Blik 1949/„Sýndu mér, hverja þú umgengst, og ég skal segja þér, hver þú ert“

From Heimaslóð
Revision as of 20:04, 30 May 2010 by Viglundur (talk | contribs) (Verndaði „Blik 1949/„Sýndu mér, hverja þú umgengst, og ég skal segja þér, hver þú ert““ [edit=sysop:move=sysop])
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1949


„Sýndu mér, hverja þú umgengst,
og ég skal segja þér, hver þú ert“


Það liggur afar djúp hugsun í þessu spakmæli. Tökum dæmi: Við heyrum talað um einhvern mann, og okkur langar til að sjá hann og kynnast honum. Og einn góðan veðurdag sjáum við hann svo, en hann er í fylgd með öðrum manni, sem við könnumst við fyrir allskonar dólgshátt og strákapör, og við erum ekki lengi að kveða upp okkar dóm.
„Nú, já, hann er með þessum manni, þá held ég, að ég viti, hvernig hann er.“
Nú er alls ekki víst, að þessir menn séu venjulega saman, þó að þeir gengju saman í þetta skipti, en við drógum okkar ályktun, því að máltækið segir: „Sýndu mér, hverja þú umgengst og ég skal segja þér, hver þú ert.“ Við vitum einnig, að flestir sækjast eftir félögum, sem hafa lík áhugamál og líka skapgerð og þeir sjálfir, því að „lík börn leika bezt“. Ég er t.d. glaðlynd, og ég gæti ekki hugsað mér að vera að staðaldri með þunglyndri manneskju. Ég vil hafa glaðlynda félaga með heilbrigðan hugsunarhátt og hugsjónir. —- Nú, væri ég nú nokkurn tíma með fólki, sem allt væri þunglynt, þá færi ekki hjá því, að ég mótaðist af því. Skapgerð mín er auðvitað ekki einhlít, og ef ég er með þunglyndu fólki, þá kemur þunglyndið til með að hafa yfirhöndina í sál minni, og svo öfugt. Við þekkjum t.d. öll, hvað hlátur er smitandi. Byrji einn að hlæja, þá líður ekki á löngu, áður en þeir, sem viðstaddir eru, taka undir. Eins er þetta frá siðferðilegu sjónarmiði séð. Við heyrum því miður oft talað um, að þessi eða hinn sé kominn út á glapstigu, og svo er oft bætt við: ,,Já, strákgreyið, hann lenti í vondum félagsskap.“
Við gerum okkur ekki ljóst í fljótu bragði, hvað félagsskapurinn hefur sterk áhrif á okkur, annaðhvort til ills eða góðs. Til sönnunar þessu er hægt að benda á bókina „Fósturdóttir úlfanna“, þar er sagt frá óhrekjandi staðreynd. Vegna stöðugrar umgengni sinnar við dýrin, hafði barnið svo algerlega tapað sínu mannlega eðli, að í stað þess að ganga upprétt, skreið það á höndum og fótum og lifnaðarhættir þess voru alveg eins og villidýranna. Svo kröftug geta áhrifin verið.
Það getur vel verið, að við eigum kunningja, sem eru ekki sem allra hollastir fyrir okkur. Við vitum þetta, en viljum ekki slíta sambandinu við þá, því að þetta eru allra „sniðugustu krakkar“ og við segjum sem svo: „Eiginlega læri ég nú ekki neitt ljótt af þeim.“ En minnumst þá sögunnar um ungu stúlkuna og föður hennar. Hún vildi vera með kunningjum, sem faðir hennar hafði ekki gott álit á. Svo var það eitt sinn, að stúlkan spyr pabba sinn, því í ósköpunum hún megi ekki vera með þeim, þetta séu svo sem ágætis náungar. Þá segir faðir hennar í stað þess að svara beint. ,,Taktu upp kolamola þarna,“ og bendir henni yfir að arinfötunni. Hún gerir það, en skilur ekki við hvað hann á. Hún var í hvítum kjól, og jafnskjótt og hún hafði tekið molann upp, sá hún, að hendur hennar og kjóll var orðið óhreint. ,,Sko, pabbi, sjáðu bara, hvað hefst af þessu, ég er öll orðin svört,“ kallar hún upp. „Barnið mitt, það var einmitt það, sem ég vildi að þú sæir,“ sagði faðirinn. „Þú brenndir þig ekki á molanum, en hann óhreinkaði þig samt, og eins er það með félagsskapinn. Þó að þú verðir ekki vör við neina breytingu á þér, þá samt síast miður holl áhrif inn í meðvitund þína, og hafa áhrif á þig.“
Stundum reynum við að blekkja okkur sjálf, með því að segja sem svo: „Já, það getur nú verið, að ég geti haft góð áhrif á hann, og víst væri það óskandi, en athugum fyrst, hvort við erum nógu sterk fyrir, svo að árangurinn verði ekki neikvæður, því að það er svo miklu hægara að ganga niður á við, en að klífa brattann. En ef við finnum okkur fær um að standa föst, þá er gott að geta hjálpað öðrum. En það getum við aðeins með því að líta til meistarans mikla frá Nasaret. Hann hjálpaði og leiðbeindi öðrum, en vék aldrei af sínum rétta vegi, og hann sagði: „Lærið af mér.“

Anna Sigfúsdóttir,
III. b.