Saga Vestmannaeyja II./ Verzlun og útgerðarrekstur Englendinga í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Revision as of 21:27, 15 August 2011 by Viglundur (talk | contribs) (Verndaði „Saga Vestmannaeyja II./ Verzlun og útgerðarrekstur Englendinga í Vestmannaeyjum“ [edit=sysop:move=sysop])
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search
Verzlun og útgerðarrekstur Englendinga í Vestmannaeyjum.


Um enska kaupmenn hér á landi og komu enskra fiskimanna til Íslands getur fyrst í íslenzkum heimildum frá öðrum áratug 15. aldar.¹) Er svo talið,²) að árið 1413 hafi 30 ensk fiskiskip siglt til Íslands, og þá getur einnig um komu 5 enskra skipa til Vestmannaeyja og lögðu skip þessi þar inn. Árið áður, 1412, hermir Nýiannáll frá komu ensks skips til Íslands: „Kom skip af Englandi austur fyrir Dyrhólmaey; var róið til þeirra, og voru fiskimenn út af Englandi. Þetta sama haust urðu 5 menn af enskum mönnum fráskila sínum kumpánum og gengu á land austur við Horn úr báti og létust vilja kaupa sér mat og sögðust hafa soltið í bátnum mörg dægur. Voru þessir 5 enskir menn hér á landi um veturinn, því báturinn var í burt frá þeim.“
Í Lögmannsannál segir svo frá skipakomunni í Vestmannaeyjar 1413: „Kom V skip ensk til Íslands oc lögðu öll inn í Vestmannaeyjar. Komu þar út bréf send af konginum á Einglandi til almúgans oc til allra beztu manna j landinu, at kaupskapur var leyfður með hans menn sierlega í þat skip, sem honum tilheyrði, var fyrst talað um Björgvinjarkaup, vildu enskir þar ecki til hluta, síðan keypti hver sem orkaði eptir efnum.“
Þannig er fyrsta frásögnin um komu enskra kaupmanna til Íslands. Að hún einmitt er bundin við Vestmannaeyjar, virðist eigi vera nein tilviljun, og líklegt, að upphafsins að komum enskra kaupmanna hingað megi leita töluvert lengra aftur í tímann en frásögnin hermir. Er hún færð í letur sökum tíðinda þeirra, er þá gerðust í þessu sambandi, útkomu konungsbréfa um verzlunarleyfi. Sú varð raunin á, að verzlun og útgerð Englendinga hér við land á þessum tímum og lengi síðan varð mest tengd við eyjarnar, og höfðu þeir þar aðalbeykistöð sína, eins og t.d. Þjóðverjar í Hafnarfirði.³)
Þar sem segir um hin ensku kaupskip 1413, að þau hafi lagt inn í Vestmannaeyjum mun bera að skilja svo, að þau hafi farið þar inn á höfnina eða legið við Hafnareyri og lagzt í akkerissátur. Af kaupmönnum þeim, er hér getur, virðist aðeins einn hafa haft sérstakt konungsleyfi til að verzla, en hinir verzlað í leyfisleysi. En samkvæmt reglum þeim, sem Noregskonungur beitti, að því er snerti alla verzlun við Ísland á þeim tímum, skyldi konungi greidd há gjöld fyrir verzlunarleyfin. Að Englendingar hafi verzlað hér einatt áður leyfislaust, virðist harla líklegt. Um þessar mundir og löngu fyrr var íslenzkur harðfiskur mjög eftirsótt verzlunarvara, svo að mjög er sennilegt, að Englendingar hafi byrjað að sækja hingað út eigi seinna en um miðja 14. öld vegna skreiðarverzlunarinnar, og til þess að fiska hér við land. Banninu í réttarbót Magnúsar konungs Eiríkssonar frá 1348 gegn því að útlendir kaupmenn fari kaupferðir til skattlanda Noregskonungs, má vera að sé einmitt stefnt gegn Englendingum, eigi síður en Hansastaðakaupmönnum í Noregi.
Annálar herma frá drápi Þórðar bónda í Vestmannaeyjum, er veginn var af útlendum kaupmönnum, er þar komu út árið 1397, segja og, að þá hafi 6 skip legið í Vestmannaeyjum. Er ekki ólíklegt, að þau hafi verið ensk, en gætu einnig hafa verið þýzk. Svo virðist sem Hansastaðakaupmenn hafi um þessar mundir farið verzlunarferðir lengra en til Björgvinjar.⁴)
Frá árinu 1413 ráku brezkir þegnar, þ.e.a.s. að auk Englendinga mun mega telja Skota og Íra, með vissu verzlun hér við land, einkum í Vestmannaeyjum, um nær tvær aldir. Því hefir verið haldið fram af sumum, að Englendingar hafi rekið viðskipti hér á landi jafnvel framan úr landnámsöld, og sambandið milli landanna aldrei slitnað. Hafi landnámsmenn þeir, er kynjaðir voru af Vesturlöndum, haldið áfram verzlunarsamböndum og viðskiptum við þessi lönd. Aðrir telja, að þótt viðskiptin séu eigi rakin svo langt aftur í tímann, muni þau þó hafa staðið föstum fótum í byrjun 15. aldar, svo að upphafsins megi leita alllöngu fyrr.⁵)
Útgerð í Vestmannaeyjum með vetrarsetu þar munu enskir kaupmenn fljótt hafa tekið upp eftir komu sína þangað, hvenær sem það hefir verið. En þegar skömmu eftir að fyrstu frásagnir hér um hefjast, eru þeir orðnir þar fastir í sessi með verzlun og atvinnurekstur, er þeir virðast tíðum hafa rekið án leyfis og án þess að greiða hin lögboðnu gjöld og tolla. Í eyjunum voru þeir fjærst og minnst í hættu fyrir konungsvaldinu hér á landi (Bessastaðavaldinu) og yfirvöldum landsins yfirleitt. Í eyjunum var þá enginn sýslumaður, og hefir gengið erfiðlega með tollinnheimtu af enskum skipum og eftirlit yfirleitt. Og sama þótt umboðsmanni væri falin þessi störf, því að lítil tæki hafa verið til þess að framfylgja þessum málum við útlendinga. Eins og áður segir, var það fyrst á dögum konungsverzlunarinnar á síðari hluta 16. aldar, að tekin var upp ósleitileg barátta gegn verzlun og útgerð Englendinga hér, af því að þeir sköðuðu verzlun og útgerð konungs. Og nú voru þeir orðnir svo fastir í sessi með atvinnurekstur sinn, að eigi nægði vald og styrkur forstöðumanna konungsverzlunarinnar, er þó hafði nú sérstakan konungsfógeta og stundum tvo sér við hönd, til þess að halda enskum atvinnurekendum frá eyjunum, heldur varð að senda aukinn liðsstyrk þangað með sjálfum flotaforingja konungs, koma þar upp virki með fallbyssum, gefa út landhelgislög o.fl., og yfirleitt taka upp gæzlu og eftirlit með sama hætti og þar, sem slíku var strangast framfylgt í sjálfu heimalandinu, við Eyrarsund.
