Blik 1961/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


HUGVEKJA


flutt í Gagnfræðaskólanum haustið 1960

.



Í fyrra kom út hér á landi stórmerk bók, sem heitir Frumstæðar þjóðir. Í bók þessari er þessi klausa:
„ ... Barn mun líta út sem Eskimói eða Zulumaður eingöngu eftir því, hvort það er fætt sem slíkt, en hegðun þess er undir því komin, í hvers konar menningarumhverfi það elst upp. Skoðanir erfast ekki ... Dýr lifa fyrst og fremst samkvæmt eðlishvöt, — maðurinn samkvæmt því, sem hann hefur lært.“
Að vonum vakti það um tíma hér í bænum mikið umtal og mikinn úlfaþyt, að nokkur hluti nemenda Gagnfræðaskólans stóðst ekki próf á s.l. vori. Ég átti að hafa fellt allan hópinn af ráðnum hug. Ég einn er sagður ráða hér öllum einkunnum við prófin og beita þar óvægt valdi mínu af miður góðu innræti. Ekki einu sinni fulltrúar fræðslumálastjórnarinnar eiga að vera annað en stórt núll í þeim leik.
Hvílík fjarstæða. Þannig eru þá kynni Eyjaskeggja af mér eftir 33 ára starf. Þessi sannfæring nokkurra manna og kvenna olli því, að 30 ára starfs skólans var minnzt eftirminnilega á s.1. hausti, svo að vissir fræðimenn komandi kynslóða munu veita því athygli. Dómur sögunnar lætur ekki að sér hæða.
Ég þykist mega fullyrða, að á undanförnum árum hafi hlutfallslega ekki stærri hundraðshluti nemenda Gagnfræðaskólans hér fallið við vorpróf en í öðrum sambærilegum skólum í landinu. Hinsvegar verður því ekki neitað, að með auknum nemendafjölda í skólanum og vaxandi útgerð í bænum með öllu því, sem þeirri þróun fylgir, svo sem sívaxandi aðstreymi vertíðarfólks, drykkjuskap, lauslæti og ýmsum öðrum þáttum ómenningarlífs, hefur fræðslu- og uppeldisstarf kennaraliðs bæjarins sízt auðveldazt. Að þessu mun ég koma síðar í máli mínu.
Samkv. staðfestri opinberri reglugjörð þarf unglingurinn að hljóta 4 í skriflegri íslenzku og reikningi og svo 4 í aðaleinkunn til þess að standast hið svokallaða unglingapróf.
Haustið 1958 tók Gagnfræðaskólinn við 89 nýnemum (13 ára börnum) úr barnaskólanum. Þeim var skipað í deildir sem hér segir: 27 nem. í A-deild (verknámsdeild), 26 nem. í B-deild (verknámsdeild) og 36 nem. í C-deild (bóknámsdeild).
Sökum þess hve aðaleinkunnir þessa barnahóps voru lélegar, þótti hyggilegast að hafa tvær verknámsdeildir í 1. bekk skólans. Var þá lögð til grundvallar einkunnaskrá barnaskólans, en hún hefur um árabil reynzt yfirleitt sannsögul um getu nemenda til náms.
Þessi unglingahópur þreytti síðan unglingapróf á s.l. vori. Nokkur flutningur milli bekkja hafði átt sér stað. Heildarútkoman í prófunum varð þessi: Af 20 nemendum, sem þreyttu próf í verknámsdeildinni 2. A, stóðust 7 prófið, 9 nemendur féllu og 4 gáfust upp eða luku ekki prófi. Af 24 nemendum, sem þreyttu próf í verknámsdeildinni 2. B, stóðust 16 prófið en 5 nem. féllu og 3 nem. gáfust upp í miðju prófi. Af 36 nemendum í 2. C, bóknámsdeildinni, stóðust 32 nemendur prófið, 3 nemendur féllu og einn nemandi veiktist stuttu fyrir próf. Fimm nemendur hættu námi fyrir próf í 2. bekk A, fyrir atbeina foreldra sinna, þar sem ég krafðist þess, að nemendur þessir lytu reglum í skólanum og stunduðu nám sitt með stundvísi og reglusemi, eftir því sem geta þeirra hrykki til. Þetta bar við í skólanum nokkrum dögum áður en unglingaprófin skyldu hefjast og þessir nemendur með öðrum inna af hendi fyrstu skyldu sína við þjóðfélagið og tryggja sér um leið full réttindi í því. Íslenzkur unglingur, sem ekki hefur lokið skólaskyldu, er í rauninni aumkunarverður. Flest sund reynast honum lokuð, ef hann hefur annars manndóm til að knýja nokkurs staðar á sér til frama og gengis. Í þessu sambandi minnist ég þess, að eitt vorið voru tveir 14 ára drengir teknir úr skólanum fyrirvaralaust sökum þess eins, að ég reyndi að tala um fyrir þeim, þar sem þeir höfðu hafið tóbaksneyzlu. Þannig voru þeir einnig sviptir þeim réttindum, sem unglingaprófið veitir íslenzkum æskumanni samkvæmt lögum. Það ber að harma, þegar svo lítill skilningur er ríkjandi varðandi hinar fyrstu og allra minnstu skyldur æskumanns gagnvart sjálfum sér og þjóðfélaginu.
Margir nemendur í 3. bekkjar deildum stóðust heldur ekki próf á s.l. vori.
Það er ofureðlilegt, að bæjarbúar undrist hið mikla hrun við prófið á s.l. vori og spyrji bæði sjálfa sig og aðra. Ég hefi reynt að svala forvitni þeirra og benda þeim á staðreyndir. Það hefur leitt til þess, að fastari tökum er nú tekið á þessum málum öllum en í fyrra.
Allir hlutir eiga sér takmörk, og þá einnig geta okkar kennaranna til kennslu og aðhalds nemendum.
Á undanförnum árum hefur vissum spillingaröflum í þessum bæ verið gefinn laus taumurinn, svo að til niðurrifs og vandræða horfir um allt uppeldi og fræðslustarf í bænum.
Kennarar og foreldrar, skólarnir og heimilin fá ekki lengur rönd við reist. Spillingaröfl þessi voru orðin svo sterk í fyrra, að þau voru okkur um megn. Þau höfðu náð ótrúlegum tökum á nokkrum hluta nemendanna, enda þótt við hefðum lítið undan þessu unga fólki að kvarta, meðan það var í skólanum.
Vissum mönnum hér í bæ leiðst í fyrra að stunda einskonar nytjun á æðistórum hópi af æskulýð bæjarins, með því að þeir fengu að reka hér ölkrár án flestra takmarkana alla tíma ársins. Mjög margir unglingar afhentu þessum mönnum flesta aura sína fyrir ölföng, tóbak og sælgæti. Þar að auki reyta þessir unglingar úr vasa foreldranna drjúgan skilding í sama skyni, svo að af hljótast leiðindi og jafnvel ófriður á heimilum. Í ölkrám þessum eyddu unglingarnir þeim stundum, sem þeim annars bar að nota til náms heima og annarra skyldustarfa.
Meiri hluti þeirra unglinga, sem ekki stóðust próf hér í Gagnfræðaskólanum á s.l. vori, höfðu varið 3—6 tímum svo að segja daglega langan tíma úr vetrinum í ölkránum í bænum. Þar var veitt fram á nætur.
Í ölkrám þessum eru spilltustu og frökkustu unglingarnir heimaríkastir. Unglingarnir, sem mistekizt hefur að ala vel upp, verða þar áhrifaaðilar, sem orka á hina til niðurrifs og spillingar.
Hin miklu áhrif ölkránna leyndust ekki í fyrra í skólastarfinu og í daglegri framkomu æskulýðsins á götum bæjarins, þó að nemendur yfirleitt lytu aga í skólanum og væri ekkert undan þeim þar að kvarta. En það eru ljósar staðreyndir, að þetta niðurrifsstarf þeirra, sem ölkrárnar reka, og öll sú óhamingja, sem af rekstri þeirra stafar heimilum og foreldrum í bænum, tortímir einnig öllum árangri af skólagöngunni hjá æði mörgum unglingum. Töluverður hluti þessara ógæfusamlegu ungmenna, sem verður ölkránum og götulífinu að bráð, verður eins og á milli steins og sleggju. Annars vegar eru kröfur skólans og heimilisins um skyldurækni, aga og ástundun með prófin yfir höfði. Hins vegar eru freistingarnar og agalaust líf í ölkrám bæjarins við látlaust ölþamb, sælgætisát, reykingar, gaspur og glamur. Þetta líf leiðir síðan til ennþá hraksmánarlegri spillingar utan við veggi ölkránna, þegar á kvöldið líður — spillingar, sem margir foreldrar gera sér ekki grein fyrir, því miður.
Því verður heldur ekki neitað, að með aukinni útgerð og auknu aðstreymi aðkomufólks á vertíðum fer svall og ólifnaður æ í vöxt í bænum. Þetta ómennskulíf heltekur hugi margra unglinga á gelgjuskeiðinu. Ekki lesa þeir námsbækurnar eða læra, meðan þeir eru að hugsa og njósna um líf og hætti þessa siðspillta fólks, sem þannig hagar sér. Hugur þessara æskumanna fyllist annarlegum hugsunum. Ekkert annað kemst þar að.
Þá má minnast á sumarvinnu barna hér og unglinga. Í sumar var hér veðurblíða dag eftir dag og viku eftir viku. Segja má, að sólskinið ríkti hér svo mánuðum skipti. Flestar þessar sólskinsvikur voru fiskstöðvarnar hér eða hraðfrystihúsin rekin að langmestu leyti með vinnuafli barna og unglinga. Þarna var þessi æskulýður lokaður inni allan daginn og sviptur þannig sólskininu, útiloftinu og öllum styrk þeim og þrótti, sem það má veita uppvaxandi æskulýð. Börnin og unglingarnir voru látin hefja vinnu kl. 8 að morgni. Þau voru látin vinna til lágnættis nótt eftir nótt. Mikinn hluta sumarsins nutu þau þannig um 7 tíma hvíldar. Getur þetta í rauninni átt sér stað hjá menningarþjóð upp úr miðri 20. öldinni?
Hvaða hneigðir og öfl eru hér að verki? Hvaða hugsun og hvaða hvatir leynast að baki þessari barnaþrælkun?
Við blessum vinnuna og það ber okkur að gera. Og við dáum þann æskulýð, sem vill vinna. Ég finn einnig til með þeim atvinnurekendum, sem skortir vinnuafl til þess að geta nýtt að fullu fyrirtæki sín, ekki sízt þegar þau eru grundvöllur mikils atvinnulífs í bæjarfélagi, eins og hér í Eyjum. En ég get ekki orða bundizt, þegar rekstur þeirra hefur í för með sér þrælkun á uppvaxandi æskulýð, — barnaþrælkun, sem einna helzt minnir á systur sína í upphafi iðnbyltingarinnar í Englandi á 18. öld og fræg er að endemum í sögu mannkynsins.
Við þessum börnum og unglingum taka svo skólarnir að haustinu. Innan veggja þeirra er þetta æskufólk lokað flesta daga vetrarins. Það hefur nám að haustinu svipt mest allri sumarsól og úttaugað af þreytu. Nemendur þessir reynast þróttlausir við námið og námsleiðinn og þreytan gera snemma vart við sig. Þeir rísa ekki undir kröfum þeim, sem skólunum er skylt að gera til þeirra. Þá taka ölkrárnar við. Þar er hægt að dreifa áhyggjum og eyða tímanum, og nú koma hinir miklu vasapeningar frá sumrinu sér vel. Þannig vinnur þetta allt í sameiningu gegn skólastarfinu. Geti svo skólarnir ekki eftir sem áður veitt ungviðinu þá fræðslu og það uppeldi, sem þeim er ætlað, er sökin sett á þá en ekki minnzt á umhverfið og allar aðstæður. Þannig hefur verið grátið og tönnum gníst, vælt og volað, kært og klagað yfir kröfum mínum og skólans til nemendanna um ástundun og skyldurækni, en ekki hefi ég heyrt nema einn föður minnast á bölvun þá, sem stafar af ölkránum og umhverfi því, sem skólinn starfar í í stærstu verstöð landsins á langri vertíð. Þessi eini faðir skildi vel, hvílík mæða og andstreymi steðja að þeim hjónum vegna niðurrifsstarfs vissra manna í bænum og vildi feginn mega brjóta mélinu smærra öll tæki og allt hafurtask hinna ófyrirleitnu. Svo heitt var honum í hamsi.
Eitt er hér enn ótalið, sem stundum hefur valdið erfiðleikum í starfi. Á seinni árum er það alltof algengt, að mæður hér vinni úti, vinni utan við heimilið, ekki sízt á vertíð. Börnin og unglingarnir koma að mannlausu húsi, þegar þau koma úr skólanum. — Tómleikinn heltekur hina ungu og viðkvæmu sál. — Mamma er ekki heima. Enginn heima. „Ég hef enga sál til þess að setjast að heima við lestur. Ég fer þá heldur í ölkrána til þess að dreifa tímanum eða drepa hann.“ Þessi orð eru tekin orð rétt upp úr stílum nemenda. Þó nokkrir nemendur hafa látið þessa hugsun sína í ljós í ritgerðum sínum. Ég finn til með þeim. Þeir hafa mikið til síns máls. Ég skil þá vel. Það eru ekki allar syndir Guði að kenna í uppeldismálum. Síður en svo.
Sem betur fer er það mikill minni hluti mæðra, sem er með þessu merki brenndur, en of stór þó. — Veit ég vel, að margar húsmæður og mæður í bæ þessum hafa mikla þörf á umræddri vinnu og eru í alla staði virðingarverðar fyrir dugnað sinn og atorku. En í þessum efnum eiga þær ekki allar óskilið mál.

