Blik 1957/Athugasemdir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1957



Athugasemdir


í Bliki 1956 birtist grein, sem heitir „Kirkjurnar í Vestmannaeyjum.“
Við grein þessa óska ég að gera þessar athugasemdir:
Í Eyjasögu minni, bls. 54, hefir orðið prentvilla, þar sem sagt er, að kirkjan á Kirkjubæ hafi verið helguð St. Andrési. Fyrst og fremst verður öllum þessi prentvilla ljós, ef lesnar eru bls. 62, 65 og 69 í Eyjasögunni. Einnig hefur hún verið leiðrétt í blöðum, síðan sagan kom út.
Í nefndri grein í Bliki, bls. 13 segir: „Bænhús þessi stóðu lengi, einkum á Ofanleiti, því að bænhúsið þar var ekki rifið fyrr en 1850.“
Bænhúsið á Ofanleiti stóð með vissu 1860 og fram yfir þann tíma. Árið 1885 er það enn órifið, en breytingar höfðu verið gjörðar á því. Áður var það og fram um 1860 í þrem stafgólfum, af timbri gjört, tjargað að utan með lagðri þakhellu. Einn glergluggi var á því með fjórum rúðum.
Bænhúsið á Kirkjubæ stóð samt lengur. Húsið, sem í daglegu tali var alltaf nefnt bænhúsið, þó að hætt væri fyrir löngu að nota það til kirkjulegra athafna, stóð fram að síðustu aldamótum. Það heyrði til bænhússjörðinni á Kirkjubæ, en eigi staðarbænum, eins og ranglega var greint í skýrslu til Þjóðminjavarðar á sínum tíma.
Árið 1924, eða 24 árum eftir að bænhúsið var rifið, fannst legsteinn séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts í bænhússstæðinu. Séra Jón hefir verið jarðsettur inni í bænhúsinu fyrir framan altarið.
Órökstutt verður að teljast með öllu, að fyrsta kirkjan í Vestmannaeyjum hafi verið reist á eyrinni undir Heimakletti. Á seinni tímum hafa margir nefnt eyri þessa Hörg(a)eyri án sannana fyrir því, að það sé sú forna Hörgaeyri. Sama er að segja um kirkjugarð undir Löngu.
Nú er það öllum kunnugt, sem um þessi mál fjalla, að kirkjan á Kirkjubæ hét ekki Klemensarkirkja. Í hinni „gagnfróðlegu sóknarlýsingu sinni“, — svo að höfð séu eftir orð dr. Þorkels Jóhannessonar um hana — mun séra Jón Austmann hafa haft Kirkjubæjarkirkju í huga sem arftaka Klemensarkirkjunnar. Ruglings nokkurs um þessi mál gætir í afriti frá 1750 af kirkjuskrá Páls biskups frá um 1200 og löngu áður en prentun fornbréfasafns hefst. Ofanleitiskirkja hefir verið næsta kirkja, er reist var, en ekki kirkjan á Kirkjubæ, eins og segir í ofannefndri grein. Verður eigi fjölyrt frekar um þetta hér, en vísað til Eyjasögunnar, einkum bls. 42—120, I. B.
Varðandi prestatalið mun réttara, að núverandi sóknarprestur á Ofanleiti sé sá 21. þar í röðinni frá siðaskiptum.

S.M.J.