Benedikt Steingrímsson
Benedikt Kristján Steingrímsson fæddist á Sauðárkróki 14. júlí 1926 og lést 1. júlí 1995. Foreldrar hans voru Steingrímur Benediktsson og Hallfríður Kristjánsdóttir. Foreldrar hans fluttust með hann og yngri systur hans til Vestmannaeyja árið 1928. Þau byggðu húsið Ljósheima við Hvítingaveg. Í Vestmannaeyjum eignaðist hann fimm bræður: Pál, Jón, Gísla, Svavar og Braga.
Að loknu gagnfræðaprófi fór Benedikt að vinna við sveitastörf, síðan í strandsiglingum, byggingarvinnu og vegagerð. Lengst af, eða í fjörutíu og sjö ár, vann hann sem fulltrúi hjá Rafmagnseftirliti ríkisins. Árið 1946 fluttist Benedikt til Reykjavíkur og í ársbyrjun 1947 kynntist hann Vilborgu Jóhannesdóttur. Þau giftu sig árið 1950 og stofnuðu heimili sitt í Smálöndunum í Reykjavík.
Börn Benedikts og Vilborgar voru Steingrímur Jóhannes, gullsmiður í Vestmannaeyjum, f. 1. apríl 1949, Helga, myndlistarmaður, búsett í Óðinsvéum, f. 17. ágúst 1951, og Margrét Ingibjörg, förðunarmeistari, búsett í Reykjavík, f. 16. nóvember 1966.
Heimildir
- Minningargrein í Morgunblaðinu 7. júlí 1995.