra Árna og
Gíslínar í Ásgarði: Filippus og Guðrún.

Árið 1901 beitti Árni Filippusson sér fyrir stofnun Ísfélags Vestmannaeyja, og var hann gjaldkeri þess merka félagsskapar til haustsins 1931. Hafði þá verið það alls 22 ár. Formaður Ísfélagsins var hann 1903—1904 og ruddi þá brautir um framtak í byggingarmálum þess. Um allt það starf má lesa í Bliki 1960 og 1961.
Gjaldkeri Sparisjóðs Vestmannaeyja var Árni samtals í 21 ár og samfleytt frá 1900—1919. Það ár var Sparisjóðurinn sameinaður útibúi Íslandsbanka í Vestmannaeyjum, sem þá var sett á stofn. Eftir það var Árni gæzlumaður eða eftirlitsmaður útibúsins, meðan það starfaði eða þar til Íslandsbanki setti upp tærnar.
Árið 1908 myndaði Skipaábyrgðarfélag Vestmannaeyja sérstaka deild innan vébanda sinna fyrir vélbátana, sem þá ruddu sér mjög til rúms í Eyjum. Sú deild varð svo nokkru síðar allt félagið og fékk þá nafnið Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja. Árni Filippusson var þegar við stofnun gerður að gjaldkera deildarinnar og var síðan gjaldkeri Bátaábyrgðarfélagsins til dauðadags.
Meðan hlutafjársöfnun átti sér stað við stofnun Björgunarfélags Vestmannaeyja 1920 og skipakaupin voru ákveðin og fest kaup á fyrsta björgunarskipi Íslendinga og strandgæzluskipi, var Árni Filippusson gjaldkeri félagsins og einn af frumkvöðlum þess.
Árni Filippusson var kosinn í skólanefnd Vestmannaeyja 1908 og sat síðan í henni til dauðadags. Formaður hennar 1916 til dauðadags og gjaldkeri flest árin, sem hann sat í nefndinni. Árni beitti sér mjög fyrir byggingu hins stóra barnaskólahúss, sem Eyjabúar byggðu á árunum 1915—1916.
Árni Filippusson studdi mjög að stofnun og starfrækslu unglinga- eða framhaldsskóla í bænum, og sannanir og staðfestar tölur liggja fyrir um það, að hann greiddi stundum kostnað við rekstur þess skóla úr eigin vasa, svo að sum árin nam þúsundum króna. Hvort þær upphæðir hafa nokkru sinni verið honum endurgreiddar síðar, hefi ég ekki fundið sannanir fyrir, þó að mér þyki það líklegt.
Haustið 1898 gekk Árni Filippusson að eiga Gíslínu Jónsdóttur frá Óttarsstöðum í Ölfusi. Þau fluttu til Eyja aldamótaárið eins og fyrr segir, og munu fyrst hafa verið til húsa í Nýja-Kastala eða á Vegamótum hjá þeim Eiríki kennara og Sigurbjörgu. En árið 1902 byggðu þau hjón sér stórt timburhús við vegartroðningana upp að Gerði og ,,austur á Bæi“ og nefndu Ásgarð, það er nú Heimagata 29.
Um nokkur ár var Árni mjög áhugasamur og ötull bindindismaður í Eyjum og umboðsmaður Stórtemplars þar í stúkunni Báru nr. 2. Áður en stúkan gat byggt sér fundarhús, fékk Árni inni í barnaskólahúsinu fyrir fundi hennar og var þar allt í öllu í bindindisfélagsskapnum. Þetta var á kennaraárum hans. Tryggð hans við málefni bindindismanna mun hafa varað til dánardags. Hann beitti sér fyrir byggingu goodtemplarahússins á Mylnuhóli 1891.
Þeim hjónum varð 4 barna auðið: Guðmundur, verkamaður í Rvík (f. 1898), Filippus Gunnar, yfirtollvörður í Vestmannaeyjum (f. 1902), Guðrún, ekkja Þorsteins Johnson bóksala í Eyjum (f. 1903) og Katrín, gift Árna símritara í Vestmannaeyjum (f. 1905).
Árni Filippusson mun hafa verið listrænn maður. Hann var leturgrafari og smiður góður og stundaði smíðar og smíðaföndur á heimili sínu, þegar tómstundir gáfust til þess.
Páll Bjarnason, skólastjóri barnaskólans, sem minntist Árna í blaðagrein, er hann lézt, segir um hann: „Gleðimaður var hann í vinahópi, og var unun við hann að ræða í góðu tómi. Það bar þó af, hve góðgjarn hann var og ráðhollur, og hygg ég, að þess hafi margir notið bæði fyrr og síðar. Hugur hans til hollra umbóta var vakandi til hins síðasta. Glóðir æskunnar lifðu í sál hans til æviloka.“


Séra Oddgeir Guðmundsen,
barnakennari í Vestmannaeyjum
1893-1904
(F. 11. ág. 1849, d. 2. jan. 1924)

Séra Oddgeir Guðmundsen.

Séra Oddgeir Þórðarson Guðmundsen var sonur Þórðar sýslumanns og kammerráðs að Litla-Hrauni í Árnessýslu Guðmundssonar verzlunarmanns á Ísafirði.
Móðir Þórðar sýslumanns var Sigríður Helgadóttir prests á Eyri í Skutulsfirði. Hún var þannig systir hins merka manns og kennara séra Árna Helgasonar í Görðum á Álftanesi.
Kona Þórðar sýslumanns og móðir séra Oddgeirs var Jóhanna dóttir Lárusar Knudsens kaupmanns í Reykjavík.
Séra Oddgeir hóf nám í Lærðaskólanum í Reykjavík haustið 1864 og lauk stúdentsprófi 1870. Þá hóf hann þegar um haustið nám í Prestaskólanum og lauk embættisprófi í guðfræði sumarið 1872.
Á þessum árum voru það í rauninni útnesjamennirnir eins og danska verzlunarstéttin í Reykjavík nefndi með lítilli virðingu fólk það, sem byggði Reykjanes og smærri nes og svo eyjar í nánd við dönsku nýlenduna Reykjavík, — sem ruddu brautir á vissum sviðum í menningarmálum íslenzku þjóðarinnar og stofnuðu fasta barnaskóla í hreppum sínum. Svo var það t.d. um Vatnsleysustrandarmenn. Þeir stofnuðu hjá sér fastan barnaskóla 1872. Kennaralærðir menn voru þá ekki í rauninni til á landinu, en prestar þóttu vel undir það búnir að inna sómasamlega af hendi þau vandastörf.
Hinn ungi guðfræðingur, Oddgeir Þórðarson, eins og hann skrifaði sig þá, gerðist kennari við nýja barnaskólann á Vatnsleysuströnd. Það var sem sé haustið 1872. Þar starfaði hann aðeins eitt skólaár. Annað skólaár (1873—1874) var hann barnakennari í Hafnarfirði. — En nú tók presturinn í honum að segja til sín. Sumarið 1874 (30. ágúst) vígðist séra Oddgeir til Sólheimaþinga í Mýrdal og var prestur þar næstu 8 árin. Úr Sólheimaþingum fluttist hann síðan vestur í Miklaholtshrepp og sat að Miklaholti, þar sem séra Árni Þórarinsson varð prestur á eftir honum, „hjá vondu fólki“, sem kvað þó vera mesta sæmdar- og gæðafólk.
Ekki undi séra Oddgeir lengi hjá Miklhyltingum. Hann sótti þaðan eftir 4 ár (1886). Fékk hann þá Kálfholt í Rangárvallasýslu. Þar var hann prestur í 3 ár aðeins (1886—1889).
