Blik 1976/Hjónin í Klöpp

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. desember 2009 kl. 16:51 eftir Birna (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. desember 2009 kl. 16:51 eftir Birna (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þorsteinn Þ. Víglundsson

Brúðhjónin Kristján Ingimundarson og Sigurbjörg Sigurðardóttir.

Íbúðarhúsið Klöpp.


Hjónin í Klöpp

Myndin á bls. 211 birtist í Bliki árið 1967. Hér læt ég fylgja nánari og fyllri skýringu en þar er birt og töluvert á annan veg.
Mynd þessi er tekin við suðurvegg Landakirkju 14. okt. 1892. Fram hefur farið í kirkjunni brúðkaupsvígsla. Hana framkvæmdi séra Oddgeir Þórðarson Guðmundssonar, sóknarprestur að Ofanleiti (með loðhúfu á höfði lengst til hægri á myndinni). Brúðhjónin eru Kristján Ingimundarson hreppstjóra Jónssonar á Gjábakka og Sigurbjörg Sigurðardóttir frá Eystra-Rauðafelli undir Eyjafjöllum. Þessi hjón áttu eftir að verða ein hin mætustu hjón í Vestmannaeyjabyggð á sinni tíð.
Foreldrar brúðgumans, hjónin Ingimundur Jónsson og Margrét Jónsdóttir á Gjábakka í Eyjum voru gefin saman árið 1858 og bjuggu á Gjábakka 54 ár eða þar til Ingimundur bóndi og hreppstjóri lézt árið 1912. Hann kvæntist heimasætunni á Gjábakka, Margréti Jónsdóttur bónda þar Einarssonar. Kona hans og móðir Margrétar, var frú Sigríður Sæmundsdóttir húsfreyja á Gjábakka um það bil tvo tugi ára.
Foreldrar brúðarinnar voru Sigurður Sigurðsson bóndi á Eystra-Rauðafelli og kona hans Þorbjörg Sveinsdóttir, systir Sigurðar útgerðarmanns og smiðs í Nýborg í Eyjum. Sigurbjörg Sigurðardóttir fæddist að Eystra-Rauðafelli árið 1861. Hún missti föður sinn, er hún var fimm ára gömul (1866) og fór því ung í vist til annarra, þar sem það hét og svo, að hún ynni fyrir sér, þegar hún stálpaðist.
Árið 1883 leitaði hún sér atvinnu úti í Vestmannaeyjum, þá 22 ára að aldri. Hún réðist þá að Nýborg til hjónanna Sigurðar Sveinssonar,móðurbróður síns, og konu hans Þórönnu Ingimundardóttur ljósmóður frá Gjábakka, systur Kristjáns.
Þegar svo Kristján Ingimundarson á Gjábakka vitjaði systur sinnar, húsfreyjunnar í Nýborg, hreifst hann mjög af vinnukonunni undan Eyja-fjöllum. Og að því dró, að þau felldu hugi saman.
Árin 1884 og 1885 var Sigurbjörg Sigurðardóttir vinnukona í Julíusháb hjá verzlunarstjórahjónunum Gísla Engilbertssyni og frú Ragnhildi Þórarinsdóttur.
Haustið 1885 réðst Sigurbjörg Sigurðardótatir vinnukona til hjónanna á Gjábakka, Ingimundar hreppstjóra og frú Margrétar húsfreyju, og þá leið ekki á löngu, þar til sonurinn gerði henni barn, enda voru þau harðtrúlofuð. Hinn 6. ágúst 1886 fæddi Sigurbjörg sveinbarn, sem skírt var Sigurjón. Hann varð brátt augasteinn afa sins og ömmu á Gjábakka. Þá var Kristján Ingimundarson sem sé orðinn pabbi, nítján ára að aldri. Unnustan var sex árum eldri, eins og ég gat um.
Sigurjón Kristjánsson var kunnur verzlunarmaður i Eyjum á sínum tima, en er látinn fyrir mörgum árum.
Og nokkur ár liðu, og kærustupörin á Gjábakka nutu lífsins í foreldrahúsum hans. Kristján Ingimundarson stundaði sjóinn með föður sínum á vetrar og sumarvertíðum og svo fuglaveiðar í úteyjum. Hann reyndist snemma ævinnar mikill atorkupiltur, gætinn. verkhygginn og traustur í hvívetna.
Og svo dró að því, að elskendur þessir hugsuðu til stofnunar sjálfstæðs heimilis eins og gengur. Það hafði dregizt á langinn sökum hins mikla skorts á íbúðarhúsnæði í kauptúninu eða verstöðinni. Til þessa höfðu þau ekki haft efni á að byggja sér einhverja húsmynd eða tómthúskofa.
Árið 1892 fengu þau loks inni í einum „hjallinum“ þarna í námunda við Voginn eða höfnina sunnanverða. Hjallurinn stóð sunnan við Strandveginn, götutroðningana fram með ströndinni sunnanverðri, þar sem tómthús þurrabúðarmannanna í verstöðinni stóðu í hnapp eða hvert þeirra í námunda við annað, og svo eilitlu krærnar, fiskhúsin, þar „innanum og samanvið“. Þessi hjallur hafði staðið þarna um það bil 60 ár og oftast verið notaður til íbúðar, þ. e. a. s., íbúðarkytran var undir þakinu, uppi á loftinu, en niðri voru rimlaveggir. Þar var hertur matfiskur og þurrkaður hákarl, og svo geymd handfæri og önnur tæki, sem notuð voru við bjargræðið. Þetta hús var kallað „Helgahjallur“ og bar nafn af manninum sem byggði það árið 1834. Þarna undir súðinni hafði hver fjölskyldan af annarri orðið að hýrast í fátækt sinni og umkomuleysi undanfarna sex áratugi við fæðuöflun í verstöðinni og hin frumstæðustu lífskjör.

  • * *

Og nú verð ég að biðja þig, lesari minn góður, að leyfa mér dálítinn útúrdúr í frásögn minni.
Piltur úr „Hlíðinni“ Helgi Jónsson að nafni, og stúlka úr Hvolshreppi. Ragnhildur Jónsdóttir að nafni, rugluðu saman reytum sínum í ást og innileik og afréðu að flytja til Vestmannaeyja. þar sem hann gæti fleytt þeim fram á sjávarfangi, þar sem þau voru umkomulítil og eignalaus.
Þetta var árið 1832 eða þar um bil. Þegar til Eyja kom, fengu þau inni i tómthúsi, þar sem hún Gunna gamla Einars hafði búið á undanförnum árum við góðan orðstír, og hét þetta tómthús Gommorra (þannig skrifað í merkum heimildum). Áður en Gunna flutti í það, hafði kofi þessi verið þekkt gjálífishús í verstöðinni og þess vegna hlotið þetta nafn eftir gömlu spilltu borginni þarna einhversstaðar fyrir botni Miðjarðarhafsins. Aumara yrði mannlífið, ef engir fyndnir gárungar leyndust þar innan um og saman við!
Eftir fjögurra ára dvöl í Eyjum, höfðu þessi ungu hjón af Suðurlandsundirlendinu byggt sér eigið hús af hjallagerð. Grindin var gjörð úr sæmilega gildum trjám. Hliðarveggir hlaðnir úr grjóti en gaflar gjörðir úr borðrenglum, þar sem vindur blés inn og um matvælin, sem þurrkast skyldu þar. Á hjallinum var tiltölulega hátt ris. Og þar var gólf á sæmilega styrktum bitum. Þarna var gjörð íbúð og gengið upp í hana um pallstiga, sem lá niður í þurrkrýmið á „neðri hæð“. Stundum voru allar hliðar hjalls gjörðar úr rimlum.
Mörg hjallanöfn eru kunn úr sögu Vestmannaeyja, svo sem Ömpuhjallur, Dalahjallur, Þorkelshjallur, Björnshjallur, Hólmfríðarhjallur og Sæmundarhjallur.
Hjallurinn hlaut venjulega nafn af manni þeim, sem byggði hann og notaði fyrst, og hélt hjallurinn því nafni, meðan hann var við lýði, þó að eigendaskiptin ættu sér títt stað. (Teikning af hjalli er birt í Bliki árið 1969, bls. 357).
Árið 1836 höfðu hjónin sem sé lokið við að byggja sér íbúðarhúsið, sem þau kölluðu Helgahús. En af því að það var byggt með sama sniði og aðrir „hjallar“, þá hlaut það brátt nafnið Helgahjallur. Og þannig er