Þriðji áratugurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. ágúst 2005 kl. 14:38 eftir Jonas (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. ágúst 2005 kl. 14:38 eftir Jonas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Og enn héldu bátarnir áfram að stækka, og var stærsti báturinn sem Vestmannaeyingar eignuðust á þessum tíma m/b Fylkir sem var 42 brúttó-lestir. Einnig voru keyptir svokallaðir línuveiðarar, kolakynt gufuskip sem aðalega voru notuð til síldveiða, en það heppnaðist ekki vel.

Hafnaraðstaðan batnaði enn, hafnargarðarnir komnir í sína endanlegu mynd, sem skapaði mikið öryggi. Bæjarbryggjan var enn lengd og breikkuð og steypt dekk á hana alla sem skapaði meira svigrúm til löndunnar.

Hafnarsvæðið á þriðja áratug 20. aldar.

En hvorki innsiglingin eða höfnin hafði enn þá verið dýpkuð, og olli það miklum erfiðleikum, mátti stundum sjá báta fasta þar þegar lágsjávað var og urðu þeir þá að forðast það þegar þannig stóð á, en sjómönnunum var alveg sama þeir vildu sína stóru báta og stóðu í þeirri trú að einhvern tímann yrði höfnin stækkuð.

Dragnótaveiðar hefjast

Höfnin á þriðja áratugnum

Aflavon var sáralítil hjá Vestmannaeyjabátunum utan vetrarvertíðar, því að litlar sem engar veiðar voru stundaðar á sumri til, og þá með sáralitlum árangri. Var það þá er Gísli Magnússon var á ferð um Danmörku að hann kynntist mönnum sem gerðu þar út á dragnót, og fékk hann þá Gísla J. Johnsen með sér og gerðu þeir þá sameiginlega út veturinn 1921 m/b Ægi á dragnótaveiðar í Vestmannaeyjum. Þeir fengu með sér danskan vanan mann til þess að vera með bátinn.

Dragnótin skilar árangri

Veiðafærið reyndist mjög vel og skilaði miklum afla sem fyrst var mest þorskur en síðan mest af ýsu og kola. En á þessum tíma voru þessar fisktegundir verðlitlar, og var þá farið að flytja aflann ísvarinn til Bretlands því að hraðfrysting var ekki enn komin til sögunnar.

Dragnótaveiðar urðu undirstaða sumarútgerðar og gáfu góðar tekjur, sumarið 1937 stunduðu 40 bátar þessar veiðar frá Eyjum, en allt þar til að veiðarnar voru bannaðar með lögum, af mikilli skammsýni að því er Vestmannaeyingar töldu, því þær höfðu mikla þýðingu fyrir þá.

Línurennan

Frá því að línuveiðarnar hófust var lagning línunnar talið vandaverk og hættulegt vegna önglanna sem varð að gæta að festust ekki í höndum þeirra, er þeim var kastað fyrir borð. Og voru það þeir handlögnustu og fljótvirkustu valdnir í þetta starf og fengu alltaf aukalega borgað.

Fyrsta tilraun gerð 1926

En árið 1926 var gerð fyrsta tilraun með hina svokölluðu línurennu, en hún heppnaðist ekki sem skildi og ekki heldur sú sem var gerð 1927. Stafaði það að mestu leyti af því að þá var enn mikið beitt af hrognum og annarri ljósbeitu og vildi sú beita síga niður í línuhálsinn og línan fara ógreidd í sjóinn. Var hún svo enn endurbætt 1928, og var nú eingöngu beitt síld sem hentaði mun betur, og var nú hægt að leggja línuna þótt að bátarnir keyrðu næstum á fullri ferð. Nú gat hver bátur lagt lengri línu, meiri aflavon.

