Blik 1936, 1. tbl./Athyglisverð játning, tölur sem tala

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1936ATHYGLISVERÐ JÁTNING
Tölur sem tala


MAÐUR nokkur segir svo frá: „Ég er nú 45 ára gamall. 15 ára að aldri byrjaði ég að neyta tóbaks af rælni. Félagar mínir gerðu það, og ég lét til leiðast. Allt var það gert í pukri fyrsta árið. Eftir því sem ég kemst næst, mun ég hafa eytt til jafnaðar 60 aurum á dag til 20 ára aldurs. Ég hefi því eytt kr. 1095,60 til þess tíma, eða 60 aurum á dag í 1826 daga (5 ár).
Frá tvítugsaldri til þrítugs mun ég hafa eytt við 95 aurum á dag að meðaltali, eða kr. 3469,40 — þ.e.a.s. kr. 0,95 á dag í 3652 daga.
Ég giftist 26 ára gamall, og hafði þá einnig fyrir barni að sjá. Atvinnu hafði ég litla og þröngt var í búi hjá okkur. Ég vildi nú hætta tóbaksnautninni, en það reyndist mér með öllu ókleift. Ég verð að játa það, þó með blygðun sé, að ég tók þá aura fyrir tóbak, sem ég þurfti og átti að nota fyrir mat og klæði handa konu og barni. Börnunum fjölgaði og erfiðleikarnir uxu. Ég varð að eyða peningum fyrir tóbak, þótt tekjurnar væru svo litlar, að ég gat ekki fullnægt sárustu þörfum fjölskyldunnar. Ég hafði eitrað líkama minn með tóbaksnautn og sú eitrun krafðist viðhalds, hvað sem það kostaði.
Verð tóbaksins fór hækkandi og þær krónur, sem ég eyddi fyrir það, urðu æ átakanlegri blóðpeningar.
Síðastliðin 15 ár hefi ég eitt til jafnaðar ekki minna en 100 aurum á dag fyrir tóbak eða kr. 5478,00 alls — þ.e.a s. kr. 1,00 á dag í 5478 daga.
Samtals hefi ég því eytt kr. 10.043,00 — tíu þúsund fjörutíu og þrem krónum.
Þetta er ógurleg upphæð, sem segir hræðilegan sannleika, og það er með særðum huga, að ég hugsa til hennar. En af því að ég vil ekki óska öðrum sömu ógæfunnar, sem ég hefi orðið að búa við sjálfur í þessum efnum, þá set ég þessar tölur fram, ef þær kynnu að vekja ungmenni til athugunar á þeim efnalega voða, sem liggur að baki tóbaksneyzlunnar.
Um hinn heilsufarslega voða er ég síður fær um að vitna, því ég er sjálfur sterkbyggður frá skaparans hendi og hefi ávalt hraustur verið. En um þann voða hefir einnig verið meira skrifað og rætt svo hann er athugulum ungmennum kunnur. Kæru ungmenni! Hugleiðið þessa upphæð mína. Hefði ég varið þessum peningum á skynsamlegan hátt mundi ég og fjölskylda mín nú lifa ánægjulegra og betra lífi. Við höfum aldrei haft efni á að eignast eigin íbúð, heldur orðið að hýrast í þröngum ­og lélegum íbúðum sökum fátæktar. Heilsuleysi og ýmiskonar krankleiki steðja að okkur. Rætur þess má rekja til illrar ytri aðbúðar fjölskyldunnar um mataræði, húsnæði og klæðnað. Nú er ég orðinn sannfærður um það, að tóbakspeningarnir mínir hefðu nægt mér til þess að gera þá aðbúð alla betri og heilsusamlegri. Tóbaksneyzla mín hefir því komið harðast niður á því, sem mér var falið að hlynna að og annast um í lífinu.
Það kostar karlmennsku og drenglund að gera slíka játningu. Þess vegna gera hana svo fáir.

Þ.Þ.V.