Í öllum þessum sveitaprestaköllum beitti séra Oddgeir sér mjög fyrir aukinni og bættri barnafræðslu. Hann fékk þar ráðna „umgangskennara“, eins og farkennarar voru þá kallaðir, og kleif þrítugan hamarinn til þess að geta á einhvern hátt látið standa í skilum við þá um kaupið, en allir þessir hreppar voru þá sárlega fátækir. Á þeim árum var það úrræðið að sækja um styrk úr Landssjóði til að greiða kennaranum með, og þótti ágætt, ef þaðan fengust 45—55 króna ársstyrkur til skólahaldsins. Það varð oft og tíðum sá hluti kennarakaupsins, sem kennarinn fékk greiddan í peningum. Hinn hlutinn var fæði og húsnæði, meðan skólinn starfaði.
Vorið 1889 (3. apríl) lézt sóknarpresturinn í Vestmannaeyjum, séra Stefán Thordersen. Sótti þá séra Oddgeir þangað og fékk Ofanleitisprestakall 30. ágúst um sumarið. Þar var hann prestur og mikill áhrifamaður til æviloka.
Árið eftir að séra Oddgeir fluttist til Vestmannaeyja, var hann kosinn þar í sýslunefnd. Í henni sat hann tæp 30 ár eða þar til bærinn í Eyjum fékk kaupstaðarréttindi (1918).
Kona séra Oddgeirs var Anna Guðmundsdóttir prófasts í Arnarbæli Einarssonar. Hún var fædd 9. júní 1848 í Dunhaga í Eyjafirði.
Þau hjón áttu saman 15 börn, og voru 9 þeirra á lífi 1908. Kunnastur þeirra barna varð í Eyjum Páll kaupmaður og útgerðarmaður og jarðræktarmaður mikill þar.
Í Vestmannaeyjum undi séra Oddgeir sér ávallt vel. Þar hafði þessi þrekmikli og ósérplægni áhugamaður mikið og mikilvægt starfssvið við sitt hæfi. Eins og áður segir, sat séra Oddgeir í sýslunefnd. Þar fékk hann aðstöðu til að vinna að hugðarmálum sínum, sem flest voru eitthvað í tengslum við framfarir og bætt lífskjör sóknarbarnanna. Einnig sat séra Oddgeir í skólanefnd árum saman eða alls um 20 ár og réði þar mestu um velferðarmál barnaskólans frá því að hann kom til Eyja og næstu 15 árin sem sýslunefndarmaður, skólanefndarmaður, sóknarprestur og hinn vel hæfi og þjálfaði einkakennari sveitarfélagsins og síðar yfirkennari.
Þegar Árni Filippusson lét af barnakennarastarfinu í Eyjum 1893, tók séra Oddgeir við þeim störfum hans og hafði þau á hendi í 11 ár. Fyrstu tvö árin var hann einn kennari við barnaskólann, en eftir að barnaskóli Vestmannaeyja tók að starfa í tveim deildum — eldri og yngri deild, — var Eiríkur Hjálmarsson samstarfsmaður hans. Að sjálfsögðu var það séra Oddgeir, sem stjórnaði skólanum, enda þótt hann væri ekki titlaður skólastjóri. Samkvæmt reglugjörð skólans (sjá hér kaflann um barnafræðsluna í ritinu) var það í rauninni sóknarpresturinn, sem var æðsti stjórnandi skólans f.h. skólanefndarinnar.
Séra Oddgeir var mjög hæfur skólamaður, góður stjórnari og kennari, og bar með sér mikinn persónuleika, svo að börnin virtu hann og lutu aga hans.
Alltaf mun hann hafa saknað kennarastarfsins, eftir að hann lét af því 1904. Sá söknuður leiddi til þess, að hann sótti um stöðu við barnaskólann 1908 með bréfi dags. 20. júní þ.á. Þá bjó prestur niðri í bæ, hafði íbúð í Garðhúsinu. Þá fannst honum starfið ekki mundi veitast sér eins erfitt eins og meðan hann var búsettur á Ofanleiti og gekk þaðan til skólans hvern virkan dag í 11 ár. Skólanefnd hafnaði presti, hver sem ástæðan kann að hafa verið. Líklega hefur skólanefndinni fundizt prestur vera um of hniginn á efri aldur til þess að binda hann í föstu starfi með því, sem hann hafði fyrir.
Séra Brynjólfur Jónsson byggði íbúðarhúsið að Ofanleiti, er hann hafði setið þar í 3 ár, eða árið 1863. Við þessu húsi tók sér Oddgeir eftir séra Stefán Thordersen 1889 og bjó í því fram yfir aldamótin. Þá var húsið orðið mjög lélegt.
Með landshöfðingjabréfi 1901 var séra Oddgeiri veitt leyfi til að taka embættislán, sem svo voru kölluð, kr. 1.200,00, „upp á prestakallið“ til að endurreisa íbúðarhús prestssetursins að Ofanleiti. Þetta gerði síðan séra Oddgeir. Hann lét byggja íbúðarhúsið á Ofanleiti sumarið 1902. Það hús lét síðan séra Sigurjón Árnason rífa til grunna 1927 og byggja það steinhús, er nú stendur á Ofanleiti.
Um nokkurt skeið var séra Oddgeir áhugasamur starfskraftur í bindindisstarfi í Eyjum. Hann leit á það starf sitt sem ríkan þátt í velferðarstarfi fyrir æskulýðinn í sveitarfélaginu og nátengt fræðslustarfinu. Þetta var á fyrstu árum hans í Vestmannaeyjum, og starfaði hann þá mest í barnastúkunni.
Frú Anna Guðmundsdóttir, kona sér Oddgeirs, lézt 2. desember 1919. Höfðu Eyjamenn þá fyrir nokkru haldið þeim hjónum almennt samsæti og fært þeim þakkargjörð fyrir langt og giftudrjúgt starf í sókninni. Hafði þá séra Oddgeir verið prestur samfleytt í 45 ár.
Séra Oddgeir lét sér sérstaklega annt um hag nágranna sinna á Ofanbyggjarabæjum og beitti sér m.a. fyrir því, að þeir fengju sætt sem hagstæðustum innkaupum á nauðsynjavörum með einskonar innkaupasamtökum. Hann leitaði því fyrir bændur og búaliða eftir tilboðum verzlana í Eyjum um verð á nauðsynjavörum handa þeim, ef svo og svo mikið vörumagn yrði keypt í einu lagi. Venjulega var það Verzlun Gísla J. Johnsen, sem bauð séra Oddgeiri beztu kjörin. Á þennan hátt vann hann að bættum efnahag nágranna sinna og sóknarbarna fyrir ofan Hraun.
Séra Oddgeir var talinn ágætur ræðumaður. Hann var tilfinninganæmur og samúðarríkur sálusorgari, en jafnframt var hann raunhyggjumaður, sem fjöldi eldri Eyjabúa minnist enn með mikilli virðingu og ómenguðum hlýleika.


Séra Magnús Þorsteinsson,
hélt kvöldskóla í Vestmannaeyjum
veturinn 1894-1895
(F. 3. jan. 1872, d. 4. júlí 1922).

Séra Magnús Þorsteinsson var sonur héraðslæknishjónanna í Vestmannaeyjum, Þorsteins Jónssonar og Matthildar Magnúsdóttur. Þorsteinn læknir, og oddviti í þrjá áratugi í Eyjum, var sonur Jóns bónda Þorsteinssonar í Miðkekki í Flóa og síðar í Hræringsstaðahjáleigu og konu hans, Þórdísar Þorsteinsdóttur Runólfssonar.
Læknisfrúin Matthildur var dóttir Magnúsar bónda Þorkelssonar frá Fjarðarhorni í Helgafellssveit.
Þau hjón giftust 12. okt. 1865 og fluttust þá til Vestmannaeyja, þar sem Þorsteinn gerðist héraðslæknir og fékk skipun í það embætti tveim árum síðar.