Jafnframt öllu þessu ófremdarástandi í uppeldis- og fræðslumálum bæjarins, er ég nú hefi drepið á, er því ekki að leyna, að óregla unglinga hér hefir farið vaxandi ár frá ári, þó líklega ekki meira hér en víða annars staðar í landi voru. Það hefur átt sér stað, að við höfum fengið unglinga í skólann, sem neytt hafa víns öðru hvoru allan veturinn. Samkvæmt anda fræðslulaganna eiga slíkir unglingar ekki að vera í skóla með heilbrigðum unglingum, því að þeir geta verið öðrum hættulegir, — haft spillandi áhrif á þá. Enda hefi ég ávallt reynt að losa skólann við þá svo fljótt, sem því hefur verið við komið, þótt það hafi stundum kostað óvild og jafnvel hatur. Um það tjóar ekki að hirða. Hver sá, sem reka á ungmennaskóla í stærstu verstöð landsins á vertíð, verður að halda stofnuninni fljótandi ofan á umhverfinu, hvað sem tautar og á hverju sem gengur. Og nái vertíðarskólpið að skvettast inn fyrir borðstokkinn, verður að ausa því út samstundis. Að öðrum kosti er stofnunin búin að vera sem uppeldis-og fræðslustofnun.

Ekkert af þessum einkennum tímans, sem hér var drepið á varðandi æskulýðinn, heimilin og æskumálin, þurfti ég að stríða við fyrstu 28 árin mín hér í Eyjum. Breytingarnar til hins verra í þessum efnum á seinustu árum eru mjög athyglisverðar.

