Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Ormur Ófeigsson prestur á Kirkjubæ

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Ormur Ófeigsson prestur.


Nokkru fyrir aldamótin 1600 varð séra Ormur Ófeigsson prestur að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum. Hann var sonur Ófeigs Ormssonar bónda í Bræðratungu í Árnessýslu. Áður hafði séra Ormur verið prestur að Þingvöllum og Snæfuglsstöðum. Segir Daði Níelsson hinn fróði í Prestasögunum, að hann væri hið mesta „óeirðar- og ribbaldamenni“. Til dæmis um það segir hann þá sögu um viðskilnað hans á Þingvöllum, að hann hafi fyllt vík eina í Þingvallavatni með grjóti, til þess að spilla þar silungsveiði. Einnig flaugst hann þá á við prest þann, sem við brauðinu tók, og deildu þeir um hurð eina.
Um þær mundir, er séra Ormur var á Snæfuglsstöðum, bjó Erlendur Magnússon sýslumaður á Stóruvöllum. Hann var stórbokki mikill og óeirinn, ekki síður en séra Ormur. Áttu þeir í mestu illdeilum og málaferlum út af ýmsum greinum, sem með þeim urðu. Meðal annars kærði Erlendur prest fyrir það, að hann hefði skorið og rifið hökul, sem Stóruvallakirkja átti, og stolið honum síðan. Gat prestur sannað að hann hefði ekki tekið hökulinn, en viðurkenndi að hafa rifið hann. Var Erlendi dæmt að greiða bætur fyrir þjófnaðaráburð þennan.
Einnig kærði Erlendur séra Orm fyrir það að hafa sagt að sér áheyrandi, þegar Erlendur var „í stórri neyð, það, að fullir hefðu allir djöflar verið í helvíti, að þeir sóttu ekki Erlend.“ Mun Erlendur hafa verið veikur, þegar prestur lét sér þessi orð um munn fara. Þetta virtist dómsmönnum „óskikkanlegt orðtæki fyrir kennimann og óskynsamlegt,“ og skyldi Ormur sekur eftir lögmálinu fyrir hálfréttisyrði.
Séra Ormur mun hafa verið kominn á efri ár, þegar hann fékk Kirkjubæ, en talið er, að það hafi verið um 1593. Þegar hann kom í Eyjarnar, voru uppkomnir synir hans og Þorgerðar Sigmundsdóttur konu hans. Hétu þeir Stefán og Þorsteinn og voru líkir föður sínum að karlmennsku og ribbaldahætti. Studdu þeir föður sinn í stórræðum hans. Þegar séra Ormur tók við Kirkjubæ, var staðurinn mjög niður níddur, bæjarhús fallin og kirkjan hrörleg. Undan staðnum höfðu Danir tekið ýmis hlunnindi, og undi séra Ormur þessu ákaflega illa og gjörði tilraunir til þess að fá úr þessu bætt, en mun lítið hafa orðið ágengt, þótt harðfylginn væri.
Árið 1599 lét hann vitnisburði ganga um þetta. Segir þar, að fyrrum, þegar séra Knútur Pétursson, sem var danskur að ætt, hélt Kirkjubæ, hafi kirkjan átt 7 kúgildi, en þau eyðzt svo, að ekkert hafi verið eftir, þegar séra Eiríkur andaðist, en hann mun hafa haft staðinn næst eftir séra Knút. Um aðfarir konungsboðsmanna segir í vitnisburðinum, að þeir hafi tekið frá kirkju og presti annan töðuvöllinn, allan Yztaklett, 100 sauða beit, þar sem heyja megi á 100 hesta af töðu, og fiskbyrgi það, er nefnt sé Danskabyrgi og þeir hafi nú.
Árið 1601 urðu miklar deilur milli Jóhanns Bockholts höfuðsmanns og Þórðar Guðmundssonar lögmanns. Ætlaði lögmaður að senda dótturson sinn Jón Vigfússon, bróður Orms sýslumanns í Eyjum, utan til þess að flytja mál sitt fyrir konungi. Þegar höfuðmaður frétti það, bannaði hann kaupmönnum að flytja Jón erlendis. Bann höfuðsmanns hafði ekki komizt út í Eyjar og tók Jón því það ráð að reyna að komast utan með Vestmannaeyjakaupmönnum.
