Blik 1939, 4. tbl./Skólinn okkar — bindindi — menning

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1939


Sigurjón Kristinsson (formaður Bindindisfél. Gagnfræðaskólans):

Skólinn okkar — bindindi — menning.
Ræða flutt á útbreiðslufundi bindindismanna í Vestmannaeyjum 31. jan. s.l.

Æskulýðurinn er dýrmætasta eign þjóðarinnar. Að honum verður að hlynna, eftir því sem auðið er. Uppeldismál æskunnar í landinu eru veigamikil atriði í lífi þjóðarinnar og menningu. Tveir aðilar vinna mest að uppeldismálunum: heimilin og skólarnir. Hér í Eyjum starfar gagnfræðaskóli, þar sem hver nemandi er í tóbaks- og vínbindindi innan vébanda bindindisfélags skólans, Menningarmálafélaginu. Starf þess félags á að vísu ekki langa sögu að baki sér. En það er til orðið fyrir áhrif sterkra bindindis- og menningarstrauma í skólanum. Starf þess síðastliðinn vetur setti einnig sinn merka svip á skólastarfið í heild og bar vott um, að í skólanum starfaði æska, sem mat og skildi þörf hins vaxandi bindindis- og menningaranda, sem á síðustu árum hefir gagnsýrt margan annan skóla í landinu. Allir unglingarnir hafa haldið bindindisheit sitt dyggilega og með drengskap. Ég er þess fullviss, að þau frækorn, sem festu rætur í hugum okkar á fundum Menningarmálafél. skólaárið, sem leið, og það, sem er að líða, eiga eftir að bera margfaldan ávöxt í komandi framtíð.
Hvert nýtt ár mun færa okkur ný viðfangsefni — nýja áfanga, nýja sigra.
Þetta félag er fyrst og fremst fræðslufélag, samfara bindindismálunum, þar sem nemendur skólans eiga að geta fundið gullkorn þekkingar og fróðleiks. Það hafa verið flutt ýmis fræðandi erindi og skemmtandi. Og jafnframt hefir nemendum skólans verið gefinn kostur á að taka virkan þátt í starfi Menningarmálafélagsins með frjálsum umræðum og öðru, því Menningarmálafél. leggur áherzlu á, að meðlimir þess verði ekki dauðir bókstafir, heldur starfandi heild.
Um það verður vart deilt, að æsku nútímans eru dýrar gjafir gefnar, þegar tekið er tillit til allra aðstæðna frá sjónarmiði skynsemi og sanngirni. En jafnframt því, að íslenzk æska þiggur sínar mörgu gjafir, ber henni að vera vitandi þess, að hún verður að hagnýta gjafirnar rétt, vera vandlát við samtíðina og fyrst og fremst kröfuhörð við sjálfa sig. Ein af þessum gjöfum, sem íslenzk æska hefir bezta hlotið, er hin sívaxandi bindindishreyfing í skólum landsins.
Á síðari árum hefir æsk­unni á Íslandi verið gefinn kostur á að þroskast til líkama og sálar að meira mun en nokkru sinni fyrr. Hinir mörgu skólar og önnur menntasetur, sem upp hafa risið, bera þess glöggan vottinn. Að vísu eru til menn, sem halda því fram, að æskunni á Íslandi séu of margar gjafir gefnar; en við æskumennirnir getum einnig glaðzt yfir því, að til eru aðrir bjartsýnni menn, sem berjast fyrir okkar málstað, — eru okkar fulltrúar, og þeir hafa, sem betur fer, verið mun sigursælli í starfi liðinna ára. En æskan í landinu getur sjálf sannað það bezt, að hún á skilið athygli og aðstoð til þess að þroskast til líkama og sálar og það gerir hún með því að sanna í verki, að hún kann að meta hin andlegu verðmæti með því að kasta frá sér eiturlyfjunum og stefna einhuga fram til meiri þroska.
Ef æskan hér, — ef nemendur Gagnfræðaskólans, þegar út í lífið kemur, — reynast sjálfum sér trúir um bindindismál og lifa samkvæmt skilningi sínum á skaðræði eiturlyfjanautnanna, þá er þeim borgið. Það er trúa mín, að nemendur Gagnfræðaskólans hér, þegar tímar líða, flytji hinn ríka bindindis- og menningaranda skólans inn í athafnalíf bæjarbúa. En til þess að það takist sem bezt og áhrifaríkast, þurfa foreldrar að kappkosta að börn þeirra komist undir áhrif Gagnfræðaskólans, það er, sæki hann.

S.Kr. (2. b.)