Ég þykist hafa þreifað á því, að foreldrum hér í bæ er þetta allt meira og minna ljóst. Þá margra ára reynslu hefi ég af manndómi þessa fólks, að ég veit, að það binzt nú samtökum með kennurum, skólum, prestum og öðrum, sem vinna vilja til bóta á þessu ástandi og bjarga æskulýð bæjarins frá frekari niðurlægingu og óhamingju. Í fyrra haust boðaði Gagnfræðaskólinn til foreldrafundar, þar sem þessi mál öll voru tekin til umræðu og ályktunar. Ekki færri en 160 foreldrar frá næstum jafnmörgum heimilum sóttu þennan fund. Þar virtist áhuginn brennandi og skilningur glöggur og góður á þessum málum. Bæði innan veggja skólans og utan fannst mikill og góður árangur af fundi þessum. Einn kennari skólans, sem hefur áhrifaaðstöðu í bæjarstjórn, beitti sér fyrir stofnun tómstundaheimilis handa æskulýð bæjarins. Jafnframt beitti hann sér fyrir því, að setur unglinga á ölkránum yrðu takmarkaðar með afgreiðslubanni. Það tók æðilangan tíma að koma þessu öllu í framkvæmd, en það hefur tekizt fyrir góðan vilja og góðan skilning bæjarstjórnar og annarra málsmetandi manna.

Við, sem hér erum búsett, teljum rúmlega 4600 manns. Sem svarar helmingi þessa mannfjölda eða þar um bil kemur hingað árlega á vertíð nú síðustu árin frá flestum landshlutum. Mikill meiri hluti þessa aðkomufólks er ágætt fólk, vinnugefið, reglusamt og siðprútt. Hinsvegar verður því ekki neitað, að nokkur hluti aðkomufólksins er sori þjóðfélagsins, sem segir fljótt til sín, þegar hingað er komið.
Mjög áberandi er aukinn drykkjuskapur aðkominna ungmenna, sem hér dveljast á vertíð, sérstaklega ungra kvenna. Í fyrra vetur á vertíð var það orðin segin saga, ef dansleikir voru í Samkomuhúsinu, að yngri og eldri biðu í hópum utan við dyr Samkomuhússins kl. 2 að nóttu, er dansleik lauk, til þess að sjá dauðadrukkinn mannfjöldann veltast fremur en ganga út úr húsinu. Það vakti alveg sérstaka forvitni að sjá og vita, hve margar ungar stúlkur væru bornar út „dauðar“ sökum áfengisnautnar að loknum dansleik. Sú var niðurlæging mest bæjarfélaginu og þjóðfélaginu, og hún vakti mesta spennu. Mannssálin er sérkennilegt fyrirbrigði!

Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum hefur nú starfað hér í 30 ár. Allan þann tíma hefur það verið hlutskipti mitt að bera hita og þunga þessa langa dags. Kennarar hafa komið og farið eins og gengur, en ég hef þraukað, hvað sem á hefur dunið. Og satt að segja, nemendur mínir, hefur það ekki verið erfitt að þola þann hita og þunga, léttara en flestir hafa ímyndað sér eða gert sér grein fyrir. Því veldur fyrst og fremst hið ánægjulega samstarf mitt við þann mannvænlega æskulýð, sem hér hefur numið og starfað. Þau samskipti vekja mér hlýhug og ánægjulegustu endurminningarnar. Þess vegna er mér það ekki sársaukalaust, ef nú tekur að síga á ógæfuhliðina fyrir okkur Eyjabúum og ég má vita og sjá einhvern hluta þess mannvænlega og vel gerða æskulýðs, sem hér elst jafnan upp, grotna niður vegna þess, að við hirðum ekki nægilega um að spyrna gegn broddunum, sporna við þeim eyðingaröflum, sem hirða um það eitt að geta náð peningum af æskulýðnum, hvað svo sem manndómi hans líður.
Í þessum vandamálum treysti ég fyrst og fremst á hin mörgu og góðu heimili í þessum bæ og nána samvinnu þeirra við skólann og aðrar uppeldisstofnanir og svo einstaklinga, sem þessum málum unna og vilja þeim einhverju fórna og fyrir þau starfa.
Það ber ekki ósjaldan við, að foreldrar spyrji um hegðun barna sinna hér í Gagnfræðaskólanum. Lang oftast get ég þá ekki annað en borið þeim bezta vitnisburð. Þá ber það við, að undrunarsvipur kemur á foreldrið, sem spurði. Hvers vegna? Vegna þess, að þeir hinir sömu unglingar, sem ég gef hinn bezta vitnisburð í skólanum, eru stundum hinir erfiðustu heima fyrir, svo að mæður þeirra eru sármæddar og jafnvel þjáðar sökum óhlýðni þessara ungmenna, tillitsleysis, heimtufrekju og ruddaháttar við foreldra sína eða aðra nánustu aðstandendur.

Nemendur mínir. Öll eigum við eina sömu óskina til handa sjálfum okkur. Við viljum öll verða gæfusamt fólk, — hamingjunnar börn í lífinu. Hlotnast okkur það hnoss fyrirhafnarlaust og án þess að við gerum okkur hina minnstu grein fyrir skilyrðum lífshamingjunnar? Mjög sjaldan. Í þessu sambandi langar mig til að minna ykkur á fornan Íslending, sem þið mörg hin eldri hafið lesið um í haust. Íslendingur þessi er Auðunn vestfirzki. Hann var sonur fátækrar konu á Vestfjörðum.
Svo vel var þessi landi okkar alinn upp, að konungar tveggja Norðurlanda, sem hann heimsótti, dáðust að. Í rauninni sigraði Auðunn þá báða einvörðungu með framkomu sinni. Sveinn konungur í Danmörku vildi svo gjarnan hafa þennan göfuglynda og mennilega landa okkar við hirð sína og vildi gera hann að skutulsveini sínum og sýna honum margskonar annan virðingarvott. En Auðunn vildi fara heim til Íslands eftir þriggja ára dvöl erlendis. Það undraðist konungur. Heldur heim en þiggja glæsilega stöðu í konungsgarði og mannvirðingu þjóðhöfðingjans. Hvað olli þeirri sterku heimþrá? Þá mælti Auðunn: „Ekki má ég það vita, herra, að ég hafi hér mikinn sóma með yður, en móðir mín troði stafkarlsstíg (betli) úti á Íslandi, því að nú er lokið björg þeirri, er ég lagði til, áður en ég færi af Íslandi.“ Konungur svarar: ,,Vel er mælt, og mannlega, og muntu verða giftumaður.“ Sveinn Danakonungur var vitur maður. Aldrei hafði hann orð á því við Auðunn, að hann væri gæfusamlegur ungur maður fyrr en hann sannfærðist um umhyggju hans og artarsemi við móður sína.
Auðunar þáttur vestfirzka er eitt af gullkornunum í forníslenzku bókmenntunum. Auðunn sjálfur ógleymanleg persóna, m.a. vegna þess, hversu hann metur mikils móður sína, fórnarlund hennar og allt, sem hún hefur fyrir hann gert. Það skildi Sveinn, hinn vitri konungur, að þeir eiginleikar Auðunar mundu verða honum til gæfu og gengis, láns og lífshamingju síðar á lífsleiðinni, t.d. í stöðu föður, eiginmanns og heimilisföður. Þessi kenning þáttarins er sígild, nemendur mínir. Hún felur í sér jafngullvægan sannleika í dag eins og fyrir 1000 árum. Óska vildi ég þess, að þið fengjust til að hugleiða þessa hluti, kryfja þá til mergjar og skilja þá. Það mundi leiða ykkur til mikils happs og mikillar hamingju í lífinu.

Þ.Þ.V.