Ormur bróðir hans bjó þá á Holti eða Skála undir Eyjafjöllum. Þegar Jón kom austur undir Fjöll, stóð svo á, að séra Ormur Ófeigsson var nýkominn utan úr Eyjum. Bað Ormur hann að lána sér skipið til þess að flytja Jón út í Eyjar. Neitaði séra Ormur því. Ormur sýslumaður, sem var hraustmenni mikið, reiddist presti ákaflega og réðist á hann og barði svo að lá við limlestingum. Tók hann síðan skip prests og flutti Jón bróður sinn út, og sigldi hann úr Vestmannaeyjum.
Þegar Ormur kom í land aftur sættist hann við prest og greiddi honum bætur fyrir meiðslin. Er sonum Orms prests komu fregnir af meðferðinni á honum, fóru þeir tafarlaust til meginlands og hugðu á hefndir. En þá voru þeir Ormarnir alsáttir orðnir.
Séra Ormur mun hafa átt litlum vinsældum að fagna hjá Vestmannaeyingum, því að bæði var hann og synir hans mestu svaðamenni. Þannig átti Stefán árið 1606 í málaferlum út af barsmíðum á manni, og hefir slíkt ekki orðið til þess að auka á vinsældir þeirra feðga. Til dæmis um yfirgangssemi séra Orms má geta þess, að 1607 skrifar Gísli Árnason sýslumaður í Rangárvallasýslu presti og kveðst hafa frétt, að hann hafi tekið nýtt siglutré af Vestmannaeyjaskipi sínu og flutt það heim til sín og látið smíða úr því. Krefst sýslumaður þess að prestur láti sig fá annað jafn gott í staðinn.
Mest kvað að illdeilum séra Orms við hina dönsku kaupmenn í Vestmannaeyjum. Sýndi prestur þeim hina mestu fyrirlitningu í orðum og athöfnum. Fengu þeir engu tauti við hann komið, enda var hann karlmenni hið mesta og synir hans stóðu honum ekki að baki og studdu hann í hvívetna. Voru oftar en einu sinni látnar fara fram vitnaleiðslur að tilhlutan kaupmanna um framferði prests og sona hans. Loks þraut þolinmæði þeirra og kærðu þeir Andrés Hansson og Níels Kristensen framferði prests og báru honum ekki vel söguna. Kæra þessi mun hafa verið tekin saman árið 1607 og varð hún til þess, að hann ári síðar varð að láta af prestsskap og flutti hann þá til Árnessýslu og bjó sennilega á Hofi í Eystra-Hrepp. Í aprílmánuði árið 1608 var hann þó enn í Vestmannaeyjum. Átti hann þá í máli við Eirík Jónson vinnumann sinn. Krafðist Ormur vertíðarhlutar hans, en Eiríkur hafði uppi þær varnir, að Ormur hefði sagt honum og konu hans að fara til fjandans. Var Ormi dæmdur hluturinn, vegna þess að Eiríkur væri lögráðið hjú hans.
Sakir þær, sem Ormi voru bornar í kærunni, voru margar og miklar. Var hann ásakaður fyrir það, að hann neitaði að greiða skuldir sínar við verzlunina og flytti leynilega fisk sinn og lýsi til meginlands og seldi það á Eyrarbakka, enda þótt konungur hefði bannað það. Segir að séra Ormur hafi skuldað við verzlunina eina lest fiska, sem sé 10 stór hundruð fiska (1200 fiskar), og hótað því að greiða það aldrei meðan hann lifði, enda þótt hann hafi í sjúkdómslegu viðurkennt fyrir séra Ólafi Egilssyni, að skuldin væri rétt.
Í kærunni tekur Níels Kristensen það sérstaklega fram, að séra Ormur hafi borið það upp á sig, að hann hafi selt presti svikið mjöl og drykk og aðrar vörur. Ljúgi prestur upp sökum á kaupmennina og æsi eyjarskeggja á móti þeim og vekí upp gömul mál, sem búið sé að semja um fyrir löngu. Þegar á herði, standi hann ekki við það, sem hann hefur upp á þá borið, og sé alveg gagnslaust að semja við hann, því að hann svíki allar skuldbindingar og hefji samblástur að nýju á móti kaupmönnunum, strax og þeir sé farnir af landi burt. Kveðst kaupmaður hafa stefnt séra Ormi, en hann hafi ekki sinnt því, og gat kaupmaður því ekki komið málum sínum fram.
Vertíð eina tók séra Ormur formennsku á einu konungskipinu, þvert á móti vilja kaupmanna, en þeir fengu ekki reist rönd við. Í fyrsta róðri fiskaði prestur illa. Þegar hann kom af sjó, gekk hann upp í salthús konungs og lét sér þar um munn fara ýmisleg ókristileg orð, bölvaði og ragnaði og óskaði þess, að fjandinn hirti allan fisk. Daginn eftir var orðið algjörlega fiskilaust, og varð mikið aflaleysi þessa vertíð. Kenndi almenningur séra Ormi um fiskileysið, og létu kaupmenn staðfesta það almenningsálit með vitnaleiðslum.
Þá er séra Ormi borið það á brýn, að hann sé bæði ókristilegur og miskunnarlaus í embættisfærslu. Neiti hann að koma og skíra dauðveik börn og hafi eitt barn dáið óskírt af þessum sökum. Hvort sem hann sé fyrir altari eða í prédikunarstól ausi hann persónulegum ókvæðisorðum og svívirðingum yfir sóknarmenn, ef þeir komi seint til kirkju. Á boðunardag Maríu var séra Ormur fyrir altari og las guðspjallið. Kom Guðmundur Árnason þá í kirkju, og snéri prestur sér þá að honum og jós yfir hann stóryrðum og ókvæðisorðum. Í ræðu sinni í þetta skipti hélt hann því fram, að Kristur hefði verið skapaður í móðurlífi.
Eftir messu, er fólk tók að venju í hönd presti og þakkaði honum fyrir prédikunina, sagðist Guðmundur Árnason ekki geta þakkað honum fyrir þau ummæli hans, að Kristur væri skapaður í móðurkviði. Svaraði prestur því til að hann skyldi launa honum þau orð. Einum eða tveimur dögum síðar lét séra Ormur son sinn sitja fyrir Guðmundi, og barði hann Guðmund með steini í höfuðið, svo að blóð gekk út um eyrun, og barði hann síðan með rá á hendina, sem Guðmundur bar fyrir sig, svo að hann meiddist stórlega og varð frá verki alla vertíðina sér til stórtjóns. Þá er þess getið, að yfirleitt sé enginn, sem presti sé í nöp við, óhultur fyrir sonum hans og áhangendum, því að þeir megi alltaf vænta þess að á þá sé ráðizt með höggum og slögum.
Einna mest sveið þó kaupmönnum lítilsvirðing sú, sem séra Ormur sýndi þeim sjálfum í orði og æði. Sem dæmi um ósvífni prests segja þeir, að hann hafi árið 1607 vogað sér að koma inn í múrstofu konungs og hafi þar „udtaget sin hemmelige ting“ og pissað yfir matsveininn, þar sem hann vann að matreiðslu og handlék matinn. Létu kaupmenn vitnaleiðslur fara fram um þennan atburð. Þá kæra þeir séra Orm fyrir, að hann hafi látið það viðgangast á heimili sínu, að sonur hans lifði í saurlífi með stúlku, sem hann hafi átt barn með. Eftir fæðingu barnsins hafi þau sængað saman að nýju, án þess að prestur hafi veitt þeim opinbera lausn.
Það gegnir furðu að séra Ormur skyldi árum saman geta ægt svo hinum dönsku kaupmönnum, að þeir hreyfði hvorki hönd né fót honum til falls. Má af því ráða, hvílíkur heljarkarl séra Ormur hefir verið, því að hinir dönsku kaupmenn voru að jafnaði mestu stórbokkar og svifust einskis í viðskiptum sínum við landsmenn.
(Heimildir: Alþingisbækur Íslands IV. 60—67, 119—120.
Hannes Þorsteinsson: Æfir lærðra manna, 48. bindi).