Hlutaskipti tekin upp

Í tíð áraskipanna var það almenn regla að áhafnir tækju kaup sitt sem hluta úr afla. En með tilkomu vélbátanna breyttist þetta, var þá hverjum greitt fyrirfram ákveðið kaup fyrir vetrarvertíðina sem stóð frá byrjun janúar til 11. maí, og tók þá útgerðin líka á sig allan kostnað af úthaldinu og sá mönnum fyrir húsnæði og þjónustu á meðan vertíð stóð.

Árið 1927 varð breyting á þessu og hlutaskiptin komu aftur til sögunnar.

Raflýsing vélbátaflotans

Bátar voru fyrst raflýstir árið 1927

Áður en línuveiðarnar hófust á gömlu áraskipunum vertíðina 1897 munu engin ljósker hafa verið um borð í þeim og dagsbirtan látin ráða hve lengi væri verið á sjó, en með tilkomu línunnar var farið mun fyrr á stað og verið lengur úti þannig að oft var myrkur og var þá nauðsynlegt að hafa einhver ljós, og aðeins hin gömlu ljósker notuð en það var náttúrulega alls ekki næg birta.

Það var fyrst haustið 1927 af Haraldur Eiríksson rafvirkjameistari í Eyjum hefst handa um raflýsingu bátanna og mun m/b Emma hafa verið fyrsti báturinn sem róðra hóf vertíðina 1928 að fullu raflýstur.

Fyrsta loftskeytatækið

Árið 1927 lét Gísli J. Johnsen smíða þrjá báta um 30 tonn að stærð fyrir vertíðina 1928. Þeir voru allir mjög vel útbúnir ekki aðeins vel raflýstir heldur var einn þeirra m/b Heimaey útbúin loftskeytatækjum og gat hann því haft samband við önnur skip sem slíkt höfðu, eða stöðvar í landi. Nú í dag er það talið sjálfsagt að hvert skip, sem stundar fiskveiðar hafi slík tæki um borð til að geta látið vita ef aðstoðar er þörf og hefur það vafalaust bjargað lífi margra sjómanna.

Síldveiðar Eyjabáta fyrir Norðurlandi

Eftir að bátaflotinn stækkaði meira var farið að hugsa um einhverja notkun á honum að vetrarvertíð lokinni, komu þá m.a til greina veiðar á Norðurlandi. Fyrstir riðu á vaðið sumarið 1919 bátarir m/b Goðafoss og m/b Óskar undir stjórn þeirra Gísla Magnússonar og Árna Þórarinssonar. Báðir þessir bátar stunduðu veiðar með reknet, en aflahlutur og afkoma útgerðarinnar varð lélegri en menn höfðu vonað, og lögðust þessar veiðar þá af í árabil. En seinna t.d um sumarið 1929 fór meira líf að færast í veiðarnar og voru Vestmannaeyingar orðnir virkir þátttakendur í þessum veiðum og hafa þeir ávalt stundað síldveiðar síðan hvar sem er við landið og á fjarlægari miðum á þeim tíma sem um hefur verið að ræða og veiðar hafa verið leyfðar.

Í fyrstu virtist að Eyjamenn næðu ekki sömu tökum á síldveiðunum og þorskveiðunum, að sjómennirnir væru ekki eins áhugasamir fyrir þeim, oft var sagt að þeir væru bara í sumarfríi, en það var nú samt ekki því að Eyjaformenn hafa mörg undanfarin ár stundað þessar veiðar með jafngóðum árangri og aðrir, jafnvel verið í fremstu röð.

Tæplega hundrað vélbátar frá Vestmannaeyjum

Í lok áratugarins voru gerðir út alla 97 vélbátar frá Vestmannaeyjum, og er það mestur fjöldi báta sem nokkurn tíma hefur átt þar heimahöfn, voru þeir samtals 1.905 brúttólestir að stærð og meðalstærð þeirra 19,6 lestir. Samanlagður afli bátaflotans, sem kom í land á þessum áratug, var alls 214.926 tonn, og var hann að mestu verkaður á hefðbundinn hátt, saltaður og sólþurrkaður til útflutnings.