Ritverk Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Einn á eyðihjarni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. september 2013 kl. 12:00 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. september 2013 kl. 12:00 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Viglundur færði Ritverk Árna Árnasonar/Verk hans og annarra/Einn á eyðihjarni á Ritverk Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Einn á eyðihjarni)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Einn á eyðihjarni


„Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima...“


Fyrstu mánuði ársins 1910 var nokkuð kalt í veðri, frost allhörð og snjókoma, sem þó varð að mestu leyti að svellhjarni í lágsveitum Vestur-Skaftafellssýslu, því að öðru hvoru blotnaði í snjóinn nýfallinn og fraus svo strax á eftir.
Eins og oft áður og síðar, bar svo til þenna vetur, að útlent skip strandaði á Meðallandsfjörum. Í þetta sinn var það enskur togari, Thomas Hamling að nafni. Varð hann fyrir því óhappi, að rekast upp á Skarðsfjöru. Skipverjar komust heim til bæjar hraktir og illa til reika. Það gátu menn fljótt skilið að tvo menn vantaði af skipshöfninni, að annar væri dáinn en hinn slasaður.
Strax barst fréttin um sveitina. Allir sem gátu, brugðu við að leita hins strandaða skips og manna þeirra er vantaði. Skipið fannst fljótt og lík þess er látinn var, en það tók nokkurn tíma og allmikla leit að finna hinn slasaða mann. Hann var fótbrotinn og mjög illa haldinn af kulda og þreytu. Var hann fluttur til bæjar, þar sem hann fékk þá hjúkrun sem unnt var að veita og góða hjálp, er læknirinn kom á vettvang.
Maðurinn hresstist líka furðu fljótt, en varð þó vitanlega að vera kyrr og eftir af félögum sínum, er þeir skömmu síðar voru fluttir til Reykjavíkur áleiðis heim til sín.
Skömmu eftir þetta þurfti ég að fara til Víkur í Mýrdal. Stóð svo á, að ég þurfti að leggja af stað daginn, sem uppboð var haldið á varningi þeim, er bjargað var úr togaranum. Þann dag var bjart veður og spakt með talsverðu frosti. Ég lagði af stað um hádegisbilið. Kúðafljót var þá ekki neinn farartálmi, þareð það var lagt alltraustum ísi, nema nokkrir smáálar vestast í ,,Útfljótinu“.
Ég hélt sem leið lá að Þykkvabæjarklaustri. Þar naut ég hins besta beina, eins og jafnan á þeim bæjum, og fékk náttstað. Að morgni var svipað veður, en frost þó nokkru meira. Lítill snjór var í Álftaveri en íshella yfir öllu. Það var álit manna þar, að á sandinum mundi hjarnið halda gangandi manni, þó lítt eða alls ekki væri fært hestum.
Ég lagði af stað frá Þykkvabæjarklaustri snemma morguns. Var ég með létta tösku á bakinu. Í henni voru þurrir sokkar, matarbiti og auk þess stakk ég í hana smávisk af þurri töðu. Ég gekk sem leið lá fram hjá Hraunbæ og út á Mýrdalssand. Gekk ferðin vel, því að færið var þá ágætt. Nú varð fyrir mér auður lækur, sem heitir ,,Kælir“. Þareð frostið var allhart, fannst mér ekki gott að bleyta plögg mín. Tók ég því það ráð að fara úr sokkunum og vaða berfættur yfir lækinn, sem ekki var djúpur. Allt gekk þetta vel. Eftir þetta var þurr vegur út undir Dýralækjarsker, en þar var auður uppsprettulækur. Ég hafði sömu aðferð við hann, óð hann berfættur og bretti upp buxnaskálmunum til að verja þær bleytu. Þetta gekk prýðilega. Þegar upp úr læknum kom, lét ég ofurlítinn töðuvisk við ilina, um leið og ég fór í sokkana, til þess að fyrirbyggja að raki kæmist að þeim.
Rétt síðar fór færðin að þyngjast. Snjórinn fór vaxandi eftir því sem utar kom. Hörð skel var á honum, sem hélt manni eitt og eitt skref, en jafnaðarlegast brotnaði hún undan fætinum. Auðséð var að gangan mundi verða erfið. Þó hélt ég áfram og vonaði að skárra yrði, þegar enn utar kæmi á sandinn.
Nálægt miðjum sandinum eru tvær ár með stuttu millibilli. Þær eru Blautakvísl og Háöldukvísl. Þær voru báðar auðar enda frjósa þær sjaldan. Blautakvísl var í tveim álum en ís í miðjunni. Ég fór nú úr sokkunum og ytri buxunum og óð yfir austari álinn. En þar sem aðeins fá skref voru milli álanna, vildi ég spara tímann og hlaupa milli þeirra án þess að fara í skó eða sokka. En ísinn var kaldur og krafðist tolls. Tók hann því ofurlítið af ystu húð iljanna á fótum mér, heldur en að fá ekki neitt. Þetta gekk nú samt all sæmilega, einnig yfir Háöldukvísl. Hún var þó nokkuð dýpri og lá í einu lagi, en tolla greiddi ég henni enga.
