Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Vísur eftir Ólaf Magnússon í Nýborg

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. október 2013 kl. 21:20 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. október 2013 kl. 21:20 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Vísur eftir Ólaf Magnússon í Nýborg


Hjá bátnum fljóta boðaföll
brims í róti er fleirra.
Höppin fljóta áfram öll,
en ýmsir njóta þeirra.
Margoft hreppa menn á sjó
mjög óheppið veður.
Ég vil kreppast inni í kró
upp, þá „sleppan“ veður.
(Sleppan, þ.e. grásleppan)
Sumir dúða sig af því
í sæld og skrúði baða,
en ég er lúða lörfum í
og læt með súðum vaða.
Gekk ég móa grænum á,
gleðin bjó þar staka.
Ungan spóa eg þar sá
yfir lóu vaka.
Senn eru komin signuð jól,
sólin fer að hækka.
Skín glatt ljós um skatna ból,
skuggunum tekur að fækka.
Pían kokka puntaða
pilt vill lokka án trega.
Honum smokka hárauða
hún gaf þokkalega.
Strengir hvína á stormi hátt,
strákar engu kvíða.
Nú mun koma byrinn brátt,
þá bátinn látum skríða.
Til glötunar er gatan breið,
þó garpar hana labbi.
En mætast þar á miðri leið
marflóin og krabbi.
(Öfugmælavísa)
„Skellir“ ei er skógalaus,
skatnar trúi ég úr honum steli.
Eggvarp nóg er í honum „Hnaus“,
ætla ég í „Lat“ þeir hafi í seli.
Hingað ég gekk í húmi nætur
húsinu þessu stóra frá.
Þá virtist mér eins og söngur sætur
sunginn vera þar austur frá.
Undir mig fótum betri brá
blessaðar snótir til að sjá.
Í kvöld vil ég mína kærustu hitta,
í kvöld skal ég reyna að skemmta mér vel,
í kvöld skal ég dansa og stundirnar stytta,
staupinu klingja við brennivínspel.

Ólafur var um tíma til heimilis í „Garðinum“ hjá forstjóra Bryde verslunarinnar og þótti honu kosturinn (fæðið) eins og hann sjálfur sagði, ekki sem bestur. Lýsir hann kostinum í eftirfarandi vísum:

1. Sé nú ekki soðningin
senn hvað líður búin,
verð ég þá sem andskotinn
á aðra vegu snúinn.
2. Soðningin er síávallt
sultarsmá að vana,
þar um bætir kaffið kalt,
sem kemur á eftir hana.

Til hákarla fór Ólafur oft og gerði á margar smellnar vísur, sem mér enn hefir ei tekist að hafa upp á, utan þessum tveimur eftirfarandi. Voru þeir þá til hákarla, en gekk veiðin illa þar sem þeir lágu við færin.

1. Hákarls greyið heyrðu mér,
hérna niðri sértu.
Matinn teygi ég móti þér,
mikið feginn vertu.
2. Hákarlinn er hvergi til,
helst er á að geta,
ekki vill hann úldinn sel
okkur hjá að éta.
Afbragð manna er ég hreint
og innundir hjá sprundum.
Góðgerðunum get ei leynt,
en grobba af þeim stundum.
Eg á allan Eystra-klett
og ótal marga sauði.
Ruplað hef ég rangt og rétt
öllum mínum auði.
(ort fyrir munn Sig. Sveinssonar)
Allt er heimsins eftirlæti
áþekkt bláum vatnastraum,
svo og líður líf með kæti
lifandi í heimsins glaum.
Gef oss, drottinn guð almæti,
glöggt að sjá, hve tíð er naum.



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit