Blik 1956/Til athugunar ungmennum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1956



Dr. NÍELS DUNGAL, prófessor:


Til athugunar ungmennum


Hver, sem reykir innanhúss, óhreinkar andrúmsloftið fyrir öðrum. Margir þola illa reyk, svo að þeim súrnar í augum, og sumir fá hósta og særindi í háls, og það því meiri sem menn eru viðkvæmari fyrir reyknum. — Reykingamenn sýna öðrum yfirleitt litla tillitssemi í þessum efnum. Ekkert er við því að segja, þótt þeir reyki hver framan í annan. En þeir eiga ekki með að eitra andrúmsloftið fyrir þeim, sem vilja anda að sér hreinu lofti. Þar sem reykt er í þröngum húsakynnum og lítt loftræstum, verður reykjarmagnið svo mikið, að þeir, sem reykja ekki, geta fengið næstum eins mikinn reyk ofan í sig eins og hinir, sem reykja. Á heimili, þar sem mikið er reykt getur skapazt krabbameinshætta fyrir þá, sem ekki reykja, svo að þeir, sem viðkvæmir eru fyrir þeirri hættu, geta fengið krabbamein í lungun rétt eins og hinir, sem reykja. Þegar slíkt kemur fyrir, er það af reykingarmönnum notað sem sönnunargagn til að sanna, að krabbamein stafi ekki af reykingum, þar sem þessi, sem aldrei hafi reykt sígarettu, hafi fengið krabbamein. Þeir gera sér ekki ljóst, hve óþarfir þeir sjálfir eru sínu umhverfi.
Reykingar sóða út öll hús, svo að gluggatjöld, veggir og húsmunir svertist af sóti. Húsið lyktar af reyk, og er aldrei vel hreint.
Með því verði, sem hér er nú á sígarettum, má gera ráð fyrir, að það kosti 40.000—100.000 kr. að reykja í sig krabbamein.
Þið, sem eruð ung, virðist eiga fyrir ykkur glæsilega framtíð í þessu landi. Eldri kynslóðin hefur búið vel í haginn fyrir ykkur, lyft hverju Grettistakinu af öðru til þess að gera landið byggilegt. Heilbrigði er orðin svo góð í landinu, að við stöndum flestum þjóðum framar í þeim efnum. Engin auðæfi jafnast á við góða heilsu, því að þótt menn hafi gnægð allra hluta, en vanti heilsuna, verður allt annað einskisvirði. Við, sem höfum lagt grundvöllinn að velmegun ykkar og heilbrigði, væntum þess af ykkur, að þið brjótið ekki niður þá heilbrigði, sem með miklum erfiðismunum hefur verið byggð upp. Brjótið hana ekki niður með því sjálfskaparvíti, sem verst er allra: Leggja ærinn kostnað í að gerast þræll ills vana, sem grefur undan heilsu manns, vitandi fyrirfram, hvernig fara muni.
Eigum við þá ekki að hlífa okkur við sígarettunni?