Magnús sonur þeirra var fæddur í Landlyst* í Eyjum, og ólst þar upp. Undir skóla lærði hann hjá föður sínum, sem oft tók drengi til kennslu, sérstaklega ef þeim var ætlað langskólanám, og sérílagi meðan enginn var barnaskóli fastur í Eyjum.
Magnús Þorsteinsson var fermdur 19. júlí 1885 með biskupsleyfi, þá tæplega 13 1/2 árs. Með honum fermdi séra Brynjólfur annan pilt, sem orðinn var 18 ára, Guðmund Thomsen að nafni. Síðar kunnur Eyjaskeggi á sína vísu.
Um haustið 1885 hóf Magnús síðan nám í Lærða skólanum í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1891. Það haust hóf hann guðfræðinám við Prestaskólann.
Magnús Þorsteinsson lauk embættisprófi í guðfræði 1893. Um haustið það ár sigldi hann til Kaupmannahafnar og dvaldist þar um veturinn.
Veturinn 1894—1895 dvaldist guðfræðikandídatinn heima í foreldrahúsum og notaði þá tímann til þess að greiða götu ungmenna í Eyjum til framhaldsnáms. (Sjá kaflann hér í ritinu um barnafræðsluna). Einn af nemendum Magnúsar guðfræðikandidats frá þessum vetri varð landskunnur maður. Það var Eldeyjar-Hjalti (Hjalti Jónsson, skipstjóri). Hann las frönsku hjá honum þennan vetur.
Árin 1895—1897 var Magnús guðfræðikandídat starfsmaður J.P.T. Bryde og vann við verzlun hans í Vík í Mýrdal, en þá var það, sem kaupmaðurinn setti á stofn fasta verzlun í Vík og hafði á þeim árum marga Eyjabúa, sem síðar urðu kunnir menn, í þjónustu sinni.
Árið 1897 vígðist Magnús Þorsteinsson aðstoðarprestur séra Halldórs Ó. Þorsteinssonar að Krossi í Landeyjum. Árið eftir fékk séra Halldór lausn frá embætti. Var þá séra Magnús kosinn prestur í Krossþingum og var þar í 7 ár. Hann sat að Bergþórshvoli og hafði jörðina til ábúðar.
Séra Magnús Þorsteinsson fékk Mosfell í Mosfellssveit árið 1904 og bjó á Lágafelli. Þar lézt hann á 51. aldursári og þar er hann grafinn.
Kona séra Magnúsar var Valgerður Gísladóttir bónda á Býjarskerjum Jónssonar.
* Rétt þykir mér að geta þess, að fræðaþulurinn Sighvatur Borgfirðingur telur séra Magnús fæddan í Sjólyst í Eyjum, en það er tæpast rétt, því að læknishjónin keyptu Landlyst árið 1869 og fengu byggingu fyrir henni (tómthúslóðinni) 16. ágúst sama ár. Þau munu hafa flutt í húsið það sumar eða um haustið.


Eiríkur Hjálmarsson,
barnakennari í Vestmannaeyjum
1895-1928
(F. 11. ág. 1856, d. 5. apríl 1931).

Hjónin Eiríkur Hjálmarsson og Sigurbjörg R. Pétursdóttir með tvo sonu sína, Vilhjálm Ágúst til hægri og Harald til vinstri. Myndin mun vera tekin veturinn 1896-1897, er Eiríkur hafði verið kennari við barnaskólann í Vestmannaeyjum 1-2 ár.

Eiríkur kennari Hjálmarsson fæddist að Ketilsstöðum í Mýrdal. Foreldrar hans voru Hjálmar bóndi Eiríksson og k.h. Guðrún Jónsdóttir.
