Þórhallur Sæmundsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Þórhallur Sæmundsson lögfræðingur, útgerðarmaður, fiskverkandi, bæjarfógeti fæddist 24. janúar 1897 í Stærri-Árskógi við Eyjafjörð og lést 11. ágúst 1984.
Foreldrar hans voru Sæmundur Tryggvi Sæmundsson skipstjóri, bóndi frá Gröf í Kaupangssveit og fyrri kona hans Sigríður Jóhannesdóttir, frá Þönglabakka í Flateyjardal, húsfreyja, f. 7. febrúar 1873, d. 14. ágúst 1908.

Þórhallur varð stúdent í M.R. 1919, lauk kandidatsprófi í lögfræði í HÍ 14. febrúar 1924.
Hann stofnaði málflutningsstofu í Eyjum 15. mars 1924, rak hana jafnhliða útgerð og fulltrúastörfum hjá bæjarfógeta til 14. maí 1930. Hann var í framboði til kjörs bæjarstjóra í Eyjum 21. mars 1924, rak fiskverkun og útgerð í Hnífsdal og Eyjum 1928-1930, en stundaði síðan ýmis lögfræðistörf í Reykjavík auk þess að vera lögtaksfulltrúi hjá Hafnarfjarðarkaupstað frá júlí 1931.
Þórhallur var settur lögreglustjóri á Akranesi 1. janúar 1932, jafnframt var hann oddviti í Ytri-Akraneshreppi og gjaldkeri Akraneshafnar þar til 4. febrúar 1935.
Hann var skipaður lögreglustjóri á Akranesi 23. október 1935 frá 1. nóvember sama ár, settur bæjarfógeti þar 1. janúar 1942 og skipaður 4. febrúar 1942, gegndi því til 1. júlí 1957, er hann fékk lausn, en settur til að gegna því til 30. september sama ár. Þá var Þórhallur settur bæjarfógeti í Neskaupstað 1. október 1967 til 16. ágúst 1968 og aftur 20. desember 1970 til 16. mars 1971. Hann var settur fulltrúi sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu 1. október 1968 til 22. desember sama ár og fulltrúi sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Sauðárkróki frá 5. október 1972 til 6. desember sama ár.
Þórhallur var skipaður formaður stjórnar Sjúkrasamlags Akraness 7. aprí 1938, var bæjarfulltrúi á Akranesi 1942-1946, í hafnarnefnd þar 1942-1968 og oft formaður hennar, átti sæti í fræðsluráði þar 1952 og næsta ár, var endurskoðandi Sparisjóðs Akraness 1930-1939, í yfirkjörstjórn Vesturlandskjördæmis 1959-1967 og var oft formaður yfirkjörstjórnar Akraness. Hann varð hæstaréttarlögmaður 1968.
Þau Elísabet giftu sig 1925, voru barnlaus, en fóstruðu fjögur börn. Þórhallur lést 1984 og Elísabet 1991.

I. Kona Þórhalls, (19. desember 1925), var Elísabet Guðmundsdóttir frá Hnífsdal, húsfreyja, f. 11. júlí 1892, d. 19. ágúst 1991. Foreldrar hennar voru Guðmundur Sveinsson útgerðarmaður, f. 4. janúar 1852, d. 31. október 1926, og kona hans Ingibjörg Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 27. apríl 1859, d. 30. desember 1923.
Fósturbörn:
1. Sigríður Sigmundsdóttir.
2. Anna Lilja Gestsdóttir
3. Guðmundur Samúelsson
4. Þórhallur Már Sigmundsson, prentari, dægurlagasöngvari, f. 8. september 1945, d. 16. september 1991.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.