Blik 1956/Manntal í Vestmannaeyjum 1703-1955

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1956Manntal í Vestmannaeyjum
1703-1955


Margir hafa af því gagnlegan fróðleik að skyggnast í tölur, er varðar þjóðlífið sjálft, og bera breytingar þeirra saman við ýmsa atburði í atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar.
Skyggnumst við t.d. með athygli og íhugun inn í manntalstölur Vestmannaeyja, — þær, sem tök eru á að fá eða til eru, og bera þær saman við ýmsa merkisatburði í þróun atvinnulífsins hér annarsvegar og þróun þess annars staðar á landinu hinsvegar, þá erum við ekki ófróðari eftir. Skilningur okkar á vissum sögulegum staðreyndum glæðist og vex við þessa íhygli.
Að þessu sinni óska ég að gefa nokkra sýn yfir manntalstölur Eyjanna, þróun mannfjöldans. Um leið óska ég að minna á merkustu atburðina í sögu og þróun atvinnulífsins og fleira, sem haft hefur áhrif til verulegra breytinga á manntalstölunum og þróun bæjarfélagsins í heild.
Við skyggnumst fyrst í elztu manntalstölur þjóðarinnar — manntalið 1703. Svo sem kunnugt er, þá er það manntal kennt við Árna Magnússon og Pál Vídalín, sem skipaðir voru að boði konungs vorið 1702 til að semja jarðarbók um allt landið, rannsaka efnahag og lífskjör landsmanna, réttarfar og löggæzlu og taka fullkomið manntal. Það skyldu þeir láta sýslumenn og presta annast, og skyldi þar greina sérstaklega fátækt fólk og þurfandi.
Þetta manntal — Manntal á Íslandi árið 1703 — gaf Hagstofa Íslands út fyrir fáum árum. Mun sú stóra og merka bók í fárra manna höndum. Þykir mér því rétt að skrá hér fleira en tölurnar einar, svo sem nöfn jarða og tómthúsa, ábúendafjölda o.fl., sem gagnlegur fróðleikur felst í.
Manntalið hefst á Kornhólsskansi — eins og það er orðað — 14. marz 1703 hjá umboðsmanninum Kristófer Jenssyni.

Nöfn
jarða
Ábúenda-
fjöldi
alls
Fjöldi
heimilis-
manna
Kornhólsskans 1 7
Miðhús 2 9
Gjábakki 2 12
Vilborgarstaðir 9 38
Kirkjubær 6 31
Prestshús 2 7
Oddsstaðir 2 7
Búastaðir 2 10
Vesturhús 2 9
Ólafshús 1 5
Nýibær 1 4
Stóragerði 1 7
Dalir 1 8
Þórlaugargerði 2 3
Steinsstaðir 1 5
Gvöndarhús 1 5
Brekkuhús 1 4
Tómasarbær 1 4
Ofanleiti 1 8
Ormsbær 1 5
Samtals
á jörðum
206 manns

„Húsmenn hér við tómt hús“:

Nöfn tómthúsa Heimilisfólk
Ormshús 4
Bergssonarhús 3
Hjallur 2
Sandhóll 3
Hóll 2
Garðhóll 4
Elínarhús 3
Kokkhús 3
Landhús 2
Lönd 4
Runkahús 3
Garðhús,
2 búendur
alls 5
Samtals 40 manns