Þau hjón fluttust til Vestmannaeyja um 1860 austan úr Mýrdal. Þegar þau höfðu verið í Eyjum á þriðja ár, missti Hjálmar konu sína. Þá undi hann ekki í Eyjum lengur og fluttist undir Eyjafjöll með drenginn Eirík með sér. Þá var hann á 7. árinu. Það mun hafa verið vorið 1863. Undir Eyjafjöllum ólst svo Eiríkur Hjálmarsson upp. Þar naut hann lítillar bóklegrar fræðslu í uppvexti sínum, en snemma bar á námfýsi hjá Eiríki og nokkurra góðra bóka átti hann kost hjá góðu fólki undir Eyjafjöllum. Allt las hann með íhygli, er hann náði til, bæði veraldlegar bækur og guðsorðabækur.
Flest árin var hann með föður sínum til 25 ára aldurs. Á því tímabili lærði Eiríkur söðlasmíði hjá Jóni söðlasmið Gunnsteinssyni í Bólstað í Mýrdal, og var hann vel að sér í þeirri iðngrein, enda var honum hagleikur meðfæddur og handlagni.
Á harðindaárunum eftir 1880 tók Eiríkur sig upp frá æskustöðvum sínum og fluttist vestur í Straumfjörð á Mýrum og mun hafa gerzt þar verzlunarmaður hjá Páli Eggerz kaupmanni. Ætlun hans var að stunda þarna söðlasmíði öðrum þræði. En þarna undi Eiríkur Hjálmarsson ekki mörg ár, þó að þau mótuðu að ríkum þætti örlög hans, því að hér batzt hann stúlku, sem hét Sigurbjörg Rannveig Pétursdóttir og varð eiginkona hans, fimm barna móðir og hinn ástríkasti lífsförunautur, stoð hans og stytta í löngu lífi.
Árið 1885 flytzt Eiríkur Hjálmarsson svo vestan frá Straumfirði til Vestmannaeyja og gerist verzlunarmaður hjá Gísla Engilbertssyni verzlunarstjóra í Júlíushaab á Tanganum. Hann fær herbergi til íbúðar í sjálfu verzlunarhúsinu. Svo mikið var við hann haft. Þar dvelst hann fyrsta árið í Eyjum.
Á þessum árum var tryggðin við æskustöðvarnar ríkur þáttur í hugsun Eiríks Hjálmarssonar og lífi. Þess vegna leitaði hann á þær slóðir aftur og gerðist verzlunarmaður í Vík í Mýrdal, að hermt er, við Brydeverzlun þar.
Alltaf brann í huga Eiríks þráin til að afla sér fræðslu og mega miðla fræðslu. Hann las öllum stundum, þegar hann gat náð í bækur, og hann stefndi að því að verða barnakennari.
Litlar vonir stóðu til þess samt, að hann gæti orðið barnakennari í Eyjum nema þá að reka eigin skóla. Þegar Árni Filippusson hætti kennslustörfum við barnaskóla Vestmannaeyja 1893, tók séra Oddgeir sóknarprestur við starfi hans, og barnaskólinn hafði þá aðeins þörf fyrir einn kennara.
Eiríkur Hjálmarsson stofnaði eigin barnaskóla í Eyjum, líklega árið 1890. Þann skóla mun hann hafa rekið fyrir eigin reikning í 5 ár eða til vertíðarupphafs 1895. En Eiríkur stundaði sjóróðra á vertíðum í Eyjum fyrstu árin, sem hann dvaldist þar, eftir að hann hætti verzlunarstörfunum, og margar vor- og sumarvertíðir réri hann þar síðar, eftir að hann var orðinn fastur kennari. Vissa er fyrir því, að Eiríkur rak barnaskóla sinn um tíma í gamla læknisbústaðnum Pétursborg, sem enginn treystist þá orðið til að búa í sökum hrörleika. Það hefur vissulega ekki verið vistlegt skólahús. En hvað var til ráða? Úrræðin voru þá heldur fábreytileg og kostir fáir til framtaks og dáða.
Eftir að Eiríkur varð fastur barnakennari í Eyjum, hélt hann smábarnaskóla á heimili sínu að Vegamótum.
Sumarið 1895 flutti Jón sýslumaður Magnússon tillögu um það á almennum borgarafundi í Eyjum, að barnaskóli Vestmannaeyja yrði látinn starfa í tveim deildum, eldri og yngri deild, og kennsla yrði veitt ókeypis í skólanum.
