Ritverk Árna Árnasonar/Uppgangan í Súlnaskerið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. september 2013 kl. 11:55 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. september 2013 kl. 11:55 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> <center>Úr fórum Árna Árnasonar</center> <br> <big><big><center> Uppgangan í Súlnaskerið </center></big></big> Enginn veit nú hverjir hafa lagt fyrst vegi...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Uppgangan í Súlnaskerið


Enginn veit nú hverjir hafa lagt fyrst veginn upp á Súlnasker, en á vörum almennings hafa lifað þær sagnir, að það hafi verið tveir bræður einhvern tíma fyrr á öldum. Sú vegarlagning hefir verið hið mesta og ótrúlegasta þrekvirki.
Verkið sýnir merkin enn þann dag í dag. Áður fyrri var farið upp með svonefndum hnoðaburði. Tóginu var varpað yfir og upp fyrir nef eða hó í berginu, og lágu vaðarendarnir niður til fjallgöngumannanna, sinn hvoru megin við nefið. Síðan lásu þeir sig upp eftir vaðnum á tábragði, þ.e. öðrum taumi hans, en í hinn var haldið á meðan hann las sig upp. Síðasti maðurinn var svo dreginn upp af þeim, sem á undan voru komnir. Þannig var farið stall af stalli, uns komið var upp á brúnina. Uppferðin tók eina klukkustund. Með sama hætti var niðurferð síðasta uppgöngumannsins, að hann fór lærvað niður á öðrum taum vaðsins, en hinir, sem niður voru komnir héldu eða lágu á hinum endanum.
Nú er hnoðaburðurinn þannig, að tógið liggur tvöfalt yfir boltann í brúninni og niður. Fer maðurinn svo lærvað niður og dregur síðan bandið til sín af boltanum. Fyrir löngu síðan var keðjum fyrirkomið í uppgöngunni, og lesa menn sig nú uppeftir henni þar, sem þess þarf. En þrátt fyrir allar keðjur og bolta, þykir vegurinn upp á 80 metra hátt Súlnasker alveg einstæður, stórhrikalegur og langt í frá að vera öllum fær.
Þegar fara átti í Súlnasker, Skerið góða eða Almenningsskerið eins og það hefir verið kallað, varð uppi fótur og fit í þorpinu. Það var kallaður Skerdagur, en það var laugardagurinn í 17. viku sumars. Eftir þá ferð byrjuðu allsherjar fýlaferðir í Eyjum. Trúlega er nafngiftin á Skerinu, þ.e. „Skerið góða“, komið frá því, að þaðan barst mikil björg í bú, bæði fugl og egg, og slys hafa verið þar fæst á mönnum. Þó hrapaði þar maður 1833 þannig, að hann sleppti vaðnum, þegar hann var að fara lærvað niður af því að sunnan.
Það hefir ávallt, a.m.k. fyrrum, hvílt einhver helgiblær yfir Skerinu í huga margra manna. Ef til vill hefir þjóðtrúin skapað þann blæ með sögnum sínum um Skerprestinn, gjafmildina frá verndarvættum þess um björg í bú Eyjamanna eða hin einstæða fegurð þess, musteri fegurðar í sköpunarsögu Eyjanna, eins og einn ferðamaðurinn sagði.
Almenningsskerið var það nefnt vegna þess að allar jarðir Heimaeyjar eiga þar og áttu nytjar í fugli og eggjum. Þar var og er miklu af að taka, því að ógrynni fugls verpir þar uppi og utan í berginu, svo sem súla, fýll, svartfugl og lundi. Mest hefir þó borist þaðan af fýl, árlega um 4-5.000 stk., súlu 5-600 stk. og mikið af lunda, a.m.k. nokkur síðustu árin.
Til fróðleiks mætti lýsa hér uppgöngu á Skerið eins og hún var áður. Hefir hún enn fullt gildi og gefur nokkra hugmynd um langa ferð og stranga, þótt nú sé hún nokkuð breytt með keðjulögnum og boltum. Öll orðatiltæki haldast þó enn óbreytt, sem tilheyra uppgöngunni.
Þar sem komið er að eyjunni er nefnt Steðji. Er þar aðaluppgöngustaðurinn. Það nafn á við um allar úteyjar hér. Þegar komið er upp á steðjann í Súlnaskeri, kemur svonefndur Steðjahringur, sem eru þverhníptar 3 mannhæðir.
Þá kemur maður upp á langan bekk, sem nefndur er Bænabekkur eða Bænabringur. Hann var fyrrum nefndur Illugabæli. Þar gera fjallgöngumennirnir, sem eru sex, bæn sína fyrir fararheill, en að henni lokinni hefst hin eiginlega uppganga.
Fer hún fram undir forystu besta og kunnugasta uppgöngumannsins. Hann nefndist formaður. Annar maður er sá, sem honum lyftir, þriðji, fjórði og fimmti eru þeir, sem eru „milli manna“ sem nefnt er, og sá sjötti er nefndur keppadrellir. Hann fer síðastur, heldur í neðri enda vaðsins, sem allir keppirnir eru festir við, ásamt tveim öðrum vöðum og skóm hinna göngumannanna, sem fara upp á sokkaleistunum.
Frá Bænabring er lagt í svonefndar „göngur“, sem eru um 16 faðma háar, mjög brattar, en með höldum. Þaðan kemur á Súlnabæli. Það er ekki stærra um sig en svo, að aðeins fimm menn geta setið þar, ekki staðið, því að það er framslútandi skúti, og geta þessir fimm ekki setið öðruvísi en að þeir verða að láta fæturna lafa fram af.
Þaðan er þverhnýpt í sjó niður um það bil 20 faðmar. Þegar farið er áfram af Súlnabæli, hefst sá kafli ferðarinnar, sem nefndur er „milli manna“. Þá verða menn fyrst að ganga eftir affláum bekk lítið eitt upp á við, hérumbil tvo faðma. Þar eru lítil höld, rétt fyrir gómana eða fremstu fingurliðina. Bekkurinn hallar alls staðar út af og víðast hvar svo mjög að hann myndar um 45 gráðu horn í stefnu sinni á sjávarflötinn og er svo mjór að hann er tæplega hálf alin. Verður göngumaður því að hengja þar annan fótinn út yfir hengiflugið. Þetta er nefnt að fara „suður af Súlnabæli“. Þessu næst kemur vegarkafli, sem í Eyjum er kallaður góður. Að vísu hanga göngumenn þar framan í hengiflugi, en það er ekkert nýtt, þeir hafa höld fyrir hönd og fót og þá er allt í lagi. Að þessum loknu er komið upp undir Hellu.
Þar safnast allir saman í ofurlitlum kór, sem svo kallast, og er þá keppadrellirinn kominn þar líka. Þá er haldið út á Hellu, sex til átta faðma. Hún er þrep, sums staðar tæpt fet á breidd og liggur utan í standbergi, stundum mjög hál, t.d. eftir rigningar, og örðug yfirferðar. Þarna er hengiflug undir.
Þegar Hellunni sleppir er komið upp að „Neðsta-Jappa“. Þá er hálfnuð leiðin upp. Þarna verður að lyfta hinum fyrsta, þ.e. einn maður styður sig með höndunum inn á bergið, en annar skríður upp eftir baki hans og setur fætur sínar á axlir honum, (sbr. þegar vegurinn var lagður upp í Stóradrang við Þrídranga 1938). Nær hann þá í hald og hefur sig upp á hellu eina eða brík. Lesa hinir sig svo eftir vaðnum, sem sá fyrsti fór með, og „setur hann undir“, sem kallað er, (heldur í vaðinn á meðan þeir lesa sig upp). Þannig er komið að „Mið-Jappa“.
Hann liggur aftur dálítið upp á við eða álíka og „suður af Súlnabæli“. Hér fara aftur þeir tveir fyrstu, og þegar þeir hafa náð „Efsta-Jappa“, setja þeir sig fasta og halda í efri vaðendann, en keppadrellirinn heldur fast í neðri endann. Svo ganga þeir, sem eru milli vaðsins og bergsins, og komast þannig allir upp á Efsta-Jappa. Þaðan er þverhnípi í sjó niður og mjög hátt.
Nú taka við göngur og grasteygingar, ýmist upp eða niður á við, allt þar til kemur að Tómasargili, (Tómagili). Það er rúmlega tvær álnir á breidd. Beggja vegna í gilinu eru höggin spor og góð höld. Geta þeir, sem kloflangir eru, glennt sig yfir það, en hinir verða að setja á sig rið til þess að komast yfir. Þá taka við göngur og grasteygingar aftur, allt þar til komið er upp á brún.
Þannig var þá farið upp á Skerið áður, og hefir það ábyggilega tekið á taugarnar að vera utan í þessu hengiflugi í klukkustund. Nú er þetta, sem sagt, mikið öðruvísi og hægara, en þykir þó sumum hverjum alveg nóg um. Niður af Skerinu var ýmist farið, - eftir veðri, hjá Rifu, á Helli eða hjá Drellunum.
Eins og fyrr getur er aðaluppgangan í Skerið sem næst norðri eða NA og liggur vegurinn til suðausturs.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit