Fimmti áratugurinn
Strax á vertíðinni 1940 fór að gæta afleiðinga síðari heimstyrjaldarinnar. Hætt var hinni hefðbundnu verkunaraðferð, þ.e að þurrka eða salta nær allan aflann til útflutnings, því að það þýddi að útgerðarmenn fengu ekki greitt fyrr en mörgum mánuðum seinna.
Ísaður til Bretlands
Þess í stað var nú mestur hluti aflans fluttur út ísvarinn til Bretlands. Þeir sem önnuðust útflutninginn keyptu fiskinn á bryggju og borguðu þá nokkurn veginn jafnóðum. Þetta létti mjög undir hjá útgerðarmönnum því að fiskverðið fór sífellt hækkandi, og afkoma útgerðarinnar varð mun betri. Þessi útflutningur til Bretlands hélst öll styrjaldarárin.
Mikil bátasmíði
Eftir að styrjöldinni lauk jukust bátasmíðar mjög í Vestmannaeyjum. Voru margir gömlu bátanna úr sér gengnir og teknir af skipaskrá. Fækkaði því Eyjabátunum örlítið á þessum árum, en í stað smærri bátanna, sem voru gengnir úr sér, komu stórir og nýir í staðinn sem smíðaðir voru í Eyjum og stækkaði skipastóll Vestmannaeyinga úr 1806 tonnum árið 1940 í 4320 tonn árið 1950, meira en tvöföld stækkun.
Má segja að það sem hafi gert útgerð nýsköpunartogaranna og hinna stærri skipa mögulega frá Eyjum var stórbætt aðstaða í höfninni þar sem þessi skip komust nú að Básaskersbryggjunni og viðleguplássinu inni í Friðarhöfn og gátu athafnað sig þar.
Fleiri tilraunir til togaraútgerðar
Árið 1919 keyptu Vestmannaeyingar sinn fyrsta togara en sú útgerð heppnaðist ekki sem skyldi. Og togaraútgerð var ekki reynd aftur frá Vestmanneyjum fyrr en árið 1945 er Sæfell hf. keypti togarann Surprise frá Hafnarfirði. Var honum gefið nafnið Helgafell VE 32. Skipið var gert út frá Eyjum enda höfnin orðin mun betri.Útgerðin gekk vel í fyrstu en versnaði svo eftir að verðfall varð á ísuðum fiski í Bretlandi, var þá skipið selt. Og Vestmannaeyingar gerðu svo fleiri tilraunir til togaraútgerðar sem heppnuðust ekki heldur, má þar kannski helst nefna reynsluleysi Eyjamanna varðandi slíka útgerð.
Heildarafli togaranna var þó 336.600 tonn og var hann annaðhvort seldur til Bretlands eða hraðfrystur, en hraðfrysting í Eyjum hófst á þessum áratug.