Vestmannaeyjahöfn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. júní 2005 kl. 09:44 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. júní 2005 kl. 09:44 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Höfnin í Vestmannaeyjum er forsenda byggðar í Eyjum. Hún var frá náttúrunnar hendi grunn og lítið varin í austanáttum og í austan brimi kom brimið oft óbrotið inn. Reyndar var eitthvað skjól vegna tveggja skerja sem voru sitt hvoru megin við innsiglinguna, Hringskerið að sunnan og Hörgeyrin.

Hafnarframkvæmdir

Fyrstu hafnarframkvæmdirnar hófust árið 1907 með því að bryggjustúfur úr höggnu grjóti var hlaðinn en hin eiginlega hafnargerð hefst ekki fyrr en árið 1914 við gerð hafnargarðanna.

Bæjarbryggjan steypt

Stokkhellubryggjan gamla, eða bæjarbryggjan eins og hún var síðar nefnd, var steypt upp og síðar endurbætt mjög árið 1911, þannig að smærri bátarnir flutu oftast nær að henni og þeir stærri þegar hásjávað var og bætti þetta mjög alla aðstöðu til að losna við aflann þegar að landi var komið. Hvatti þessi bætta aðstaða menn einnig til að afla sér stærri og afkastameiri báta.

Hafnargarðar

Árið 1914 var hafist handa um gerð syðri hafnargarðsins og var verkinu vart lokið fyrr en 1920. Veitti garðurinn mun betra skjól í innri höfninni en áður var, og var hafnarfestunum komið fyrir þar. Lágu þær frá austri til vesturs. Átti hver bátur sitt legufæru sem tengt var hafnarfestunum og var millibil milli festinga hvers báts haft það langt að ekki var hætta á að bátarnir rækjust saman. Höfnin var þó enn mjög grunn, en hinir smærri bátar flutu þá ávallt við legufæri sín en þeir stærri tóku niðri um fjöru og var því reynt að hafa þá þar sem mest dýpi var.

Frekari framkvæmdir og dýpkunarskip

Þrátt fyrir erfiðleika atvinnuveganna á fjórða áratug 20. aldarinnar réðust bæjaryfirvöld í tvær mikilvægar framkvæmdir á vegum hafnarinar sem áttu eftir að koma vel að notum. Fyrri framkvæmdin var kaup á dýpkunarskipi árið 1935. Dýpkunarskipið tók til starfa strax eftir heimkomuna við að dýpka höfnina, í fyrstu innsiglinguna, þannig að allir bátar Eyjaflotans gátu farið áhættulaust út og inn úr höfninni hvenær sem var, síðan var höfnin dýpkuð svo að bátarnir flutu mun betur.

Önnur framkvæmdin var gerð Básaskersbryggjunnar sem lokið var við árið 1937. Leysti hún hinn mikla vanda sem skapast hafði við löndun aflans úr þeim mikla fjölda báta sem gerður var út frá Eyjum.

Fyrir tíma sundlaugarinnar á Miðhúsatúni var sundkennsla við Eiðið.

Höfnin og Heimaeyjargosið

Í Heimaeyjargosinu 1973 skapaðist mikil óvissa varðandi höfnina. Í fyrstu töldu menn það gott fyrir innsiglinguna þegar hraunkvikan leitaði út í sjó en það breyttist í byrjun febrúar þegar neðansjávarsprunga opnaðist við hafnarmynnið. Mikið streymi af gosi var út í sjó við hafnarmynnið og frá 4.-20. febrúar var höfninni lokað og öll umferð bönnuð. Urðu menn ekki aftur hræddir um höfnina fyrr en 9. mars, en þá var notast við hraunkælingu til að bjarga höfninni sem heppnaðist afar vel. Við eldgosið batnaði hafnaraðstaðan mjög mikið. Innri höfnin er nú alveg í skjóli fyrir öllum veðrum og nýting bryggjukanta hefur aukist.

Höfnin á síðari árum

Viðlegukantar hafnarinnar, samkvæmt Siglingarstofnun Íslands, eru um 1.978 m, auk 60 m fyrir björgunar- og hafnarbáta, 130 m fyrir smábáta og 70 m fyrir ferju. Mesta dýpi við bryggju er um 8 m.

Mikil starfsemi hefur verið í höfninni í gegnum árin og er ennþá all mikil starfsemi í gangi. Venjubundin notkun er fjölbreytt og oft margt um að vera. Aðalstarfsemin sem er hér í höfninni er löndun fisks og viðlega fiskibáta ásamt því að ferjan Herjólfur siglir áætlunarleiðir frá Eyjum til Þorlákshafnar. Í Klettsvíkinni voru Keikósamtökin með aðstöðu fyrir háhyrninginn Keikó en nú í dag er kvíin notuð til fiskeldis.

Miklar framkvæmdir hafa verið á síðustu árum við höfnina. Eftir gosið var í fyrsta skipti í boði að útbúa frábæra höfn fyrir stór skip og alls konar starfsemi.

Hafnarsvæðinu má skipta niður í þrjú meginsvæði:

  • Innri höfn er svokallaður Botn og takmarkast af skjólgörðum á Hringskeri og Hörgaeyri og landinu í kring.
  • Ytri höfn takmarkast af Heimakletti, Ystakletti að Klettsnefi og línu þaðan í hraunkantinn gegnt Klettsnefi.
  • Önnur hafnarsvæði eru austan og norðan við Heimaey.

Bryggjur Vestmannaeyjahafnar

Tenglar

Heimildir

  • Helgi Benónýsson, 1974. Fjörtíu ár i Eyjum, Reykjavík: Vesturhús hf
  • Jóhann Gunnar Ólafsson, 1947. Hafnargerðin í Vestmannaeyjum, Reykjavík: Steindórsprent hf
  • Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014