Ritverk Árna Árnasonar/Fiskilínan kemur til sögunnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. ágúst 2013 kl. 19:05 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. ágúst 2013 kl. 19:05 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> <big><center> Fiskilínan kemur til sögunnar</center></big> Útvegur Eyjamanna hefir verið með ýmsu móti, bæði hvað skip og veiðarfæri snertir. Eins o...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Fiskilínan kemur til sögunnar


Útvegur Eyjamanna hefir verið með ýmsu móti, bæði hvað skip og veiðarfæri snertir. Eins og ég hef þegar sagt, tíðkuðust róðrarskip og haldfæri (handfæri) frá ómunatíð.
Fyrst um síðustu aldamót breyttist þetta er vélbátarnir og lóðin komu til sögunnar, er hvorttveggja orsakaði byltingu í fiskiveiðaaðstöðu manna hér og afkomu allri.
Haldfærin voru að jafnaði 60 faðma löng, stundum þó aðeins 40 faðma. Sökkurnar ýmist úr blýi eða járni sem og tíðkast enn í dag. Stundum og fyrr meir voru hafðir steinar fyrir sökku og nefndust vaðsteinar. Það voru sæbarðir fjörusteinar, helst ílangir, höggnir til og lagaðir, sett í þá rauf (fyrir færið), sem færinu var fest í. Slíkir steinar voru notaðir hér framyfir síðustu aldamót af nokkrum gömlum fiskimönnum og munu enn til vera hér sýnishorn af þeim, sem geymd eru, sællar minningar horfinna tíma.
Um 1770 voru gefnar út fyrirskipanir um notkun flyðru- og þorskaneta, en ekki voru þá upptekin hér. Var talið að ómögulegt væri að koma þeim við vegna strauma og hrauna, enda segir svo í sóknarlýsingu Jóns Austmanns frá 1843: „Hér eru hvorki brúkuð net né lóðir og verður heldur ekki viðkomið vegna strauma og hrauna.“ Þessi orð séra Jóns, finnst mér þó benda á, að slíkt hafi verið reynt, en ekki gefist vel og þá sennilegast vegna vanþekkingar á úbúnaði og botnlagi.
Til sönnunar um línunotkun Eyjamanna fyrr á öldum má benda á, að árið 1585 t.d. kæra Vestmannaeyingar Englendinga fyrir upptekt veiðarfæra sinna. Þar getur tæpast verið um önnur veiðarfæri að ræða en línu. Á þeim tímum notuðu Vestfirðingar mikið línu, og gat það hafa borist þaðan hingað til Eyja.
Línunotkun er svo ekki aftur upptekin hér fyrr en seint á 19.öld, svo að nokkru næmi. Barst hún þá hingað frá Austfjörðum, er menn fóru að fara í veiði þaðan og hingað og héðan austur til sumarveiða.
Í „Fjallkonunni“ 1897 skrifar Sigurður Sigurfinnsson fréttapistil héðan, dags 12. ágúst. Það þótti nýlunda hér, að 10. apríl 1897 fóru 3 stórskip með 9 til 16 hundraða lóðar til fiskjar og fengu 4 til 25 í hlut. Eftir það höfðu öll skip lóðir og aflaðist í þær nær helmingur þess, er fékkst til hlutar. Illt var að nota línuna vegna srauma og hrauns, sem (allstaðar) allvíða er kringum Eyjarnar, svo og vegna franskra fiskiskipa er iðulega rökuðu upp lóðirnar. Þekking sumarmanna á Austfjörðum hefir nú loksins komið því til leiðar, að almennur ýmigustur og óbeit á lóðum varð að láta undan. T.d. fór maður einn árið 1884 með línu hér á vetrarvertíð, en varð að hætta við það efir fáa róðra vegna hleypidóma og þekkingarskorts. Meðal þeirra, sem fyrstir urðu til að nota línu við þorskveiði var Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum.
Í fiskilóð var notuð 3 ... strengir og voru 6 til 7 í hverju bjóði, en það var aflangur kassi allstór og afsleppur í annan endann og var nefndur „Bjóð“. Var beitunni á önglunum raðað í hinn afsleppa enda, en teinninn hringaður niður í hinn. Þurfti mikla lipurð og snarleika til að vera góður beitumaður, fljótur að leggja vel niður. Höfðu góðir beitumenn ávallt hátt kaup og voru mjög eftirsóttir. Minnist ég þeirra tilnefnda, sem sérstaklega fljóta, þá Gísla Þórðarson í Dal og Jón Jónasson á Múla, sem beittu bjóðið á tæpum klukkutíma miðað við 7 strengja bjóð eða 420 öngla. Þá höfðu bátar 12-14 bjóð í róður eða um 5880 króka. Nú hafa bátarnir um og yfir 30 stampa (hálfar olíutunnur) í róður og þykir tæpast nóg.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit