Blik 1960/Þáttur nemenda, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



ctr
(Fyrri hluti)


Snyrting

Rigningin buldi á rúðunum, og ég varð þess vegna að dúsa inni allan daginn.
Mamma hafði farið í bæinn, svo að ég var látin vera heima hjá systur minni. Svo kom einhver vinkona hennar í heimsókn. Þær tóku tal saman inni í herbergi systur minnar og mér var svo sem ofaukið, því að ég var smábarn. Þó fannst mér ég ekkert barn vera, því að ég var orðin 6 ára. Ég ætlaði líka að sýna þeim það, stássmeyjunum þarna inni í svefnherberginu hennar systur minnar, að ég var ekkert smábarn lengur, heldur gat ég staðið þeim á sporði.
Ég hafði oft séð mömmu og eldri systur mína vera að snyrta sig til inni í snyrtiherberginu. Þegar ég skyggndist þar um eftir fegurðarlyfjum, sá ég, að ég var of lág í loftinu til þess að ná upp í skápinn, sem þau voru geymd í. Ég sótti því tvo eldhúskolla og setti þá hvorn upp á annan. Síðan klifraði ég upp.
Í skápnum var margt að sjá. Þar var púðurdós, varalitur, naglalakk, augnabrúnalitur og ýmislegt fleira þess kyns.
Fyrst tók ég púðurdósina og setti hana á stólinn, sem ég stóð á. Síðan tók ég fram allt, sem mér datt í hug, að ég þyrfti að nota til þess að verða eins og „dama“.
Svo hófst snyrtingin. Fyrst púðraði ég mig. Þegar ég opnaði púðurdósina, hallaðist hún, svo að helmingur af duftinu, sem í henni var, fór á stólinn og gólfið. — Þegar púðruninni var lokið, tók ég til að mála varirnar og augnabrúnirnar. Þegar ég svo leit í spegilinn, fannst mér ótrúlegt að þetta væri ég sjálf. Mér flaug í hug, að einhver stæði fyrir aftan mig. Ég leit því við, en þar var enginn. Þetta hlaut þá að vera ég sjálf! Þó þótti mér það næsta ótrúlegt. Augnabrúnirnar voru t.d. miklu stærri en þær áttu að sér að vera. Munnurinn var alveg óskaplegur. Varirnar voru svo þykkar, að neðri vörin náði niður á miðja höku. En var þetta ekki tízka? — Og svo hélt ég áfram. Ég málaði neglurnar og ýkjulaust eitthvað af fingrunum með.
Þegar ég var að setja ilmvatnið í mig, var kallað fyrir aftan mig: „Jeminn góður, hvað ertu að gera, barn?“
Mér brá svo við þessi köll og læti, að ég hellti niður ilmvatninu. Það fór á gólfið, en þó mest á kjólinn minn.
En hvað mamma sagði, þegar hún kom heim, það er önnur saga. Þó var þá búið að hreinsa það mesta af mér. — Það er trúa mín, að hún hefði orðið blíðari, ef hún hefði séð, hve litla stúlkan hennar var orðin dömuleg.

Sara Elíasdóttir,
Gagnfræðadeild.
● ● ●

Leðurblakan

Ég vil segja hér frá smáatburði, sem átti sér stað í skólalífinu veturinn 1957. Ég og vinkona mín gengum suður fyrir stafninn á fimleikasalnum í langa kennsluhléinu kl. 10— 10,15 einn dag í sæmilegu veðri. Uppi á múrveggnum sáum við hanga einhverja „klessu“ og skiptum við okkur ekkert af henni.
Síðan varð hlé á kennslu í skólanum um hálfsmánaðarskeið sökum veikinda nemenda og kennara.
Þegar við komum í skólann aftur, röltum við vinkonurnar suður fyrir stafn fimleikasalsins. Sáum við þá, hvar „klessan“ hékk enn á múrveggnum. Þótti okkur það athyglisvert, hversu lengi hún hafði tollað þarna í þeirri veðráttu, er verið hafði að undanförnu, suðaustan votviðrum og krapahryðjum.
Mér fannst nú, að „klessan“ væri ekki ósvipuð rottu, sem hefði fest sig þarna uppi, þó að það væri fremur ótrúlegt. Þá segir vinkona mín: „Ætli þetta geti verið leðurblaka?“ Nú varð forvitnin alveg ómótstæðileg, svo að ég tók moldarköggul og kastaði í vegginn rétt hjá „klessunni“ og vinkona mín tók spýtu og potaði með henni í „klessuna“. Þá kom vængur í ljós og við heyrðum ýlfur. Við sannfærðumst nú um, að við hefðum fundið leðurblöku. Við hlupum inn í skóla og tjáðum þetta skólastjóranum. Hann kom hlaupandi út með okkur og allur nemendaskarinn á eftir til þess að skoða furðudýrið. Einn kennarinn kom með þykka leðurhanzka og tók leðurblökuna af veggnum með þeim. Síðan var farið með hana upp í skrifstofu og hún látin þar í kassa með gleri yfir. Brátt lét skólastjóri svæfa hana eilífðarsvefninum og stoppa hana upp. Hvorttveggja gerði Friðrik Jesson kennari. Nú er hún geymd í náttúrugripasafni skólans og vekur forvitni og furðu allra, sem hana sjá.

Lilja H. Baldursdóttir.
3. bekk bóknáms.
● ● ●

Refaveiðar

Þessar stúlkur seldu flest eintök af Bliki á s.l. ári.
Frá v.: Guðmunda Andrésdóttir, Skólavegi 12, og Kristín Bergsdóttir Skólavegi 10.

Sumarið 1958 var ég í sveit austur í Hornafirði. Þar var mikið um refi.
Seint í ágúst fór ég með félögum mínum upp á fjöll í björtu veðri til þess að njóta útsýnis yfir héraðið.
Þegar við vorum komnir upp á fjöllin, sáum við tófu. Við héldum fyrst, að þetta væri hundur og tókum til að kalla á hann. En við nánari athugun uppgötvuðum við hið rétta. Það var þá tófa þetta, sem tók þegar til fótanna.
Þegar við komum heim, sögðum við hið sanna um það, hvað við höfðum séð.
Daginn eftir fór ég með húsbónda mínum að leita að tófunni. Á leiðinni fundum við þrjú dauð lömb. Af kletti einum háum sáum við grenismunnann þar skammt frá.
Við biðum á klettinum í tvo tíma. Þá sáum við refinn koma upp fyrir hæð nokkra svo sem í 100 metra færi. Bóndinn þreif riffilinn og skaut refinn. Litlu síðar sáum við tæfu kerlingu gægjast upp fyrir stein með lamb í kjaftinum. Bóndinn tók þá til að góla eins og tófa. Tæfa færði sig sífellt nær og nær, þar til hún var komin í skotfæri. Þá skaut bóndinn hana, og lenti skotið í kviði hennar. Hún teygði upp hausinn og gólaði. Síðan hvarf hún á burt. Við töldum víst, að hún hefði drepizt síðar, því að við sáum blóðdropa í slóð hennar. Bóndinn elti tófuna um stund, en tapaði síðan af henni. Ég beið hjá greninu, unz hann kom aftur.
Bóndi hafði með sér hálm að heiman, sem hann kveikti í utan við grenismunnann. Vindurinn stóð beint á hann, svo að reykinn lagði inn í grenið. Hvolparnir komu því fljótt út úr greninu. Við gripum þá og stungum þeim í poka. Við settum refinn í annan poka og héldum síðan heimleiðis ánægðir með fengsæla veiðiför. Óvinum bænda og kinda var fækkað.

