Blik 1953/Per Sivle

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1953Per Sivle


Gamalt orðtæki segir: „Þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst“. Þetta á sér æði oft stað í lífi þjóðanna ekkert síður en í lífi okkar einstaklinganna.
Þetta orðtæki hefur sannazt glögglega í sögu frændþjóðanna, Norðmanna og Íslendinga. Fáar þjóðir lifðu ömurlegri neyðartíma svo öldum skipti við ófrelsi og kúgun en þessar frændþjóðir. Andlegt slén og efnaleg fátækt þrengdi hvarvetna að.
Ófrelsi og ófarnaður eru kunnir fylgifiskar.
Á 19. öldinni veittist báðum þjóðunum hjálpin mikla: Þær eignuðust báðar afburða menn á sviði bókmennta og stjórnmála. Þeir sviptu smám saman burt andlegum og efnalegum fjötrum, þó að allt gengi það starf seinna hér en með norsku þjóðinni.
Einn af andans afbragðsmönnum norsku þjóðarinnar á síðari hluta 19. aldar var Per Sivle, ljóðskáldið og sagnahöfundurinn.
Per Sivle fæddist í Flám í Sogni 1857. Hann ólst upp í nágrannabyggðinni, Voss. Um 16 ára aldur hóf hann nám í lýðháskóla. Síðan fór Per Sivle til Oslóar og hóf þar langskólagöngu. Hann átti að verða prestur. Það varð hann þó aldrei. Hann varð að hætta námi sökum sjúkleika og gerðist blaðamaður.
Sivle hóf snemma að skrifa sögur, varð skáld sagna og ljóða, og skipar þjóðskáldabekk Norðmanna með mörgum öðrum andans stórmennum þeirra, sem við vitum nokkur deili á, svo sem Björnson, Ibsen, Lie, Kielland, Garborg, Vinje, Aasen o.fl.
Per Sivle dó 1904, fátækur og misskilinn af samtíð sinni. Örlög hans voru á ýmsa lund ekki ósvipuð örlögum Jónasar Hallgrímssonar. Báðir eru þeir nú skáld í ,,muna og munni“ þjóða sinna.
Fá norsk skáld hafa alið með sér næmari skilning á norskum lyndiseinkennum og norskri þjóðarsál heldur en Per Sivle. Í kvæðum hans, sögum og sögnum þekkir því norska þjóðin sjálfa sig í alvöru og gamni, gráum veruleikanum og gáskafullu hugarflugi. Nokkuð af því kunnasta, sem Per Sivle skrifaði eða skráði, eru svokallaðir „Vossa stubbar“. Ýmist skráði hann þá eftir öðrum eða samdi sjálfur.
Ég hef skemmt mér við það í tómstundum mínum að reyna að þýða nokkrar af þessum smásögum hans. Þær eru skráðar á mállýzku Vossbúa, með sérkennum þeirra, hnyttinyrðum, græskulausu gamni og góðlegri kímni. Hér birtist ein þeirra.

