Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Draumur Magnúsar T. Jónssonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. nóvember 2011 kl. 17:44 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. nóvember 2011 kl. 17:44 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <big><big><center>Draumur Magnúsar T. Jónssonar.</center></big></big> <small><center>(Eftir hans eigin sögn).</center></small> <br> Áður en ég flutti vestur um haf átti ég h...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Draumur Magnúsar T. Jónssonar.
(Eftir hans eigin sögn).


Áður en ég flutti vestur um haf átti ég heima í Vestmannaeyjum, og það var árið 1900 að mig dreymdi þennan draum: Mér þótti að það vera sunnudagur og ég leggja af stað til kirkju. Það voru þrumur og eldingar í lofti, svo miklar, að ég mundi ekki eftir að hafa séð annað eins, og áður en ég hafði farið langt á veg, sá ég hvar elding sló niður á veginn fyrir framan mig, og hverju leiftri fylgdi þruma. Varð ég nú hræddur og hljóp heim á leið, en þegar ég var kominn á vegamótin, þ.e. hrepps og kirkju, þótti mér einu leiftrinu slá á veginn rétt fyrir framan mig. Þyrlaðist þá upp ryk mikið, er leiftrið snerti jörðina. Hélt ég nú áfram í skyndi og heim til mín, og inn í baðstofu, en þá er ég var þangað kominn, kom ein þruman enn, með eldingu, í gegnum þakið og ofan í rúmloft, er þar stóð, og þyrlaðist það, sem laust var út um allt í baðstofunni. Hér áleit ég mér ekki fært að vera og hljóp út. En þegar þangað kom, tók ekki betra við, því nú sá ég að veggurinn undan suðurhlið hússins var hrapaður. Fór ég nú í snatri og fékk tvo smiði til þess að gjöra við húsið áður en það félli niður. Menn þeir, sem ég fékk til þess að gjöra við húsið, voru þeir Jón Vigfússon bóndi í Túni og Sveinn Sveinsson. Fóru þeir nú að gjöra við húshliðina, en ég vaknaði.
En nú er að segja frá því, hvernig draumurinn rættist: Þá er tvær vikur höfðu liðið frá því að mig dreymdi drauminn, höfðu sjö manns dáið í nágrenninu, og stúlka á vegamótunum, þar sem mér þótti rykið þyrlast upp, sú áttunda. Líka dó maður í sængurfletinu, þar sem að ég sá eldingunni slá í gegnum rjáfrið á baðstofunni. Þannig dóu 9 manns, alveg jafn margir og ég sá leiftrin koma niður. Og þeir Jón Vigfússon og Sveinn Sveinsson voru fengnir til þess að smíða líkkistuna utan um manninn, sem dó í baðstofunni, þar sem ég átti heima, og ég sá eldinguna koma gegnum þakið. Það er því ekki hægt annað að segja en draumurinn rættist býsna vel.
(S.J. Austmann: Sögur af ýmsu tagi, Winnipeg 1915, bls. 65—66).