Grímur Magnússon,
2. bekk B.
● ● ●

Vertu trúr

„Vertu trúr allt til dauðans ... og einnig þeim, sem eru hjálpar þurfi, skaltu rétta hjálparhönd, hvort sem það eru dýr eða menn.“ Þetta voru orð ömmu minnar við mig, er ég sat á knjám hennar. Þessara orða átti ég eftir að minnast síðar. — Já, ég var barn, þegar amma sagði þetta við mig, en þau hafa festst vel í huga mínum.
Ég var orðinn 10 ára gamall, þegar ég fór fyrst að heiman. Þá fór ég austur undir Eyjafjöll, — að Raufafelli. Ég átti að dveljast þar um sumarið. Mér leiddist fyrst, en fólkið var alúðlegt, og brátt hurfu leiðindin sem dögg fyrir sólu.
Ég var búinn að vera helminginn af dvalartíma mínum, þegar mér barst símskeyti frá pabba og mömmu. Það var þess efnis, að amma væri dáin. — Gat það verið, að elsku amma mín væri dáin? — Ég hélt skeytinu lengi í höndum mér. — Þetta er víst leiðin allra, hugsaði ég og brast í grát. Ég var óhuggandi lengi.
Tíminn leið og réttir nálguðust. — Réttardagurinn rennur upp bjartur og fagur. Kl. 6 að morgni er lagt af stað í göngurnar. Okkur gangnamönnunum er skipt í hópa. Ég lenti í hópi með húsbónda mínum. Við göngum upp fjallið, sem er fyrir ofan bæinn. — Um hádegi er ég orðinn viðskila við húsbóndann og alla. Ofan af fjallinu sé ég stóran fjárhóp renna niður hlíðina. Ég hefi verið kappsamur og ötull og því orðinn þreyttur.
Það var farið að rökkva, þegar ég hélt ofan af fjallinu.
Skyndilega heyri ég jarm fyrir ofan mig. Ég skyggnist um og sé, hvar lamb hímir á klettasyllu. Mér flýgur í hug, að það sé í svelti fyrst það jarmar svona. — Ég sný við. Mér verður þegar ljóst, að erfitt muni að ná lambinu nema með hjálp annarra. — En myrkrið var að skella á. — Ég afréð að reyna þegar að bjarga lambinu og réðist því til uppgöngu þangað, sem það var. Þegar ég átti ófarinn dálítinn spöl upp að syllunni, valt steinn undan fótum mér, en um leið náði ég taki á bergnybbu með höndunum og hafði að fikra mig upp á sylluna. Þá var ég orðinn örmagna af þreytu. Ég var blóðrisa á höndunum.
Þegar ég hafði jafnað mig dálítið, fór ég að huga að lambinu og íhuga, hvernig ég mætti komast niður með það. Mér leizt ekki á blikuna. Ískyggileg var niðurgangan með lambið. En hér stóð varnarlaust og hjálparvana dýr, sem mér bar að hjálpa, því að ég minntist nú orða ömmu minnar, sem ég gat um í upphafi, og mér óx kjarkur og hugdirfska.
Ég náði lambinu og batt það við mig. Síðan réðst ég til niðurgöngu. — Hvort það var orðum ömmu að þakka eða ekki, þá komst ég niður klakklaust með lambið og hélt til byggðar. Á leiðinni mætti ég nokkrum mönnum, sem voru á leið til fjalls til að leita að mér. Ég sagði þeim farir mínar og gjörðir. Þeir undruðust stórum.

Guðmundur Pálsson,
Gagnfræðadeild.
● ● ●


Úr ritgerðum nemenda 3. bekkjar:


„Heimilið og æskumaðurinn“


„... Foreldrarnir mega ekki láta börnin ráða heimilinu eða vaða yfir höfuð sér. Með því móti skapast aldrei farsælt og gott heimili, heldur skrípamynd af heimili. Börnin eiga að vera foreldrum sínum og heimilinu til sóma. Það verða þau bezt í fágaðri framkomu, skyldurækni og hlýðni. Einnig verður sambandið milli foreldra og barna að vera þannig, að börnin leiti til þeirra fyrst og fremst með öll vandamál sín, sæki til þeirra leiðbeiningar og ráð.
Sé framkoma barnsins á heimilinu þannig, að það raski heimilisfriði og góðum heimilisháttum, þá eiga foreldrarnir einvörðungu sök á því. Þeim hefur mistekizt uppeldið á barninu. ...“
„... Foreldrarnir eiga ekki að ala þá hugsun með sér að börn þeirra séu meiri og betri en önnur börn. Sú hugsun leiðir oft til vandræða. — Þegar börn eru alin upp við dekur og allt látið eftir þeim, verða þau erfiðari viðfangs, þegar þau eldast og eiga að hlýða öðrum. Heimilisfriðurinn er fyrir öllu. Undirstaða hans er ástríkt samlíf foreldranna, og svo hlýðni barnsins og virðing þess fyrir þeim. Ófriður á heimili, rifrildi og gauragangur leiðir til þess, að börnin hrekjast burt af því út í sollinn og ógæfuna ...“

B.J.,
3. b.
● ● ●


„... Traust kærleikstengsli eiga að vera milli foreldra og barna, og börnin eiga að bera virðingu fyrir foreldrum sínum eins og þegnar ríkis fyrir þjóðhöfðingja sínum, en þá verða líka foreldrarnir að vera allrar virðingar verðir í sambúð sinni og daglegu lífi ... “

Þ.Ö.
3. b.
● ● ●


„... Mér finnst dálítið leiðinlegt, þegar mamma er að vinna úti og enginn er heima, þegar ég kem úr skólanum. En hún uppgötvar alltaf eitthvað nýtt, sem henni finnst hún þurfi að kaupa sér, og þá fer hún að vinna úti. Í vetur ætlar hún aðeins að vinna eftir hádegið ...“

G.B.
● ● ●


,,... Innileg tengsl milli foreldra og barna eru mjög nauðsynleg. Ef foreldrarnir eru drykkfelldir eða neyta áfengis annað eða báðir, er ekki von á góðu. Börnin missa þá virðingu fyrir foreldrum sínum og margt annað gengur úr skorðum á heimilinu því. Öll óregla hefir vond áhrif á börnin, gerir þau hrædd og veikluð, og búa sum að slíkum hörmungaáhrifum alla ævi ...“

V.M.B.
3. b. verknáms.


Tízka

„... Ég held, að mikið minna sé um tízku hjá strákum en okkur stúlkunum. Eitthvað bera þeir þó við að elta tízku eða búa sér til tízku. T.d. er það tízka hjá þeim núna að hneppa ekki tvo efstu skyrtuhnappana svo að sjáist í nærbolinn. —
Það er allt í lagi.
En bolurinn er stundum svo skitinn, að ekki verður fullyrt, að hann sé hvítur, eins og hann á auðvitað að vera. —
Svo er víst líka tízka hjá þessum drengjum að maka svo mikilli feiti í hárið á sér, að það er þykkt og stundum stíft. Ef til vill bera sumir smjörlíki í það. Topparnir standa upp í loftið eins og kýrhali á vordegi ...“

E.E.,
3. b.
● ● ●

Doddi og Gulla

Ég var í sveit, þegar ég var tólf ára og þá skeði þetta atriði, sem ég ætla að segja frá núna.
Það var fagran sumarmorgun, að ég var á leið með kýrnar í hagann, og af því að veður var svo gott, sólskin og rjómalogn, gat ég ekki annað en brugðið mér í bezta skapið og hrifizt með litlu fuglunum, sem sungu svo fagurt, spóanum, sem vall úti í móa, og lóunni, sem söng „dýrðin, dýrðin“. Jafnvel kýrnar virtust hlusta á þennan fuglasöng og teyga að sér ilm náttúrunnar.
Já, þarna gengum við allar sjö (ég, og kýrnar sex) og vorum allar djúpt hugsandi! Ég var einmitt að hugsa um, hvað allir hlytu nú að vera ánægðir og áhyggjulausir á svona fögrum degi, þegar ég heyrði allt í einu veikt tíst, sem var síður en svo ánægjulegt, heldur var það veiklulegt og vanmáttka, svo að ég fór að líta betur í kring um mig. Kom ég þá auga á litla gráa þúst, sem bærðist aðeins. Gekk ég þar að til að sjá betur og sá þá, að þetta var lítill andarungi, og var móðirin auðsjáanlega búin að yfirgefa hann. Hafði hann víst legið þarna lengi, því að hann gat aðeins bært á sér. Nú var ég ekki lengur að hugsa um yndisleika náttúrunnar. Ég var einnig búin að gleyma kúnum. Ekkert komst að í huga mínum nema litli unginn. Tók ég hann upp og hljóp við fót alla leiðina heim.
Þegar ég kom heim móð og másandi, stóðu hjónin úti á hlaði. Höfðu þau séð til ferða minna og héldu, að eitthvað hefði komið fyrir. Létti þeim mikið, þegar þau sáu, að ekki var um neitt alvarlegra að ræða en þetta. Bóndi fór til þess að halda áfram með kýrnar í hagann, en ég og húsfreyja fórum með ungann inn í bæ. Dúðuðum við hann í ull og reyndum að koma ofan í hann mjólk og fiski, sem var mulinn í smátt.
Einhvern veginn komum við ofan í hann. Svo setti ég hann í kassa undir eldavélina í hitann og leið ekki á löngu, þar til hann sofnaði vært.
Eftir nokkra daga var hann farinn að vappa um í eldhúsinu og tísta við og við. Heyrðist okkur hann alltaf segja „dodd, dodd,“ svo að við skírðum hann Dodda.
Svo einn daginn fór ég með hann út á hlað og setti hann niður hjá hænuhópnum. Kom þá ekki ein hænan, sem við kölluðum Gullu, með ungana sína þrjá, og kjagaði til Dodda og var eins og hún væri að gæla við hann. Hann virtist ekki kunna því svo illa. — Einn hafði bætzt í hópinn, þegar Gulla vappaði af stað. Var svo yndislegt að horfa á þetta, að ég fékk tár í augun, og ég vissi einnig, að nú væri Doddi búinn að fá nýja mömmu, sem myndi annast hann eins og sitt eigið afkvæmi. Og það sýndi sig líka, því að Doddi varð fallegri og sterklegri með hverjum deginum sem leið, enda var hann stolt og eftirlæti Gullu gömlu.
Svo leið sumarið og Doddi var orðinn stór, en samt leit ekki út fyrir, að hann vildi fara burtu frá okkur, því að hann kom jafnan aftur, þó að hann flygi stundum frá bænum.
En þrátt fyrir allt, var ég kvíðin. Mér fannst ég finna það á mér, að Doddi flygi einhvern tíma burtu, og kæmi ekki aftur.
Svo einn daginn lyfti hann sér til flugs eins og áður, og var ég ekkert að hugsa um það frekar og fór inn í bæ að vinna. Eftir dálitla stund fór ég út til þess að gá, hvort Doddi væri ekki kominn, því að hann var ekki vanur að vera lengi í burtu. En Doddi var ekki kominn. Kvíðinn læstist um mig alla og greip mig heljartökum. Gulla gamla vappaði líka um, og ef einhver ætlar að reyna að telja mér trú um, að hænur séu heimskar, segi ég þá manneskju skrökva, því að mér finnst Gulla gamla hafa haft mikið vit.
Það leið að kveldi og ekki kom Doddi. Við vorum öll orðin mjög kvíðafull, en samt held ég, að ég hafi verið kvíðafyllst. Hjónin reyndu að hughreysta mig, en ekkert dugði. Ég gekk grátandi um allt hús og bað til guðs, að hann gæfi mér litla dýrið mitt aftur. En allt kom fyrir ekki. Doddi kom ekki það kvöld og ekki var hann kominn, þegar ég fór heim mánuði síðar. Helzt af öllu hefði ég viljað vera lengur og bíða, því að ég var sannfærð um, að Doddi kæmi aftur. Hjónin lofuðu að skrifa mér, ef hann kæmi, og varð ég að sætta mig við það.
Leið svo veturinn, og ekkert fréttist af Dodda. Ég var orðin vonlaus. En um vorið fékk ég þær gleðifregnir, að Doddi væri kominn aftur. Varð ég svo glöð, að ég grét gleðitárum.
En ekki gat ég séð Dodda, því að það sumar varð ég að vera heima. Saknaði ég hans ógurlega. En það var þó bót í máli, að ég fékk fregnir af honum svo að segja hálfsmánaðarlega.
Kom hann svo tvö næstu sumur og dvaldist á bænum. Seinna sumarið var mér send mynd af honum og dansaði ég þá stríðsdans um allt. Svo glöð varð ég.
En þriðja sumarið kom hann ekki, og þóttist ég þá vita, að hann væri dáin. Þá grét ég af harmi. Hugsunin um það, að Doddi væri dáinn, heltók mig. Það var eins og verið væri að slíta úr mér hjartað. Nú sit ég stundum með myndina af Dodda fyrir framan mig og hugsa um fallega andarstegginn minn, sem ég mun aldrei, aldrei gleyma. Ég varðveiti minningu hans sem helgidóm í hjarta mér.

Ólöf J. Sigurgeirsdóttir,
III. b. bóknáms.
● ● ●



ctr

Framsóknarvist er vinsæl skemmtun í skólanum. - Stjórnað víst, þar sem á annað
hundrað nemendur spila í salnum.

seinni hluti