Blik 1939, 6. tbl./Kroki

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Kroki.

Það var einu sinni bóndi í Landeyjunum, sem átti hest, er Kroki var kallaður. Kroki var ákaflega vitur skepna, enda þótti bónda mjög vænt um hann.
Þegar Kroki var ungur, var það vani hans að koma alltaf heim að hesthúsdyrum, ef óveður var í aðsigi og bíða þar og kumra, þangað til honum var hleypt inn.
Vetur einn ætlaði húsbóndinn í verið til Eyja og skipaði hann svo fyrir, áður en hann fór, að það ætti að gefa Kroka gott fóður yfir veturinn og nota hann svo til fjöruferða til að leita reka.
Eitt sinn var vinnukona send á fjöru og skyldi hún ríða Kroka. Þegar fram á sandinn kom, heyrði stúlkan skell, sem henni virtist koma frá sjónum.
Lagðist Kroki þá niður og gat stúlkan ómögulega komið honum lengra fram á sandinn. Fór hún því af baki. En þá stóð Kroki upp og stökk heim að bæ.
Hálfum mánuði síðar var Kroki tekinn aftur, og átti að ríða honum niður að sjó. En þegar hann kom á sömu slóðir og í fyrra skiptið, var ekki hægt að koma honum lengra. Sama stúlkan var með Kroka sem fyrr og þótti henni þetta athæfi hestsins mjög kynlegt.
Stúlkan varð að fara af baki og teyma hann heim. Um vorið kom húsbóndinn úr verinu og þótti honum Kroki fallegur. Þremur dögum seinna fór hann á sjó, og drukknaði hann í þeirri ferð. Fannst lík hans rekið á fjöru og var það flutt heim á Kroka.
Halda menn að atburður þessi hafi lagzt svona í Kroka, því að hann hafði verið svo undarlegur allan veturinn, þangað til þetta skeði.

Eftir sögn Þórdísar Ólafsdóttur.
G. S. 3. bekk.