Þá tillögu sýslumanns síns samþykktu Eyjabúar með miklum fögnuði.
Haustið 1895 hófst kennsla í skólanum í tveim deildum og var Eiríkur Hjálmarsson ráðinn kennari yngri deildarinnar. Þá kennslu annaðist Eiríkur næstu 10 ár a.m.k.; en hann var kennari við barnaskóla Vestmannaeyja til vorsins 1928 eða samfleytt í 33 ár. Þá var heilsa hans tekin að bila, enda þá 72 ára um sumarið.
Eiríkur Hjálmarsson var góður kennari og hélt góðan aga, á yngri börnunum sérstaklega. Hann var hið mesta ljúfmenni í allri framkomu sinni og mikill gæðamaður, traustur drengskaparmaður, sem aldrei mátti vamm sitt vita í einu eða neinu.
Haustið 1888 kom Sigurbjörg R. Pétursdóttir, heitmey Eiríks, til Vestmannaeyja til þess að giftast unnusta sínum. Þau giftust 28. okt. það haust. Þá var hann 32 ára en hún 24, (f. 24. nóv. 1864).
Sumarið 1888 festi Eiríkur Hjálmarsson kaup á tómthúsinu Nýja-Kastala, þar sem Margrét Jónsdóttir ekkja hafði búið, síðan hún missti mann sinn, Jón Hannesson, 1853. Þar hafði Hannes Jónsson, sonur hennar, formaður á áttær. Gideon og hafnsögumaður, dvalizt með móður sinni frá fæðingu og þar myndaði hann og mótaði hjúskaparheimili sitt með Margréti Brynjólfsdóttur konu sinni frá Norðurgarði 1881.
Nú fékk Hannes byggingu fyrir jörðinni Miðhúsum, en Eiríkur fyrir tómthúsinu Nýja-Kastala frá 2. júlí 1888. Eiríkur hafði þannig af mikilli fyrirhyggju tryggt sér varanlegan samastað, þegar brúðarefnið kom til Eyja rakleitt til að giftast honum um haustið. Árið eftir, 6. júlí, eignuðust þau fyrsta barn sitt. Það var sveinbarn, og hlaut nafnið Vilhjálmur. Það barn misstu þau hjón á mjög ungum aldri eða innan við tveggja ára.
Árið 1893 eignuðust þau annað sveinbarn, sem skírt var Vilhjálmur Ágúst. Hann náði þroskaaldri, lézt 1927. Þriðja barn þeirra hjóna er Haraldur rafvirkjameistari í Reykjavík, f. 27. júní 1896. Árið 1900 fæddist þeim fjórða barnið, Hjálmar, (f. 25. jan.), sem var verzlunarmaður í Vestmannaeyjum, d. 1940. Fimmta barn þeirra hjóna, Anna, er búsett í Reykjavík, ekkja Guðna skipstjóra Jónssonar frá Ólafshúsum í Eyjum.
Tómthús sitt Nýja-Kastala nefndi Eiríkur Vegamót. Það nafn ber húsið enn.
Ég kynntist Eiríki kennara Hjálmarssyni fyrsta árið, sem ég starfaði hér í Eyjum. Það var síðasta starfsár hans við barnaskólann. Mér er í minni þessi dagfarsprúði, aldraði kennari, sem vann starf sitt af stakri samvizkusemi til síðustu stundar. Hann kenndi í barnaskólahúsinu síðari hluta dags á sama tíma og ég hafði þar Unglingaskóla Vestmannaeyja. Þess vegna kynntist ég honum og starfi hans betur en ella hefði verið.
Sigurbjörg Rannveig, kona Eiríks, lézt 1946, á brúðkaupsdegi þeirra hjóna 28. október. Hjónaband þeirra var ástúðlegt og gott, eins og þau voru bæði, og heimilislíf þeirra eftir því.