Þrátt fyrir bönnin gegn verzlun Englendinga hér við land, er gefin voru út hvert eftir annað í byrjun 15. aldar, og samningagerðir milli Danakonungs og Englandskonungs, staðfestingu téðra banna, héldu Englendingar þó áfram verzlun sinni hér við land, og næstu árin hér á eftir stóð verzlun þeirra með miklum blóma. Enskum kaupmönnum hefir og verið tekið hér fegins hendi af öllum landslýð sem sönnum bjargvættum, því að sigling og vöruflutningur frá Noregi til Íslands hafði legið niðri um langan tíma, svo að Englendingar voru nú einir um siglingar hingað. Samt héldu Björgvinjarkaupmenn ennþá mjög í sérréttindi sín, að því er snerti Íslandsverzlunina, og voru studdir í því af konungi með bannákvæðum gegn öðrum kaupmönnum, er eigi höfðu sérstök verzlunarleyfi. Enskir kaupmenn hafa fljótt gengið úr skugga um það, að konungur gat eigi framfylgt kvöðum sínum og verzlunarbönnum hér á landi, svo að þeir gátu farið sínu fram og komizt undan því að greiða verzlunarleyfisgjöld til konungs. Englendingum var jafnan óljúft að viðurkenna hinn víðtæka umráðarétt, sem Danakonungur hafði tekið sér yfir norðurhluta Atlantshafsins, svo að enginn mátti án leyfis Danakonungs sigla þar um eða fiska. Enskir kaupsýslumenn og fiskimenn, er hingað leituðu, virðast og hafa viljað skoða Ísland sem frjálst og óháð land, eins og verið hafði á lýðveldistímanum, og verzlun hér og viðskipti frjáls, án þess að kæmi til kasta annarra en landsmanna sjálfra. En Danakonungur átti eitt allþungt vopn í baráttu sinni við hina ensku kaupsýslumenn og útgerðarmenn, en það var kyrrsetning á skipum þeirra og vörum, er uppvísir urðu að ólöglegri verzlun og fiskveiðum hér við land, ef þeir komu um Eyrarsund, en um Eyrarsund áttu brezkir kaupsýslumenn og farmenn tíðförult á kaup og söluferðum.
Árið 1413 kom út bréf Eiríks konungs um bann gegn því að eiga verzlun við útlenda menn, er eigi hafði verið vanalegt að verzla við áður, og þessu beint til eyjamanna. Þetta ár er, sem fyrr segir, fyrst getið komu enskra kaupskipa hingað. Eftir þessu að dæma virðist sem erlendir, eigi norskir, kaupmenn hafi áður haft sérréttindi frá konungi til verzlunar í Vestmannaeyjum. Hið háa afgjald af Vestmannaeyjum til forna, en þá hlutu t.d. tómthúsin að hafa verið mörg þar, en tala þeirra hefir æfinlega staðið í sambandi við útgerðarreksturinn, gæti og bent til þess, að útlendir kaupmenn hefðu og haft þar atvinnurekstur fyrrum, t.d. fyrir 1400. Þessu banni var samt eigi hlýtt, tveim árum seinna, 1415, lágu 6 skip frá Englandi í Hafnarfirði.⁶) Eitt af þessum skipum reifði nokkurri skreið á Rosmhvalanesi og í Vestmannaeyjum. Sama ár sendi Noregskonungur sendimenn til Englands, til Hinriks konungs V., til þess að kæra yfir ólöglegri verzlun Englendinga. Var því haldið hér fram, að óheimilt væri öllum erlendum mönnum, án sérstaks leyfis Noregskonungs, að sigla til Íslands, Færeyja og Shetlandseyja, til þess að reka verzlun eða fiskveiðar, en leyfishafi skyldi koma til Björgvinjar og greiða þar tolla sína í konungssjóð, ásamt gjöldum fyrir verzlunarleyfin. Hinrik Englandskonungur gaf nú út skipun til þegna sinna, og var henni aðallega stefnt gegn borgunum Lenn, Jernmuth (Yarmouth) og Boston, og birt 28. nóv. 1415. Samkvæmt henni máttu þegnar Englandskonungs eigi fara til Íslands á næsta ári til fiskveiða, eða í öðrum erindum, öðruvísi en forn vani hafði verið til, — aliter quam antiquitus fieri consuevit.⁷) Hinar síendurteknu umkvartanir Eiríks konungs af Pommern til Englandskonungs (1420, 1425, 1429, 1430), út af óleyfilegri verzlun Englendinga og siglinga hér við land, sýna gjörla, hversu lítið téð bönn hafa komið að gagni. Enskir kaupmenn og útgerðarmenn hafa, þrátt fyrir bönnin og gerða verzlunarsamninga milli ríkjanna, séð sér fært að fara sínu fram, meðfram í skjóli tilvitnananna um fyrri venjur. Og að líkindum munu enskir útgerðarmenn einnig hafa útvegað sér undanþágur hjá stjórnarvöldunum í Noregi.⁸)
Fiskifloti Englendinga hér við land hefir þegar árið 1419 verið orðinn allstór. Það ár segja annálar, að farizt hafi hér við land 25 ensk fiskiskip á skírdag, 13. apríl. Fórust menn allir, góss og brot af skipunum rak upp víða.⁹) Mörg fiskiskip höfðu samt komið hingað seinna um sumarið frá Englandi. Hefir sókn Englendinga til fiskveiða hingað verið mjög mikil á þessum tímum, enda hin mesta eftirspurn eftir íslenzkri skreið, er katólskir menn notuðu mjög um föstutímann.
Arnfinnur hirðstjóri Þorsteinsson lýsir því 1419 fyrir Eiríki konungi af Pommern, um leið og konungi voru send hyllingarbréf hirðstjóra, lögmanns og lögréttumanna, að landsmenn hafi orðið að kaupslaga við útlenzka menn, „sem með friði hafi farið upp á guðs náð og konungsins traust“, því að um langan tíma hafi hin áskildu sex skip, sem réttarbæturnar gera ráð fyrir frá Noregi árlega, eigi komið hingað. Leituðu þeir ásjár konungs, hversu hér skyldi með fara framvegis.¹⁰) En þetta var einmitt þvert ofan í boðskap konungs sjálfs. En hér braut nauðsyn lög, eins og viðurkennt var af sjálfum hirðstjóra og lögmönnum.
Þetta sama ár, er Arnfinnur kom heim af þingi, veitti hann tveimur útlendum kaupmönnum, sem komið höfðu í Hafnarfjörð í kaupskaparerindum, leyfi til að „kaupa og selja í Vestmannaeyjum og um allt land, og að hafa skip sitt til útróðra þar sem þeir vildu“.¹¹) Menn hafa eigi orðið á eitt sáttir um það, hvort menn þessir hafi verið þýzkir, með því að hirðstjórinn nefnir þá „kauplyd“, eða enskir, sem vafalaust mun þó réttara, og munu kaupmenn þessir hafa verið frá Bristol (Birstofu eða Bristofu). Þýzkra kaupmanna er samt með vissu getið hér við land í sambandi við kaupskap og siglingar um 1420.¹²)
Getið er um sex enska kaupmenn í Vestmannaeyjum veturinn 1419—1420. Höfðu þeir þar vetrarsetu og verzlun, og höfðu sett þar upp hús án leyfis umboðsmanns konungs. Þessir ensku kaupmenn voru nefndir: Raflin Tirington, John Effrardh, Thomas Cadsel, Nicles Manflit og Richard Plebel. Kaupmennirnir höfðu sjö enska verzlunarþjóna, er störfuðu við verzlunina í Vestmannaeyjum. Er bersýnilegt, að kaupmenn þessir hafa haft mikla verzlun hér og viðskipti á þessum tímum og við nærsveitir á landi. Jafnframt því að hafa allan verzlunarrekstur í eyjunum í sínum höndum hafa og hinir ensku kaupmenn tekið umráðin yfir útgerðinni, og þetta án þess að greiða konungi leyfisgjöld, skatta og tolla, sem væru þeir hér einvaldsherrar. Leyfðu þeir ekki bændum að greiða afgjöld sín í fiski, en munu hafa tekið hann sjálfir.
Eiríkur konungur gaf út bann enn á ný gegn verzlun Englendinga 1420, og sendi jafnframt til eyjanna trúnaðarmann sinn, Hannes Pálsson, seinna hirðstjóra, til þess að hann kynnti sér ástandið og færði konungi sannar fregnir af enskum kaupmönnum þar. Mun konungur og jafnvel hafa verið farinn að óttast um yfirráð sín yfir Vestmannaeyjum.
Um þessar mundir var sýslumaður Rangárvallasýslu Helgi Styrsson, en með þeirri sýslu fylgdu Vestmannaeyjar til dómgæzlu. Hannes Pálsson, er kominn var hingað út til landsins, hefir kvatt sýslumann til fundar við sig, og borið ráð sín saman við hann, hversu komið yrði lögum yfir Englendinga í eyjunum og náð hjá þeim sköttum og tollum af atvinnurekstri þeirra, og kaupmennirnir fengnir til að viðurkenna umráðarétt konungs yfir verzluninni. Helgi Styrsson hefir síðan farið út í eyjar og reynt að semja við Englendinga og fá þá til að fara að lögum. Segir frá því, að sýslumanni hafi tekizt að fá kaupmenn til að lofa því skriflega, „upp á æru og trú“, að koma til Alþingis og hlýða góðra manna umdæmi.¹³)
Téð yfirbót, er Englendingar höfðu skuldbundið sig til að gera, er samt sennilegt, að aldrei hafi verið gerð. Virðist svo sem þeir nú fyrir alvöru hafi tekið upp baráttu við konungsvaldið og umboðsmenn konungs, er reyndu að stemma stigu fyrir verzlun þeirra og fiskveiðum hér við land og loka fyrir þeim landinu, en slíkri mótspyrnu hafa þeir ekki átt að venjast áður.
Því hefir og verið haldið fram, að sjóslysin miklu, er urðu hér á enska fiskiflotanum 1419, og áður er getið um, er 25 ensk fiskiskip fórust með allri áhöfn, hafi vakið tortryggni hjá Englendingum og grunsemdir um, að eigi væri hér allt með felldu, og að bæði yfirvöld hér og alþýða manna hafi eigi gert það, er unnt var, til að bjarga og veita skipbrotsmönnum hjálp, heldur jafnvel hið gagnstæða, og slegið eign sinni á góss það, er úr skipunum rak. Hefði því með baráttu þeirra og einbeittari aðgerðum, er enskir kaupmenn tóku upp hér einkum eftir 1420, verið stefnt að því að koma fram hefndum fyrir téðar misgerðir. Hitt er þó sennilegra, að þeir hafi viljað sýna styrk sinn og skjóta yfirvöldunum skelk í bringu, en þeir töldu að þau brytu á sér lög, og því gengið með öllu í berhögg við bönn og fyrirskipanir konungs um verzlunarmálin.
Enskir kaupmenn fóru fjórum sinnum með liði að sjálfum kóngsgarðinum á Bessastöðum. Fyrsta atreiðin var gerð eftir að Hannes Pálsson, umboðsmaður eða konungsfógeti, var kominn út og hafði tekið sér aðsetur að Bessastöðum. En aðalerindi Hannesar Pálssonar út hingað var að skakka leikinn við hina ensku kaupmenn og útgerðarmenn og halda þeim frá kaupskap og útgerð í Vestmannaeyjum. Englendingar tóku Hannes Pálsson höndum á Bessastöðum, en slepptu honum brátt aftur. En þeir voru eigi skildir að skiptum. Fyrirliðinn í að minnsta kosti tveim af atrennum þessum að Bessastöðum nefndist John Percy. Hann var í Vestmannaeyjum árið 1425 og þar voru og tveir aðrir enskir menn, er höfðu fylgt Percy áður. Hér var og þetta sama ár, 1425, Nicolaus Dalstunn fyrirliði, er mjög hafði sýnt sig óvæginn við konungsmenn og drepið fulltrúa konungs á Bessastöðum.
Í Vetmannaeyjum höfðu enskir kaupmenn og útgerðarmenn búið vel um sig. Þeir höfðu reist þar eigin hús og varnarvirki mikið, er nefndist Kastali (Castel). Svæðið, er þeir höfðu til umráða, hefir verið allstórt, og ef til vill hefir tómthúsleiga fyrir tómthús innan þessa svæðis verið innifalin í sérleyfisgjöldunum.¹⁴)
Aðstaða sú, er enskir kaupsýslumenn hafa skapað sér hér á þessum árum, gerði þeim hægara um vik að stunda útgerð fyrir Suðurlandi. Hægt var að leita skjóls við eyjarnar undan ofviðrum og hafnar til að umskipa vörum og fiski. Hér gátu skipin aflað sér vatns. Sem verstöð voru eyjarnar viðurkenndar fyrir fiskisæld og útræði héðan gott. Þessi hlunnindi hafa enskir útgerðarmenn, er hér settust að, hagnýtt sér í ríkum mæli. Verzlunarviðskiptin hafa einnig náð til fólks í næstu sýslum á landi. Það, sem mest var um vert, að í Vestmannaeyjum gátu hinir ensku verið í friði með atvinnurekstur sinn, þótt í óleyfi væri. Öflugt lið hefði þurft til að stökkva þeim burtu, en sókn öll erfið til eyjanna, og hafnar eigi hægt að leita þar, ef viðbúnaður var hafður við höfnina.
Báða hirðstjóra landsins, Hannes Pálsson (Johannes Pauli) og Balthazar van Damme, tóku Englendingar höndum í Vestmannaeyjum, en þangað höfðu hirðstjórarnir farið til að reka hina ensku úr eyjunum. Hirðstjórarnir voru síðan fluttir utan. Bar Hannes Pálsson síðar fram mjög harðorða kæru fyrir ríkisráðið eða Parlamentið í Englandi 1425 yfir framferði enskra kaupsýslumanna í Vestmannaeyjum. Hafði kæran verið athuguð og staðfest með eins konar þingsvitnum í Björgvin af Thorbernus Herberni justitiarius og 13 ráðmönnum, útnefndum af norska ríkisráðinu. Í kærunni segir meðal annars, að veiðistöð sé betri í Vestmannaeyjum en annars staðar á landinu. Til eyjanna hafi Englendingar leitað á hverju ári, síðan hin skaðsamlega sigling þeirra til landsins byrjaði. Þar byggi þeir hús, setji upp tjöld, stingi upp jörð og færi sér allt í nyt, sem það væri þeirra eigið. Margt fleira segir þarna um yfirgang Englendinga og hversu þeir virði að vettugi boð og bönn umboðsmanna konungs í Vestmannaeyjum.¹⁵)
Hannes Pálsson kom fram í þessum málum sem umboðsmaður konungs (Commissarius regis Dacie). Hert var á banninu gegn ólöglegum veiðum Englendinga við Ísland 1426 og enn betur 1429. Er svo að sjá sem þegar 1426, að afstöðnum fyrr umgetnum atburðum, hafi komizt betra skipulag á um verzlunina í Vestmannaeyjum. Ráku enskir kaupmenn þar verzlun opinberlega, og hljóta að hafa haft til þess leyfi konungs. Balthazar hirðstjóri kom út hingað til lands með Englendingum 1426, svo að nú hefir allt farið friðsamlega á með þeim og hirðstjóranum, er fór og um haustið utan á skipum Englendinga.
Siglingar hingað til lands frá Noregi eða Danmörku virðast engar hafa verið þetta ár. Næstu árin voru siglingar hingað að mestu í höndum Englendinga, er virðast jafnvel þessi árin hafa verið mestu ráðandi hér á landi. Nokkru seinna komst þó skipun á um verzlunarmálin með samningi milli Eiríks konungs og Hinriks 6. Englandskonungs, 24. des. 1432. Með téðum samningi eru endurnýjuð gagnkvæm verzlunarbönn á milli ríkjanna að viðlögðu lífs- og eignatjóni, „sub poena missionis vitae et bonorum“.
Gömul kaupsetning milli enskra kaupsýslumanna og Vestmannaeyinga er ennþá varðveitt.¹⁶) Þykir líklegast, að kaupsetning þessi sé eigi yngri en frá fyrsta fjórðungi 15. aldar, frá þeim árum, er verzlun Englendinga hér stóð með einna mestum blóma. Ef til vill er hún einmitt frá árinu 1426, en það ár ráku Englendingar með vissu verzlun opinberlega í eyjunum. Kaupsetningin er sögð upp af sýslumanni eyjanna, sem þá hefir verið Rangárvallasýslumaður, sennilega Helgi Styrsson. Hann er talinn að hafa verið um tíma hirðstjóri. Hefir enskum kaupmönnum verið heimil verzlun hér, því að annars hefði sýslumaður eigi staðfest kaupsetninguna. Samkvæmt gömlum landslögum og venjum var í téðum kaupsetningum lýst ákveðnu verði á erlendri og innlendri vöru, og hafði sýslumaður úrskurðarvald um verðsetninguna á hverri vörutegund. Griðasetningu var og lýst við þessar kaupstefnur. Var griðasetning á slíkum kaupstefnum með svipuðu móti og tíðkaðist þá er héraðsþing voru sett.
Enskir kaupsýslumenn hafa iðulega haldið kaupstefnur í Vestmannaeyjum á 15. og 16. öld. Til kaupstefnanna, er haldnar hafa verið á vorin eða fyrri hluta sumars, hefir sótt fjöldi fólks af landi, úr héruðunum vestan Skeiðarársands og austan Rangár.
Kaupstefnur voru settar í heyranda hljóði af sýslumanni og hátíðlegur blær yfir. Áherzla var mikil lögð á það, að friður og grið væru haldin manna á milli, meðan kaupsetningin stóð yfir. En út af þessu hefir samt viljað bregða, sbr. t.d. það, er segir um bardagann milli Síðumanna og Englendinga í Vestmannaeyjum 1514. — Með staðfestingu kaupsetningar fylgdi áminning til kaupmanna um að hafa réttar stikur og rétta mæling á öllu, sem lögin skipuðu, svo sem á smjöri, víni eða bjór, mjöli eða malti, hunangi eða tjöru. Sá, sem uppvís varð að svikum, varð sekur við konung, sem hann hefði stolið jafnmiklu. Jafnframt var og brýnt fyrir eyjamönnum og landmönnum að fylgja settum reglum og gera eigi óþarfa fyrirhöfn frá því, sem vökumerki var sett upp, og forðast illlyndi og óróa. Áminntir um að halda grið og góðan landsins sið. Vökumerkið hefir verið fáni eða merki, sem dregið hefir verið upp á morgnana, þegar markaður byrjaði, og dregið niður að kvöldi. Afgreiðslu hefir verið reynt að flýta sem mest á kauptíðinni og greiða sem bezt fyrir landmönnum, sem hætt var jafnan við að tepptust hér, ef veður breyttist til hins verra, og máttu þá bíða með fullfermi af vörum. Verzlunarþjóna allmarga hafa hinir ensku kaupmenn haft við afgreiðsluna, enda mörgu að sinna við að taka á móti alls konar innlendum vörum, bæði land- og sjávarafurðum, og láta af hendi erlenda vöru. Veturinn 1420—1421 voru hér sjö enskir verzlunarþjónar.¹⁷) Vaka, sbr. vikivaki, eða skemmtanir, er líklegt að hafi verið haldin í sambandi við ensku markaðina, til þess að draga fólkið að, og að hér hafi verið svipað og átti sér stað við markaði erlendis, að menn vöktu þá nætur og daga, meðan markaður stóð, til þess að skemmta sér. Voru þessir dagar taldir aðalskemmtidagar ársins. Markaðirnir, er haldnir voru hér í Vestmannaeyjum á þessum tímum, munu hafa verið teknir upp að enskum sið, hafa verið haldnir innan þess svæðis, sem kallað var Kastali. Hér hafa og staðið verzlunar- og vörugeymsluhús kaupmannanna.
Það er fullkomlega ljóst eftir hinu yfirlýsta verði kaupsetningarinnar, að verzlunarviðskiptin við Englendinga hafa verið landsmönnum hagstæð, og einkum var fiskverðið hátt. Kaupsetningin nefnir af innlendum vörum aðeins sjávarframleiðsluvörur, fisk og lýsi. Samt er harla sennilegt, að landbúnaðarvörur ýmsar hafi og verið keyptar, þótt eigi séu nefndar, og t.d. einnig fiður. Að minnsta kosti var fiður frá Vestmannaeyjum síðar góð og gild verzlunarvara til Englands.
Kaupsetningin nefnir verð hverrar vörutegundar, sem þar er talin. Við samanburð á kaupabálki Grágásar, kaupabálki Jónsbókar, hinnar miklu yngri lögbókar, og Búalögum, sem eru yngri en Jónsbók, og seinna verðlagi samkvæmt einokunartöxtunum, 1619, 1684, 1702 og 1776, fæst yfirlit yfir verzlunarkjörin. Fiskverðið hækkaði mjög mikið, er fríverzlunin var innleidd 1787. Verð á harðfiski, stokkfiski, eftir taxta kaupsetningarinnar, er sex sinnum hærra en á dögum einokunarinnar, sem sé 20 álnir á landsvísu fyrir vættina eða 80 álnir fyrir skippundið. Eftir gömlu norsku mati á harðfiski frá Íslandi skyldi góður og gildur harðfiskur þaðan vega tvö pund. Í kaupsetningunni er og talað um fjögurra marka fisk eða fimm marka. Þetta mat á harðfiski hélzt í Vestm.eyjum í opinberum greiðslum langt fram á 19. öld. Samkvæmt gamalli venju skyldi blautfiskur (málsfiskur) 4-sinnum þyngri en gildur harðfiskur. Lýsi er eftir kaupsetningunni mælt í áttungum og áttungurinn metinn á XV fiska. Af útlendum vörum telur kaupsetningin: Klæði, gott varningsklæði og léreft. Klæðið var mælt í stikum, 2 álnir stikan. Í Grágás er talað um enskt klæði og í Jónsbók um enskt léreft. Búalög nefna vesturfaraléreft, er hefir komið frá Englandi eða Írlandi. Meðal vörubirgða konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum frá lokum 16. aldar er og nefnt enskt klæði. Þá er salt, einnig varningsmjöl, sem mun sama og malaður rúgur. Er verð það, er Englendingar tóku fyrir mjöltunnuna, um það þriðjungi lægra en verðið á rúgi var eftir þágildandi landslögum.¹⁸) Öl. Fast verð á öli kemur eigi fram fyrr en í Búalögum. Smjör er og ein af vörutegundum þeim, sem taldar eru í kaupsetningunni. Hefir smjör á þessum tímum og allmikið lengur verið flutt hingað til landsins. Í reikningum dánarbús Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra og sýslumanns á Hlíðarenda (d. 1521) getur t.d. smjörúttektar við verzlun í Vestmannaeyjum. Mun smjör þetta hafa verið notað handa sjómönnum á útvegi Vigfúsar sýslumanns í Vestmannaeyjum. Smjörneyzla var mjög mikil fyrr á tímum, einkum sem viðbit með harðfiski, sem var ein aðalfæða manna hér, eins og sjá má glögglega af reikningum konungsverzlunarinnar frá síðari hluta 16. aldar, en þessu mun hafa verið líkt farið fyrrum og eyjamenn lifað mikið af harðfiski og smjöri, og smjör að líkindum flutt hingað erlendis frá alllengi, þegar fiskveiðarnar stóðu í blóma og gjaldmiðill nægur og menn fengu að ráða kaupum sínum, jafnframt því sem það var fengið af landi. Hætt var að flytja smjör til Vestmannaeyja frá útlöndum á síðasta hluta 16. aldar, en þá var mjög mikill smjörflutningur hingað af landi. Búalög gera ráð fyrir innflutningi á smjöri, en hins vegar er í einokunartöxtunum aðeins gert ráð fyrir smjöri sem útflutningsvöru. Bik og hrátjöru í tunnum nefnir kaupsetningin. Járn í tunnum eða fötum, ásmundajárn, og tunnan seld á eitt hundrað á landsvísu. Hunang hefir og verið á boðstólum, en það var og mikið notað í Evrópu, áður en sykur komst í notkun. Mörk, vegin í eirkötlum, eftir kaupsetningunni 3 fiska, er var ódýrara en eftir seinni töxtum. Sama er að segja um skófatnaðinn. Verðið á honum hefir verið töluvert lægra en eftir einokunartöxtunum. Borðviður er nefndur í kaupsetningunni, og mun þar átt við tilhöggvinn við, „Jofertur“, er hægt var að saga úr fleiri borð og árar. Varningsklæði er og nefnt, þar á meðal hafa verið rúmábreiður og söðulklæði með ofnum myndum af ýmsum gerðum. Salt var eftir kaupsetningunni selt í áttungum. Eigi er getið um, hvers konar salt það var. Á skrá um vörubirgðir konungsverzlunarinnar fyrir árið 1599—1600 er talið Lyneborgarsalt, matarsalt, og grófara salt, er notað hefir verið til að salta með fisk og fugl. Salt var hér á landi unnið úr sjó áður fyrrum, og getur saltgerðar á nokkrum stöðum. Saltnotkun hefir þá verið lítil. En salt var eigi flutt inn til landsins, og þess vegna er verð á salti eigi tilfært í eldri lögum. Kaupsetningin telur og vax, er hefir verið keypt til kirkna, en það var mikið notað hér á landi í katólskum sið, við venjulegar messugerðir í kirkjum, við sálumessur, skrúðgöngur og jarðarfarir. Var verð á vaxi þegar ákveðið í Grágás. Loks telur kaupsetningin húfur. Til samanburðar má geta þess, að fyrrnefnd vöruskrá frá 1599—1600 telur hatta, en eigi húfur, grófa hatta og filthatta. Ýmislegt smákram annað. Líklegt er, að kaupsetning sú, sem hér um ræðir, hafi gilt alllengi við verzlun Englendinga í Vestmannaeyjum.¹⁹)