„Lausamenn, sem hér í vetur verið hafa,“ samtals 11 menn.
„Aðgerðarmenn erlegs umboðsmannsins, er hann hefir bjargað á þessum vetri“: Samtals 11 menn.
„Fátækir“ á framfærslu sveitarinnar að mestu eða öllu leyti eða draga fram lífið á „gjöfum“: samtals 53 manns.
Síðast eru taldar konur, sem komnar eru „innan af landi úr öðrum sveitum, en hér þó ekki vistfastar“, samtals 9 kvenmenn, flestar hingað komnar úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslum. Um 6 þeirra er þetta sagt:
„Hvað þessar hafa fyrir sig að leggja, vitum vér ekki, utan hvað þeim kann að vera gefið, — og þá fiskast, taka þær upp það eftir er skilið í fjörunni og haustmenn komast ekki yfir upp að taka,“ eins og þar stendur.
Manntal þetta er undirritað 29. maí 1703.
Samtals nemur því mannfjöldinn hér í Eyjum þetta vor 330 manns.
Ýmislegt má „lesa á milli línanna“, þegar skyggnzt er í þetta manntal.
Um aldir voru Vestmannaeyjar sá staður á landinu, sem mest gaf af sér vegna fiskisældar, enda jafnan leigðar til nytja einokunarkaupmönnum hærra verði en nokkur annar staður á landinu. Þegar einokunarverzlunin hafði þjakað þjóðinni í 100 ár, var hér í fiskisælasta sveitarfélagi landsins sjötti hver heimilisfastur maður ómagi eða niðursetningur, sem svo voru kallaðir, eða lifðu á betli og bónbjörgum. Þó átti einokunarverzlunin enn eftir að þjá íslenzku þjóðina í nærfellt 90 ár. Ekki fóru Eyjabúar varhluta af þeirri áþján, hungursneyð og hörmungum öllum, sem þjóðin varð að líða alla 18. öldina, enda var svo komið við lok hennar, að hér í Eyjum lifðu aðeins 173 manns árið 1801.
Skulu nú birtar hér manntalstölur Eyjanna um margra ára skeið, fólki til athugunar og fróðleiks.:

Ár. mannfj.
samt.
1703 330
1801 173
1833 278
1840 354
1845 396
1850 399
1855 447
1860 499
1870 571
1880 557
1890 565
1901 607
1910 1319
1920 2426
1930 3393
Karlar Konur Mann
fjöldi
samtals
1939 1771 1781 3552
1940 3587
1941 1749 1797 3546
1942 1729 1785 3514
1943 1747 1789 3536
1944 1784 1813 3597
1945 1764 1794 3558
1946 1723 1755 3478
1947 1718 1758 3476
1948 1750 1751 3501
1949 1777 1772 3549
1950 3699
1951 1858 1879 3737
1952 1961 1938 3899
1953 3980
1954 4069
1955 2097 2032 4129

Tvennt er það sérstaklega athyglisvert, sem benda má á um þessar manntalstöflur á þessari öld. Í fyrsta lagi hinn geysi öra vöxt mannfjöldans hér og byggðarlagsins upp úr síðustu aldamótum og allan þriðjung aldarinnar. Hér veldur að sjálfsögðu mestu um hin öra þróun og mikli vöxtur vélbátaútvegsins í Eyjum.
Á kreppuárunum, 1930—1940, staðnar fólksfjölgunin. Sú kyrrstaða á sér stað fram yfir stríðsárin. Að styrjaldarlokum verður útstreymi fólks úr kaupstaðnum svo ört um skeið, að Eyjabúum fækkar þrátt fyrir miklu fleiri fæðingar en dauðsföll. Hvað veldur? Ef til vill mest æfintýralegar frásagnir um hina miklu gullauðgi tíma við Faxaflóa eftir styrjöldina, og vonin um að öðlast eitthvað af öllum þeim veraldarauði. Þess voru fleiri dæmi þá, að gamlir og grónir Vestmannaeyingar seldu hús sín og ýmsar aðrar eignir og fluttu búferlum til Reykjavíkur eða til annarra Faxaflóahafna. Nokkrar fjölskyldur fluttu þá héðan að Selfossi, sem miklar sögur fóru af um vöxt og viðgang.
Margt fleira mætti nefna um ástæðurnar fyrir fólksfækkuninni hér á þessum árum, en ég læt seinni tíma mönnum eftir að skilja það og skrá.

Þ.Þ.V.