Lars Tranberg
Lars Tranberg tómthúsmaður, formaður og hafnsögumaður í Larshúsi, fæddist um 1805 í Gudhjem á Borgundarhólmi og lést 30. september 1860 í Eyjum. Það hét áður Larshús, síðan London.
Lars var áberandi í Eyjum á sínum ferli. Auk starfa sinna við sjómennsku og hafnsögumannsstörf var hann m.a. þáttakandi og virkur í Herfylkingunni. Þar gegndi hann lengi störfum bumbuslagara og lúðurþeytara.
Við manntal 1840 var hann 35 ára skipstjóri í Fredensbolig með Guðrúnu konu sinni 26 ára og barninu Amalie Christine 3 ára.
Hann var skipstjóri í Sjólyst 1845, ekkill með börnin Ingunni 5 ára og Amelie Christine 9 ára hjá sér og vinnukonu Kristínu Pálsdóttur.
Við manntal 1850 er Lars kvæntur tómthúsmaður í Larshúsi með konunni Gunnhildi Oddsdóttur. Börnin frá fyrri konu voru ekki nefnd. Amalía Kristín er horfin, lést 1847. Önnur Amalía Larsdóttir var þá 10 ára tökubarn í Þorlaugargerði hjá Lofti Jónssyni og Guðrúnu Hallsdóttur, en Ingunn var ekki nefnd þá, en 1855 var Ingunn fósturbarn hjá þeim hjónum í Þorlaugargerði.
Við manntal 1860 var fjölskyldan í London (áður Larshúsi). Lars var horfinn á braut, en ekkja hans Gunnhildur Oddsdóttir bjó þar með börnum þeirra, Amalie Elenoru 9 ára, Kristjönu Margréti 6 ára, Maríu Maren Kristensu 4 ára og Jakobi Sandersen Larsson Tranberg 1 árs.
I. Fyrri kona Lars var Guðrún Sigurðardóttir frá Hallgeirsey í A-Landeyjum, f. 14. maí 1814, d. 16. júlí 1842.
Börn Guðrúnar og Lars:
1. Amalía Kristín Larsdóttir, f. 1837, d. 10. febrúar 1847.
2. Ingunn, f. 6. maí 1841 í Sjólyst. Hún bjó í Danmörku, Ingunn Mogensen, - mikil hjálparhella mörgum Íslendingum.
II. Síðari kona Lars skipstjóra var Gunnhildur Oddsdóttir, f. 9. október 1824, á lífi 1882.
Börn Gunnhildar og Lars:
1. Amalie, f. 1851. Hún fór til Danmerkur og á þar afkomendur.
2. Kristjana Margrét, f. 1854.
3. María, f. 1856. Hún fór til Chicago
4. Jakob Sanderson Larsson Tranberg, f. 7. ágúst 1860, d. 21. maí 1945.
Á manntali 1845 var Peter Tranberg 24 ára ókvæntur sjómaður í Godthaab, fæddur í Österlarsker á Borgundarhólmi. Um möguleg tengsl þeirra Lars er ókunnugt, en fæðingarstaður Lars er þá uppgefinn sá sami, - Österlarsker.
Heimildir
- Gunnar Örn Hannesson.
- Holtamannabók I — Holtahreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar.Böðvarsson. Rangárþing ytra, Hellu 2006.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Rangvellingabók. Valgeir Sigurðsson. Rangárvallahreppur, Hellu 1982.
- Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja H.F. 1946.