Eins og áður hefir verið lýst var verðið, er Englendingar gáfu fyrir aðalframleiðsluvöru eyjamanna, harðfiskinn, mjög hátt, og þetta því afar þýðingarmikið fyrir þá. Verðið á innfluttu vörunni var þeim og hagstætt, eftir því sem næst verður komizt. Hefir sú skoðun og verið almenn hjá þeim, er um þessi mál hafa ritað, að verzlun Englendinga hafi verið landsmönnum mjög hagstæð og sennilega betri en annarra erlendra þjóða, bæði sökum vörugæðanna og verðlagsins, einkum á innlendu vörunni.²⁰)
Enskir kaupmenn áttu sér harðsnúna keppinauta um verzlunaryfirráðin hér á landi, þar sem voru þýzkir kaupmenn. Var verzlunarsamkeppnin orðin hörð milli greindra aðilja þegar á 15. öld. Kom til bardaga milli Hamborgara og Englendinga í Hafnarfirði árið 1518, er lauk með ósigri fyrir hina síðarnefndu. Héldu enskir kaupmenn sig síðan sunnan Reykjaness og einkum í Vestmannaeyjum, er var þeirra aðalverzlunarstaður, en aðalaðsetursstaður þýzkra kaupmanna var Hafnarfjörður.
Þýzkra kaupmanna getur lítt í Vestmannaeyjum. Þó eru Vestmannaeyjar taldar meðal þeirra hafna, er Þjóðverjar sigldu á hér við land á 16. öld. Um miðbik 16. aldar hafa Þjóðverjar haft verzlun í eyjunum, eftir því sem virðist mega ráða af nöfnum kaupmanna, sem getur um þar á þessum tímum.²¹) Árið 1543 er þar nefndur kaupmaður Christofer Hartmann, 1545 Jakob Thor, líklega Jakob Thode, er var í Hafnarfirði sama ár. Svo er að sjá sem Hamborgarkaupmenn hafi um tíma haft Vestmannaeyjar á leigu til verzlunar með sköttum og skyldum, þó eigi lengi, líklega um 1550, eftir að sætt komst á milli borgarstjórnar Kaupmannahafnar, er frá 1547 hafði Ísland með Vestmannaeyjum á leigu, og Hamborgarkaupmanna út af deilum nefndra aðilja um verzlunarmálin hér á landi.²²)
Bannið gegn verzlun Englendinga hér á landi, frá 24. des. 1432, var endurnýjað 28. apríl 1433, en samt hélzt verzlun þeirra áfram. Árið 1444 voru verzlunarbönnin ítrekuð á ný, og öllum þegnum Englandskonungs bönnuð verzlun á Íslandi, nema sérstakt leyfi væri fyrir hendi í hvert skipti frá Danakonungi.²³)
Þá er Kristján konungur I. var kominn til ríkis í Danmörku, leyfði hann Englendingum siglingar hingað til lands gegn greiðslu tolla og sekkjagjalda. Verzlunarleyfi munu oftast hafa verið bundin við vissa skipatölu og giltu fyrir vissan tíma. Þau hafa náð til að mega kaupa hér fisk og aðra innlenda vöru, jafnframt því að selja algenga kaupmannsvöru. Á fyrsta ríkisstjórnarári sínu, 1449, veitti Kristján konungur enskum kaupmanni, John Wolfe, einkaleyfi til að reka verzlun hér á landi með 10 skipum um tveggja ára skeið. Erfiðlega hefir gengið að útiloka aðra frá verzluninni, og hörðum refsingum hótað þeim, er ráku verzlun í leyfisleysi. Samkvæmt réttarbótinni frá 1450, 15. gr., skyldu allir enskir kaupmenn og írskir, er ekki höfðu leyfi konungs, vera útlægir og réttdræpir og eignir þeirra fallnar undir konung, og hér endurtekin hegningarlagaákvæði í hinum fyrri verzlunarbönnum.
Eigi hefir gengið greitt að ná inn hafnartollum og sekkjagjöldum hjá Englendingum, er mjög voru tregir til þess yfirleitt að sætta sig við það að þurfa að sækja um leyfi til þess að sigla hingað. Vildu enskir siglingamenn seint viðurkenna umráðarétt Dana yfir Norðurhöfum. Nú var enn hert á banninu gegn Englendingum með konungsboðskap 1453 og fyrirskipað, að taka Englendinga höndum hvarvetna hér, þar sem þeir eigi fáist til að greiða tolla.²⁴) Fól konungur hirðstjóra sínum yfir Íslandi, Birni ríka Þorleifssyni, að útrýma verzlun Englendinga hér við land, úr því að svo illa gekk með tollinnheimtuna, og konungur þannig sviptur ærnum tekjum. 1465 var gerður samningur milli Hinriks 6. Englakonungs og Kristjáns I. og þar tekin upp sömu ákvæðin og áður um bann gegn því, að Englendingar sigldu hingað til lands, „sub poena missionis vitae et bonorum“. Ætlaði Kristján konungur nú að láta til skarar skríða og tók aftur 1466 öll verzlunarleyfi, er hann hafði veitt Englendingum hér á landi. Hefir hinum ensku kaupmönnum gramizt þetta, og snérist reiði þeirra, eins og svo oft áður, er þeir þóttust órétti beittir af konungi, gegn umboðsmanni hans. Hlauzt af þessu dráp Bjarnar hirðstjóra Þorleifssonar hins ríka í Rifi 1467.
Vitnisburðir Guðna sýslumanns Jónssonar í Gullbringusýslu og þriggja annarra manna frá árinu 1484 sýna, hversu slæmt ástandið var í verzlunarmálunum, einkum að því er Vestmannaeyjar snertir, og hve erfitt hefir verið að koma lögum yfir hina erlendu kaupmenn, er með ýmsu móti hafa reynt að svíkjast undan greiðslu hafnartolla og annarra gjalda, og víst oft sloppið vel hér við, því að eigi hefir verið auðvelt að fá þá til að fylgja settum reglum, og enn mátti kveðja fógetann frá Bessastöðum til hjálpar suður í eyjar. Og því harðari hegning hefir verið látin bitna á þeim, er gáfu færi á sér annars staðar. — Í greinargerðinni um Vestmannaeyjar segir svo:²⁵) „Þar eftir kom skip af Lundun í Vestmannaeyjar. Kom þar fovite Pinings [Pinings hirðstjóra], Björn Oddsson, og tók af þeim sekkjagjöld, en gaf þeim bréf Pinings, að þeir skyldu vera með frí og kaupslaga hvar þeir vildu í landið. En er þeir komu í Grindavík, þá voru þeir þegar sviknir og kúgað af þeim allt það í skipinu var, klæðe, lerept, salt, og þar eftir varð skipið af Lybiku að leysa þá út með lest mjöl og lest smjör, so og var sagt fyrer sannendi, að IIIj af íslenzkum bændum af Vestmannaeyjum [sem hafa verið nokkurs konar gíslar] fóru til Pinings með þeim boðskap af Eingelskum og eigi síður fyrir sína bæn og almúgans í Vestmannaeyjum, að Pining skyldi aftur leggja það minna skipið tómt, sem hann hafði látið taka fyrir þeim á Bátsendum, svo þeir væri þar eftir með frí við landsfólkið. En fyrir það, að það fékkst ekki af Pining, þá reifðu þeir allar Vestmannaeyjar og víða annars staðar“.
Með samningi millum Hans Danmerkurkonungs og Hinriks 7. Englandskonungs, undirrituðum í Kaupmannahöfn 20. janúar 1490 og í London 2. maí s.á.,²⁶) var þegnum konungs Englands og Frakklands, kaupmönnum og fiskimönnum, leyft að sigla til Thule, Íslands, með heimild til að stunda þar verzlun og fiskveiðar, hvar sem var í landinu, og skyldi leyfið endurnýjað að 7 árum liðnum, og með sama hætti gat það gilt áfram um óákveðinn tíma, „novæ licentiæ in perpetuum recognoscant“. Leyfishafar skyldu gjalda skipatoll þar, sem þeir fyrst komu að landi.
Í sambandi við greindan verzlunar- og fiskveiðasamning, er hirðstjórar hafa birt á Alþingi 1490, var á sama þingi gerð samþykkt um það, hvaða frið útlenzkir kaupmenn skyldu hafa hér á landi. Var samþykkt þessi síðan nefnd Piningsdómur. Segir í samþykktinni, að „Eingelskir“ megi fara frjálsir ferða sinna til rétts kaupskapar á Íslandi. Sama skyldi og gilda um Þjóðverja. Hins vegar var nú ákveðið, að engir útlendingar mættu hafa hér vetursetu, utan fyrir fulla nauðsyn. Útgerð Þjóðverja og Englendinga hefir verið mjög mikil á seinni hluta 15. aldar og virðist hafa farið sívaxandi. Olli þetta miklu aðstreymi fólks úr sveitunum að sjávarsíðunni, svo að bændur þóttust trauðlega geta setið jarðir sínar fyrir vinnufólksleysi. Til að sporna við þessum vandræðum, að minnsta kosti í orði kveðnu, voru téð ákvæði sett um bann gegn vetursetu útlendra kaupmanna og útgerðarmanna.
Þessi bannákvæði, er seinna voru endurnýjuð, sbr. verzlunarsamning, er staðfestur var á Alþingi 2. júlí 1527 ²⁷) og hljóðar um „verzlun, vigt og mæli milli Hamborgarríkis og enskra kaupmanna af einni álfu og Alþingis fyrir hönd Íslendinga af annarri álfu“, sbr. og Alþingissamþykkt 30. júní 1545, munu hafa komið að harla litlu gagni, því að nóg ráð hafa kaupmenn og útgerðarmenn fundið til að smeygja sér undan ákvæðunum. Kaupmennirnir létu Íslendinga gera út fiskibátana, og svo látið heita sem Íslendingar ættu bátana. Samlagsútgerð milli kaupmanna og Íslendinga átti sér og stað. Þessi launútgerð þreifst lengi hér, bæði á Suðurnesjum, þar sem þýzkir kaupmenn áttu mikla útgerð, og í Vestmannaeyjum, þar sem Englendingar hafa rekið launútgerð á eigin skipum og með hlutdeild í skipum eyjamanna, samlagsútgerð. Sjá Vilborgarstaðadóm Jóns Hallssonar sýslumanns 5. júní 1528.²⁸) Samkvæmt Piningsdómi máttu útlendingar eigi halda neinn íslenzkan mann í þjónustu sinni, né gera út til sjós.
Páll Vigfússon sýslumaður útnefndi í dóm, er dæmdur var á Vilborgarstöðum í Vestmannaeyjum, réttum þingstað, 21. maí 1521. Dómur þessi hljóðar um skipgerð og kaupskap, sem maður nokkur í Vestmannaeyjum, Þorlákur Indriðason, hafði gert við enskan mann, John Parfit. Segir í forsendum dóms þessa, „að sakir þeirra dóma, sem þar eru áður um dæmdir, eru þeir svo sekir, sem við þá kaupa (enska), sem þeir skipti við útlægan mann“. Dómurinn hefir verið dæmdur eftir ákvæðum Piningsdóms og seinni staðfestingum af honum. Um hina fyrri dóma, er gengið hafa um sams konar mál og vísað er til, er eigi kunnugt. En af tilvitnuninni þykir mega ráða, að töluverð brögð hafi verið að launútgerð eða samlagsútgerð í eyjunum milli útlendra kaupmanna og eyjamanna, sem leppað hafa fyrir þá. — Dómsniðurstaðan hljóðar svo: Dæmdu dómsmenn Þorlák Indriðason sekan XIII mörkum við konung og sýslumann, en þetta sama skip upptækt, svo mikill partur, sem fyrrgreindur Jón Parfit hefði tillagt til eigna Páli Vigfússyni (mun eiga að vera fyrir hönd konungs), en Þorlákur bar, að Jón Parfit hefði lofað að borga ídæmda sekt fyrir hann, ef upp kæmist. Dæmdu því dómsmenn Parfit til að greiða Þorláki það, sem hann var dæmdur til að greiða í sektir.
Af téðum dómi má nokkuð sjá viðhorf útgerðarmálanna í Vestmannaeyjum á öndverðri 16. öld og líklega töluvert lengra aftur í tímann. En fram eftir 15. öldinni hafa Englendingar rekið hér útgerð opinberlega og með leyfi, að því er allan þorra útgerðarmanna snerti. Áðurnefndur dómur og tilvitnanir í fyrri dóma sýna, hvernig Englendingar hafa reynt að viðhalda útgerð sinni í eyjunum með brögðum og leynd, þótt þeim væri bannaður allur atvinnurekstur þar. Kaupmennirnir eða útgerðarmennirnir, er ráku samlagsútgerðina hér, hafa komið á vorin með fiskiflota Englendinga, er var að fiski hér við land, og dvalið við kaupskap á sumrin og falið trúnaðarmönnum sínum að veita útgerðinni forstöðu á veturna. Launverzlun mun og hafa verið rekin í sambandi hér við. Bátarnir, er Englendingar gerðu út frá eyjunum, hafa verið venjulegir vertíðarbátar og mannaðir héðan.
Meðan verzlun og útgerð Englendinga stóð með blóma, mun hér hafa verið athafnalíf mikið og velmegun góð, enda hafa eyjamenn haft ágætan markað fyrir fisk sinn og aðrar afurðir hjá Englendingum. Sumarfiski mun þá og hafa verið stundað af kappi, og fiskur seldur enskum jafnóðum og hann veiddist. Eftir að Danir höfðu tekið verzlunina í sínar hendur, breyttist viðhorfið á margan hátt. Taka þá fljótt að berast frá eyjamönnum kærur og umkvartanir yfir verzlunareinræðinu og margs konar höftum, er beitt var gegn athafnafrelsi manna. Fyrir miðja 16. öld var verzlun Þjóðverja orðin yfirgnæfandi hér á landi, en Englendingum að mestu bægt frá. Samt héldust þeir við í Vestmannaeyjum og ráku þaðan verzlun og útgerð. Innheimtu tolla þar af enskum skipum getur í skilagreinum dánarbús Vigfúsar sýslumanns Erlendssonar frá 1521. Í kvittun Otta Stígssonar frá 14. ágúst 1546, fyrir gjöldum af Íslandi, er greint frá tollum af 5 skipum enskum í Vestmannaeyjum og 4 enskum duggum. Mun mega reikna með því, að mun fleiri hafi þau skip verið, er engir tollar náðust af.²⁹)
Kristján konungur III., er tekið hafði upp nýja stefnu í verzlunarmálum, gaf út nýtt bréf gegn vetursetu kaupmanna, 25. des. 1542. Fól hann Otta Stígssyni hirðstjóra að framfylgja téðu banni. Lét hann gera upptæka fiskibáta Þjóðverja á Suðurnesjum 1544. Þetta kærðu Hamborgarar fyrir konungi, og vísaði hann til aðgerða Alþingis, og þar var með svokölluðum skipadómi, Alþingissamþykkt frá 30. júní 1545, samþykktur hinn fyrri dómur og endurnýjuð og hert á bannákvæðum eldri samþykkta gegn útlendingum hér á landi.³⁰) Eigi er að sjá sem tekið hafi verið til jafnróttækra aðgerða gagnvart Englendingum sem þeim, er Otti Stígsson hafði í frammi við þýzka kaupmenn á Suðurnesjum, og hreinsaði þar til fyrir útgerð konungs, enda gætti Englendinga þar minna. Það var fyrst eftir að danska verzlunin hófst í Vestmannaeyjum, að tekið var fyrir fulla alvöru að útrýma enskum kaupmönnum og útgerðarmönnum þaðan, eins og hér verður lýst.


Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
1) Íslenzkir annálar.
2) Lögmannsannáll.
3) Að vísu höfðu og Englendingar aðsetur sitt í Hafnarfirði framan af 16. öldinni og voru þar mjög fjölmennir (J. Aðils: Einokunarsagan, bls. 17).
4) Sbr. Kontorordonnancen 1412, Kongens Strömme, bls. 71.
5) Om de Engelskes Handel og Færd i Island i det 15. Aarhundrede. — Jón Eiríksson: Udkast til en islandsk Handelshistorie, Sorö 1762. — Ólafur Stephensen: Kort Underretning om den isl. Handels Förelse, Kh. 1798.
6) Ísl. fornbr.s. III, 764-765.
7) Ísl. fornbr.s. III, 766-770.
8) Kongens Strömme, bls. 72.
9) Ísl annálar, 293; Árb. Fornl.fél. 1913.
10) Ísl. fornbr.s. IV, bls. 268.
11) Ísl. fornbr.s. IV, bls. 269.
12) Sjá Finnur Magnússon: Om de Engelskes Handel og Færd paa Island i det 15. Aarhundrede, bls. 112—169; Kongens Strömme, bls. 73.
13) Ísl. fornbr.s. IV, 275—276. Skuldbindingarskjal hér um skrifað í eyjunum 4. apríl 1420.
14) Gamlir enskir peningar hafa fundizt við gröft á þessum slóðum.
15) Ísl. fornbr.s. IV, 324—330.
16) Ísl. fornbr.s. IV, 276—277.
17) R. Plebel, R. Boulington, R. Brillenton, John Vachefield, John Gattery, John Durdley og Ernest Stakeley.
18) Búalög, 32. kap.
19) Ísl. fornbr.s. IV, 276—277.
20) Jón Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi; Sigurður Skúlason: Saga Hafnarfjarðar.
21) Sjá reikningsbækur Gissurar biskups Einarssonar, Ísl. fornbr.s.
22) Sjá skýrslu Laurentz Mule, ódagsetta, um viðskipti Hamborgarkaupmanna á Íslandi, svo og um leigu þeirra á Vestmannaeyjum, Landsbókas.
23) Lovs. I, 36.
24) Ísl. fornbr.s. V, 67, 14.
25) Ísl. fornbr.s. VII, bls. 12—13.
26) Art. IV.
27) Ísl. fornbr.s. IX, nr. 343.
28) Ísl. fornbr.s. IX, bls. 477-478.
29) Sjá Ísl. fornbr.s. XI, um verzlunarskipti Gissurar bisk. Einarssonar við Englendinga í Vestmannaeyjum; ennfremur Ísl. fornbr.s. XI, 180—182, X, 74 og 370 (Bréfabók Jóns Hallssonnr sýslumanns).
30) Ísl. fornbr.s. XI, 180—182 og 323—324. Ernst Baasch: Die Islandsfahrt der Deutschen, Hamb. 1889.Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit