Albert Sigurðsson (kennari)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Albert Sigurðsson.

Albert Sigurðsson cand. mag., kennari fæddist 26. október 1904 á Kletti í Borgarfirði og lést 15. október 1989.
Foreldrar hans voru Sigurður Gíslason bóndi, f. 25. nóvember 1857, d. 24. mars 1916 og kona hans Þórunn Brynjólfsdóttir húsfreyja, f. 25. febrúar 1859, d. 18. febrúar 1940.

Faðir Alberts lést, er Albert var 11 ára. Hann var með móður sinni í Kletti.
Hann nam í Alþýðuskólanum á Hvítárbakka 1919-1921, utanskóla í Menntaskólanum í Reykjavík 1924, varð stúdent þar 1928. Hann lauk prófi í forspjallsvísindum í Háskóla Íslands 1929. Albert las slafnesk mál og sagnfræði við tékkneskan háskóla í Prag 1930-1931, sama og ensku við háskóla í Kaupmannahöfn 1931, íslensk fræði í Háskóla Íslands 1931-1932, guðfræði í háskóla í Kaupmannahöfn 1932, læknisfræði í Háskóla Íslands 1933-1938, íslensk fræði í sama skóla 1938-1941, lauk magistersprófi (cand. mag.), las forntungurnar og sögu í Cornellháskólanum í Bandaríkjunum 1944-1945 (próf í latínu 1945), las sagnfræði og rússnesku í sama skóla 1945-1946, las latínu í háskólanum í Ósló 1951-1952, frakknesku í Caen í Frakklandi 1952-1953, las sögu Noregs í háskólanum í Ósló 1953-1954, nám í háskóla í París 1955-1956, í Lundi 1965-1968, námsdvöl á Spáni apríl-maí 1934, á Bretlandseyjum febrúar–mars 1952.
Albert var við kennslu í einkatímum flest námsárin heima, einnig nokkuð erlendis, var heimiliskennari á Álafossi 1928-1929, í Reykjavík 1931-1932 og 1934-1935. Hann var forfallakennari í Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1941-1942, kennari í Menntaskólanum á Akureyri 1943-1944, gagnfræðaskólanum á Ísafirði 1946-1947, Héraðsskólanum á Laugarvatni 1946-1951, í Gagnfræðaskólanum í Eyjum 1954-1955, unglingaskólanum á Búðum í Fáskrúðsfirði 1956-1957, Gagnfræðaskólanum á Siglufirði 1963-1964, var skólastjóri í Flatey á Breiðafirði 1971-1972. Hann veitti Upplýsingaskrifstofu stúdenta forstöðu 1937-1939. Hann var lagermaður í Völundi 1958-1963, stundaði ýmis störf í Svíþjóð (bygginga- og verksmiðjuvinna) 1964-1971.
Albert reit nokkrar greinar í blöð og tímarit.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Manntöl.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.