Blik 1936, 2. tbl./Leiðir skilja

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1936


LEIÐIR SKILJA

Eftir ÞORSTEIN Þ. VÍGLUNDSSON skólastjóra

KÆRU nemendur! Sumarið fer í hönd. Við kennararnir þökkum ykkur fyrir hið ánægjulega samstarf vetrarins og vonum, að vegir okkar mætist aftur þegar haustar.
Duglegi æskumaðurinn, tápmikla ungmennið þráir að beita kröftum sínum og setur sér markmið. Hugurinn þráir átök og áreynslu. Þeir æskumenn ganga að störfum með atorku og manndómi, hvort sem þeir beita huganum að bóknámi eða líkamlegri vinnu.
Sá æskumaður, sem þegar setur sér hátt og göfugt markmið, nær vanalega langt, ef hann beitir kröftum hugar og handar að settu marki. Þýzka stórskáldið Göethe segir á einum stað í æviminningum sínum: „Það, sem menn óska sér í æsku, fá þeir ríkulega uppfyllt á elliárunum.“ Skáldið hefir í huga æskumenn, sem fylgja óskum sínum fram með hug og dug og óbifanlegri staðfestu. Hin góðu viðfangsefni æskumannsins, sem taka hug hans föstum tökum, brynja hann um leið gegn illum áhrifum, sem steðja kunna að. Hugurinn hefir ekki tíma til að sinna vondum félagsskap og öðru, sem dregur unglingana niður á við. Starfið verður honum allt. Ekkert er skaðlegra æskumanninum, en slangur og rangl athafnaleysisins. Ég vildi óska þess, að sem flestir foreldrar hér og annars staðar vildu hugleiða þetta og skilja það.
Þann tíma ársins, sem engin er atvinnuvon, á að halda unglingum að námi, sem veitt er hér endurgjaldslaust. Margir unglingar óska heldur að leika lausum hala allt haustið en binda sig við nám. Og sumir foreldrar láta það eftir börnum sínum. Það er ekki rétt. Hugurinn getur aldrei verið iðjulaus. Hafi hann ekki hin góðu viðfangsefni til að glíma við, kýs hann hin lakari. „Betra er illt að gera en ekkert,“ segir máltækið.
Það eru ástæður til að óska þess á þessum atvinnuleysistímum, að sú ógæfa mætti ekki henda neitt ykkar, að reika um í sumar athafnalaust. Fátt gæti orðið ykkur skaðlegra. Iðjuleysið eyðileggur manninn á sál og líkama. Það drepur allan hug og dug, og mundi geta fyrirfarið öllum hug ykkar og vilja til meira náms. Þið vitið þó, að hagnýt þekking er ómissandi hverjum nýtum manni, í hvaða stöðu sem er, og því ber ykkur á þessum aldri að nota þau tækifæri, sem bjóðast til náms.
Gildi mannsins fer eftir því, hve mikið hann leggur á sig af gagnlegu starfi. Asni, sem vinnur, er hátign við hliðina á lötum manni. Hamingjusamur er hver sá unglingur, sem á vilja og krafta til að vinna. Vinnan veitir manninum mátt. Hún er andlegur og líkamlegur aflgjafi.
Ætlunarverk mannsins er að verða ávallt meiri og betri maður. Hann á að varðveita líf sitt í eðlilegri þróun og hjálpa öðrum til þess. En eðlileg þróun, eðlilegur vöxtur krefst framfara á allri tilveru mannsins, líkamlegri, andlegri og siðferðislegri, í fullkomnu samræmi. Maðurinn er skapaður til þess að lifa sönnu og réttlátu lífi á jörðunni, og berjast gegn öllu, sem því er andstætt. Í mannlegum efnum er réttlætið æðsta markið. Skylda okkar er að bera réttlætinu vitni. Trúin á lífið er að trúa því, að lífið sé bardagi, þar sem réttlætið ber sigur úr býtum að leikslokum. Leggið ávallt afl ykkar og starf þeim megin á metaskálarnar, sem samvizkan býður ykkur, að réttlætið sé, og beitið huganum að góðum viðfangsefnum.