Óli Ísfeld (veitingamaður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Óli Ísfeld veitingamaður og forstjóri fæddist 27. janúar 1904 og lést 19. júní 1996.
Foreldrar hans voru Jón Kjartansson bóndi í Eskifjarðarseli í S.-Múl., f. 12. nóvember 1873, d. 12. apríl 1928, og fyrri kona hans Anna Vilborg Jónsdóttir húsfreyja, f. 1872, d. 9. júní 1910.

Óli var með foreldrum sínum, en móðir hans lést, er hann var á sjötta árinu. Hann var með föður sínum og Axelínu Steinunni Eyjólfsdóttur bústýru hans 1910. Síðari kona Jóns föður Óla var Guðrún Þorkelsdóttir.

Óli var vinnumaður í Byggðarholti í Reyðarfjarðarhreppi 1920.
Hann lærði matargerðarlist á Hótel Fönix í Kaupmannahöfn. Að námi loknu vann Óli á heimili þáverandi sendiherrahjóna í Danmörku, Georgíu og Sveins Björnssonar, síðar fyrsta forseta lýðveldisins.
Eftir heimkomuna vann Óli í Tryggvaskála á Selfossi. Síðar hóf hann rekstur sumarhótels í Kvennaskólanum á Blönduósi og rak það síðan á sumrin fram á styrjaldarárin. Hann kom til Eyja 1938, þegar rekstur Samkomuhússins hófst. Stutt viðstaða við ráðgjöf breyttist í ævistarf, en Óli rak húsið í tæp 50 ár eða til 1986.
Árið 1954 reisti Óli ásamt Sigurði Gunnsteinssyni veglegt hús við Hilmisgötu, þar sem hann bjó sér glæsilegt heimili, þótt lengst af byggi hann í samkomuhúsinu.
Óli var ókvæntur og barnlaus.
Hann lést 1996.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.