Vilborgarstaðir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. júní 2005 kl. 14:34 eftir Smari (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. júní 2005 kl. 14:34 eftir Smari (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Árið 1704 voru 8 aðskildir bæir á Vilborgarstöðum og sá 9. sem tilheyrði staðnum var Háfagarður. Þar voru reiknuð 16 kýrfóður. Jörðinni fylgdu 9 hjallar á Skipasandi og fiskigarðar undir Há. Eitt húsmannsbýli, í eyði fallið 1704, tilheyrði Vilborgarstöðum. Vilborgarstaðabæirnir voru: Norðurbær, Vestasti-, Nyrsti-, Austasti-, Syðsti- og Miðhlaðbær, Háigarður, Miðbær og Austastibær. Nöfnin voru lítið notuð því alltaf var talað um Vilborgarstaðabæina.

Nafn Vilborgarstaða er samkvæmt þjóðsögunni dregið af nafni Vilborgar Herjólfsdóttur Bárðasonar, landnámsmanns sem bjó í Herjólfsdal. Hann vildi engum veita vatn úr lindinni í Herjólfsdal nema gegn greiðslu. Vilborg þótti það óréttlátt og stalst á kvöldin til þess að gefa mönnum vatn úr lindinni. Eftir að skriða eyðilagði bæ Herjólfs reisti hún sér bæ á Vilborgarstöðum við aðra lind. Þessa lind kallaði hún Vilpu.

Síðan segir sagan, að Vilborg hafi [...] mælt svo fyrir að tjörn ein, sem nú er suður undan bænum, skyldi Vilpa heita og skyldi engum verða meint af vatni úr Vilpu, þó það væri ekki sem fallegast útlits. Það er sögn manna að vestan til á Vilborgarstaðatúni sé Vilborg grafin og er þar enn í dag kallað Borguleiði.

Sveitarþing Vestmannaeyja var haldið á Vilborgarstöðum fram á 16. öld, en þá fluttist það að Hvítingum.

Fylgilönd og eignir

Heimaklettur og Miðklettur fylgdu Vilborgarstöðum, en þeir áttu að þola 40 sauða beit ásamt fuglatekju, slætti og eggjatöku. Þá voru menn mjög iðnir við að taka Fýl úr Dufþekju og Kambinum. Þang og söl var tekin úr Hörgaeyri og af steinunum undir Neðri-Kleifum. Að auki höfðu íbúar beitarleyfi fyrir 25 sauði í Suðurey, en Kirkjubær hafði heimild til 25 sauða í viðbót á Suðurey. Klifin skiptust jafnt á milli 12 bæja, og voru Vilborgarstaðir meðal þeirra. Í jarðabók Árna Magnússonar frá árinu 1704 (árið eftir fyrsta manntalið) segir að á býlunum níu á Vilborgarstöðum hafi verið 9 hross, 68 ær, 29 sauðir, 22 lömb, ein gimbur, ein kvíga (geld) og 13 kýr.

Suðurlandsskjálftinn 1896

Þann 27. ágúst 1896, klukkan 09:30 um morguninn, voru Vilborgarstaðabændur í fýlatekju í Dufþekju þegar að jarðskjálfti upp á 6.7 á Richterkvarða gekk yfir. Kvöldið áður, um hálftíu, hafði annar snarpari jarðskjálfti gengið yfir (um 6.9 á Richter), en ekki varð það til þess að menn hættu við fýlatekjuförina.

Við vorum komnir niður á Neðsta-bryng og vorum komnir langt að sækja (rétt búnir), og þá ætluðum við að halda upp úr tónni og upp á Heimaklett, en þá hristist allt undir fótum okkar, og jafnhliða þeyttist grjótið ofan úr Hákollahamri, sem er ofan og austanhalt yfir Dufþekju, niður alla tóna og fylgdi því einnig feikn af gras- og moldarkekkjum.
Við fleygðum okkur samstundis niður, þar sem við vorum staddir, og samkvæmt því, er við töluðum saman á eftir, bjuggumst við allir við, að okkar síðasta stund væri komin. Næsti maður við mig var Pétur í Vanangur. Fleygðum við okkur niður á sömu grasflúðina, hvor við annars hlið. Hinir félagar okkar voru þarna mjög nálægt okkur. Grjótið, sumt stór björg, hentist þarna niður sem áður segir með braki og miklum gný, og þegar það kom niður á móts við það, er við vorum, hentust klettarnir þannig, að alllangt var á milli þess, er þeir komu niður. Margir steinar komu mjög nálægt okkur, en eitt bjargið kom svo nærri okkur, að það hjó torfuna niður í móbergið, er við lágum á, þétt við höfuð okkar og þeyttist svo yfir okkur. Þegar þessu var af létt, kallar Ísleifur Jónsson, unglingspiltur, til okkar og segir: „Eruð þið lifandi?““ (Úr 8. tölublaði Ægis, 1945)

Allir lifðu þetta af nema Ísleifur Jónsson, sem að var dauðsærður á baki og dó þremur dögum eftir skjálftan. Hann var albróðir Þorsteins Jónssonar í Laufási.


Heimildir

  • Húsanafnaskrá fyrir Vestmannaeyjar
  • Þjóðsögur II, Jón Arason.
  • Vestmannaeyjar, byggð og eldgos, Guðjón Ármann Eyjólfsson.
  • Jarðskjálftagagnagrunnur Eðlisfræðisviðs, Veðurstofa Íslands. [1]
  • Ægir, 8. tbl., 1945.