Þ.Þ.V.
NÁLIN


O, — já og jæja. Það gerist margt furðulegt í þessum heimi. Þér finnst oft þú getir tæpast trúað meira en helmingnum af því.
Hlustið þið nú á.
Fyrsta hjúskaparárið okkar Ingibjargar var hún svo óheppin að reka nál í handlegginn á sér, þar sem hún sat við að sauma barnaföt. Þið vitið, að það er ofur eðlilegt, að nýgiftar konur hafi þörf fyrir þessháttar hluti.
Ingibjörg var annars að sauma svolitla húfu. Hún saumaði með örmjóum, bláum silkiþræði, sem ég átti, síðan ég var farandsali.
Allt í einu kom þar ótætis hunangsfluga suðandi inn um opnar stofudyrnar og settist á borðið hjá henni. Ingibjörgu varð hræðilega bylt við. Eins og þið vitið þá eru þær ofurviðkvæmar, konurnar, þegar þannig stendur á fyrir þeim.
Kastaði hún nú frá sér saumaskapnum, þreif höfuðklútinn sinn og sló til flugunnar af öllum mætti. Þá í sömu andránni rak hún nálina inn í aflvöðva handleggsins. Auðvitað fann hún mikið til. En þegar hún reyndi að draga nálina út aftur, slitnaði þráðurinn, svo að hún sat eftir inni í vöðvanum, og dálítill þráðendi við hana.
Ingibjörg kveinkaði sér, þegar ég kom heim af sláttuteignum um kvöldið. Og aumt var það, svo hún þoldi varla, að ég svo mikið sem liti á það.
,,Já. Ég stend alveg ráðþrota gagnvart þessu,“ sagði ég. ,,það verður bezt að við ökum niður á Vangen á morgun til hans Þorsteins læknis.“ Og það gjörðum við. Þá hittist svo meinlega á, að læknirinn var farinn til Björgvinjar og ekki væntanlegur aftur fyrr en að hálfum mánuði liðnum. Að svo komnu var ekki annað fyrir okkur að gera en að aka heim aftur.
Að hálfum mánuði liðnum var stungusárið gróið, og kelli mín kenndi sér einskis meins, að hún sagði. Síðan dróst það dag frá degi að við ækjum niður á Vangen aftur. — Þegar við svo loksins fundum lækninn, sunnudag einn eftir messu, — það kynni að hafa veríð 5—6 vikum síðar, — gat Þorsteinn ekki fundið vott af nál, hvernig sem hann leitaði.
„Jæja, ég get ekkert gert meira,“ sagði hann, „hér verður ekki rótað eins og með kvísl í kartöflugarði. En þar sem þú kennir þér einskis meins, kona, þarftu ekkert að óttast. Og vilji nálin finna mig, gerir hún vart við sig, og þá verðið þið að koma til mín aftur.“ Hann er nú, eins og þið vitið, svo alþýðlegur og spaugsamur karl, hann Þorsteinn.
En sú, sem ekki gjörði vart við sig, var nálin, hvar sem hún svo var niður komin.
Næsta haust fæddist hún Anna, elzta dóttir okkar. Hún var myndarleg og lagleg stúlka og naumast fermd, þegar hún hafði biðil á hverjum fingri. Svo giftist hún þá að Stóra-Hvoli. Þar sem hún er húsmóðir enn í dag, eins og þið vitið.
Já, svo eignaðist hún einnig dóttur, sem látin var heita í höfuðið á henni Ingibjörgu. Hún dvaldi svo hérna lengst af hjá okkur, hún Ingibjörg litla, þegar hún fór að geta staulazt um og gengið. Svo vildi það til eitt sumarið, —hún mun hafa verið nær fjögurra ára gömul, — að hún tók að kenna sér meins í hægra fætinum. Þegar fram leið, gat hún naumast typpt í hann. Síðan kom í ljós ígerð í hælnum, sem varð svo ljót, að ég og kelli mín ókum til læknisins með barnið.
Jú. Þorsteinn skar í ígerðina, það gjörði hann. ,,Hér er eitthvað hart inni fyrir,“ sagði hann. Og svei mér þá, ef hann ekki allt í einu dró út nál, og hvort sem þið trúið mér eða ekki, þá get ég bölvað mér upp á það, að blár silkiþráðarspotti var í nálarauganu, já, svo sannarlega. „Þarna færðu nálina þína aftur, kelli mín,“ sagði ég. En þá varð læknirinn alveg steinhissa. Og hann afréð, að nálin, eins og hún kom fyrir, skyldi sendast læknaskólanum í Osló. Þar skyldi hún geymast í glasi sem tákn og guðsundur, sagði hann. Þar er hún enn þann dag í dag. Og skyldi eitthvert ykkar koma þangað, þurfið þið ekki annað en ganga inn um dyrnar og bera kveðju mína og hans Þorsteins, og þá fáið þið að sjá með ykkar eigin augum, að ég hefi ekki logið einu einasta orði.
Þegar ég sagði honum gamla Skóla-Knúti frá þessu atviki, sagði hann, að þetta væri samkvæmt biblíunni, því að þar stæði, að það skyldi koma fram í þriðja og fjórða lið, og Ingibjörg litla var einmitt þriðji liðurinn.