Ekki batnaði færðin, - það var nú eitthvað annað. Leiðin sóttist því seint og þreyta fór að gera vart við sig. Langt var enn til byggða og nokkur tvísýni var á, hvort þrekið entist til þess að komast á leiðarenda. Þó var ekki um annað að gera en reyna að halda áfram. Ekki dugði að leggjast fyrir. Hægt og hægt nálgaðist Höfðabrekkufjall og hvert sporið færði mig nær takmarkinu. Þannig hélt ég áfram lengi, hægt og sígandi, en þreytan óx og freistingin að setjast niður og hvílast. Ýmsar sagnir komu fram í huga minn, sagnir um menn, sem lentu í ófærð og illveðrum á eyðisöndum eða á heiðum uppi. Þeir komust stundum til byggða eftir mikið erfiði oft stórkemmdir af kali. Eða meiddir. Aðrir lögðust fyrir þreyttir og örmagna eða villtust af leið og enginn var til frásagnar um stríðið, sem háð var áður en yfir lauk. Það segir fátt af einum.
Það var óumræðilega gott að vera þurr í fæturna og töðuviskurinn veitti notalega hlýju. Ekki hlóðst heldur til muna snjór í buxurnar, því að þær höfðu ekki blotnað í ánum. Ég var öruggur um að halda réttri leið, þótt nú væri farið að snjóa nokkuð, því stikur stóðu upp úr snjónum með stuttu millibili – 60 faðma millibili – Í raun og veru var þess vegna allt í lagi á meðan þrekið entist, en það mátti heldur ekkert úr af bera, ef vel átti að fara. Það var mér fullljóst. Smá lasleiki eða misstig gat ráðið úrslitum. Best var því að fara hægt og þreyta sig ekki um of að óþörfu.
Það var farið að rökkva enda sorti í lofti og vaxandi snjókoma. Jæja, þarna var þá Múlakvísl, loksins komst ég að henni. Það er jökulkvísl, sem fellur austan undir Höfðabrekkufjalli og þaðan beinustu leið til sjávar. Hér var snjórinn orðinn grynnri og frostið fannst mér eitthvað minna. Kvíslin var vatnslítil eins og oftast í frostum. Þá var að leggja í hana og vaða. Nú nennti ég ekki úr sokkunum. Það hefði líka tafið til muna því Múlakvísl lá í fleiri álum með eyrum á milli. Þess utan var hún grýtt í botni. Hvergi var áin djúp og brátt var komið yfir. Þar með var sandurinn að baki, óvinurinn sigraður.
Mér datt í hug að fara heim að Höfðabrekku. En þar eð allbratt er þangað upp að fara og torvelt mundi að velja snjólétta leið í dimmunni, tók ég þann kostinn að halda áfram göngu minni út með fjallinu. Þar var snjólétt. Ég hélt því áfram og gekk greiðlega. Kerlingardalsá var uppbólgin af frostinu og rann í einum ál milli skara. Hann var meir en mittisdjúpur en straumléttur og þess vegna ekki svo erfiður viðfangs. Nú var skammt eftir heim að Fagradal og fór ég að greikka sporið, því að ég hlakkaði til að komast til húsa. Ég knúði þar hurðu og stóð ekki á að bæjardyrnar væru opnaðar. Í Fagradal var mér tekið undur vel og í té látinn sá greiði, sem með þurfti. Þar naut ég ágætrar hvíldar um nóttina.
Ég var ekki mjög árrisull næsta morgun enda dálítið lerkaður í ganglimunum. Var þess vegna nokkuð tekið að líða á dag er ég lagði af stað þaðan. Nú var ekki löng leið eftir til ákvörðunarstaðar. Út með Víkurhömrum var ágætt færi, og eftir skamma stund var ég kominn að kauptúninu Vík í Mýrdal.
Einn sá fyrsti, sem ég hitti að máli í Víkinni, var Sigurður Eggerz sýslumaður. Þegar ég heilsaði honum sagði hann: ,,Sjaldan hef ég orðið jafn feginn að sjá mann eins og þig núna.“
,,Hvað ber til þess,“ spurði ég.
,,Ég var að koma af stranduppboðinu í gær,“ svaraði hann. ,,Ég frétti í Álftaverinu, að þú hefðir lagt einn af stað út á sand. Við fórum með sjó og er hingað kom í gærkvöldi fór ég að grennslast eftir, hvort nokkur hefði séð þig. Þegar það var ekki og allar eftirgrennslanir í morgun báru engan árangur, var ég nú að gera ráðstafanir til þess að þín væri leitað. En nú ertu kominn, heill og hress. Guði sé lof.“ Þannig sagði Eggerz og hristi hönd mína með hlýju brosi eins og ég væri úr helju heimtur.
Ferð minni yfir sandinn var lokið án nokkurra virkilegra óhappa. Ég var kominn til vina minna í kauptúninu í Vík í Mýrdal.

(Skrifað eftir frásögn Einars Sigurfinnssonar frá Lágu-Kotey í Meðallandi, síðar að Iðu, Biskupstungum, 18. apríl 1959).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit